19. námskafli
Láttu framför þína vera öllum augljósa
1 Nú hefurðu farið rækilega yfir efni þessa bæklings og notfært þér leiðbeiningar hans. Geturðu þá útskrifast úr Guðveldisskólanum? Síður en svo, því að kennsla Guðveldisskólans byggist á símenntun. Þú verður aldrei fullnuma í þekkingunni frá Guði og þeirri þjálfun sem hún veitir. Þú getur verið iðinn nemandi og haldið áfram að taka framförum sem eru augljósar öllum er þekkja þig.
2 Páll postuli hvatti hinn unga trúbróður sinn, Tímóteus, til að vera „kostgæfinn að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna“ og að ‚stunda það sem hann hefði lært, vera allur í því til þess að framför hans yrði öllum augljós.‘ (1. Tím. 4:13, 15) Þú tilbiður þennan sama Guð og getur líka látið framför þína vera öllum augljósa. Þú getur haldið áfram að taka framförum án þess að verða nokkurn tíma fullnuma. Jehóva er uppspretta sannrar þekkingar, uppspretta sem er eins og ótæmandi brunnur með hressandi vatni. Við getum aldrei mælt dýpi hans til hlítar en við getum hins vegar ausið úr honum lífi og krafti um alla eilífð. (Rómv. 11:33, 34; Jes. 55:8, 9) En hvernig geta allir séð framför þína?
3 Hvernig merkja má framfarir. Framfarir þínar birtast meðal annars í ræðum þínum í skólanum. Þér finnst kannski sjálfum að þú hafir ekki tekið miklum framförum en aðrir taka trúlega betur eftir þeim. Að þessu leyti erum við eins og börn er óska þess að það taki ekki svona langan tíma að stækka, en þegar ættingjar koma í heimsókn hrópa þeir upp yfir sig: „Mikið ertu orðinn stór!“ Hugsaðu til baka til fyrstu nemendaræðunnar sem þú fluttir í skólanum. Manstu eftir henni? Berðu hana saman við ræðurnar sem þú hefur flutt nýverið. Hefurðu ekki lært mikið og öðlast dýrmæta reynslu síðan? Haltu því áfram.
4 Framfarir birtast í fleiru en ræðum í skólanum. Þær koma einnig í ljós á öðrum safnaðarsamkomum. Sækirðu samkomur að staðaldri? Ef þú gerir það ber það vott um að þú hafir tekið framförum, og að þú kunnir að meta það sem Jehóva gerir til að tryggja andlega velferð okkar. Svör þín á samkomum geta borið vitni um framfarir. Það er framfaramerki að svara með eigin orðum í stað þess að lesa svörin upp. Og þeir sem tjá sig um gildi námsefnisins fyrir daglegt líf sýna að þeir séu að þroska með sér hyggindi og dómgreind. Regluleg samkomusókn og þátttaka í samkomunum kemur einnig til álita þegar framfarir eru metnar.
5 Og hvað um framfarir þínar í boðunarstarfinu? Manstu hvernig þér var innanbrjósts þegar þú fórst í starfið í fyrsta sinn og stóðst við fyrstu dyrnar? Berðu það saman við færni þína í boðunarstarfinu núna. Þú hefur tekið framförum, er það ekki? Samt viðurkennirðu eflaust að þú getir enn þá tekið framförum í prédikun og kennslu. Og gætirðu tekið enn meiri þátt í öllum þjónustugreinum sem þú átt kost á? Páll postuli hvatti: „Þér hafið numið af oss, hvernig yður ber að breyta og þóknast Guði, og þannig breytið þér líka. En takið enn meiri framförum.“ (1. Þess. 4:1) Þegar þú tekur enn meiri framförum og eykur þátttöku þína í þjónustu Jehóva verður þú bæði færari í að prédika og kenna og metur meira þau sérréttindi að þjóna Jehóva. Jafnvel þegar viðbrögð fólks eru ekki sem best líturðu á það sem sérréttindi að láta Jehóva nota þig til að bera boðskap sinn til fólks.
