Lærum hinn heilaga leyndardóm guðrækninnar
„Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor.“ — 1. PÉTURSBRÉF 2:21.
1. Hver hefur verið tilgangur Jehóva varðandi ‚heilagan leyndardóm guðrækninnar‘?
HINN ‚heilagi leyndardómur guðrækninnar‘ er enginn leyndardómur lengur! (1. Tímóteusarbréf 3:16) Það er harla ólíkt leyndardómur falstrúarbragðanna, svo sem hinni dularfullu þrenningarkenningu, sem er og verður leyndardómur! Enginn getur skilið þá. Sá er hins vegar tilgangur Jehóva að heilagur leyndardómur guðrækninnar, sem birtist í persónu Jesú Krists, skuli kunngerður eins víða og kostur er. Jesús sjálfur setti einstakt fordæmi sem kostgæfur boðberi ríkis Guðs. Við getum lært margt af boðskap hans og prédikunaraðferðum eins og við munum nú sjá.
2. Hvers vegna er þjónusta Jesú nefnd á undan lausnargjaldinu? (Matteus 20:28)
2 Við skulum því beina athygli okkar aftur að því er Jesús „opinberaðist í holdi.“ (1. Tímóteusarbréf 3:16) Í Matteusi 20:28 lesum við að Jesús hafi ‚ekki komið til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.‘ Þessi orð skipa þjónustu hans jafnvel ofar lausnargjaldinu. Hvernig þá? Í Edengarðinum hafði hinn brögðótti höggormur véfengt hið réttmæta drottinvald Jehóva yfir mannkyni og gefið í skyn að sköpunarverk Guðs væri gallað og að enginn maður gæti varðveitt ráðvendni við hinn hæsta ef á hann reyndi. (Samanber Jobsbók 1:6-12; 21-10.) Gallalaus þjónusta Jesú sem fullkomins manns, sem ‚hins síðari Adams,‘ sannaði að smánarinn Satan væri illskeyttur lygari. (1. Korintubréf 15:45) Enn fremur sannaði Jesús fullkomlega hæfni sína til að þjóna sem ‚foringi og frelsari‘ Guðs og „dæma heimsbyggðina með réttvísi“ til að upphefja drottinvald Jehóva. — Postulasagan 5:31; 17:31.
3. Hvernig hrakti Jesús algerlega ásakanir Satans?
3 Jesús hrakti fullkomlega ögrunarorð Satans! Í gegnum alla sögu mannkynsins hefur enginn maður á jörð þjónað af slíkri hollustu, og það þrátt fyrir háðsglósur, húðstrokur, og líkamlegar og andlegar pyndingar. Kristur mátti þola svívirðilegt guðlast þótt hann væri sonur Guðs. Út í gegnum allt þetta — jafnvel fram í grimmilegan og smánarlegan dauða — var hann staðfastur og óhagganlegur í hollustu við föður sinn. Í Filippíbréfinu 2:8, 9 skrifar Páll að vegna hlýðni Jesú ‚allt til dauða, já, dauða á kvalastaur, hafi Guð upphafið hann og gefið honum nafnið sem hverju nafni er æðra.‘ Jesús afhjúpaði Satan sem svívirðilegan lygara!
4. Hvers vegna gat Jesús sagt Pílatusi að hann hefði komið inn í heiminn til að bera sannleikanum vitni?
4 Þannig gat Jesús borið djarflega vitni frammi fyrir Pontíusi Pílatusi, eftir aðeins nokkurra ára öfluga prédikun: „Þú segir að ég sé konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd.“ (Jóhannes 18:37, neðanmáls) Jesús hafði látið í ljós guðrækni í sinni æðstu mynd með því að boða sannindi Guðsríkis út um Palestínu alla. Hann þjálfaði lærisveina sína til að vera kostgæfir prédikarar einnig. Þetta fordæmi hans örvar okkur sannarlega til að feta í hans fótspor nú á dögum!
