Látið alltaf í ljós kærleika og trú
„Sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði.“ „Trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 4:16; 5:4.
1, 2. Hvaða eiginleika er sérstök áhersla lögð á í 1. Jóhannesarbréfi 4:7-5:21?
JEHÓVA er persónugervingur kærleikans og þeir sem vilja þóknast honum verða að láta þennan eiginleika í ljós. Jóhannes postuli tekur af öll tvímæli um það í sínu fyrsta innblásna bréfi.
2 Sannkristnir menn verða alltaf að láta í ljós trú. Aðeins með þeim hætti geta þeir sigrað heiminn og tryggt að þeir varðveiti hylli Jehóva. Þegar við rannsökum síðasta hluta bréfs Jóhannesar skulum við yfirvega þýðingu þess að láta í ljós kærleika og trú og gera það að efni bæna okkar.
„Elskum hver annan“
3, 4. Hvert er samband þess að sýna kærleika og þekkja Guð?
3 Jóhannes undirstrikar mikilvægi kærleikans. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:7, 8.) ‚Hinir elskuðu‘ kristnu bræður eru hvattir til að ‚elska hver annan, því að kærleikurinn er frá Guði kominn.‘ Jehóva er uppspretta kærleikans. „Hver sem elskar er af Guði fæddur [sem andagetinn þjónn hans] og þekkir Guð,“ er kunnugur eiginleikum Jehóva og tilgangi og því hvernig hann tjáir kærleika sinn. Núna hefur hinn ‚mikli múgur‘ ‚annarra sauða‘ Krists líka eignast þessa ‚þekkingu á Guði.‘
4 Það að þekkja Guð merkir að meta að verðleikum eiginleika hans, elska hann fullkomlega og halda okkur við hann sem drottinvald. En „sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð.“ Sá sem hefur ekki til að bera kristinn kærleika „þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur.“ Já, kærleikur er hinn ríkjandi eiginleiki Jehóva sem birtist í andlegum og efnislegum ráðstöfunum hans í þágu mannkynsins.
5. Hver er mesta sönnun þess að ‚Guð sé kærleikur‘?
5 Að þessu búnu víkur Jóhannes að mestu sönnun þess að ‚Guð sé kærleikur.‘ (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10.) Jóhannes segir: „Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor [syndara sem verðskulda dauða], að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn, til þess að vér skyldum lifa fyrir hann.“ Jesús er ‚einkasonur‘ Jehóva í þeim skilningi að hann er eina sköpunarveran sem Guð skapaði einn. (Jóhannes 1:1-3, 14; Kólossubréfið 1:13-16) Og Jesús var ‚sendur í heiminn‘ með því að verða maður, vinna opinbera þjóustu sína og deyja síðan fórnardauða. (Jóhannes 11:27; 12:46) ‚Að hljóta eilíft líf fyrir hann,‘ annaðhvort á himni eða jörð, útheimtir trú á verðgildi lausnarfórnar hans.
6. Hvað gerði Guð meðan við vorum enn syndarar og elskuðum ekki Guð?
6 Meðan við enn vorum syndarar sem elskuðu ekki Guð ‚elskaði hann okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.‘ Fórn Krists opnaði okkur leið til að eignast aftur rétt samband við Guð. (Rómverjabréfið 3:24, 25; Hebreabréfið 2:17) Kannt þú að meta þennan óverðskuldaða kærleika okkar himneska föður?
7. (a) Hvernig getum við sýnt að við elskum Jehóva þar eð við höfum ekki séð hann? (b) Hvað sannar bróðurkærleikur okkar?
7 Kærleikur Guðs til okkar ætti að hafa áhrif á viðhorf okkar til annarra. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:11-13.) Þar eð hann elskaði okkur meðan við enn vorum syndarar „ber einnig oss að elska hver annan.“ Enginn maður „hefur nokkurn tíma séð Guð.“ Við getum því ekki sagt að við elskum Jehóva af því að við höfum séð hann. (2. Mósebók 33:20; Jóhannes 1:18; 4:24) Með því að láta í ljós kærleika sýnum við hins vegar að við elskum hann sem er höfundur þessa eiginleika. Bróðurkærleikur okkar sannar að ‚Guð er stöðugur í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur,‘ eða birtist í sinni fyllstu mynd í okkur. Og við vitum að „vér erum stöðugir í“ Jehóva „af því að hann hefur gefið oss af sínum anda.“ Að við skulum sýna bróðurkærleika sannar að andi Jehóva starfar í okkur því að kærleikur er einn ávaxta hans. (Galatabréfið 5:22, 23) Það sýnir að við þekkjum Guð og njótum velþóknunar hans.
8. Hvað vitnar enn fremur um að við séum „í Guði“?
8 Sitthvað annað ber því vitni að við séum ‚stöðugir í Guði.‘ (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:14-16a.) Eftir að hafa „séð“ það sem Jesús gerði á jörðinni og hvernig hann þjáðist fyrir mannkynið gat Jóhannes ‚borið vitni um að faðirinn hefði sent soninn til að vera frelsari heimsins,‘ hins synduga mannkyns. (Jóhannes 4:42; 12:47) Auk þess er ‚Guð stöðugur í okkur og við í Guði‘ ef við játum í hjarta okkar að Jesús Kristur sé sonur hans. Það útheimtir að við iðkum trú og berum því opinberlega vitni að Jesús sé sonur Guðs. (Jóhannes 3:36; Rómverjabréfið 10:10) Við treystum að ‚kærleikurinn sem Guð hefur á oss‘ beri þess frekari merki að við séum sameinaðir Jehóva, hvort heldur við tilheyrum hinum smurðu leifum eða hinum ‚öðrum sauðum.‘
9. (a) Í hvaða skilningi getur kærleikur til Guðs ‚orðið fullkominn‘ og hvaða áhrif hefur það á samband okkar við aðra? (b) Að hverju stuðlar „fullkominn“ kærleikur?
9 Þessu næst sýnir Jóhannes fram á að kærleikurinn geti ‚orðið fullkominn.‘ (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:16b, 17.) Við erum minnt á að ‚Guð sé kærleikur.‘ Með því að við erum ‚stöðug í kærleikanum,‘ berum við þennan ávöxt anda Jehóva, ‚erum stöðug í Guði.‘ Ef kærleikurinn til Jehóva er „orðinn fullkominn hjá oss,“ hefur náð að birtast í sinni fyllstu mynd, þá elskum við trúbræður okkar. (Samanber 12. vers.) „Fullkominn“ kærleikur stuðlar líka að „djörfung“ gagnvart Guði í bæn núna og „á degi dómsins“ sem tengdur er nærveru Krists. Þeir sem hafa til að bera slíkan kærleika hafa enga ástæðu til að óttast að dómur Guðs verði þeim í óhag. Ef við sýnum kærleika þá erum við í þeim skilningi „í þessum heimi eins og hann [Jesús] er.“ Já, við líkjumst honum í því að njóta hylli Guðs sem börn hans í þessum heimi mannkynsins sem er fjarlægur Guði.
10. Hverju finna þeir ekki fyrir sem eiga „fullkominn“ kærleika?
10 Þeir sem kærleikurinn er orðinn „fullkominn“ hjá finna ekki til ótta sem stendur í vegi fyrir bænagerð þeirra. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:18, 19.) „Óttinn felur í sér hegningu“ á þann hátt að við getum ekki nálgast Jehóva frjálsmannlega. Ef við finnum til slíks ótta ‚erum við ekki fullkomin í elskunni.‘ En ef við erum ‚fullkomin í elskunni‘ fyllir hún hjörtu okkar, kemur okkur til að gera vilja Guðs og fær okkur til að vera nálæg okkar himneska föður í bæn. Við höfum sannarlega ástæðu til að elska Jehóva og biðja til hans því að ‚við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði,‘ eins og Jóhannes segir.
11. Hvaða góð ástæða er fyrir því að hlýða boðorðinu: „Sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn“?
11 Að sjálfsögðu er ekki nóg bara að segjast elska Guð. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:20, 21.) Sá sem segir: „Ég elska Guð,“ en hatar andlegan bróður sinn „er lygari.“ Úr því að við getum séð bróður okkar og gefið gaum eiginleikum Guðs í fari hans ætti að vera auðveldara fyrir okkur að elska hann en Guð sem við sjáum ekki. „Sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.“ Því er eðlilegt að hlýða þessu ‚boðorði‘: „Sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn.“
Hver sigrar heiminn?
12. Hverja eigum við líka að elska fyrst við elskum Guð?
12 Jóhannes sýnir því næst fram á hvað það merki í raun að elska Guð. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:1-5.) Fyrst bendir postulinn á að „hver sem trúir, að Jesús sé Kristur,“ (Messías eða hinni smurði þjónn Jehóva) „er af Guði fæddur“ eða andagetinn af Jehóva. Sá sem elskar Jehóva elskar auk þess sérhvern annan mann sem er „barn hans.“ Já, öll hin smurðu börn Guðs elska hann og þess er vænst að þau elski hvert annað. Slíkur bróðurkærleikur er líka einkennandi fyrir hinn ‚mikla múg‘ ‚annarra sauða‘ sem hafa jarðneska von. — Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:9.
13. (a) Hvers vegna eru boðorð Guðs „ekki þung“ fyrir okkur? (b) Hvernig ‚sigrum við heiminn‘?
13 ‚Við vitum að við elskum börn Guðs af því að við elskum Guð og breytum eftir boðorðum hans.‘ Það að elska Guð felur í sér að „vér höldum hans boðorð.“ Þar eð við elskum Guð og réttlætið er okkur fagnaðarefni að halda boðorð hans. Jóhannes segir að það sé okkur ekki ‚þungt‘ og bætir við: „Því að allt, sem af Guði er fætt, sigrar heiminn.“ „Allt“ getur falið í sér kraft frá Guði til að ‚sigra heiminn‘ eða bera sigurorð af ranglátu mannfélagi og freistingum þess til að brjóta boðorð Jehóva. (Jóhannes 16:33) „Trú vor“ á Guð, orð hans og son „hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.“ Ef við ‚trúum að Jesús sé sonur Guðs‘ þá ‚sigrum við heiminn‘ með því að vísa á bug röngum hugsunarhætti hans og siðlausum vegum, og með því að halda boðorð Guðs.
14. (a) Hvernig ‚kom Jesús með vatni‘? (b) Hvernig var sýnt fram á ‚með blóði‘ að Kristur væri sonur Guðs? (c) Hvernig bar heilagur andi vitni um Jesú Krist?
14 Úr því að trú á Jesú er svona nauðsynleg til að við getum ‚sigrað heiminn‘ bendir Jóhannes á vitnisburð ‚þriggja vitna‘ um Krist. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:6-8.) Jóhannes segir fyrst að Jesús hafi ‚komið með vatni.‘ Þegar Jesús var skírður í vatni til að tákna að hann byði sig fram til þjónustu við Guð lýsti Jehóva yfir: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ (Matteus 3:17) Þá var og sýnt fram á ‚með blóði,‘ sem Kristur úthellti með dauða sínum til lausnargjalds, að hann væri sonur Guðs. (1. Tímóteusarbréf 2:5, 6) Auk þess segir Jóhannes að ‚heilagur andi sé sá sem vitnar, því að andinn er sannleikurinn.‘ Þegar heilagur andi kom yfir Jesú við skírn hans sannaði það að hann væri sonur Guðs. (Matteus 3:16; Jóhannes 1:29-34) Andi Jehóva gerði Jesú fært að fullna hlutverk sitt og vinna máttarverk. (Jóhannes 10:37, 38; Postulasagan 10:38) Með anda sínum lét Guð koma óvenjulegt myrkur og jarðskjálfta við dauða Jesú, og reif sundur fortjald musterisins. Hann beitti þessum sama anda til að reisa hann upp frá dauðum. — Matteus 27:45-54.
15. Hverjir eru þeir ‚þrír sem vitna‘?
15 Þannig eru ‚þrír sem vitna‘ um að Jesús sé sonur Guðs. Það eru: (1) heilagur andi, (2) vatnið sem Jesús skírðist í og það sem það táknaði (það að hann bauð sig fram til að þjóna Jehóva) og (3) blóðið sem hann úthellti til lausnargjalds við dauða sinn. Þessum þremur „ber saman“ í því að bera vitni um að Jehóva sé sonur Guðs sem við verðum að trúa á ef við eigum að hljóta eilíft líf. — Samanber 5. Mósebók 19:15.
Vitnisburður Guðs
16. Hvernig hefur Jehóva borið vitni um Jesú?
16 Guð hefur sjálfur borið vitni um son sinn. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:9-12.) „Vér tökum manna vitnisburð gildan [eins og venja er í samræðum og fyrir rétti], en vitnisburður Guðs er meiri.“ (Jóhannes 8:17, 18) Með því að ‚Guð lýgur ekki‘ getum við treyst skilyrðislaust ‚vitnisburði Guðs um son sinn.‘ Og Jehóva hefur sagt að Jesús Kristur sé sonur sinn. (Títusarbréfið 1:2; Matteus 3:17; 17:5) Auk þess stóð Guð að baki ‚vitnanna þriggja,‘ það er að segja heilags anda síns, skírnarvatns Jesú og hins úthellta blóðs hans.
17. Hvernig aðeins er hjálpræði mögulegt?
17 „Sá sem trúir á Guðs son hefur vitnisburðinn í sjálfum sér“ vegna þess að öll sönnunargögn sannfæra hann um að Jesús sé sonur Guðs. En „sá sem ekki trúir Guði“ sem áreiðanlegum votti um son sinn lætur sem Jehóva sé lygari. Að sjálfsögðu er kjarni vitnisburðarins sá ‚að Guð hefur gefið okkur eilíft líf og þetta líf er í syni hans.‘ Aðeins með því að trúa á Jesú sem son Guðs er hægt að hljóta hjálpræði og eilíft líf. (Jóhannes 11:25, 26; 14:6; 17:1-3) „Sá sem hefur soninn,“ með því að trúa á hann, hefur því hlotið þá óverðskulduðu gjöf sem eilíft líf er. (Jóhannes 20:31) Sá sem ekki trúir að Jesús sé sonur Guðs mun ekki hljóta „þetta líf.“
Bænin er áhrifamikil
18. Hvers vegna skrifaði Jóhannes „þetta“?
18 Jóhannes tekur nú fram hver sé megintilgangurinn með bréfi sínu og ræðir um bænina. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:13-15.) Hann hefur skrifað „þetta“ til að við getum vitað að ‚við höfum eilíft líf.‘ Þetta er sannfæring okkar sem trúum á „nafn“ sonar Guðs. (Samanber 1. Jóhannesarbréf 3:23.) Fráhvarfsmenn, sem ekki heyra okkur til, geta ekki spillt þeirri trú. — 1. Jóhannesarbréf 2:18, 19.
19. (a) Hvaða „djörfung“ höfum við til Guðs samkvæmt 1. Jóhannesarbréfi 5:14, 15? (b) Hvað getum við meðal annars réttilega beðið um?
19 Við getum haft það trúartraust eða „djörfung“ til Guðs að hvað sem við biðjum hann um „eftir hans vilja, þá heyrir hann oss.“ Við biðjum réttilega um að nafn Guðs sé helgað, að hann gefi okkur anda sinn og visku og frelsi okkur frá hinum vonda. (Matteus 6:9, 13; Lúkas 11:13; Jakobsbréfið 1:5-8) Og við „vitum . . . að oss eru veittar þær bænir, sem vér höfum beðið hann um,“ hann sem „heyrir bænir.“ — Sálmur 65:3.
20, 21. (a) Hver er sú synd sem „er ekki til dauða“? (b) Hvers vegna er rangt að biðja um fyrirgefningu ‚syndar til dauða‘?
20 Eftir þetta talar Jóhannes um bænina og tvenns konar synd. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:16, 17.) „Synd, sem er ekki til dauða,“ er ekki yfirveguð og því væri ekki rangt að biðja þess að iðrunarfullur syndari hljóti fyrirgefningu. (Postulasagan 2:36-38; 3:19; Jakobsbréfið 5:13-18) Hins vegar væri rangt að biðja um fyrirgefningu ‚syndar til dauða‘ því þar er um að ræða yfirvegaða synd gegn heilögum anda sem ekki er hægt að fyrirgefa. (Matteus 12:22-32; Hebreabréfið 6:4-6; 10:26-31) Slíkir syndarar fara í Gehenna, hljóta eilífa tortímingu hins ‚annars dauða.‘ (Opinberunarbókin 21:8; Matteus 23:15) Þótt Jehóva sé sá sem fellir endanlegan dóm vogum við okkur ekki að misþóknast honum með því að biðja fyrir syndara sem allt bendir til að sé sekur um yfirvegaða „synd til dauða.“
21 „Ef einhver [einkum andasmurður öldungur] sér bróður sinn drýgja synd, sem er ekki til dauða [hins ‚annars dauða‘], þá skal hann biðja, og Guð mun gefa honum [syndaranum] líf,“ bjarga honum frá eilífri tortímingu. Að sjálfsögðu er ‚allt ranglæti synd,‘ það að missa marks að því er varðar réttláta staðla Guðs. Þó er til „synd, sem ekki er til dauða“ því að hún stafar af ófullkomleika okkar, við iðrumst hennar og fórn Krists breiðir yfir hana.
Meginatriði bréfs Jóhannesar
22. Hver nær ekki tökum á drottinhollum kristnum manni og um hvað getur hann beðið með trúartrausti?
22 Jóhannes dregur nú saman meginatriðin í bréfi sínu. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:18-21.) „Hver sem af Guði er fæddur“ sem andasmurður kristinn maður iðkar ekki synd. Jesús Kristur, „sá sem af Guði er fæddur“ með heilögum anda, „varðveitir hann og hinn vondi [Satan] snertir hann ekki.“ Slíkur drottinhollur, smurður kristinn maður getur í fullu trúartrausti beðið um frelsun frá hinum vonda og bægt frá sér ‚eldlegum skeytum‘ Satans með ‚skildi trúarinnar.‘ — Matteus 6:13; Efesusbréfið 6:16.
23. Hvernig ‚liggur allur heimurinn á valdi hins vonda‘?
23 Með því að hinir smurðu hafa fengið vitnisburð um að þeir séu andlegir synir Jehóva geta þeir sagt: „Vér vitum, að vér tilheyrum Guði.“ Sú staðreynd að þeir hafa trú á Krist og iðka ekki synd sannar að þeir eru börn Guðs sem Satan hefur ekki náð tökum á. „Allur heimurinn [hið rangláta mannfélag] er á valdi hins vonda,“ Satans djöfulsins. (Efesusbréfið 2:1, 2; Opinberunarbókin 12:9) Heimurinn lætur undan illum áhrifum og yfirdrottnun Satans og gerir enga tilraun til að slíta sig lausan til að geta gert vilja Guðs.
24. Í hvaða augnamiði hefur Jesús „gefið oss skilning“?
24 Vissir falskennarar héldu því fram að Kristur hefði ekki komið í holdi. (2. Jóhannesarbréf 7) Sökum þeirra raka sem Jóhannes bendir á í þessu bréfi getum við sagt: „Vér vitum, að Guðs sonur er kominn.“ (1. Jóhannesarbréf 1:1-4; 5:5-8) Jesús hefur auk þess „gefið oss skilning“ til að ‚við getum þekkt sannan Guð‘ og aukið þá þekkingu jafnt og þétt. (Matteus 11:27) Því erum við „í hinum sanna Guði fyrir samfélag vort við son hans Jesú Krist.“ — Samanber Jóhannes 17:20, 21.
25. Hvernig getum við, kristnir menn, farið eftir ráðunum í 1. Jóhannesarbréfi 5:21?
25 Þeir sem eru sameinaðir hinum sanna Guði, Jehóva, hvort heldur þeir eru af hinum smurðu leifum eða hinum ‚öðrum sauðum,‘ vilja þóknast honum á allan hátt. En á fyrstu öldinni var manna freistað til skurðgoðadýrkunar alveg eins og er núna. Jóhannes lauk því bréfi sínu með þessum föðurlegu ráðum: „Börnin mín, gætið yðar fyrir skurðgoðunum.“ Við, kristnir menn, föllum ekki fram fyrir skurðgoðum. (2. Mósebók 20:4-6) Við vitum líka að það væri rangt að setja okkur sjálf, skemmtun eða eitthvað annað í stað Guðs. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 2, 4) Vígsla okkar til hans kemur í veg fyrir að við dýrkum hið pólitíska „dýr“ og „líkneski“ þess. (Opinberunarbókin 13:14-18; 14:9-12) Með það að markmiði að þóknast okkar himneska föður og hljóta þá gjöf hans sem eilíft líf er skulum við vera einbeitt í því að forðast alla skurðgoðadýrkun, leyfa henni aldrei að spilla dýmætu sambandi okkar við Jehóva fyrir milligöngu Jesú Krists.
Varanleg hjálp fyrir okkur
26. