Hvetjum til kærleika og góðra verka — hvernig?
„Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. . . . uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ — HEBREABRÉFIÐ 10:24, 25.
1, 2. (a) Af hverju var þýðingarmikið að frumkristnir menn hlytu hughreystingu og uppörvun þegar þeir komu saman? (b) Hvaða ráðlegging Páls sneri að nauðsyn þess að koma saman?
ÞEIR hittust á laun fyrir luktum dyrum. Úti fyrir voru hættur á hverju strái. Það var nýbúið að taka leiðtoga þeirra, Jesú, opinberlega af lífi og hann hafði varað fylgjendur sína við að ekki yrði betur farið með þá en hann. (Jóhannes 15:20; 20:19) En þeim hlýtur að minnsta kosti að hafa fundist þeir öruggari er þeir voru saman og töluðu í hálfum hljóðum um sinn ástfólgna Jesú.
2 Árin liðu og kristnir menn máttu þola alls konar prófraunir og ofsóknir. Líkt og þessir fyrstu lærisveinar sóttu þeir hughreystingu og hvatningu í samkomur sínar. Páll postuli skrifaði því í Hebreabréfinu 10:24, 25: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“
3. Af hverju finnst þér Hebreabréfið 10:24, 25 vera meira en aðeins fyrirmæli til kristinna manna um að koma saman?
3 Þessi orð eru miklu meira en bara fyrirmæli um að halda áfram að koma saman. Þau eru innblásinn staðall Guðs um allar kristnar samkomur — og reyndar öll þau tækifæri er kristnir menn koma saman. Núna, þegar við sjáum dag Jehóva greinilega nálgast, er álag þessa illa heimskerfis og hætturnar í því slíkar að það er meira áríðandi en nokkru sinni fyrr að samkomur okkar séu eins og öruggt skjól þar sem allir geta leitað styrks og uppörvunar. Hvað getum við gert til að tryggja það? Við skulum athuga orð Páls gaumgæfilega og leita svara við þrem aðalspurningum: Hvað það merkir að ‚gefa gætur hver að öðrum,‘ hvað það þýðir að ‚hvetja hver annan til kærleika og góðra verka,‘ og að lokum, hvernig við getum ‚uppörvað hver annan‘ á þessum erfiðu tímum.
„Gefum gætur hver að öðrum“
4. Hvað merkir það að ‚gefa gætur hvert að öðru‘?
4 Þegar Páll hvatti kristna menn til að ‚gefa gætur hver að öðrum‘ notaði hann grísku sögnina katanoeʹo sem er áherslumynd sagnarinnar „að skynja.‘ Orðabókin Theological Dictionary of the New Testament segir að katanoeʹo merki „að beina öllum huga sínum að einhverju.“ Samkvæmt W. E. Vine getur sögnin einnig merkt „að skilja fyllilega, athuga vandlega.“ Þegar kristnir menn ‚gefa gætur hver að öðrum‘ sjá þeir ekki bara það sem við blasir á yfirborðinu heldur beita þeir sér af alefli til að reyna að sjá dýpra. — Samanber Hebreabréfið 3:1.
5. Nefndu sumt af því sem gæti leynst undir yfirborðinu í fari manna. Hvers vegna ættum við að gefa því gaum?
5 Við þurfum að muna að það er miklu meira í manninn spunnið en við sjáum með því að líta yfirborðslega á útlitið, verkin eða persónuleikann. (1. Samúelsbók 16:7) Oft geta djúpar tilfinningar eða hressandi skopskyn leynst undir hæglátu yfirbragði. Og uppruni manna er harla breytilegur. Sumir hafa lent í skelfilegum raunum; aðrir eru að ganga gegnum eldraunir sem við eigum erfitt með að gera okkur í hugarlund. Hversu oft gerist það ekki að duttlungar einhvers bróður eða systur hætta að fara í taugarnar á okkur þegar við kynnumst uppruna þeirra eða aðstæðum betur. — Orðskviðirnir 19:11.
