„Verið heilagir . . . “
„Verðið heldur sjálfir heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað. Ritað er: ‚Verið heilagir, því ég er heilagur.‘“ — 1. PÉTURSBRÉF 1:15, 16.
1, 2. (a) Hvaða áminningu gat að líta á vefjarhetti æðsta prestsins og hvaða tilgangi þjónaði hún? (b) Hvers vegna er ástæða til að minna á það núna að Jehóva sé heilagur? (c) Hvaða áminningu gefur Pétur í sambandi við heilagleika?
„HEILAGLEIKI tilheyrir Jehóva.“ Þessi orð blöstu við öllum, greypt í plötu úr hreinu gulli og fest á vefjarhöttinn sem æðsti prestur Ísraels bar. (2. Mósebók 28:36-38) Þau minntu Ísraelsmenn á að þeir þjónuðu hreinum og heilögum Guði, ólíkt heiðnu þjóðunum sem dýrkuðu óhreina guði.
2 Ef þú ert einn af vottum Jehóva, gerir þú þér þá grein fyrir hve hreinn, heilagur og réttlátur sá Guð er sem þú tilbiður? Það kann að virðast óþarft að minna menn á slík frumsannindi. Þegar allt kemur til alls hefur okkur, þjónum Jehóva, veist sú blessun að fá innsýn í „djúp Guðs“ — margslungna spádóma Biblíunnar, meginreglur hennar og kenningar. (1. Korintubréf 2:10; samanber Daníel 12:4.) Þó er ljóst að sumir bera ekki nægilega gott skynbragð á heilagleika Jehóva. Það sýnir sig með þeim hætti að ár hvert freistast þúsundir til siðleysis af einhverju tagi. Þúsundir til viðbótar bjóða hættunni heim með því að gera hluti sem jaðra við það að vera brot á lögum Biblíunnar. Augljóst er að sumir skilja ekki alvöruna í orðum 1. Pétursbréfs 1:15, 16: „Verðið heldur sjálfir heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað. Ritað er: ‚Verið heilagir, því ég er heilagur.‘“
Heilagur Guð, heilagir guðsdýrkendur
3. Hvað sýndi söngur Móse um Jehóva?
3 „Það er ómögulegt fyrir ófullkominn mann að vera heilagur,“ andmælir þú kannski. En líttu á umgjörð þessarar áminningar Péturs. Postulinn vitnar hér í orð sem fyrst var beint til Ísraelsmanna skömmu eftir burtförina af Egyptalandi. Í gegnum þessa undraverðu frelsun hafði Jehóva opinberast sem frelsari, hann hafði sýnt sig uppfylla loforð sín, birst sem „stríðshetja.“ (2. Mósebók 3:14-17; 15:3) Í söng til minningar um ósigur Egypta við Rauðahafið beindi Móse athyglinni að enn öðrum eiginleika Jehóva: „Hver er sem þú, [Jehóva], meðal guðanna? Hver er sem þú, dýrlegur að heilagleik?“ (2. Mósebók 15:11) Þetta er fyrsti staðurinn í Biblíunni þar sem minnst er á heilagleika Jehóva.
4. (a) Á hvaða vegu er Jehóva „dýrlegur að heilagleik“? (b) Hvernig var Jehóva í samanburði við guði Kanverja?
4 Hebresku og grísku orðin, sem þýdd eru „heilagur“ í Biblíunni, fela í sér þá hugmynd að vera ‚skír, nýr, ferskur, óflekkaður og hreinn.‘ Móse lýsti þannig Jehóva sem hreinum í æðsta skilningi, lausum við óhreinindi, óspillanlegum og ósveigjanlegum andstæðingi hvers kyns óhreinleika. (Habakkuk 1:13) Jehóva var mikil andstæða guðanna sem dýrkaðir voru í landinu sem Ísraelsmenn áttu að taka til búsetu — Kanaan. Fornar heimildir, sem grafnar hafa verið úr jörð við Ras Shamara, borg á norðurströnd Sýrlands, veita takmarkaða en eigi að síður athyglisverða innsýn í guðaheim Kanverja. Þessar áletranir lýsa guðum sem voru, að því er segir í bókinni The Canaanites eftir John Gray, „deilugjarnir, afbrýðisamir, hefnigjarnir og lostafullir.“
5, 6. (a) Hvaða áhrif hafði það á Kanverja að dýrka lastafulla guði? (b) Hvaða áhrif hafði það á Ísraelsmenn að dýrka heilagan Guð?
5 Eins og búast mátti við endurspeglaði menning Kanverja eðli þeirra lastafullu guða sem þeir dýrkuðu. Bókin The Religion of the People of Israel segir: „Það að líkja eftir guðdóminum í verki var skoðað sem þjónusta við guðinn. . . . [Kynlífsgyðjan] Astart átti sér fjölda þjóna, bæði karla og konur, sem var svo lýst að þeir væru helgaðir . . . Þeir höfðu helgað sig því að þjóna henni með vændi.“ Fræðimaðurinn William F. Albright bætir við: „Þegar verst lét hlýtur hinn kynæsandi þáttur í menningu þeirra að hafa leitt til hrikalegrar þjóðfélagsspillingar.“ Dýrkun „heilagra súlna,“ eftirlíkingu getnaðarlims, barnafórnir, galdrar, gjörningar, sifjaspell, kynvilla og mök við skepnur — allt þetta var ‚háttur‘ Kanverja. — 2. Mósebók 34:13; 3. Mósebók 18:2-25; 5. Mósebók 18:9-12.
6 Jehóva er aftur á móti „dýrlegur að heilagleik.“ Hann gat ekki þolað slíka spillingu meðal tilbiðjenda sinna. (Sálmur 15) Jehóva lyfti því þjónum sínum upp á æðra stig, ólíkt hinum siðspilltu guðum Kanverja. Með orðunum, sem Pétur vitnaði síðar í, áminnti Jehóva Ísraelsmenn aftur og aftur: „Þér skuluð vera heilagir, því að ég, [Jehóva], Guð yðar, er heilagur.“ — 3. Mósebók 11:44; 19:2; 20:26.
‚Lögmálið er heilagt, réttlátt og gott‘
7, 8. (a) Hvernig gátu Ísraelsmenn ‚sýnt sig heilaga‘? (b) Berðu saman lögmál Jehóva og lögbók Hammúrabís.
7 Það að ‚vera heilagur‘ var hvorki krafa um fullkomleika né trúarlegt yfirskin; það var áminning um hlýðni við yfirgripsmikinn lagabálk sem Ísraelsmönnum var gefinn fyrir milligöngu Móse. (2. Mósebók 19:5, 6) Ólíkt öllum öðrum lögum var hægt að kalla lögmál Guðs „heilagt, réttlátt og gott.“ — Rómverjabréfið 7:12.
8 Lög Hammúrabís hins babýlonska, sem sögð eru eldri Móselögunum, spanna í stórum dráttum svipað svið. Nokkur af ákvæðum þeirra, til dæmis ákvæðið um ‚auga fyrir auga,‘ líkjast meginreglum Móselaganna. Sumir halda því fram að Móse hafi einfaldlega samið lög sín eftir lögbók Hammúrabís. En tilgangurinn með lögbók Hammúrabís var fyrst og fremst sá að hefja Hammúrabí upp til skýjanna og þjóna pólitískum hagsmunum hans sjálfs. Lög Guðs voru gefin Ísraelsmönnum ‚svo að þeim mætti vegna vel alla daga og halda lífi.‘ (5. Mósebók 6:24) Fátt bendir til að lög Hammúrabís hafi nokkurn tíma verið lagalega bindandi í Babýlon. Frekar er að sjá sem þau hafi aðallega verið „lagaleg leiðbeining þeim sem leituðu ráða.“ (The New Encyclopædia Britannica, 1985, 21. bindi, bls. 921) Móselögin voru hins vegar bindandi og höfðu ákvæði um réttláta refsingu væri þeim ekki hlýtt. Að síðustu er að nefna að lög Hammúrabís fjölluðu aðallega um hvernig refsa ætti fyrir yfirtroðslur; aðeins fimm lagagreinar af alls 280 leggja beint bann við einhverju. Kjarninn í lögum Guðs var aftur á móti sá að koma í veg fyrir ranga breytni, ekki að refsa fyrir hana.
9. Hvaða áhrif höfðu Móselögin á líf Gyðinganna?
9 Með því að Móselögin voru ‚heilög, réttlát og góð‘ höfðu þau geysisterk áhrif á líf Gyðinganna. Þau stjórnuðu guðsdýrkun þeirra, kváðu á um hvíldardaga er ekki skyldi unnið, stjórnuðu efnahagskerfi þjóðarinnar, höfðu ýmis ávæði um klæðnað og gáfu heilnæma leiðsögn um mataræði, kynlíf og hreinlæti. Móselögin létu jafnvel til sín taka eðlilega líkamsstarfsemi.
