Þjónað sem samverkamenn Jehóva
„Hann hefur sagt þér, maður, hvað gott sé! Og hvað heimtar [Jehóva] annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“ — MÍKA 6:8.
1. Á hvaða biblíulegum grunni geta allir þjónar Jehóva kallast „samverkamenn“ hans?
KRISTNI postulinn Jóhannes skrifaði: „Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefir auðsýnt oss, að vér skulum kallast Guðs börn. Og það erum vér.“ (1. Jóhannesarbréf 3:1) Og Páll postuli sagði um sjálfan sig og Apollós, félaga sinn: „Samverkamenn Guðs erum vér.“ (1. Korintubréf 3:9) Báðir þeir, sem létu þessi orð falla, voru smurðir fylgjendur Jesú Krists og þeir sögðu þau um sjálfa sig. Í grundvallaratriðum eiga þau þó við alla sanna þjóna Guðs. Því mætti umorða þau þannig: ‚Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefir auðsýnt okkur, að við skulum kallast samverkamenn Jehóva.‘
2. Með hvaða hætti geta þjónar Jehóva verið samverkamenn hans?
2 Hvernig er mögulegt fyrir veikburða, ófullkomna menn að vera samverkamenn hins mikla skapara sem er óendanlegur í mætti og visku, fullkominn í réttvísi og persónugervingur kærleikans? Það er mögulegt vegna þess að okkar fyrstu foreldrar voru gerðir í mynd og líkingu skaparans og vegna samþjóns hans, Orðsins eða Logos. (1. Mósebók 1:26, 27; Jóhannes 1:1) Fyrstu foreldrum okkar var gefin viska, réttvísi, máttur og kærleikur í vissum mæli. Þess vegna gat Jehóva sagt við jarðneska þjóna sína fyrir munn spámanns síns: „Hann hefir sagt þér, maður, hvað gott sé! Og hvað heimtar [Jehóva] annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“ — Míka 6:8.
3. Hvað er gefið í skyn í Míka 6:8 og hvers er krafist af manni áður en hann getur orðið samverkamaður Jehóva?
3 Þegar við lesum orðin „hvað heimtar [Jehóva] annað af þér . . . ?“ virðast þau gefa í skyn að það sem á eftir fer sé harla góð samantekt á ábyrgð ‚mannsins‘ gagnvart Guði og öðrum mönnum. Sú umræða, sem hér fylgir, leiðir í ljós í hvaða mæli sú er raunin. Að sjálfsögðu getur ekki hver sem er gengið með Jehóva. Þau sérréttindi tilheyra þeim einum sem hafa ‚mælt sér mót‘ við Jehóva ef svo má að orði komast. (Amos 3:3) Með hvaða hætti? Með því að vígjast Jehóva skilyrðislaust og gefa tákn um vígsluna með vatnsskírn, eins og fram kom í greininni á undan. Hvað merkir þá Míka 6:8 fyrir slíka einstaklinga?
„Að gjöra rétt“
4. Hvað merkir það í grundvallaratriðum að „gjöra rétt“?
4 Í fyrsta lagi er nefnd sú krafa „að gjöra rétt.“ Sem samverkamenn Jehóva Guðs verðum við að varðveita góða samvisku. „Að gjöra rétt“ merkir í grundvallaratriðum að gera það sem Guð krefst af okkur. Það merkir að rækja skyldur okkar, og sú fremsta er að sýna Jehóva algera hollustu. (Nahúm 1:2) Hann umber enga keppinauta. Við getum einfaldlega ekki þjónað tveim herrum. — 1. Korintubréf 10:22; Matteus 6:24.
5. Hvernig sýndi Jesús Kristur að hann elskaði réttlæti og hataði ranglæti?
5 „Að gjöra rétt“ felur einnig í sér að ‚elska réttlæti og hata ranglæti‘ eins og Jesús Kristur gerði. Vegna kærleika síns til réttlætisins hélt hann sér ‚heilögum, svikalausum, óflekkuðum, greindum frá syndurum.‘ (Sálmur 45:8; Hebreabréfið 7:26) Og með því að Jesús hataði ranglætið fordæmdi hann með réttlátri reiði hina trúhræsnu og ágjörnu trúarleiðtoga samtíðar sinnar. — Matteus 23:13-36; Jóhannes 8:44.
