Auðsýnið í þolgæðinu guðrækni
‚Auðsýnið í trú yðar . . . þolgæði, í þolgæðinu guðrækni.‘ — 2. PÉTURSBRÉF 1:5, 6.
1, 2. (a) Hvernig vexti reiknum við með hjá börnum? (b) Hversu mikilvægt er að vaxa andlega?
BARN þarf að vaxa og þroskast. Líkamlegi vöxturinn þarf að haldast í hendur við andlegan og tilfinningalegan þroska. Með tíð og tíma leggur barnið af barnaskapinn og verður fullþroska manneskja. Páll postuli hafði þetta í huga er hann skrifaði: „Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn.“ — 1. Korintubréf 13:11.
2 Páll bendir hér á mikilvægt atriði í sambandi við andlegan vöxt. Kristnir menn þurfa að vaxa upp úr andlegum barnaskap og verða „fullorðnir í dómgreind.“ (1. Korintubréf 14:20) Þeir ættu að leggja sig fram um að ná „vaxtartakmarki Krists fyllingar.“ Þá eru þeir ekki „börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi.“ — Efesusbréfið 4:13, 14.
3, 4. (a) Hvað þurfum við að gera til að verða andlega fullvaxta? (b) Hvaða eiginleika, sem eru Guði að skapi, ættum við að sýna og hversu mikilvægir eru þeir?
3 Hvernig getum við orðið andlega fullvaxta? Andlegi vöxturinn kostar meðvitaða viðleitni, ólíkt hinum líkamlega sem gerist næstum sjálfkrafa undir venjulegum kringumstæðum. Hann hefst með því að við byggjum upp nákvæma þekkingu á orði Guðs og breytum eftir því sem við lærum. (Hebreabréfið 5:14; 2. Pétursbréf 1:3) Það gerir okkur síðan kleift að sýna af okkur eiginleika sem eru Guði að skapi. Þessir eiginleikar þroskast yfirleitt samtímis líkt og ýmsir þættir líkamsvaxtarins. Pétur postuli skrifaði: „Leggið . . . alla stund á að auðsýna í trú yðar dyggð, í dyggðinni þekkingu, í þekkingunni sjálfsögun, í sjálfsöguninni þolgæði, í þolgæðinu guðrækni, í guðrækninni bróðurelsku og í bróðurelskunni kærleika.“ — 2. Pétursbréf 1:5-7.
4 Allir eiginleikarnir, sem Pétur nefnir, eru nauðsynlegir og engan má vanta. Hann bætir við: „Ef þér hafið þetta til að bera og farið vaxandi í því, munuð þér ekki verða iðjulausir né ávaxtalausir í þekkingunni á Drottni vorum Jesú Kristi.“ (2. Pétursbréf 1:8) Við skulum beina athyglinni að nauðsyn þess að auðsýna guðrækni í þolgæði okkar.
Þörfin á þolgæði
5. Hvers vegna þurfum við að vera þolgóð?
5 Bæði Pétur og Páll tengja saman guðrækni og þolgæði. (1. Tímóteusarbréf 6:11, NW) Þolgæði er meira en styrkur og staðfesta í erfiðleikum. Það felur í sér þolinmæði, hugrekki og staðfestu, að missa ekki vonina í prófraunum, mótlæti, freistingum og ofsóknum. Við búumst við ofsóknum þar eð við ‚lifum guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:12) Við verðum að vera þolgóð til að sanna kærleika okkar til Jehóva og þroska með okkur þá eiginleika sem eru nauðsynlegir til að hljóta hjálpræði. (Rómverjabréfið 5:3-5; 2. Tímóteusarbréf 4:7, 8; Jakobsbréfið 1:3, 4, 12) Við hljótum ekki eilíft líf nema við séum þolgóð. — Rómverjabréfið 2:6, 7; Hebreabréfið 10:36.
6. Hvað er fólgið í því að vera þolgóður allt til enda?
6 Óháð því hve vel við förum af stað er það á endanum þolgæðið sem máli skiptir. „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða,“ sagði Jesús. (Matteus 24:13) Já, við verðum að vera þolgóð allt til enda, hvort sem það er endirinn á lífi okkar núna eða endir þessa illa heimskerfis. Í báðum tilvikum verðum við að vera Guði ráðvönd. En við getum hvorki þóknast honum né hlotið eilíft líf nema þolgæðið haldist í hendur við guðrækni. En hvað er guðrækni?
Hvað er guðrækni?