6. Nefndu nokkrar leiðir til að kynnast hvert öðru betur og gagnið sem gæti hlotist af.
6 Þar með er auðvitað ekki sagt að við ættum að hnýsast óboðin í einkamál annarra. (1. Þessaloníkubréf 4:11, NW) Samt sem áður getum við vissulega sýnt hvert öðru persónulegan áhuga. Það er meira en bara að heilsast í ríkissalnum. Hví ekki að velja úr einhvern, sem þig langar til að kynnast betur, og stefna að því að spjalla við hann í nokkrar mínútur fyrir eða eftir samkomu? Eða, það sem betra er, ‚stundaðu gestrisni‘ með því að bjóða einum eða tveim trúbræðrum heim til að njóta léttra veitinga. (Rómverjabréfið 12:13) Sýndu áhuga. Hlustaðu. Með því aðeins að spyrja hvernig trúbróðir hafi kynnst Jehóva og lært að elska hann má læra mikið. En þú getur lært enn meira um hann með því að starfa með honum hús úr húsi. Með því að gefa þannig gætur hver að öðrum byggjum við upp ósvikna samkennd og setjum okkur í spor annarra. — Filippíbréfið 2:4; 1. Pétursbréf 3:8.
„Hvetjum hver annan“
7. (a) Hvaða áhrif hafði kennsla Jesú á fólk? (b) Hvað gerði kennslu hans svona kröftuga?
7 Þegar við gefum gætur hver að öðrum erum við í betri aðstöðu til að hvetja hver annan til dáða. Kristnir öldungar gegna sérstaklega mikilvægu hlutverki í því. Matteus 7:28 greinir frá viðbrögðum fólks er Jesús talaði eitt sinn opinberlega: „Undraðist mannfjöldinn mjög kenningu hans.“ Öðru sinni komu jafnvel hermenn, sem sendir voru til að handtaka hann, tómhentir til baka og sögðu: „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.“ (Jóhannes 7:46) Hvað gerði kennslu Jesú svona kraftmikla? Tilfinningasemi? Nei, Jesús talaði með reisn. En hann leitaðist alltaf við að ná til hjartna áheyrenda sinna. Hann kunni að hvetja fólk af því að hann gaf gaum að því. Hann notaði lifandi og einfaldar líkingar úr daglega lífinu. (Matteus 13:34) Þeir sem hafa verkefni á samkomunum ættu að líkja eftir Jesú með því að vera hlýlegir, hvetjandi og fullir eldmóðs í flutningi sínum. Eins og Jesús getum við lagt okkur fram við að finna líkingar sem eiga við áheyrendur okkar og ná til hjartna þeirra.
8. Hvernig hvatti Jesús með fordæmi sínu og hvernig gætum við líkt eftir honum í því?
8 Við getum öll hvatt hvert annað með fordæmi okkar í þjónustunni við Guð. Jesús hvatti greinilega áheyrendur sína. Hann hafði yndi af hinni kristnu þjónustu og lofaði hana mjög. Hann sagði að hún væri honum eins og matur. (Jóhannes 4:34; Rómverjabréfið 11:13) Slíkur eldmóður getur verið smitandi. Getur þú líka geislað af gleði í þjónustunni? Segðu öðrum í söfnuðinum frá skemmtilegri reynslu þinni en forðastu vandlega sjálfhælnistón. Þegar þú býður öðrum að starfa með þér, reyndu þá að hjálpa þeim að hafa ósvikna ánægju af því að tala við aðra um okkar mikla skapara, Jehóva. — Orðskviðirnir 25:25.
9. (a) Nefndu nokkrar aðferðir til að hvetja aðra sem við viljum forðast að beita. Hvers vegna? (b) Hvað ætti að vera okkur hvöt til að gefa af sjálfum okkur í þjónustu Jehóva?
9 Varastu þó að nota rangar aðferðir til að hvetja aðra. Við gætum til dæmis af vangá vakið sektarkennd hjá þeim fyrir að gera ekki meira. Við gætum óafvitandi látið þá fara hjá sér með því að bera þá saman við aðra sem eru meira áberandi, eða jafnvel gert strangar kröfur og gert lítið úr þeim sem standast þær ekki. Þessar aðferðir gætu hvatt aðra til athafna um stund, en Páll skrifaði ekki ‚hvetjið til sektarkenndar og góðra verka.‘ Nei, við verðum að hvetja til kærleika, þá fylgja verkin af réttum hvötum. Enginn ætti að láta stjórnast fyrst og fremst af því hvað aðrir í söfnuðinum hugsa um hann ef hann rís ekki alveg undir væntingum þeirra. — Samanber 2. Korintubréf 9:6, 7.