6 Samræður manns bera líka vitni um framfarir hans. Jesús sagði að ‚munnurinn mælti af gnægð hjartans.‘ (Lúk. 6:45) Þegar samræðurnar snúast í vaxandi mæli um Jehóva og tilgang hans er það greinilegt merki þess að við tökum framförum. Það sýnir að við metum Jehóva enn meir og erum að efla tengsl okkar við hann. Og því nánara sem samband okkar við hann er, þeim mun meiri vernd er það fyrir okkur.
7 Að fylgja meginreglum Biblíunnar í daglegu lífi er einnig framfaramerki. Gerir þú ekki margt öðruvísi núna eftir að þú kynntist orði Jehóva? Líklegt er að þessi framför þín í að fylgja vilja Jehóva endurspeglist í öllu sem þú gerir. Hún sýnir sig á heimilinu í samskiptum þínum við fjölskylduna. Hún birtist í því hvernig þú axlar ábyrgð þína. Þú gætir þess betur en áður að fylgja meginreglum Biblíunnar í veraldlegri vinnu. Allt ber þetta vitni um að þú hafir tekið framförum. En við getum öll unnið að því að taka enn meiri framförum og leitast við að fylgja meginreglum Biblíunnar enn betur.
8 Bjóddu þig fram. Önnur leið til að gera framfarir þínar augljósar er sú að þú bjóðir þig í auknum mæli fram í þjónustu Jehóva. Sálmur 110:3 segir: „Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum.“ Er hægt að segja þetta um þig? Gætirðu gert það í enn ríkari mæli í framtíðinni?
9 Þú getur sýnt fúsleika þinn með því að vera tilbúinn að hjálpa öðrum og sýna þeim ósvikna umhyggju. Öldungar safnaðarins gætu beðið þig að aðstoða bræður eða systur á einhvern hátt. Sumir þurfa kannski hjálp til að komast á samkomur. Geturðu aðstoðað? Þú þarft ekki að bíða þangað til einhver biður þig um aðstoð. Þú getur sjálfur boðið fram aðstoð ef þú sérð að einhver þarfnast hennar. Er einhver veikur eða liggur á spítala? Þú þarft ekki að bíða þangað til öldungarnir vekja athygli þína á því heldur geturðu átt frumkvæðið og farið í heimsókn eða boðið fram aðstoð á einhvern hátt ef þú veist að þörfin er fyrir hendi. Hefurðu reglulegt fjölskyldunám með hjálp Biblíunnar? Gæti það hjálpað fjölskyldu, sem er ný í sannleikanum og hefur ekki fjölskyldubiblíunám, að þú byðir henni að vera með í biblíunámi ykkar annað slagið? Ertu vanur að fara einn í boðunarstarfið? Kannski myndu aðrir boðberar taka því feginshendi ef þú byðir þeim að starfa með þér. Hví ekki að ákveða fyrirfram samstarf við annan boðbera? Já, þjónar Jehóva eru önnum kafnir nú á dögum en hjálpfýsi gagnvart bræðrum okkar og systrum er góður mælikvarði á framfarir okkar. „Þess vegna skulum vér, meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.“ — Gal. 6:10.
10 Ef þú ert bróðir geturðu boðið þig fram með því að sækjast eftir að uppfylla þær kröfur sem orð Guðs gerir til forystumanna safnaðarins. Fyrra Tímóteusarbréf 3:1 hrósar þeim er sækjast eftir umsjónarstöðu. Málið snýst ekki um það að pota sér áfram til að láta taka eftir sér eða keppa við aðra heldur að vinna að því að verða þroskaður kristinn maður, „öldungur“ sem er hæfur og fús til að þjóna á hverjum þeim vettvangi sem þarf. Og í öllum söfnuðunum er þörf fyrir marga „öldunga“ til að taka forystuna í boðunarstarfi, kennslu og safnaðarábyrgð.
