Heldur þú þér hreinum í sérhverju tilliti?
„Farið burt, farið burt, gangið út þaðan! Snertið ekkert óhreint! Gangið burt þaðan, hreinsið yður, þér sem berið ker [Jehóva]!“ — JESAJA 52:11.
1. (a) Hvernig leiddi konungleg tilskipun til þess að kerjum Jehóva var skilað heim til Jerúsalem? (b) Hvernig höfðu sum þessara kerja verið saurguð?
SKYNDILEGA voru þeir frjálsir — eftir 70 ára þrælkun! Konungleg tilskipun um árið 538 f.o.t. leyfði Gyðingum sem þjóð að snúa heim og ‚reisa musteri Jehóva, Ísraels Guðs.‘ (Esra 1:2, 3) Því næst gerðist annar óvæntur atburður: „Kýrus konungur [í Persíu] lét af hendi kerin úr musteri [Jehóva], þau er Nebúkadnesar hafði flutt burt frá Jerúsalem.“ (Esra 1:7, 8) Meðal þeirra voru hin helgu ker sem Belsassar og stórmenni hans höfðu saurgað með því að drekka falsguðum skál úr þeim nóttina sem Babýlon féll! (Daníel 5:3, 4) Nú gátu útlagarnir flutt þessi áhöld heim til Jerúsalem og notað þau til að lofa Jehóva.
2. (a) Hvaða spádóm Jehóva hafa Gyðingarnir, sem sneru heim, vafalaust hugsað um? Um hverja talaði þessi spádómur? (b) Hvers vegna voru þeir hvattir til að snerta ekkert óhreint?
2 Meðan Gyðingar bjuggu sig með ákefð undir að leggja upp í heimför sína hafa þeir vafalaust haft í minnum orð spámannsins Jesaja: „Farið burt, farið burt, gangið út þaðan! Snertið ekkert óhreint. Gangið burt þaðan, hreinsið yður, þér sem berið ker [Jehóva].“ (Jesaja 52:11) Það voru að sjálfsögðu Levítarnir sem báru þessi ker og önnur áhöld. (4. Mósebók 1:50, 51; 4:15) Jesaja hafði hins vegar sagt fyrir að allir þeir Gyðingar, sem sneru aftur heim, ættu að vera hæfir til að bera ker Jehóva. Öllum var því skylt að vera hreinir. Þeir áttu ekki að ræna Babýloníumenn fjármunum sínum eins og Ísraelsmenn gerðu áður en þeir yfirgáfu Egyptaland. (Samanber 2. Mósebók 12:34-38.) Þeir urðu að vera hreinir af hvers kyns efnishyggju eða eigingjörnum hvötum þegar þeir sneru heim. Það eitt að snerta ‚skurðgoð‘ Babýlonar hefði verið saurgandi.a (Jeremía 50:1, 2) Aðeins með því að vera hreinir í sérhverju tilliti gátu Gyðingar gengið ‚brautina helgu‘ heim til Jerúsalem. — Jesaja 35:8, 9.
3. Hverjir bera „ker“ Jehóva nú á dögum? Hvers vegna er það erfitt og krefjandi að halda sér hreinum?
3 Nútímavottar Jehóva verða líka að vera hreinir, því að þeir bera einnig „ker“ Jehóva. Páll postuli vitnaði í orð Jesaja og heimfærði þau upp á kristna menn sinnar samtíðar og sagði: „Hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.“ (2. Korintubréf 6:17–7:1) Auk þess að lifa í óhreinum heimi þurfum við að glíma við okkar arfgengu, syndugu tilhneigingar. (1. Mósebók 8:21) Jeremía 17:9 minnir okkur á: „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það. Hver þekkir það?“ Sumir blekkja sjálfa sig og aðra til að halda að líf þeirra sé hreint og þóknanlegt Guði þótt svo sé ekki. Það er ekkert annað en hræsni. Einn og sérhver þarf því að spyrja sig: ‚Legg ég mig fram eins og ég get til að vera hreinn frammi fyrir Jehóva í sérhverju tilliti?‘ Við skulum nú líta á fjórar hliðar hreinleika til að hjálpa okkur í þessu skyni.