7. Hvað er guðrækni og hvaða löngun vekur hún með okkur?
7 Guðrækni er lotning, tilbeiðsla og þjónusta við Jehóva Guð, sprottin af hollustu við drottinvald hans yfir alheimi. Til að iðka guðrækni þurfum við að hafa nákvæma þekkingu á Jehóva og vegum hans. Okkur ætti að langa til að þekkja hann persónulega og náið. Þá langar okkur til að bindast honum nánum böndum og það birtist síðan í verkum okkar og lífsstefnu. Okkur ætti að langa til að líkjast Jehóva eins vel og við mögulega getum — líkja eftir starfsháttum hans og endurspegla eiginleika hans og persónuleika. (Efesusbréfið 5:1) Já, guðræknin vekur með okkur löngun til að þóknast Guði í öllu sem við gerum. — 1. Korintubréf 10:31.
8. Hvernig haldast guðrækni og óskipt hollusta í hendur?
8 Til að iðka sanna guðrækni verðum við að tilbiðja Jehóva einan. Ekkert á að taka hans sess í hjarta okkar. Sem skapari okkar á hann rétt á óskiptri hollustu. (5. Mósebók 4:24; Jesaja 42:8) Jehóva neyðir okkur samt ekki til að tilbiðja sig. Hann vill að hollusta okkar spretti af fúsu hjarta. Það er kærleikurinn til hans, byggður á nákvæmri þekkingu á honum, sem fær okkur til að taka upp hreint líferni, vígjast honum skilyrðislaust og lifa síðan samkvæmt því.
Ræktum samband við Guð
9, 10. Hvernig getum við ræktað náið samband við Guð og viðhaldið því?
9 Eftir að við höfum látið skírast til tákns um vígslu okkar þurfum við að rækta æ nánara samband við Guð. Okkur langar til að eiga sem nánast samband við hann og þjóna honum í trúfesti þannig að við viljum halda áfram að nema orð hans og hugleiða það. Kærleikurinn til Jehóva styrkist þegar við leyfum anda hans að verka á hugi okkar og hjörtu. Sambandið við hann verður áfram það mikilvægasta í lífi okkar. Við lítum á Jehóva sem besta vin okkar og okkur langar til að þóknast honum öllum stundum. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Við höfum yndi af því að eiga samband við hann og erum þakklát fyrir að hann skuli fræða okkur ástúðlega og leiðrétta eftir þörfum. — 5. Mósebók 8:5.
10 Hið dýrmæta samband okkar við Jehóva getur veikst ef við vinnum ekki stöðugt að því að styrkja það. Það væri ekki Guði að kenna ef svo færi, því að „eigi er hann langt frá neinum af oss.“ (Postulasagan 17:27) Það er mikið fagnaðarefni að Jehóva skuli ekki gera okkur erfitt fyrir að nálgast sig. (1. Jóhannesarbréf 5:14, 15) Við verðum auðvitað að leggja okkur fram við að varðveita náið einkasamband við hann. En hann hjálpar okkur líka að nálgast sig með því að láta okkur í té allt sem við þurfum til að þroska með okkur guðrækni og viðhalda henni. (Jakobsbréfið 4:8) Hvernig getum við nýtt okkur allar þessar kærleiksríku ráðstafanir til fulls?
Haltu þér andlega sterkum
11. Í hverju birtist guðrækni okkar meðal annars?
11 Djúpstæður kærleikur til Guðs vekur með okkur löngun til að sýna hve sterk guðræknin er, eins og Páll ráðlagði: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ (2. Tímóteusarbréf 2:15) Þetta útheimtir að við stundum reglulegt biblíunám, sækjum samkomur að staðaldri og séum staðföst í boðunarstarfinu. Við getum líka haldið nánu sambandi við Jehóva með því að ‚biðja án afláts.‘ (1. Þessaloníkubréf 5:17) Þetta eru mikilvægir þættir í guðrækni okkar. Ef við vanrækjum einhvern þeirra getum við orðið andlega veik og berskjalda fyrir vélráðum Satans. — 1. Pétursbréf 5:8.