11 Þeir sem eru fúsir til geta notið margs konar sérréttinda í söfnuðinum. Kannski eru þeir beðnir um að taka þátt í sýnikennslu á þjónustusamkomu eða aðstoða öldungana eða safnaðarþjónana af því að þeir hafa sýnt sig fúsa og verið áreiðanlegir í að sinna hverju því verkefni sem þeim hefur verið falið. Þegar þörf gerist getur vilji þeirra og framfarir stuðlað að því að mælt verði með þeim sem safnaðarþjónum. Hvers vegna eru þeir útnefndir? Vegna þess að þeir hafa sýnt fúsleika og tekið framförum, og nú uppfylla þeir þær hæfniskröfur sem Jehóva setur fram í orði sínu. Útnefndum safnaðarþjónum er boðið að sitja reglubundin námskeið Ríkisþjónustuskólans þar sem þeir fá viðbótarþjálfun í að sjá um safnaðarmál.
12 Ýmis önnur sérréttindi standa öllum til boða sem eru fúsir til og geta þegið þau aðstæðna vegna. Gætirðu verið aðstoðarbrautryðjandi líkt og tugþúsundir annarra boðbera? Kannski gætirðu jafnvel slegist í vaxandi hóp reglulegra brautryðjenda. Eru aðstæður þínar og afstaða til þjónustu Jehóva þannig að þú getir jafnvel flutt á annan stað til að þjóna þar sem þörfin er meiri? Margir hafa gert það sem sérbrautryðjendur eða með því að sækja Gíleaðskólann og gerast síðan trúboðar, eða með því að flytja þangað sem þörfin er meiri. Sumir þjóna á hinum ýmsu Betelheimilum víðsvegar um heiminn. Þeir hafa uppskorið ríkulega blessun af því að þeir buðu sig fúslega fram í þjónustu Jehóva.
13 Við lifum á spennandi tímum. Jehóva er að láta vinna stórkostlegt boðunar- og kennslustarf um heim allan núna á „síðustu dögum.“ Þegar Jehóva hvetur okkur fyrir atbeina skipulags síns til ákveðinnar þjónustu skaltu spyrja þig: „Er Jehóva að segja þetta við mig?“ Íhugaðu aðstæður þínar. Rannsakaðu hjarta þitt. Það er mjög líklegt að þú hafir nú þegar tekið vissum framförum og sýnir ákveðinn fúsleika og er það gott. En geturðu tekið framförum á fleiri sviðum með því að bjóða þig fram í enn ríkari mæli? Þú uppskerð ríkulega blessun þegar þú verður enn næmari fyrir handleiðslu Jehóva og fylgir leiðsögn hans. Fúsir þjónar Jehóva um allan heim eru til vitnis um það. Mesta blessunin sem okkur býðst, eilíft líf í nýjum heimi Guðs, er háð framförum okkar. Þess vegna hvetur orð Guðs: „Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós. Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ — 1. Tím. 4:15, 16.
[Spurningar]
1, 2. Af hverju ættum við öll að stefna að framförum?
3, 4. Hvernig birtast framfarir okkar í Guðveldisskólanum og á öðrum safnaðarsamkomum?
5. Hvað ber vitni um framfarir í boðunarstarfinu?
6. Hvernig geta samræður okkar borið vitni um andlegan vöxt?
7. Hvar sýnir það sig ef við tökum framförum í að fara eftir meginreglum Biblíunnar?
8, 9. Til hvers bendir það ef við erum fús til að hjálpa öðrum boðberum og hvaða tækifæri höfum við til þess?
10, 11. Hvernig geta bræður boðið sig fram í samræmi við 1. Tímóteusarbréf 3:1?
12, 13. Hvaða önnur sérréttindi standa þeim til boða sem eru fúsir og geta boðið sig fram?