Velur þú sjálfur — eða lætur þú aðra velja fyrir þig?
FRAM til átta ára aldurs trúði Pedro á Maleiva sem taldist vera skapari mannsins og jarðarinnar. Hann óttaðist Yolujá sem sagður var valda alls kyns sjúkdómum og ógæfu og reyndi að komast undan illskufullum ráðagerðum Púloví, gyðju undirheimanna.
Pedro tilheyrði ættflokki Guajiroindíána, einum hinna mörgu indíánaættflokka í Venesúela. Hann fylgdi hefðbundinni trú forfeðra sinna þar til skólakennarinn á staðnum sá svo um einn góðan veðurdag að hann léti skírast — til kaþólskrar trúar.
„Enginn spurði mig álits og ég vissi ekkert um mína nýju trú,“ segir Pedro. „En ég gerði mér ljóst að það yrði ekki erfitt að taka þessa nýju trú því hún krafðist engra umtalsverðra breytinga á daglegu líferni mínu. Ég var tryggur minni nýju trú og sótti alltaf messu einhvern tíma í desembermánuði.“
Enda þótt Pedro hefði tilheyrt tvennum trúarbrögðum hafði hann hvorug valið af sjálfsdáðum. Aðrir völdu trúna fyrir hann. En það er ekkert einsdæmi í sögunni. Ótal menn hafa í aldanna rás orðið fyrir hinu sama. Í raun hafa fáir þeirra fimm milljarða manna, sem nú lifa, valið sér trú sína sjálfir. Flestir hafa tekið trúna í arf á sama hátt og þeir hafa erft ákveðið útlit og einkenni og kannski húsið sem þeir búa í.
Þau völdu sjálf
En er það sem við tökum í arf alltaf hið besta? Margir reyna með ýmsum ráðum að fegra sitt meðfædda útlit eða betrumbæta húsið sem foreldrar þeirra létu þeim eftir. Sumir heyja meira að segja harða baráttu til að sigrast á óæskilegum einkennum sem þeir hafa tekið í arf.
Af sömu ástæðu er margt fólk víða um heim farið að taka til endurskoðunar þá trú sem það tók í arf frá feðrum sínum. Í stað þess að líta á það sem svik við fjölskylduhefð er beri að halda gagnrýnislaust í heiðri hefur andlegt hungur þess komið því til að leita að einhverju betra. Það gerði til dæmis Hiroko en faðir hennar var búddhaprestur við Myokyo musterið í Japan. Hún segir svo frá:
„Þegar ég var barn var ég vön að þramma fram og aftur um snæviþaktar göturnar í þorpinu okkar á köldustu vetrarnóttunum með ljósker í hendinni. Faðir minn gekk á undan, barði trumbu og sönglaði helgiljóð. Allt frá barnsaldri voru sjálfspínslir og búddhískir helgisiðir hluti af lífi mínu.“
Samt sem áður var Hiroko ekki ánægð með þá trú sem hún hafði tekið í arf. „Ég fékk ekki eitt einasta fullnægjandi svar við mínum mörgu spurningum. Menn breyttu nöfnum hinna dánu, komu fram við legsteina eins og lifandi verur eftir að sungin höfðu verið helgiljóð yfir þeim, notuðu pappírsverndargripi sem áttu að vernda hinn trúaða með undraverðum hætti og fylgdu alls konar öðrum musterissiðum. Allt þetta gerði mig einungis ráðvillta.
Mér var sagt að við tilheyrðum þeim sértrúarflokki búddhatrúarinnar sem upplýstastur væri. En samt var öllum mínum spurningum ósvarað. Ég var sannfærð um að það hlyti að vera eitthvað til einhvers staðar. Ég vonaðist til að geta kynnt mér óhindrað einhver trúarbrögð sem gætu veitt mér svör við öllum spurningunum.“ Hiroko fór frá einni austurlandatrúnni til annarrar án þess að finna það sem hún leitaði að. Að lokum lærði hún með hjálp votta Jehóva frá Biblíunni um hinn alvalda Guð, hann sem skapaði himin og jörð, og hún fékk líka svör við þeim spurningum sem höfðu leitað á hana frá barnæsku.