Líkamlegur hreinleiki
4. (a) Hvers vegna er líkamlegt hreinlæti mikilvægt meðal þjóna Jehóva? (b) Hvers vegna getur stundum verið erfitt að halda sér hreinum?
4 Líkamlegur hreinleiki skiptir þjóna Jehóva nú á tímum miklu máli rétt eins og til forna. (2. Mósebók 30:17-21; 40:30-32) Værum við að meðhöndla ‚ker Jehóva‘ með virðingu ef við værum óhrein um hárið, andlitið og hendurnar, með dökkar rendur undir nöglunum og óþef legði af okkur? Það er auðvelt að láta viðhorf heimsins hafa áhrif á sig. — Rómverjabréfið 12:2.
5. (a) Hvers vegna er svona mikilvægt að við höfum háan staðal á hreinlæti? Nefndu staðbundin dæmi um hvernig þessi heilræði geta átt við. (b) Hvernig geta öldungarnir orðið að liði?
5 Hvernig getum við skorið okkur úr, verið ólík heiminum ef við sættum okkur við hina lágu staðla hans? Yrði ‚orði Guðs ekki lastmælt‘ ef heimili okkar væri sóðalegt eða Ríkissalurinn druslulegur? (Títusarbréfið 2:5) Ef við erum hreinlát, tínum upp rusl á mótsstað, aðstoðum við viðhald og hreingerningu Ríkissalarins og höldum heimili okkar hreinu og snyrtilegu er það Guði til heiðurs. (Samanber 1. Pétursbréf 2:12.) Öldungum ber að setja gott fordæmi í hreinleika og ekki veigra sér við að veita viðeigandi leiðbeiningar þegar þörf er á. — Postulasagan 20:20.
6. Hvernig ber okkur að klæðast á samkomum og í þjónustunni á akrinum?
6 Hvernig ber okkur að vera til fara þegar við sækjum samkomur og erum í þjónustunni á akrinum? Ætti búningur okkar ekki að vera ‚sæmandi og lýsa hóglæti‘? (1. Tímóteusarbréf 2:9; Hebreabréfið 10:23-25) Ekki hugsa sem svo að þú þurfir að vera vel til fara aðeins ef þú átt að flytja eitthvert atriði á samkomunni. Of hversdagsleg föt eru ekki við hæfi þegar við þjónum eða tilbiðjum Jehóva. Gatslitin starfstaska eða illa farin og óhrein biblía getur líka dregið athygli fólks frá boðskapnum um ríkið.
Haltu huganum hreinum
7. Hver er lykillinn að hreinleika hugans að sögn Filippíbréfsins 4:8?
7 Í Filippíbréfinu 4:8 gaf Pál þessi ráð: „Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ Það er ekki alltaf auðvelt því að okkar er freistað úr öllum áttum til að kanna agnarögn „djúp Satans.“ — Opinberunarbókin 2:24.
8. Hvaða dæmi sýna glöggt hve hættulegt ýmis konar skemmtiefni getur verið? Nefndu staðbundin dæmi.
8 Greiður aðgangur fólks að klám- og mjög ofbeldiskenndum myndböndum hefur leitt alvarleg vandamál yfir suma. Kvæntur bróðir í Evrópulandi lagði í vana sinn að horfa á siðlausar kvikmyndir eftir að konan hans var háttuð. Frækorn syndarinnar fékk þannig vökvun og afleiðingin varð hjúskaparbrot. (Samanber Jakobsbréfið 1:14, 15.) Hópur ungra votta í Afríkulandi fékk að láni siðlausar kvikmyndir hjá skólafélögum og horfði á þær meðan foreldrarnir voru að heiman. En öldungur í Nígeríu bendir á: ‚Venjulegar sjónvarpskvikmyndir, sem sýna á svipaðan hátt ofbeldi, afbrot, stríð, ástaratlot og fyrirlitningu á tryggð í hjónabandinu eru oft hættulegri.‘ Þá er nauðsynlegt að vera á varðbergi gegn ýmsum óvönduðum dagblöðum, klámtímaritum, kvikmyndum og skáldsögum sem örva kynhvötina, svo og gegn spillandi tónlist.
9. (a) Hvers vegna verðum við að vera vandfýsin á það sem við hlustum á, horfum á og lesum? (b) Hvað ættum við að gera ef við stöndum frammi fyrir ósæmilegu skemmtiefni?
9 Við höfum ekki efni á að menga hugann með því sem er „svívirðilegt um að tala.“ (Efesusbréfið 5:12) Vertu því vandfýsinn á það sem þú hlustar á, horfir á og lest. Vertu vökull og fljótur til að vísa frá því sem óhreint er. (Sálmur 119:37) Það kallar á sjálfstjórn. Stundum þarftu kannski jafnvel að ‚leika líkama þinn hart og gera hann að þræli þínum.‘ (1. Korintubréf 9:27) En mundu alltaf að ‚hinn ósýnilegi‘ sér hvað við horfum á í leynum. (Hebreabréfið 11:27) Taktu því á þig krók til að sneiða hjá því sem vafasamt er. Gættu þess að ‚meta rétt hvað Drottni þóknast.‘ — Efesusbréfið 5:10.
‚Haltu vegi þínum hreinum‘ siðferðilega
10. (a) Nefndu eina ástæðu fyrir því að svo margir eru áminntir eða gerðir rækir ár hvert. (b) Hvaða meginregla Biblíunnar ætti að ráða breytni okkar í fríum og í vinnunni?
10 Í Efesusbréfinu 5:5 aðvaraði Páll: „Því að það skuluð þér vita og festa yður í minni, að enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn — sem er sama og að dýrka hjáguði —, á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.“ Þrátt fyrir þessa skýru aðvörun eru þúsundir manna ár hvert ýmist áminntir eða gerðir rækir úr söfnuðinum fyrir siðleysi — fyrir að ‚syndga á móti eigin líkama.‘ (1. Korintubréf 6:18) Oft stafar það einfaldlega af því að fólk hefur ekki gætt þess að ‚halda vegi sínum hreinum með því að gefa gaum að orði Guðs.‘ (Sálmur 119:9) Margir bræður halda til dæmis ekki siðferðilegri vöku sinni í fríum og orlofum. Í stað þess að sækja samkomur hafa þeir félagsskap við fólk úr heiminum. Þeim finnst þetta vera ‚ágætis fólk‘ og taka jafnvel þátt með því í vafasömum athöfnum. Aðrir hafa stofnað til of náinna vináttutengsla við vinnufélaga. Kristinn öldungur stofnaði til slíkra tengsla við konu, sem hann vann með, að hann yfirgaf fjölskyldu sína og fór að búa með henni! Honum var vikið úr söfnuðinum. Það leikur enginn vafi á sannleiksgildi orða Biblíunnar: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum“! — 1. Korintubréf 15:33.
11. Hvers vegna ber að hafa góða umsjón þegar kristnir menn koma saman?
11 Eftirfarandi varnaðarorð koma frá Suður-Afríku: „Fjölmenn samkvæmi eru önnur hætta sem steðjar að siðferðilegum hreinleika margra . . . Sum hafa verið haldin eftir dagskrárlok á umdæmismótum.“ Þegar kristnir menn koma saman í smáum hópum og góð umsjón er höfð þróast það sjaldan yfir í „svall.“ (Galatabréfið 5:21) Ef bornir eru fram áfengir drykkir ber að hafa umsjón með því og gæta hófs. „Vínið er spottari,“ og undir áhrifum þess hafa sumir bræður slakað á verðinum eða vakið til lífs veikleika sem blunduðu með þeim. (Orðskviðirnir 20:1) Tveir ungir boðberar höfðu til dæmis kynvillumök eftir að hafa drukkið of mikið.
12, 13. (a) Hvernig hafa sumir réttlætt siðlausa breytni? Hvað er rangt við slík rök? (b) Hvernig getum við verið á verði fyrir því sem ógnar góðu siðferði?
12 Þegar þú finnur fyrir freistingu til rangrar breytni skaltu hafa hugfast að það er hinn innri maður sem gildir, ekki hitt hve hreinir við virðumst hið ytra. (Orðskviðirnir 21:2) Sumir virðast halda að Guð fyrirgefi síendurtekið, siðlaust hátterni þeirra af því að þeir eru veikir fyrir. En er það ekki að „misnota náð Guðs vors til taumleysis“? (Júdasarbréfið 4) Sumir ímynda sér jafnvel að ‚Jehóva sjái þá ekki.‘ (Esekíel 8:12) En gleymdu aldrei að „enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert fyrir augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.“ — Hebreabréfið 4:13.