Lærum af fyrirmynd okkar
5. Hvað getum við lært um guðrækninna með því að einblína á Jesú?
5 Með hollustu okkar í því að gera vilja Jehóva getum við líka sannað djöfulinn lygara. Óháð þeim þrengingum, sem kunna að mæta okkur, mun engin komast í jafnkvisti við þá kvöl og svívirðingu sem Jesús varð að þola. Við skulum því læra af fyrirmynd okkar. Megum við, eins og Hebreabréfið 12:1, 2 hvetur okkur til, renna skeiðið með þolgæði er við „beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar.“ Ólíkt Adam, sem brást þegar guðrækni hans var prófreynd var Jesús eini maðurinn á jörðinni sem stóðst allar prófraunir fullkomlega. Allt til dauða sannaði hann sig ‚heilagan, svikalausan, óflekkaðan, greindan frá syndurum.‘ (Hebreabréfið 7:26) Sökum fullkominnar ráðvendni sinnar gat hann spurt óvini sína: „Hver yðar getur sannað á mig synd?“ Hann virti ögranir Satans einskis og sagði: ‚Höfðingi heimsins á ekkert í mér.‘ Og í lok síðustu ræðu sinnar yfir lærisveinunum, rétt áður en hann var svikinn og handtekinn, sagði hann þeim: „Verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ — Jóhannes 8:46; 14:30; 16:33.
6. (a) Hvers vegna veit Jesús hvers konar endurnæringu mannkynið þarfnast? (b) Í hvaða mæli sýndi Jesús guðhræðslu?
6 Er Jesús var í holdi hér á jörð kynntist hann af eigin raun hvað það merkir að vera maður, „englunum lægri.“ (Hebreabréfið 2:7) Hann kynntist mannlegum veikleikum og er því fyllilega hæfur til að þjóna sem konungur og dómari mannkynsins um þúsund ár. Þessi sonur Guðs, sem sagði: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld,“ veit hvers konar hvíldar og endurnæringar mannkynið þarfnast. (Matteus 11:28) Hebreabréfið 5:7-9 segir okkur: „Á jarðvistardögum sínum bar hann fram með sárum kveinstöfum og táraföllum bænir og auðmjúk andvörð fyrir þann, sem megnaði að frelsa hann frá dauða, og fékk bænheyrslu vegna guðhræðslu sinnar. Og þótt hann sonur væri, lærði hann hlýðni af því, sem hann leið. Þegar hann var orðinn fullkominn [í hlýðni], gjörðist hann öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis.“ Jesús hvikaði ekki, jafnvel þótt hann yrði að halda út allt fram í dauða sem maður, er hann hlyti ‚hælmar‘ frá hinum hatursfulla höggormi. (1. Mósebók 3:15) Megum við alltaf, eins og Jesús, sýna guðhræðslu, jafnvel fram í dauða ef þörf krefur, í fullu trausti þess að Jehóva Guð muni heyra áköll okkar og veita okkur hjálpræði.
‚Lifað réttlætinu‘
7. Hvaða fyrirmynd eftirlét Kristur okkur samkvæmt 1. Pétursbréfi 2:21-24, og hvaða áhrif ætti lífsstefna hans að hafa á okkur?
7 Er Jesús hafði ‚opinberast í holdi‘ svipti hann trúfastur hulunni af hinum heilaga leyndardómi guðrækninnar. Við lesum í 1. Pétursbréfi 2:21-24: „Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor. ‚Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans.‘ Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir. Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu.“ Er við hugleiðum lífsstefnu Jesú hvetur það okkur sannarlega til að ástunda guðrækni, varðveita ráðvendni og lifa réttlætinu eins og hann gerði!