10. Af hverju ættum við að muna að við drottnum ekki yfir trú annarra?
10 Að hvetja hver annan er ekki hið sama og að stjórna hver öðrum. Þrátt fyrir allt það vald, sem Guð gaf Páli postula, minnti hann söfnuðinn í Korintu auðmjúklega á þetta: ‚Vér viljum ekki drottna yfir trú yðar.‘ (2. Korintubréf 1:24) Ef við gerum okkur í auðmýkt grein fyrir því, eins og Páll, að það er ekki okkar að ákveða hve mikið aðrir ættu að gera í þjónustu Jehóva, eða að vera samviska þeirra í sambandi við aðrar persónulegar ákvarðanir, þá forðumst við að vera ‚of réttlát,‘ gleðivana, stíf, neikvæð eða reglusinnuð. (Prédikarinn 7:16) Slíkir eiginleikar hvetja ekki; þeir kúga.
11. Hver var hvatinn að framlögunum til gerðar tjaldbúðarinnar á dögum Ísraels og hvernig gæti það átt við okkar daga?
11 Við viljum að öll viðleitni í þjónustu Jehóva sé í sama anda og í Ísrael til forna þegar framlög þurfti til gerðar tjaldbúðarinnar. Önnur Mósebók 35:21 segir: „Komu þá allir, sem gáfu af fúsum huga og með ljúfu geði, og færðu [Jehóva] gjafir.“ Það voru ekki aðrir sem hvöttu þá heldur kom hvatningin innan frá, frá hjartanu. Hebreski textinn segir bókstaflega að „hver sem hjartað lyfti upp“ hafi gefið slíkar gjafir. (Leturbreyting okkar.) Göngum skrefi lengra og leitumst við að lyfta upp hjarta hver annars hvenær sem við erum saman. Andi Jehóva getur séð um framhaldið.
‚Uppörvum hver annan‘
12. (a) Nefndu nokkrar merkingar gríska orðsins sem þýtt er „uppörva.“ (b) Hvernig létu félagar Jobs undir höfuð leggjast að uppörva hann? (c) Af hverju ættum við að varast að dæma hvert annað?
12 Þegar Páll skrifaði að við ættum að ‚uppörva hver annan‘ notaði hann mynd gríska orðsins parakaleʹo sem getur líka merkt ‚að styrkja, að hughreysta.‘ Í grísku Sjötíumannaþýðingunni er þetta sama orð notað í Jobsbók 29:25 þar sem Job var kallaður huggari harmþrunginna. Það er kaldhæðnislegt að Job fékk enga slíka uppörvun sjálfur þegar hann átti í erfiðri prófraun. „Huggarar“ hans þrír voru svo uppteknir af að dæma hann og prédika yfir honum að þeir hvorki skildu hann né fundu til með honum. Í öllum orðaflaumnum ávörpuðu þeir Job aldrei með nafni. (Berðu saman við Jobsbók 33:1, 31.) Þeir litu greinilega meira á hann sem vandamál en persónu. Það er engin furða að Job skyldi segja gramur í bragði: „Ef þér væruð í mínum sporum“! (Jobsbók 16:4) Ef við viljum uppörva einhvern, setjum okkur þá í spor hans! Dæmum ekki. Eins og Rómverjabréfið 14:4 segir: „Hver ert þú, sem dæmir annars þjón? Hann stendur og fellur herra sínum. Og hann mun standa, því að megnugur er [Jehóva] þess að láta hann standa.“
13, 14. (a) Hvaða undirstöðusannindi þurfum við að sannfæra bræður okkur og systur um til að hughreysta þau? (b) Hvernig styrkti engill Daníel?