12. Hvernig getum við staðist prófraunir?
12 Við eigum líka auðveldara með að standast hinar mörgu prófraunir, sem verða á vegi okkar, ef við höldum okkur andlega sterkum og virkum. Prófraunir geta verið afar erfiðar ef þær koma úr ákveðinni átt. Það getur verið erfiðara að þola áhugaleysi, andstöðu og ofsóknir ef þær koma frá fjölskyldunni, ættingjum eða nágrönnum. Við getum verið beitt lúmskum þrýstingi á vinnustað eða í skóla til þess að víkja frá kristnum meginreglum. Vanmáttarkennd, veikindi og depurð geta dregið úr líkamsþróttinum og gert okkur erfiðara fyrir að standast trúarprófraunir. En við getum staðist allar prófraunir ef við erum þolgóð ‚í heilagri breytni og guðrækni, þannig að við væntum eftir og flýtum fyrir komu Guðs dags.‘ (2. Pétursbréf 3:11, 12) Og við getum viðhaldið gleði okkar og treyst að Guð blessi okkur. — Orðskviðirnir 10:22.
13. Hvað þurfum við að gera til að halda áfram að ástunda guðrækni?
13 Þó að þeir sem ástunda guðrækni séu skotspónn Satans er ekkert að óttast. Af hverju? Af því að Jehóva ‚veit hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu.‘ (2. Pétursbréf 2:9) Til að standast prófraunir og finna hvernig Jehóva hrífur okkur úr þeim þurfum við að „afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum.“ (Títusarbréfið 2:12) Við sem erum kristin verðum að halda vöku okkar þannig að veikleikar, svo sem holdleg verk og langanir, veiki ekki guðrækni okkar og kæfi hana. Lítum nánar á sumt af því sem getur ógnað guðrækninni.
Varastu hættur sem ógna guðrækninni
14. Hvað ættum við að hafa hugfast ef efnishyggjan togar í okkur?
14 Margir festast í snöru efnishyggjunnar. Við gætum blekkt okkur og farið að líta á ‚guðhræðsluna sem gróðaveg‘ með þeim afleiðingum að við leyfðum okkur að misnota traust trúsystkina okkar. (1. Tímóteusarbréf 6:5) Við gætum jafnvel ranglega hugsað sem svo að það sé í lagi að herja lán út úr efnuðum trúbróður þótt litlar líkur séu á að við getum endurgreitt það. (Sálmur 37:21) En það er guðrækni en ekki efnislegir hlutir sem „hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.“ (1. Tímóteusarbréf 4:8) Við höfum ‚ekki flutt neitt inn í heiminn og getum ekki heldur flutt neitt út þaðan‘ þannig að við skulum vera staðráðin í að vera guðrækin og nægjusöm og gera okkur ánægð með ‚fæði og klæði.‘ — 1. Tímóteusarbréf 6:6-11.
15. Hvað getum við gert ef guðrækni okkar stafar hætta af afþreyingu og skemmtanalífi?
15 Afþreying og skemmtanalíf geta kæft guðræknina. Getur verið að við þurfum að leiðrétta stefnu okkar þegar í stað á þessu sviði? Líkamsrækt og afþreying er auðvitað gagnleg að vissu marki en gagnið er lítilfjörlegt í samanburði við eilíft líf. (1. Jóhannesarbréf 2:25) Margir ‚elska munaðarlífið meira en Guð og hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar en afneita krafti hennar.‘ Við þurfum að forðast umgengni við slíka menn. (2. Tímóteusarbréf 3:4, 5) Þeir sem leggja áherslu á guðrækni „safna . . .handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og munu geta höndlað hið sanna líf.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:19.
16. Hvaða syndugar langanir hindra suma í að lifa eftir réttlátum kröfum Guðs og hvernig getum við unnið bug á þeim?
16 Ofnotkun áfengis, neysla fíkniefna, siðleysi og syndugar langanir geta gert út af við guðrækni okkar. Ef við látum undan einhverju af þessu getur það komið í veg fyrir að við lifum í samræmi við réttlátar kröfur Guðs. (1. Korintubréf 6:9, 10; 2. Korintubréf 7:1) Meira að segja Páll átti í stöðugri baráttu við hið synduga hold sitt. (Rómverjabréfið 7:21-25) Það þarf róttækar aðgerðir til að uppræta rangar langanir. Við verðum að vera staðráðin í að halda okkur siðferðilega hreinum. Páll segir okkur: „Deyðið . . . hið jarðneska í fari yðar: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd, sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun.“ (Kólossubréfið 3:5) Til að deyða syndugar tilhneigingar í fari okkar þurfum við að vera ákveðin í að útrýma þeim. Ef við biðjum einlæglega um hjálp Guðs getum við hafnað röngum löngunum og stundað réttlæti og guðrækni í þessu illa heimskerfi.