Orð Jeremía spámanns rættust bókstaflega á henni: „Og þér munuð leita mín og finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta, vil ég láta yður finna mig — segir Drottinn.“ — Jeremía 29:13, 14.
Hiroko fannst það rétt að taka sjálfstæða ákvörðun þótt hún veldi sér aðra trú en foreldrar hennar aðhylltust. „Ég er yfir mig glöð yfir að hafa fengið þessa upplýsingu og núna leita ekki á mig þær þrálátu spurningar og áhyggjur sem þjökuðu mig svo lengi.“ En hvort sem þú ert sæll í þinni trú eða ekki er eigi að síður nauðsynlegt að þú takir skynsamlega ákvörðun þar að lútandi.
Hvers vegna þér ber að taka ákvörðun
Flest okkar munu vafalaust fallast á að trú okkar sé mikilvægari en svo að við látum tilviljun ráða henni. Í daglegum athöfnum reynum við að ráða lífi okkar í þeim mæli sem mögulegt er. Hver vill vera fórnarlamb tilviljunar einnar?
Ef þú fengir slæman höfuðverk, myndir þú þá taka tvær töflur af handahófi úr stórri hrúgu af alls kyns ólíkum töflum, án þess að lesa fyrst vandlega miðann á töfluglasinu?
Ef þú værir að kaupa þér ný föt, myndir þú þá grípa fyrstu fötin sem þú rækist á inni í búðinni í þeirri trú að þau væru örugglega alveg mátuleg?
Ef þú værir að kaupa notaða bifreið, myndir þú þá greiða fyrir hana og aka burt án þess að líta fyrst á vélina eða yfirbygginguna?
Þú ert vafalaust þeirrar skoðunar að það væri heimskuleg fljótfærni. Menn eiga ekki að láta tilviljun ráða gerðum sínum í slíkum efnum. En þó hefur tilviljun, löngu gleymdir duttlungar sögunnar og fæðingarstaður tekið fyrir okkur eina af þýðingarmestu ákvörðunum lífsins — hvaða trú við eigum að játa.
Við hvetjum þig til að spyrja sjálfan þig: ‚Hvernig stendur á því að ég trúi eins og ég geri? Er trú mín eingöngu arfur frá foreldrum mínum eða tók ég sjálfur yfirvegaða og rökrétta ákvörðun?‘ Biblían hvetur okkur til að spyrja slíkra spurninga. Páll postuli áminnti Korintumenn um að ‚reyna sjálfa sig, hvort þeir væru í trúnni, prófa sjálfa sig.‘ — 2. Korintubréf 13:5.
Biblían greinir frá ungum manni Tímóteusi að nafni. Móðir hans og amma ólu hann upp í samræmi við kröfur Ritningarinnar. En greinilega fylgdi hann ekki í blindni þeirri trú sem þær höfðu kennt honum. Mörgum árum síðar minnti Páll postuli hann á að hann hefði ‚numið og sannfærst.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:14, Ísl. bi. 1859) Tímóteus hafði sannfærst um að hann þyrfti að halda sér við þá trú sem hann hafði verið fræddur í — en ekki fyrr en hann hafði sjálfur kynnt sér hana gaumgæfilega.
Þá voru þeir til sem fundu hvöt hjá sér til að líta um öxl og ígrunda trúarlegt uppeldi sitt. Sergíus Páll, rómverskur landstjóri á Kýpur, hafði vafalaust tilbeðið suma af guðum Rómverja. En eftir að hafa hlustað á prédikun Páls „varð hann gagntekinn af kenningu Drottins og tók trú.“ — Postulasagan 13:12.