‚Lögmál Jehóva er lýtalaust‘
10. (a) Hvers vegna lét lögmálið sig varða svo mörg svið lífsins? (b) Hvernig stuðlaði lögmálið að líkamlegum hreinleika og góðri heilsu? (Sjá einnig neðanmálsathugasemd.)
10 Þessi ýtarlegu ákvæði, sem tóku til daglegs lífs manna, þjónuðu göfugum tilgangi — að gera Ísraelsmenn hreina — líkamlega, andlega, hugarfarslega og siðferðilega. Ákvæði þess efnis að þeir yrðu að baða sig, grafa saur sinn, hafa í sóttkví þá sem haldnir voru smitsjúkdómum og varast áveðnar fæðutegundir stuðluðu öll að góðu heilsufari og líkamlegum hreinleika.a — 2. Mósebók 30:18-20; 3. Mósebók 11. kafli; 13:4, 5, 21, 26; 15:16-18, 21-23; 5. Mósebók 23:12-14.
11. Hvað þýddi það að vera óhreinn í trúarlegum skilningi?
11 Heilsufræði og hreinlæti var þó í öðru sæti miðað við andlegan hreinleika. Þess vegna varð sá óhreinn trúarlega sem át eitthvert þeirra matvæla, sem bönnuð voru, hafði kynmök eða snerti lík. (3. Mósebók 11. og 15. kafli; 4. Mósebók 19. kafli) Sá sem óhreinn var mátti ekki taka þátt í guðsdýrkun — og stundum lá dauðarefsing við! (3. Mósebók 15:31; 22:3-8) En hvað höfðu þessi ákvæði með andlegan hreinleika að gera?
12. Hvernig stuðluðu lögin um trúarlegan hreinleika að andlegum hreinleika?
12 Guðsdýrkun heiðingja einkenndist af vændi, dýrkun dauðra og drykkjuskap. Uppsláttarritið The International Standard Bible Encyclopedia bendir hins vegar á: „Engin kynferðisleg athöfn var leyfð sem liður í tilbeiðslunni á Jahve. Allar slíkar athafnir gerðu því manninn óhreinan. . . . Í Ísrael var dauðum sýnd tilhlýðileg virðing, en þeir voru aldrei dýrkaðir með ótilhlýðilegum hætti eða tilbeðnir . . . Óhugsandi var að Ísraelsmaður hefði félagsskap við heiðna nágranna á hátíðum þeirra, sem fólu í sér veisluhöld, því að fæða þeirra var óhrein.“ Ákvæði lögmálsins mynduðu þannig ‚vegg‘ milli sannrar guðsdýrkunar og óhreinnar hjáguðadýrkunar heiðingja. — Efesusbréfið 2:14.
13. Hvernig stuðlaði lögmálið að hugarfarslegum hreinleika?
13 Lögmálið stuðlaði líka að hugarfarslegum hreinleika Ísraelsmanna. Ákvæði þess um samlíf hjóna stuðlaði til dæmis að því að lyfta hugsun mannsins á æðra stig. (3. Mósebók 15:16-33) Ísraelsmenn lærðu að iðka sjálfstjórn í kynferðismálum, ekki að gefa sig á vald hömlulausum fýsnum eins og Kanverjar. Lögmálið kenndi jafnvel Ísraelsmönnum að hafa stjórn á tilfinningum sínum og löngunum og fordæmdi meira að segja það að girnast eigur annars manns. — 2. Mósebók 20:17.
14. Hvernig skar lögmál Guðs sig úr í sambandi við siðferðilegan hreinleika?
14 Athyglisverðust er þó áhersla lögmálsins á siðferðilegan hreinleika. Að vísu fordæmdi lögbók Hammúrabís líka ranga breytni svo sem hjúskaparbrot. En grein í tímaritinu The Biblical Archaeologist segir: „Ólíkt Babýloníumönnum og Assýringum, sem litu á hjúskaparbrot einungis sem glæp gegn eignarrétti eiginmannsins, skoðaði löggjöf Gamla testamentisins hjúskaparbrot líka sem gróft brot gegn siðalögmálum.“
15. (a) Lýstu með dæmi hvernig það hefur krafist töluverðrar viðleitni af Ísraelsmanni að halda sér hreinum. (b) Hvaða gagn höfðu Ísraelsmenn af slíkri viðleitni?