6. Hvers vegna er ekki nóg að samþykkja í huga sér að við ættum að forðast það sem er bannað, vegna þess að það er illt?
6 Eins og sjá má af fordæmi Jesú er ekki nóg að elska réttlætið. Við verðum líka að hata — já, hafa viðbjóð, fyrirlitningu, ógeð og megna andúð á því sem er rangt. Þar eð tilhneigingar okkar eru illar allt frá barnæsku og hjörtun svikul þurfum við meira en aðeins huglægt samþykki fyrir því að það sem er slæmt sé bannað. (1. Mósebók 8:21; Jeremía 17:9) Nema því aðeins að við veitum syndugum tilhneigingum og freistingum sterka mótspyrnu munum við falla fyrir táli þeirra. Við verðum að hafa sömu óbeitina á því sem er illt og Pínehas lét í ljós þegar hann lagði í gegn með spjóti karl og konu sem sameinuð voru í siðlausri dýrkun á Baal Peór. — 4. Mósebók 25:5-8.
7. Hvaða vitnisburð höfum við um að Jehóva noti engan óguðlegan fyrir samverkamann?
7 Jehóva vill ekki nota og mun ekki nota sem samverkamann nokkurn þann sem er óguðlegur. Það er auðsætt af Sálmi 50:16-18 þar sem við lesum: „En við hinn óguðlega segir Guð: ‚Hvernig dirfist þú að telja upp boðorð mín og taka sáttmála minn þér í munn, þar sem þú þó hatar aga og varpar orðum mínum að baki þér? Sjáir þú þjóf, leggur þú lag þitt við hann, og við hórkarla hefir þú samfélag.‘“
8. Hvaða atvik undirstrikar þá háðung sem við getum valdið með rangri breytni?
8 Vera má að við séum önnum kafin í þjónustu Jehóva og prédikun fagnaðarerindisins um ríki Guðs. En ef við gætum þess ekki vandlega að iðka sjálfstjórn getum við syndgað vegna veikleika holdsins og leitt háðung yfir nafn Jehóva. Fyrir fáeinum árum framdi öldungur hjúskaparbrot með trúsystur sinni er átti eiginmann utan trúarinnar. Kvöldið sem lesin var upp tilkynning um brottvikningu þessa fyrrverandi öldungs úr söfnuðinum skálmaði bálreiður eiginmaðurinn inn í Ríkissalinn með byssu í hendi og skaut að sökudólgunum tveim. Hvorugt þeirra beið bana en næsta dag var sagt frá atburðinum í forsíðufrétt stærsta dagblaðs í Bandaríkjunum! Sannarlega leiðir röng breytni háðung yfir nafn Guðs. — Orðskviðirnir 6:32.
9. Hvað þurfum við samkvæmt Orðskviðunum 4:23 að varðveita og hvers vegna?
9 Það er því vel við hæfi að okkur skuli gefin þessi ráð: „Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.“ (Orðskviðirnir 4:23) Já, við verðum að aga okkur til að stjórna því hvað við látum hið táknræna hjarta hugsa um. Í síauknum mæli flagga sjónvarp, tímarit og aðrir fjölmiðlar því sem óhreint er, þar á meðal klámi. Við þurfum því að vera mjög vandlát á hvað við horfum og hlustum á og lesum. Það er afar þýðingarmikið að hafa stöðuga gát á hugsunum okkar! Til dæmis væri auðvelt að una sér við kynferðislega hugaróra sem ekki myndi hvarfla að okkur að snúa upp í veruleika. (Matteus 5:28) En oft leiðir slík hugsun til rangra verka. Í stað þess að láta hugann dvelja við slík mál skulum við sýna þann ávöxt andans sem sjálfstjórn er og láta hugann dvelja við það sem er talið er upp í Filippíbréfinu 4:8. — Galatabréfið 5:22, 23.
„Ástunda kærleika“
10, 11. (a) Hvaða greinarmun er hægt að gera á trúfesti og hollustu? (b) Hvernig sýndi sonur Guðs trúfesti og hollustu?
10 Önnur krafan, sem nefnd er í Míka 6:8, er sú að „ástunda kærleika.“ Aðrar biblíuþýðingar tala um að „elska góðvild“ (NW) og að „elska hollustu“ (The New English Bible). Í New World Translation Reference Bible kemur fram í neðanmálsathugasemd að hebreska orðið sheseð, þýtt „góðvild,“ getur einnig merkt „ástrík góðvild“ eða „drottinhollur kærleikur.“ Að sögn orðabókahöfunda „gefur drottinhollur í skyn einarðlega andspyrnu gegn sérhverri freistingu í þá átt að yfirgefa eða svíkja.“ „Drottinhollur lýsir, fram yfir trúfastur, þeirri hugmynd að vilja standa með og berjast fyrir persónu eða hlut, jafnvel gegn ofurefli.“ Athygli vekur að lítilsháttar munur er á því hvernig þessi tvö orð eru notuð í Ritningunni. Orðið „drottinhollur“ er aldrei notað um lífvana hluti eins og orðið „trúfastur“ eða „áreiðanlegur.“ Þannig er til dæmis tunglið kallað ‚áreiðanlegt vitni á himnum.‘ (Sálmur 89:38) Orð Guðs eru einnig sögð vera trú, það er að segja áreiðanleg. (Opinberunarbókin 21:5; 22:6) Drottinhollusta er hins vegar nefnd aðeins í sambandi við Jehóva Guð og viðurkennda þjóna hans. Því lesum við um Jehóva: „Gagnvart drottinhollum ert þú drottinhollur.“ — 2. Samúelsbók 22:26, NW.
11 Sonur Guðs var trúfastur og drottinhollur Jehóva á himnum. Sem maðurinn Jesús Kristur á jörðinni var hlýðni hans prófreynd með ýmsum hætti og hann var bæði trúr og drottinhollur sem maður. Það kemur fram í Hebreabréfinu 5:7-9 þar sem við lesum: „Á jarðvistardögum sínum bar hann fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörp fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar. Og þótt hann sonur væri, lærði hann hlýðni af því, sem hann leið. Þegar hann var orðinn fullkominn, gjörðist hann öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis.“
Hollustuprófraunir
12. Hvað getur stundum reynt á hollustu okkar og hvernig hafa sumir brugðist við slíkum prófraunum?
12 Hollusta við Jehóva Guð kallar á að við sýnum einnig þjónum hans á jörðinni, kristnum bræðrum okkar, hollustu. Jóhannes postuli sýnir fram á það þegar hann áminnir okkur: „Sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.“ (1. Jóhannesarbréf 4:20) Ófullkomleiki annarra getur orðið til þess að það reyni á hollustu okkar á þessu sviði. Til dæmis hafa sumir sýnt veikleika í hollustu sinni við skipulag Jehóva með því að koma ekki á kristnar samkomur ef þeim finnst einhver hafa móðgað sig. Hollusta okkar við bræðurna verður einnig fyrir prófraun þegar þeim sem Jehóva notar til að taka forystuna verða á mistök. Af og til hafa menn notað sér slík mistök sem afsökun fyrir því að móðgast og segja skilið við sýnilegt skipulag Jehóva. En er hátterni þeirra réttlætanlegt? Engan veginn!
13. Hvers vegna er ekki réttlætanlegt að segja skilið við skipulag Jehóva, og hvaða kosta eiga þeir völ sem sýna slíka óhollustu?
13 Hvers vegna eru þeir ekki réttlættir í því að yfirgefa skipulag Guðs? Vegna þess að orð hans fullvissar okkur: „Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál [Jehóva], og þeim er við engri hrösun hætt.“ (Sálmur 119:165) Enn fremur er okkur boðið að hafa „brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.“ (1. Pétursbréf 4:8; Orðskviðirnir 10:12) Og setjum sem svo að einhver aðgreini sig frá þjónum Jehóva? Hvert getur hann farið? Stendur hann ekki frammi fyrir því sama og postular Jesú þegar hann spurði þá hvort þeir vildu yfirgefa hann? Pétur postuli svaraði réttilega: „Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.“ (Jóhannes 6:68) Við eigum ekki í annað hús að venda en til ‚Babýlonar hinnar miklu,‘ heimsveldis falskra trúarbragða eða beint í klær hins pólitíska villidýrs Satans. (Opinberunarbókin 13:1; 18:1-5) Að stærstum hluta til hafa ótrúir einstaklingar, sem hafa yfirgefið sýnilegt skipulag Jehóva, gengið til liðs við þá sem eru í hinni svívirðilegu ‚Babýlon hinni miklu.‘
‚Gakktu fram í lítillæti fyrir Guði þínum‘
14, 15. (a) Hvaða merkingu felur orðið „lítillæti“ í sér? (b) Hvaða merkingu orðsins „lítillæti“ höfum við aðallega áhuga á og hvers vegna? (c) Hvers vegna ættu kristnir menn að leggja hóflegt mat á hæfni sína og manngildi?
14 Orðið „lítillæti“ getur haft eilítið mismunandi merkingu. Það getur merkt „óvandfýsni,“ það ‚að taka þakksamlega við litlu, vera lítilþægur.‘ Einnig getur það merkt „látleysi“ (einfaldleiki, hispursleysi, hófsemd, prjálleysi). (1. Tímóteusarbréf 2:9) Og þá er að nefna þá merkingu sem við höfum sérstakan áhuga á, það er að segja að vera kunnugt um takmörk sín, vera hrokalaus, auðmjúkur, yfirlætislaus, að leggja hóflegt mat á hæfni sína og manngildi. Við gætum aldrei verið samverkamenn Jehóva ef við hefðum of mikið álit á sjálfum okkur, beindum athyglinni að okkur í stað Jehóva Guðs.
15 Ljóst er að sú merking, sem okkur er ætlað að leggja í hebreska orðið, sem þýtt er „lítillæti“ í Míka 6:8, er að leggja hóflegt mat á hæfni okkar og manngildi. Það má sjá af því hvernig orðið er notað í Orðskviðinum 11:2, en það er eini staðurinn í Hebresku ritningunum, utan Míka 6:8, þar sem orðið kemur fyrir. Þar er því stillt upp sem andstæðu hroka, en hann stafar af því að menn gera sér of háar hugmyndir um sjálfa sig. Þar lesum við: „Komi hroki, kemur smán, en hjá lítillátum er viska.“ Lítillæti helst í hendur við ótta Jehóva sem er einnig tengdur viskunni. (Sálmur 111:10) Lítillátur maður óttast Jehóva vegna þess að hann gerir sér ljóst hve mikill munur er á honum og Guði, milli réttlætis Jehóva og máttar og hans eigin ófullkomleika og veikleika. Þess vegna vinnur lítillátur maður að hjálpræði sínu með ugg og ótta. — Filippíbréfið 2:12.
16. Nefndu nokkra ritningarstaði sem sýna hvers vegna kristnir menn ættu að vera lítillátir.
16 Fjölmargar ástæður eru fyrir því að samverkamenn Jehóva skuli vera lítillátir. Óháð því hve mikilli visku við búum yfir, hvílíkum líkamsburðum við erum gædd eða hve mikinn efnislegan auð við eigum höfum við enga ástæðu til að vera stærilát. (Jeremía 9:23) Hvers vegna? Vegna meginreglunnar sem fram kemur í 1. Korintubréfi 4:7: „Hver gefur þér yfirburði? Og hvað hefur þú, sem þú hefur ekki þegið? En hafir þú nú þegið það, hví stærir þú þig þá eins og þú hefðir ekki fengið það að gjöf?“ Við höfum ekki heldur neina ástæðu til að gorta af ávöxtum þjónustu okkar því að í 1. Korintubréfi 3:6, 7 segir Páll: „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn. Þannig er þá hvorki sá neitt, sem gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur.“ Orð Jesú í Lúkasi 17:10 ættu líka að hjálpa okkur að vera lítillát, en þar sagði hann: „Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gjört allt það, sem yður var boðið: ‚Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra.‘“
17. Hvers vegna er lítillæti hyggileg lífsstefna?
17 Lítillæti er tvímælalaust viturlegt. Lítillæti fær okkur til að gera okkur ánægð með hver þau þjónustusérréttindi sem við höfum fengið. Ef við erum lítillát reynum við ekki að láta á okkur bera, heldur gerum okkur ánægð með að hegða okkur eins og sá sem minnstur er. (Lúkas 9:48) Þá höfum við líka sama viðhorf og sálmaritarinn sem sagði: „Einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir, heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dvelja í tjöldum óguðlegra.“ (Sálmur 84:11) Ef við erum lítillát höfum við auk þess þann kærleika sem fær okkur til að vera fyrri til að veita öðrum virðingu. — Rómverjabréfið 12:10.
Lítillæti er æskufólki sæmandi
18. (a) Hvers vegna er sérstaklega við hæfi að ungt fólk sýni lítillæti? (b) Hvaða fregnir af unglingum gefa til kynna þörfina á lítillæti?
18 Það er sérstaklega vel við hæfi að kristið æskufólk íklæðist lítillætinu. Elíhú er því afbragðs fordæmi! Enda þótt hann vissi réttu svörin sýndi hann þá virðingu að bíða þar til hinir eldri höfðu lokið máli sínu. (Jobsbók 32:6, 7) Ungu fólki hættir oft til að vera öruggt með sig, að gera sér litla grein fyrir takmörkum sínum. Það hefur nægan líkamsþrótt og lífsorku og hefur aflað sér einhverrar þekkingar og hefur þar af leiðandi stundum tilhneigingu til að líta niður á þá sem eldri eru. En þekking er ekki hið sama og viska sem er rétt notkun þekkingar. Hin sorglegu afglöp unglinga í Bandaríkjunum eru dæmigerð fyrir heiminn í heild. Þar í landi er ungt fólk undir 24 ára aldri handtekið fyrir 63 alvarlega glæpi af hverjum 100, og 30 af hundraði þeirra, sem handteknir eru, eru undir 18 ára aldri. Samkvæmt fréttum er „akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna helsta dauðaorsök Bandaríkjamanna á aldrinum 15 til 24 ára.“ Þar í landi „enda sífellt fleiri táningahjónabönd með skilnaði“ en aftur á móti er sagt að „meiri líkur séu á að hjónabandið endist ef brúðhjónin eiga sér að baki nokkur fleiri ár reynslu og visku þegar þau ganga upp að altarinu.“
19. Hvaða ráð Ritningarinnar ættu unglingar að taka til sín?
19 Heilræði orðs Guðs eru því viturleg. Þau bjóða börnum og unglingum að heiðra föður sinn og móður og vera þeim hlýðin í öllu. (Efesusbréfið 6:1-3; Kólossubréfið 3:20) Einkum ættu börn og unglingar að taka til sín hin viturlegu ráð: „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ — Orðskviðirnir 3:5, 6.
20. Hvaða umbun mega allir vígðir og skírðir þjónar Guðs reikna með ef þeir fara eftir Míka 6:8?
20 Hvaða umbunar getum við öll vænst ef við ‚gjörum rétt, ástundum kærleika og framgöngum í lítillæti fyrir Guði okkar,‘ eftir að við höfum sýnt traust okkar á Jehóva með vígslu og skírn? Hið mikilvægasta er að við munum njóta velþóknunar Jehóva vegna þess að við höldum boð hans og gleðjum hjarta hans með því að eiga þátt í að helga hið mikla og ógurlega nafn hans. (Orðskviðirnir 27:11) Enn fremur mun verða að veruleika í lífi okkar sú meginregla að ‚guðhræðslan sé til allra hluta nytsamleg og hafi fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.‘ — 1. Tímóteusarbréf 4:8.
Hverju svarar þú?
◻ Hvers er krafist til að „gjöra rétt“ í samræmi við Míka 6:8?
◻ Hvernig snertir hollusta við Jehóva samband okkar við kristna bræður okkar?
◻ Hvers vegna ættum við að ‚framganga í lítillæti fyrir Guði‘?
◻ Hvers vegna er lítillæti sérstaklega sæmandi kristnu æskufólki?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Verndar þú hjarta þitt með því að vera vandlátur á hvað þú lest, hlustar á og horfir á?
[Mynd á blaðsíðu 16]
Pétur vissi að hann gat ekkert annað farið því að Jesús hafði „orð eilífs lífs.“ Ert þú jafnstaðráðinn í að vera drottinhollur skipulagi Jehóva?