13 Ein mynd sagnarinnar parakaleʹo og skylds nafnorðs er þýdd ‚hugga‘ og „huggun“ í 2. Þessaloníkubréfi 2:16, 17: „En sjálfur Drottinn vor Jesús Kristur og Guð, faðir vor, sem elskaði oss og gaf oss í náð eilífa huggun og góða von, huggi hjörtu yðar og styrki í sérhverju góðu verki og orði.“ Tökum eftir að Páll tengir hugmyndina um að hugga hjörtu okkar þeim grundvallarsannleika að Jehóva elskar okkur. Við getum því uppörvað og huggað hvert annað með því að staðfesta þennan mikilvæga sannleika.
14 Einhverju sinni var spámanninum Daníel svo brugðið eftir að hann sá ógnvekjandi sýn að hann sagði: „Yfirlitur minn var til lýta umbreyttur, og ég hélt engum styrk eftir.“ Jehóva sendi engil sem minnti Daníel nokkrum sinnum á að hann væri mikils virði í augum Guðs. Og árangurinn? Daníel sagði englinum: „Þú hefir gjört mig styrkan.“ — Daníel 10:8, 11, 19.
15. Hvernig ættu öldungar og farandumsjónarmenn að hafa jafnvægi milli hróss og leiðréttingar?
15 Þarna er því önnur leið til að uppörva aðra. Hrósaðu þeim! Það er allt of auðvelt að falla í það far að vera strangur og gagnrýninn. Vissulega getur leiðrétting stundum verið nauðsynleg, einkum frá öldungum og farandumsjónarmönnum. En það er gott ef umsjónarmanna er frekar minnst fyrir hlýlega hvatningu en dómhörku.
16. (a) Af hverju er oft ekki nóg bara að hvetja niðurdreginn eða þunglyndan mann til að gera meira í þjónustu Jehóva? (b) Hvernig hjálpaði Jehóva Elía þegar hann var niðurdreginn?
16 Þeir sem eru niðurdregnir eða þunglyndir þarfnast sérstaklega uppörvunar og Jehóva ætlast til að við sem kristnir meðbræður veitum þeim hjálp, einkum ef við erum öldungar. (Orðskviðirnir 21:13) Hvað getum við gert? Það er ekki alltaf nóg bara að segja þeim að gera meira í þjónustu Jehóva. Af hverju? Af því að það getur gefið í skyn að depurð þeirra eða þunglyndi stafi af því að þeir geri ekki nóg. Yfirleitt er það ekki svo. Spámaðurinn Elía var svo hræddur og niðurdreginn einu sinni að hann langaði til að deyja; en það gerðist meðan hann var mjög upptekinn af þjónustu sinni við Jehóva. Hvernig tók Jehóva á málum? Hann sendi engil til að veita honum raunhæfa hjálp. Elía opnaði hjarta sitt fyrir Jehóva og viðurkenndi að honum fyndist hann jafn einskisverður og látnir forfeður hans, að starf hans hefði allt verið unnið fyrir gýg og að hann væri aleinn. Jehóva hlustaði og hugreysti hann með ógnþrunginni sýningu á mætti sínum, og fullvissaði hann um að hann væri alls ekki einn og að starfinu, sem hann hefði byrjað, yrði lokið. Jehóva hét einnig að gefa Elía félaga til að þjálfa og taka við af honum síðar. — 1. Konungabók 19:1-21.
17. Hvernig gæti öldungur uppörvað þann sem er óhóflega dómharður gagnvart sjálfum sér?
17 Þetta er sannarlega uppörvandi. Megum við líka uppörva þá sem eiga í tilfinningalegum erfiðleikum. Leitastu við að skilja þá með því að hlusta! (Jakobsbréfið 1:19) Veittu þeim biblíulega hughreystingu sem sniðin er að einstaklingsbundnum þörfum þeirra. (Orðskviðirnir 25:11; 1. Þessaloníkubréf 5:14, NW) Til að uppörva þá sem eru óhóflega dómharðir gagnvart sjálfum sér geta öldungar sýnt þeim vinsamlega fram á biblíuleg rök fyrir því að Jehóva elski þá og meti.a Að ræða um lausnargjaldið getur verið áhrifamikil leið til að uppörva þá sem finnst þeir einskis virði. Kannski þarf að sýna þeim, sem er hryggur yfir einhverri fortíðarsynd, að lausnargjaldið hafi hreinsað hann ef hann hefur iðrast einlæglega og snúið baki við sérhverri slíkri breytni. — Jesaja 1:18.