15 Þetta staðfestir sannleiksgildi orðanna í Sálmi 19:9: „Boðorð [Jehóva] eru skír, hýrga augun.“ Ljóst er að stundum kostaði það töluvert erfiði að halda sér hreinum. Fáeinum vikum eftir að kona fæddi barn átti hún að fara til Jerúsalem og gangast undir ákveðna hreinsun. (3. Mósebók 12:1-8; Lúkas 2:22-24) Bæði körlum og konum var fyrirskipað að hreinsa sig trúarlega eftir mök við maka sinn, svo og í tengslum við ýmislegt annað því skylt. (3. Mósebók 15:16, 18; 5. Mósebók 23:9-14; 2. Samúelsbók 11:11-13) Ef þeir fylgdu lögmálinu samviskusamlega og héldu sér hreinum myndu þeir ‚gera sjálfum sér gagn‘ — líkamlega, hugarfarslega, siðferðilega og andlega. (Jesaja 48:17) Auk þess yrði þeim innprentað hve þýðingarmikið og alvarlegt mál það væri að halda sér hreinum. Ekki síst myndi slík einlæg viðleitni til að halda sér heilögum afla þeim velþóknunar Guðs.
Hreinir í óhreinum heimi
16, 17. (a) Í hvaða mæli er kristnum nútímamönnum skylt að halda sér hreinum? (b) Hvers vegna er erfitt að halda sér hreinum nú á dögum? (c) Hvers vegna eru margir, sem ber á í heiminum, ekki góð fyrirmynd til eftirbreytni?
16 Við skiljum nú betur orð Péturs til kristinna manna: „Verið eins og hlýðin börn og látið eigi framar lifnað yðar mótast af þeim girndum, sem þér áður létuð stjórnast af í vanvisku yðar. Verðið heldur sjálfir heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað. Ritað er: ‚Verið heilagir, því ég er heilagur.‘“ — 1. Pétursbréf 1:14-16.
17 Það skal játað að þetta er ekki auðvelt. Hvert sem litið er sjáum við sviksemi, óheiðarleika og siðleysi. Sífellt algengara er að fólk búi saman í óvígðri sambúð. Jafnvel þeir sem litið er upp til setja slæmt fordæmi til eftirbreytni. Margt af því fólki, sem vinsælast er í heimi íþrótta, stjórnmála og skemmtanalífs, stundar alls kyns óhreinleika fyrir opnum tjöldum. „Það eru hræðileg vonbrigði þegar einhver, sem maður hefur trúað á sem fyrirmynd, er ekki jafnflekklaus og maður hélt,“ sagði íþróttaunnandi. Tilefni orða hans var að nokkrir vinsælir íþróttamenn höfðu játað á sig misnotkun lyfja. Það er því miður býsna algengt að einstaklingar, sem dýrkaðir eru eins og guðir, lifi óhreinu lífi, jafnvel mjög óþverralegu lífi sem hjúskaparbrotsmenn, saurlífisseggir, kynvillingar, þjófar, ræningjar og fíkniefnaneytendur! Þeir kunna að virðast hreinir líkamlega en munnur þeirra er fullur af klúru göturæsamáli. Sumir hafa meira að segja gaman af að ofbjóða siðferðisvitund almennings með því að gorta af siðlausum athöfnum sínum.
18. Hvernig uppskera margir, sem lifa óhreinu lífi, í samræmi við það sem þeir sá?
18 En orð Biblíunnar verða ekki umflúin: „Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera. Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun.“ (Galatabréfið 6:7, 8) Gróflega siðlaust líferni hefur oft í för með sér sjúkdóma, jafnvel ótímabæran dauða, af völdum sárasóttar, lekanda og eyðni, svo nefndir séu aðeins fáeinir þekktir sjúkdómar. Lauslæti hefur oft í för með sér hugarfarslegar og tilfinningalegar öfgar, þunglyndi og jafnvel sjálfsmorð. Þótt þeir sem lifi siðlausu lífi hlægi stundum hæðnislega að þeim sem reyna að halda sér hreinum stöðvast hláturinn þegar spottararnir byrja að ‚uppskera það sem þeir hafa sáð.‘ — Samanber Rómverjabréfið 1:24-27.
19, 20. Hvernig hafa klerkar kristna heimsins sýnt sig óhreina, bæði trúarlega og siðferðilega?