Í báðum tilvikum tóku menn yfirvegaða ákvörðun eftir að hafa kynnt sér orð Guðs gaumgæfilega. Hví ekki að líkja eftir Sergíusi Páli og Tímóteusi? Annar skipti um trú, hinn ekki; en báðir fengu þá persónulegu umbun að finna sannleikann. Gömul hefð, ótti eða fordómar koma þó mörgum til að veigra sér við að stíga slíkt skref.
Sú áskorun að taka ákvörðun
Trúarlegar hefðir eru lífseigar og mörgum finnst aldagamlar venjur og trúarkenningar veita sér visst öryggi. „Einu sinni kaþólskur, alltaf kaþólskur,“ segja sumir. Ef til vill er þér eins innanbrjósts gagnvart trú þinni; ef til vill vilt þú frekar fylgja hinu forna en hinu óþekkta, enda væri óhyggilegt að láta sérhverja forna hefð fyrir róða án þess að brjóta gildi hennar fyrst til mergjar. Páll postuli sagði kristnum mönnum í Þessaloníku að ‚halda fast við þær kenningar sem þeir hefðu lært.‘ (2. Þessaloníkubréf 2:15) Aftur á móti varaði Jesús Kristur við því að trúarlegar erfðavenjur gætu gert okkur fjarlæga Guði og ógilt orð hans, Biblíuna. (Matteus 15:6) Fornum hefðum og erfðavenjum er ekki alltaf treystandi.
Þegar þekking manna eykst er oft breytt eða skipt alveg um aðferðir, til dæmis á sviði læknisfræði, vísinda og tækni. Á þessum sviðum er flestir fordómalausir sem stuðlar að jákvæðum breytingum. Jafnvel þótt við höldum að trúarlegar erfðavenjur okkar séu frá Guði komnar varar Biblían okkur við því að ‚trúa öllu sem við heyrum enda þótt menn segi að það sé boðskapur frá Guði.‘ (1. Jóhannesarbréf 4:1, Lifandi orð) Hún hvetur okkur til að ‚sannprófa það sem okkur er sagt í ljósi orðs Guðs til að ganga úr skugga um hvort það sé rétt og ef svo er þá taka við því.‘ (1. Þessaloníkubréf 5:21, Lifandi orð) Þær erfðavenjur, sem eru þess virði að aðhyllast þær, munu standast slíka prófun.
Ótti er önnur hindrun í vegi yfirvegaðrar ákvörðunar í trúmálum. Menn segja oft: „Ég ræði aldrei trúarbrögð eða stjórnmál!“ Óttinn við að uppgötva að við séum á villigötum eða hræðsla við það hvað aðrir kunni að hugsa er mörgum afsökun fyrir því að gera ekki neitt. Á dögum Jesú gerðu margir sér grein fyrir því hvers virði kenning hans væri en veigruðu sér við því að viðurkenna hann sem Messías „svo að þeir yrðu ekki samkundurækir. Þeir kusu heldur heiður manna en heiður frá Guði.“ — Jóhannes 12:42, 43.
Þessir samtíðarmenn Jesú misstu af því einstæða tækifæri að verða lærisveinar Krists vegna þess að þeir létu undan þrýstingi þessa þröngsýna trúarsamfélags. Vissulega kallar það á hugrekki að berjast á móti straumnum. Það er aldrei auðvelt að vera frábrugðinn öðrum. En ef þú tekur ekki sjálfur ákvörðun er óhjákvæmilegt að aðrir geri það fyrir þig.
Fordómar gegn öllu sem er „ókunnugt“ eða „erlent“ geta líka verið þeim fjötur um fót sem langar til að kynna sér málið hlutdrægnislaust. Á dögum Jesú litu menn niður á Messías fyrir að vera Nasarei og höfðu andstyggð á honum fyrir að vera Galíleumaður. Mjög líka fordóma er að finna núna á 20. öldinni. — Jóhannes 1:46; 7:52.
Þegar einn votta Jehóva bauðst til að kynna trú sína fyrir Ricardo voru fyrstu viðbrögð hans þau að ‚þetta væru ein af þessum nýju amerísku trúarbrögðum.‘ Hann var frá Rómönsku-Ameríku og sökum uppruna síns tortrygginn á allt sem bar keim af því að vera bandarískt. En fordómar hans urðu að víkja fyrir þeim upplýsingum og rökum sem hann fékk. Sérstaklega sannfærðist hann af því að sjá kristnina birtast í verki meðal vottanna. Hinn ósvikni kærleikur þeirra og trú höfðaði til hans. — Sjá rammann á bls. 18.
Eftir að hafa lagt fordóma sína til hliðar gat Ricardo tekið undir með þeim sem sagði að „í skipulagi sínu og vitnisburðarstarfi“ séu vottar Jehóva „sá hópur sem kemst næst hinu frumkristna samfélagi.“ Núna er Ricardo þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að vera fordómalaus til að geta tekið sem skynsamlegasta ákvörðun.
Hvað velur þú?
Pedro, sem nefndur var í byrjun greinarinnar, yfirsté erfðavenjur, ótta og fordóma í þeim tilgangi að nema Biblíuna sjálfur. Í fyrstu var hann haldinn nokkrum efasemdum sökum þess að trúarbrögð almennt höfðu brugðist vonum hans. Hann segir: „Hvorki trú mín á Maleiva né trú mín á Guð kaþólskra, sem ég þekkti ekki einu sinni með nafni, hafði veitt mér mikla hamingju.“ En að lokum kaus hann að gerast einn votta Jehóva og lét skírast sem slíkur 36 ára að aldri. „Kærleikur og þolinmæði þeirra sem hjálpuðu mér og þau fullnægjandi svör sem ég fékk frá Biblíunni réðu úrslitum,“ segir hann.
Hefur þú hugrekki til að líkja eftir Pedro? Hver sem trú þín kann að vera skalt þú ekki láta tilviljun ráða henni. Notaðu orð Guðs til að sannreyna sjálfur hver sé sannleikurinn, hinn einstæði og dýrmæti sannleikur sem Jesús kenndi. Vottar Jehóva munu fúslega veita þér aðstoð. Þeir hvetja þig í einlægni til að fylgja orðum Jósúa: ‚Kjósið hverjum þið viljið þjóna.‘ — Jósúabók 24:15.
[Rammi á blaðsíðu 18]
Eru vottar Jehóva „amerísk trú“?
MARGIR eru vegna þjóðernishyggju tortryggnir gagnvart öllu sem er álitið útlent eða framandi. Það setur jafnvel mark sitt á viðhorf þeirra til annarra trúarbragða.
Vottar Jehóva mæta oft þessu viðhorfi og eru sakaðir um að vera amerískt trúfélag. Þeim er stundum vísað á bug af þeim sökum. En á þetta viðhorf sér skynsamlegar forsendur?
Hverjar eru staðreyndirnar?
1. Miðað við íbúatölu eru fleiri vottar í Costa Ríca, Finnlandi, Jamaíka, Kanada, Púertó Ríco, Sambíu og fleiri löndum en í Bandaríkjunum.
2. Vottar Jehóva eru meira en alþjóðleg trúarbrögð. Þeir eru yfir landamæri, þjóðernis- og kynþáttahagsmuni hafnir. Það er vert að veita athygli þeim góða árangri sem vottar Jehóva hafa náð í að sigrast á kynþátta-, ættflokka- og þjóðernisfordómum. En það hefur tekist í Suður-Afríku, Ísrael, Líbanon, Norður-Írlandi og öðrum löndum þar sem er barátta og ólga af trúarlegum toga. Svartir og hvítir, Gyðingar og Arabar, fyrrum kaþólskir og mótmælendur, sem nú eru vottar Jehóva, starfa og dýrka Guð saman á mótum sínum og í Ríkissölunum.
3. Þeir gefa út biblíurit sín á um það bil 200 tungumálum. Til dæmis er tímaritið Varðturninn gefið út á 104 tungumálum og Vaknið! á 54. Samanlagt meðalupplag er liðlega 48 milljónir eintaka í mánuði hverjum.
4. Enda þótt aðalstöðvar votta Jehóva séu staðsettar í New York búa 77 af hundraði allra votta utan Bandaríkjanna.
5. Á sama hátt og Jerúsalem var þægilegur stökkpallur fyrir frumkristnina, eins hafa Bandaríkin verið þægilegur stökkpallur fyrir prédikun fagnaðarerindisins út um allan heim á okkar stríðshrjáðu öld. Reynslan hefur sýnt að alls staðar annars staðar hefðu fordómar, bönn og skortur á hráefnum verið starfi þeirra fjötur um fót. En þótt aðalstöðvar vottar Jehóva séu staðsettar í New York þýðir það ekki sjálfkrafa að þeir séu „amerískt trúfélag,“ ekkert frekar en frumkristnir menn voru gyðinglegt trúfélag þótt þeir væru stimplaðir sem slíkir.
Ranglátar ofsóknir
Ein staðreynd, sem sýnir berlega að vottarnir eru yfir þjóðernishagsmuni hafnir, er sú hvaða nöfnum mismunandi stjórnir af ólíkum toga hafa kosið að kalla þá. Í Bandaríkjunum hafa þeir stundum verið sakaðir um að vera kommúnistar og í kommúnistaríkjum að vera útsendarar bandarísku leyniþjónustunnar CIA!
Á sjötta áratugnum gat til dæmis að líta þessa staðhæfingu í bandarísku dagblaði: „Pólskir rauðliðar fjármagna Jehóvaútsendarana.“ Í frétt bandarískrar útvarpsstöðvar sagði: „Sovéska leppstjórnin [í Póllandi] ýtir undir og styður vottana fjárhagslega.“ Á Írlandi hrópaði æstur múgur að vottunum: „Kommúnistar!“ „Komið ykkur burt héðan!“
Meðan þessu fór fram voru vottar Jehóva bannaðir með lögum í Póllandi og öðrum kommúnistaríkjum og margir fangelsaðir fyrir trú sína. Sumir voru jafnvel sakaðir um að tilheyra njósnahring sem CIA fjármagnaði. Rithöfundurinn Vladimir Bukovsky, sem fluttist búferlum til Vesturlanda árið 1976, lýsir stöðu votta Jehóva í Sovétríkjunum með þessum hætti: „Kvöld nokkurt í Lundúnum rak ég af tilviljun augun í veggskjöld á byggingu með áletruninni: VOTTAR JEHÓVA. . . . Ég var höggdofa, næstum skelfingu lostinn. Hvernig gat þetta verið? hugsaði ég með mér. Í Sovétríkjunum hittir maður votta Jehóva af holdi og blóði aðeins í fangelsum og fangabúðum. Gat hver sem er gengið þangað inn og fengið sér tebolla með þeim? Kannski er þessi samlíking ekki sérlega vel valin, en hugsaðu þér eitt andartak að þú kæmir að byggingu með veggskildi sem á væri letrað: COSA NOSTRA HF., MAFÍAN, HERFORINGJARÁÐ. ‚Vottarnir‘ eru eftirlýstir í okkar landi af jafnmiklum ákafa og Mafían í þeirra.“
Þessi stuttu dæmi sýna fram á það sem margir fordómalausir menn hafa þegar komið auga á — sem sé að vottar Jehóva losa sig við hvers kyns stjórnmála- eða þjóðernistilhneigingar. Trú þeirra er yfir þjóðerni hafin því að þeir vilja líkjast óhlutdrægum Guði sínum. — Postulasagan 10:34.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Myndir þú taka inn fyrstu töfluna sem fyrir hendi yrði, án þess að lesa merkimiðann á töfluglasinu?
[Mynd á blaðsíðu 17]
Fæddist þú inn í þá trú sem þú tilheyrir eða valdir þú hana sjálfur?