18. Hvernig ætti að nota kenninguna um lausnargjaldið til að uppörva fórnarlamb nauðgunar?
18 Að sjálfsögðu ætti öldungur að hugleiða hvert tilvik fyrir sig til að beita þessari kenningu sem best. Tökum dæmi: Dýrafórnir Móselaganna, sem þurfti að færa til að friðþægja fyrir syndir, voru fyrirmynd um lausnarfórn Krists. (3. Mósebók 4:27, 28) En það var ekkert ákvæði þess efnis að fórnarlamb nauðgunar þyrfti að færa slíka syndafórn. Lögmálið kvað á um að „ekkert [skyldi] gjöra“ til að refsa konu sem var nauðgað. (5. Mósebók 22:25-27) Eins er það nú að ef ráðist hefur verið á systur og henni nauðgað, og það hefur valdið því að henni finnst hún óhrein og einskis virði, væri þá viðeigandi að leggja áherslu á nauðsyn lausnargjaldsins til að hreinsa hana af þessari synd? Vissulega ekki. Hún syndgaði ekki þegar ráðist var á hana. Það er nauðgarinn sem syndgaði og þarf að hreinsast. En það má nota kærleikann, sem Jehóva og Jesús sýna með því að sjá fyrir lausnargjaldinu, sem rök fyrir því að hún hafi ekki saurgast í augum Guðs við synd einhvers annars heldur sé hún Jehóva dýrmæt og njóti kærleika hans áfram. — Samanber Markús 7:18-23; 1. Jóhannesarbréf 4:16.
19. Af hverju megum við ekki búast við að öll samvera með bræðrum okkar og systrum sé uppörvandi en hverju ættum við að vera staðráðin í?
19 Já, hvernig sem maður er á vegi staddur í lífinu og óháð því hvaða sársaukafullar aðstæður myrkva fortíð hans, ætti hann að geta fengið uppörvun í söfnuði fólks Jehóva. Og það fær hann líka ef við hvert og eitt kappkostum að gefa gætur hvert að öðru, hvetjum hvert annað og uppörvum hvenær sem við komum saman. En þar eð við erum öll ófullkomin mistekst okkur stundum að gera það. Það er óhjákvæmilegt að við völdum hvert öðru vonbrigðum, jafnvel sársauka, af og til. Reynum að einblína ekki á mistök annarra þegar það gerist. Ef þú einbeitir þér að göllunum áttu á hættu að verða óhóflega gagnrýninn á söfnuðinn og jafnvel að falla í gildruna sem Páli var svo mikið í mun að forða okkur frá, það er að segja að vanrækja safnaðarsamkomurnar. Megi það aldrei gerast! Þetta heimskerfi verður sífellt hættulegra og meira þjakandi, þannig að við skulum vera algerlega staðráðin í að gera hvaðeina sem við getum til að samvera okkar á samkomunum sé uppbyggjandi — og það því fremur sem við sjáum að dagur Jehóva færist nær.
[Neðanmáls]
a Öldungur getur kosið að nema uppörvandi greinar í Varðturninum og Vaknið! með slíkum einstaklingi — til dæmis efni á borð við „Will You Benefit From Undeserved Kindness?“ og „Winning the Battle Against Depression“ — Varðturninn (ensk útgáfa) 15. febrúar og 1. mars 1990.
Hverju svarar þú?
◻ Af hverju er áríðandi að samkomur okkar og félagsskapur sé uppörvandi núna á síðustu dögum?
◻ Hvað merkir það að gefa gætur hver að öðrum?
◻ Hvað þýðir það að hvetja hver annan?
◻ Hvað er fólgið í því að uppörva hver annan?
◻ Hvernig mætti uppörva dapra og niðurdregna?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Gestrisni hjálpar okkur að kynnast hvert öðru betur.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Þegar Elía var niðurdreginn hughreysti Jehóva hann vingjarnlega.