13 Vertu því á verði gagnvart öllu sem ógnar góðu siðferði! „Frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum. Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé.“ (Efesusbréfið 5:3, 4) „Hafið andstyggð á hinu vonda,“ óháð því hve lokkandi það er fyrir holdið. — Rómverjabréfið 12:9.
Varðveittu andlegan hreinleika
14, 15. (a) Hvernig hafa sumir gert sig berskjaldaða fyrir andlegri mengun? (b) Hvernig nota fráhvarfsmenn ‚munninn til að steypa náunga sínum í glötun‘? (c) Á hvaða hátt eru fráhvarfsmenn óhreinir og hverju hafa þeir gleymt?
14 Sumir hafa gert sig berskjaldaða fyrir andlegri óhreinkun með því að stilla á trúarlegar útsendingar í útvarpi og sjónvarpi. Sumir kristnir menn í einu Afríkulandi hafa horft á sjónvarpsleikrit þar sem hefðbundinni hjátrú og andatrú hefur verið lýst í jákvæðu ljósi. En Páll postuli varaði okkur við enn alvarlegri hættu — fráhvarfsmönnum sem ‚umhverfðu trú sumra manna.‘ (2. Tímóteusarbréf 2:16-18) Slíkir menn eru enn til! (2. Pétursbréf 2:1-3) Stundum hefur þeim tekist að óhreinka hugsun annarra. Eins og Orðskviðirnir 11:9 segja: „Með munninum steypir hinn guðlausi náunga sínum í glötun.“
15 Fráhvarfsmenn höfða oft til sjálfselskunnar, staðhæfa að við séum rænd frelsi okkar, þar á meðal frelsinu til að túlka Biblíuna sjálf. (Samanber 1. Mósebók 3:1-5.) Í rauninni eru þessir menn að bjóða það eitt að við snúum aftur til viðbjóðslegra kenninga ‚Babýlonar hinnar miklu.‘ (Opinberunarbókin 17:5; 2. Pétursbréf 2:19-22) Aðrir höfða til holdsins, hvetja fyrrverandi trúbræður sína til að ‚taka lífinu með ró‘ því að vitnisburður hús úr húsi sé ‚óþarfur‘ eða ‚óbiblíulegur.‘ (Samanber Matteus 16:22, 23) Þessir tungulipru menn geta litið út fyrir að vera hreinir, líkamlega og siðferðilega, en hið innra eru þeir andlega óhreinir, því að þeir hafa gefið sig á vald rembilátri og sjálfstæðri hugsun. Þeir hafa gleymt öllu sem þeir hafa lært um Jehóva, hið heilaga nafn hans og eiginleika. Þeir viðurkenna ekki lengur að allt sem þeir lærðu um sannindi Biblíunnar — hin dýrlega von um Guðsríki og paradís á jörð, og að kennisetningarnar um þrenningu, ódauðlega sál, eilífa kvöl og hreinsunareld eru falskar — allt þetta lærðu þeir fyrir milligöngu hins ‚trúa og hyggna þjóns.‘ — Matteus 24:45-47.
16. Hvernig er „þekking“ réttlátum manni til bjargar?
16 Farandumsjónarmaður í Frakklandi lét þessi eftirtektarverðu orð falla: „Sumir bræður láta blekkjast vegna þess að þá skortir nákvæma þekkingu.“ Þess vegna segja Orðskviðirnir 11:9: „Hinir réttlátu frelsast fyrir þekkingu.“ Sú þekking, sem hér er talað um, fæst ekki með því að ljá fráhvarfsmönnum eyra eða sökkva sér niður í rit þeirra, heldur er það ‚þekking á leyndardómi Guðs‘ sem fæst með rækilegu einkanámi í Biblíunni og ritum Félagsins. Sá sem hefur nákvæma þekkingu á Biblíunni hefur tæpast áhuga fyrir því sem fráhvarfsmenn hafa að segja. Megi enginn maður ‚tæla ykkur með áróðurstali‘! (Kólossubréfið 2:2-4) Okkur ber að forðast eins og pestina falskan trúaráróður hvaðan sem hann kemur! Drottinn okkar hefur notað ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ til að flytja okkur „orð eilífs lífs.“ Hvers vegna ætti okkur að langa til að leita annars staðar? — Jóhannes 6:68.
Munt þú halda þér hreinum?
17, 18. Hvers vegna er brýnt að leggja rækt við (a) líkamlegan hreinleika, (b) hugarfarslegan hreinleika, (c) siðferðilegan hreinleika og (d) andlegan hreinleika?
17 Eins og við höfum séð er margt í því fólgið að halda sér hreinum frammi fyrir Jehóva Guði. Það er boðskapnum um ríkið til prýði ef við höldum líkama okkar, heimili, fatnaði og Ríkissal hreinum og snyrtilegum. Hreinleiki hugans hjálpar okkur að halda okkur siðferðilega og andlega hreinum. Það krefst þess að við fylgjum áminningu Páls í Filippíbréfinu 4:8 um að láta hugann dvelja við það sem er satt, hreint og lofsvert.
18 Okkur er ljóst að það er brýnna en nokkru sinni fyrr að við höldum okkur siðferðilega hreinum bæði í orði og verki. Jehóva aðvarar okkur skorinort að þeir sem stundi siðleysi af einhverju tagi munu ekki erfa Guðsríki. (1. Korintubréf 6:9-11) Óháð því hversu slíkur óhreinleiki getur höfðað til okkar, þá munum við uppskera spillingu og glötun af holdinu ef við sáum í holdið. (Galatabréfið 6:8) Að síðustu ber að nefna það að halda sér hreinum andlega og kenningalega. Slíkur hreinleiki hjálpar okkur að vera með hreinum huga og hjarta. Þá leitumst við alltaf við að sjá hlutina með augum Jehóva, ekki okkar eigin.
19. Hvað getur hjálpað bæði hinum smurðu og ‚múginum mikla‘ til að halda sér hreinum í sérhverju tilliti?
19 Bráðlega verður frumkvöðli óhreinleikans — Satan djöflinum — kastað í undirdjúpið ásamt sínum illum öndum. Megi allir þjónar Jehóva — bæði af hinum smurðu og hinum ‚mikla múgi‘ — halda sér hreinum þangað til það gerist, svo þeir megi bera ker Jehóva. (Opinberunarbókin 7:9, 13-15; 19:7, 8; 20:1-3) Baráttan er linnulaus og hörð, en munum að Jehóva gefur okkur fúslega af „anda heilagleikans.“ (Rómverjabréfið 1:4) Hið hreina skipulag hans og öldungarnir eru auk þess reiðubúnir að leggja okkur lið með heilbrigðum, biblíulegum ráðleggingum. Ef við þiggjum slíka hjálp og erum staðráðin í að halda okkur hreinum í sérhverju tilliti mun okkur takast það!
[Neðanmáls]
a Hebreska orðið, gillulim, hér þýtt skurðgoð, var skammaryrði sem upphaflega merkti „saurkúla, sparð“ — fyrirlitlegt í augum Gyðinga. — 5. Mósebók 23:12-14; 1. Konungabók 14:10; Esekíel 4:12-17.
Upprifjun
◻ Hvers vegna urðu Gyðingarnir, sem sneru heim frá Babýlon, að vera hreinir?
◻ Hvernig getum við gefið líkamlegu hreinlæti gaum?
◻ Hvernig getum við verndað hugann svo að hann spillist ekki?
◻ Hvernig getum við staðið vörð gegn siðferðilegum hættum?
◻ Hvernig getum við varðveitt andlegan hreinleika okkar?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Heimili okkar ættu að vera til fyrirmyndar í hreinlæti.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Kristnir menn verða að sýna góða dómgreind og forðast myndbönd og sjónvarpsefni sem gæti spillt huga þeirra.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Smá samkvæmi geta verið siðferðilega uppbyggjandi.
[Mynd á blaðsíðu 28]
Kostgæfir vottar stunda biblíunám vel. Það heldur þeim andlega hreinum og veitir þeim gleði.