17. Hvernig ættum við að líta á aga?
17 Depurð og kjarkleysi geta veikt þolgæðið og haft skaðleg áhrif á guðrækni okkar. Margir þjónar Jehóva hafa orðið daprir og niðurdregnir. (4. Mósebók 11:11-15; Esrabók 4:4; Jónas 4:3) Tilfinningin getur verið sérstaklega niðurdrepandi ef okkur finnst við hafa verið lítilsvirt eða höfum fengið harkalega ofanígjöf eða ögun og erum sár og reið. En ögun og áminningar eru merki um áhuga Guðs, kærleika og umhyggju. (Hebreabréfið 12:5-7, 10, 11) Við ættum ekki aðeins að líta á ögun sem refsingu heldur sem hjálp til að fylgja vegi réttlætisins. Ef við erum auðmjúk kunnum við að meta leiðbeiningar og tökum þeim vel, minnug þess að ‚agandi áminningar eru leið til lífsins.‘ (Orðskviðirnir 6:23) Þetta getur hjálpað okkur að taka góðum framförum í trúnni og guðrækninni.
18. Hver er ábyrgð okkar í sambandi við móðganir?
18 Misskilningur og móðganir geta reynt á guðrækni okkar. Slíkt getur valdið okkur áhyggjum og jafnvel orðið til þess að við einangrum okkur frá trúsystkinum okkar, þótt óviturlegt sé. (Orðskviðirnir 18:1, NW) En við ættum að hafa hugfast að gremja og óvild í garð annarra getur haft skaðleg áhrif á samband okkar við Jehóva. (3. Mósebók 19:18) „Sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.“ (1. Jóhannesarbréf 4:20) Jesús lagði áherslu á það í fjallræðunni að við yrðum að gera ráðstafanir tafarlaust til að setja niður ágreining. Hann sagði áheyrendum sínum: „Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína.“ (Matteus 5:23, 24) Með því að biðjast afsökunar er oft hægt að græða sár sem óvingjarnleg orð eða verk hafa valdið. Hægt er að afstýra vinaslitum og eiga friðsamleg samskipti áfram með því að biðjast fyrirgefningar og viðurkenna að við höfum tekið rangt á málum. Jesús gaf líka ýmsar aðrar leiðbeiningar um það hvernig taka mætti á vandamálum. (Matteus 18:15-17) Það er einkar ánægjulegt þegar viðleitni okkar til að leysa vandamál ber árangur. — Rómverjabréfið 12:18; Efesusbréfið 4:26, 27.
Fylgdu fordæmi Jesú
19. Hvers vegna er afar mikilvægt að líkja eftir fordæmi Jesú?
19 Við verðum fyrir prófraunum, það er óhjákvæmilegt, en þær þurfa ekki að fella okkur úr hlaupinu um eilífa lífið. Munum að Jehóva getur frelsað okkur úr prófraunum. Við skulum ‚létta af okkur allri byrði‘ og ‚beina sjónum okkar að Jesú, höfundi og fullkomnara trúarinnar,‘ er við ‚þreytum þolgóð skeið það sem við eigum framundan.‘ (Hebreabréfið 12:1-3) Með því að grannskoða fordæmi Jesú og leggja okkur fram um að líkja eftir honum í orðum og verkum auðveldum við okkur að þroska guðræknina og sýna hana í ríkari mæli.
20. Hvaða umbun hljótum við fyrir þolgæði okkar og guðrækni?
20 Þolgæði og guðrækni vinna saman að hjálpræði okkar. Ef við sýnum þessa dýrmætu eiginleika getum við haldið áfram að þjóna Guði í trúfesti. Við getum jafnvel verið glöð í prófraunum þegar við finnum fyrir ástúð Jehóva og blessun sem hann veitir okkur fyrir að vera þolgóð og guðrækin. (Jakobsbréfið 5:11) Og Jesús fullvissar okkur um að ‚við ávinnum sálir okkar ef við erum þrautseig og þolgóð.‘ — Lúkas 21:19.
Hvert er svarið?
• Hvers vegna er mikilvægt að vera þolgóð?
• Hvað er guðrækni og hvernig birtist hún?
• Hvernig getum við ræktað náið samband við Guð og viðhaldið því?
• Hvað getur meðal annars ógnað guðrækni okkar og hvernig getum við forðast það?
[Myndir á blaðsíðu 10, 11]
Guðrækni birtist á marga vegu.
[Myndir á blaðsíðu 12]
Varastu hættur sem ógna guðrækninni.