19 Við lifum líka í trúarlega saurguðum heimi. Klerkastéttin ber fögur og hrein klæði en kennir óhreinar, babýlonskar athafnir og kennisetningar svo sem skurðgoðadýrkun, þrenningu, helvíti, ódauðleika mannssálarinnar og hreinsunareld. Þeir eru eins og trúarleiðtogarnir sem Jesús sagði um: „Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum, kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra. Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis.“ — Matteus 23:27, 28.
20 Prestarnir umbera jafnvel óhreinleika hjá sóknarbörnum sínum. Einstaklingar, sem eru þekktir fyrir siðleysi og óhreinleika — saurlífismenn, hjúskaparbrotsmenn og kynvillingar — njóta eftir sem áður virðingar í kirkjunum. Tímaritið Newsweek sagði um þetta atriði: „Sálfræðingurinn Richard Sipe frá Maryland, sem er fyrrverandi prestur, ætlar að um 20 af hundraði hinna 57.000 kaþólskra presta í Bandaríkjunum séu kynvilltir . . . Aðrir ætla að um 40 af hundraði sé nær sanni.“ Kaþólski guðfræðingurinn John J. McNeill (sem játar sig kynvilling) heldur opinskátt uppi vörnum fyrir kynvillu: „Ástin milli teggja samkynhneigðra kvenna eða karla er ekki syndsamleg, svo framarlega sem hún er uppbyggilegur mannkærleikur, og hún slítur menn ekki úr tengslum við Guð heldur getur hún verið heilög og hrein.“ — The Christian Century.b
21. Hvers vegna á áminningin „Heilagleiki tilheyrir Jehóva“ erindi til okkar nútímamanna?
21 Áminningin á vefjarhetti æðsta prestsins er því tímabærri nú en nokkru sinni fyrr: „Heilagleiki tilheyrir Jehóva.“ (2. Mósebók 28:36, NW) Jehóva heimtar af okkur heilagleika á öllum sviðum! En hvernig getum við varðveitt hann? Hvaða sviðum þurfum við ef til vill að gefa sérstakan gaum? Greinin á eftir fjallar um það.
[Neðanmáls]
a Í lögbók Hammúrabís voru engin slík ákvæði; og sambærileg ávæði um hreinlæti hafa ekki heldur fundist meðal Forn-Egypta, þótt þeir hafi staðið tiltölulega framarlega í læknisfræði. Bókin Ancient Egypt segir: „Töfraþulur og -forskriftir blandast mikið inn í skynsamleg læknisfyrirmæli [í læknabókum Egypta].“ Lög Guðs voru aftur á móti algerlega laus við djöfladýrkun en vísindalega rétt. Ekki er ýkjalangt síðan læknum varð ljóst að þeir þyrftu að þvo sér um hendurnar eftir að hafa snert lík, en slíks kröfðust Móselögin fyrir þúsundum ára! — 4. Mósebók 19. kafli.
b Nokkrir af prestum íslensku þjóðkirkjunnar hafa nýverið gengið fram fyrir skjöldu í að verja kynvillu sem eðlilegan lið í sköpunarverki Guðs. Einn þeirra, Baldur Kristjánsson, vitnaði í orð læknis sem sagði meðal annars: „Samkvæmt fyrstu Mósebók skóp Guð manninn í sinni mynd, en gaf honum frjálsan vilja. . . . homminn eða lesban . . . eru sköpuð eins og allir aðrir í Guðs mynd svo homosexualitet er liður í sköpunarverki Guðs.“ Presturinn segir síðan: „Svo mörg voru þau orð [læknisins] og þung og skal hér tekið undir hvert þeirra.“ — Morgunblaðið, 5. september 1987.
Upprifjun
◻ Í hvaða skilningi er Jehóva „dýrlegur að heilagleik“ og hvað þýðir það fyrir dýrkendur hans?
◻ Hvernig var lögmál Móse ólíkt lögum allra annarra þjóða?
◻ Hvernig stuðluðu Móselögin að líkamlegum, andlegum, hugarfarslegum og siðferðilegum hreinleika?
◻ Hvernig uppskera margir, sem lifa óhreinu lífi, það sem þeir hafa sáð?
[Mynd á blaðsíðu 20]
Tilbeiðslan á lastafullum guðum hafði siðspillandi áhrif á Kanverja.
[Rétthafi]
Birt með leyfi British Museum í Lundúnum.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Lög Hammúrabís sköpuðu kyrrð í ríkinu og upphófu konunginn, en þau færðu Babýloníumönnum ekki heilagleika.
[Rétthafi]
Louvre-safnið í París.