8. Hvernig getum við lifað réttlætinu eins og Jesús gerði?
8 Jesús lifði sannarlega réttlætinu. Sálmur 45:8 spáði um hann: „Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti.“ Páll postuli heimfærði þessi orð á Jesú og sagði í Hebreabréfinu 1:9: „Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti.“ Megum við, í ljósi þess skilnings sem við höfum á hinum heilaga leyndardómi guðrækninnar, alltaf elska það sem er rétt og hata það sem er illt, líkt og Jesús. Verum staðráðin í að lifa réttlætinu, að halda fast við réttlátar meginreglur Jehóva hvað varðar kristið siðferði sem sætir nú svo harkalegum árásum frá heimi Satans, og ennig í öllum samskiptum okkar við aðra, innan skipulags Guðs sem utan. Og við skulum stöðugt nærast á orði Guðs til að geta búið yfir innsæi frá Guði sem er svo nauðsynlegt til að standa gegn djöflinum og vélabrögðum hans!
9. Hvað hvatti Jesú enn frekar til að vera kostgæfur í þjónustunni og hvað útheimti það í sambandi við falska trúarhirða?
9 Það var fleira sem hvatti Jesú til að vera kostgæfur í þjónustu sinni. Hvað var það? Í Matteusi 9:36 lesum við: „Er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa.“ Jesús tók því að ‚kenna þeim margt.‘ (Markús 6:34) Af illri nauðsyn fól það í sér að afhjúpa illsku og lögleysi falskra hirða á vettvangi trúarinnar. Samkvæmt Matteusi 15:7-9 sagði Jesús við suma þeirra: „Hræsnarar, sannspár var Jesaja um yður, er hann segir: Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.“
Átakanlegur leyndardómur
10. Að hverjum snýr ‚leyndardómur lögleysisins‘ nú á dögum og um hvað eru þeir sekir?
10 Við sem nú lifum getum á sama hátt harmað þann leyndardóm sem stingur mjög í stúf við heilagan leyndardóm guðrækninnar. Í 2. Þessaloníkubréf 2:7 (NW) kallaði Páll hann ‚leyndardóm lögleysisins.‘ Þetta var leyndardómur á þeim tíma vegna þess að hann myndi ekki opinberast fyrr en löngu eftir dauða postulanna. Núna snýr hann að klerkum kristna heimsins sem hafa meiri áhuga á stjórnmálum en því að boða fagnaðarerindið um réttlátt ríki Guðs. Hræsni er mikil þeirra á meðal. Sjónvarpsprédikarar mótmælenda innan kristna heimsins eru augljóst dæmi: Loddarar sem rýja hjarðir sínar, byggja upp milljónaveldi, leggja lag sitt við vændiskonur, gráta krókódílatárum þegar þeir eru afhjúpaðir og betla linnulaust peninga, meiri og meiri peninga. Í Páfagarði rómversk-kapólskra er að sjá sömu ópverramyndina með samviskulausum stjórnmálasamböndum, íburði og sýndarmennsku út á við og spilltri bankastarfsemi.
11. Hvað mun verða um klerkastétt kristna heimsins og Babýlon hina miklu alla?
11 Engin furða er að klerkastétt kristna heimsins skuli vera kölluð „lögleysinginn“! (2. Þessaloníkubréf 2:3, neðanmáls) Þessi áhrifamesti hluti skækjunnar, Babýlonar hinnar miklu, mun verða fullkomlega afhjúpaður og eyðilagður ásamt falstrúarbrögðum í heild sinni. Eins og við lesum í Opinberunarbókinni 18:9-17 munu stjórnmálamenn og kaupmenn (ásamt bankamönnum sínum) reka upp ramakvein: „Vei, vei, borgin mikla.“ Babýlon hin mikla og leyndardómar hennar hafa verið afhjúpaðir og eru alger andstæða alls þess sem lýsir upp hinn heilaga leyndardóm guðrækninnar.
12. Hvað kom kærleikur Jesú til réttlætisins honum til að gera?
12 Kærleikur Jesú til réttlætisins og hatur á ranglætinu kom honum til að leggja sig kappsamlega fram í þágu sannrar guðsdýrkunar og hlífa sér ekki. Í fyrstu heimsókn sinni til Jerúsalem sem smurður sonur Guðs rak hann kaupmenn og víxlara út úr musterinu og sagði: „Burt með þetta héðan. Gjörið ekki hús föður míns að sölubúð.“ (Jóhannes 2:13-17) Öðru sinni var hann í musterinu og sagði þá Gyðingum sem voru andstæðingar hans: „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir.“ (Jóhannes 8:44) Jesús sýndi ekki lítið hugrekki með því að segja þessum trúarofstækismönnum upp í opið geðið að þeir væru lygarar og sýnir djöfulsins!
13. (a) Á hvaða sviði birtist hatur Jesú á lögleysinu öðrum fremur? (b) Hvers vegna verðskulda löglausir klerkar sams konar dóm og Jesús kvað upp yfir hinum skriftlærðu og faríseum?
13 Hatur Jesú á ranglætinu kemur hvergi betur fram en í vægðarlausri fordæmingu hans á hinum skriftlærðu og faríseunum, sem hann líkti við nöðrur, eins og fram kemur í Matteusi kafla 23. Þar lýsir hann yfir sjöföldu ‚veii‘ og líkir þeim við ‚hvítkalkaðar grafir fullar af alls kyns óhreinleika, hræsni og ranglæti.‘ Jesús hafði brennandi löngun að frelsa hina kúguðu undan þessu ranglæti! „Jerúsalem, Jerúsalem!“ hrópaði hann, „Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið.“ (Vers 37, 38) Ranglátir klerkar okkar daga verðskulda sams konar dóm því að, svo notuð séu orð 2. Þessaloníkubréfs 2:12, ‚trúa þeir ekki sannleikanum en hafa velþóknun á ranglætinu.‘ Lögleysi þeirra er alger andstæða guðrækninnar sem Jesús sýndi svo trúfastlega meðan hann var hér á jörð.
Dómar Guðs boðaðir
14. Hvað ætti jákvætt mat okkar á hinum heilaga leyndardómi guðrækninnar að koma okkur til að gera?
14 Jákvætt mat okkar á hinum heilaga leyndardómi guðrækninnar ætti að koma okkur til að feta alltaf nákvæmlega í fótspor Jesú. Líkt og hann ættum við að vera kostgæf í því að boða það sem Jesaja 61:2 kallar „náðarár [Jehóva] og hefndardag Guðs vors.“ Megum við af kostgæfni gera okkar til að „hugga alla hrellda.“ Það kostar hugrekki nú á dögum, líkt og á dögum Jesú, að boða dóma Jehóva, meðal annars hinn magnaða boðskap í greinum Varðturnsins og í bókinni Opinberunarbókin — hið mikla hámark hennar er í nánd! Við verðum að prédika af dirfsku og háttvísi og láta mál okkar alltaf vera „salti kryddað“ þannig að það hljómi smekklega í eyrum þeirra sem hneigjast til réttlætis. (Kólossubréfið 4:6) Þar eð við höfum lært af fordæmi Jesú, megum við þá geta skýrt frá því, þegar þar að kemur, að við höfum lokið því starfi sem Jehóva fól okkur. — Matteus 24:14; Jóhannes 17:4.
15. Hvað hefur gerst frá 1914 að því er varðar heilagan leyndardóm Guðs?
15 Meðan Jesús opinberaðist í holdi gaf hann okkur frábæra fyrirmynd til eftirbreytni! Hann sýndi greinilega hvernig hinn heilagi leyndardómur guðrækninnar uppfylltist á honum. Hann miklaði djarflega nafn Jehóva. Og faðir Jesú umbunaði honum ríkulega fyrir ráðvendni hans. En það er enn fleira fólgið í heilögum leyndardómi Guðs. Frá 1914 höfum við lifað á „Drottins degi.“ (Opinberunarbókin 1:10) Eins og Opinberunarbókin 10:7 segir er þá kominn tími til að ‚heilagur leyndardómur Guðs komi fram.‘ Himneskar raddir hafa nú boðað: „Heimsríkið er orðið ríki Drottins vors [Jehóva] og hans Smurða, og hann mun ríkja um aldir alda.“ (Opinberunarbókin 11:15; ísl. bi. 1912) Jehóva hefur sett Jesú sem messíasarkonung í hið dýrlega hásæti sem meðstjórnanda sinn.
16. Hvernig var hinn nýkrýndi konungur, Jesús Kristur, skjótur til að sýna hve mikils hann mat guðrækni á himnum?
16 Sem meðstjórnandi Guðs í hinu nýfædda ríki er Jesús einnig kallaður Míkael (sem merkir „hver er Guði líkur?“). Engum uppreisnarsegg mun nokkurn tíma takast að vera líkur Guði og hinn nýkrýndi konungur var skjótur til að sýna fram á það með því að varpa hinum gamla höggormi, Satan, og englum hans niður til jarðar. (Opinberunarbókin 12:7-9) Já, Jesús metur guðrækni mikils á himnum, alveg eins og hann lét í ljós guðrækni hér á jörð. Hinn dýrlega gerði Jesús Kristur mun ekki hvílast fyrr en hann hefur gert út af við fölsk trúarbrögð og afmáð algerlega skipulag Satans, bæði sýnilegt og ósýnilegt.
17. Hvað hefur verið að gerast frá 1914 til uppfyllingar Matteusi 25:31-33?
17 Frá 1914 hefur spádómur Jesú sjálfs í Matteusi 25:31-33 varpað skæru ljósi á heilagan leyndardóm Guðs. Þar lýsir Jesús yfir: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri.“ Frá sjónarhóli sínum á himni mun þessi dýrlegi konungur og dómari fullnægja hefnd, fyrst á lögleysingjanum og öðrum brotum Babýlonar hinnar miklu, og síðan á öllu því sem eftir er af hinu illa, jarðneska skipulagi Satans og stuðningsmönnum þess sem líkjast höfrum. Satan verður síðan settur í undirdjúp. (Opinberunarbókin 20:1-3) En hinir sauðumlíku, „réttlátu“ menn munu fara til eilífs lífs. (Matteus 25:46) Megi guðrækni þín skipa þér í þann flokk!
18. Hvaða gleðileg sérréttindi höfum við í tengslum við heilagan leyndardóm guðrækninnar?
18 Opinberunarbókin 19:10 hvetur okkur til að ‚tilbiðja Guð.‘ Hvers vegna? Þar segir áfram: „Vitnisburður Jesú er andi spádómsgáfunnar.“ Ótalmargir spádómar til forna báru vitni um Jesú. Með uppfyllingu þessara spádóma hefur heilagur leyndardómur Guðs orðið tær og auðskilinn. Það er okkur því mikið fagnaðarefni að vita að hinn heilagi leyndardómur guðrækninnar persónugerðist í Jesú. Það eru óviðjafnanleg sérréttindi okkar að mega feta í fótspor hans sem auðmjúkir þjónar Guðsríkis. Já, okkur er mikill heiður sýndur að fá að skilja allan hinn heilaga leyndardóm Guðs eins og hann hefur berið boðaður!
Hvert er svar þitt?
◻ Hvað getum við lært af fordæmi Jesú í guðrækni?
◻ Hvernig getum við lifað réttlætinu eins og Kristur gerði?
◻ Hvaða átakanlegur leyndardómur stingur mjög í stúf við heilagan leyndardóm guðrækninnar?
◻ Hvað ætti jákvætt mat okkar á hinum heilaga leyndardómi guðrækninnar að koma okkur til að gera?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Sem málsvari guðrækni og kostgæfur boðberi Guðsríkis gat Jesús sagt Pílatusi: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“
[Mynd á blaðsíðu 26]
Guðrækni Jesú birtist vel er hann fordæmdi hina skriftlærðu og faríseana.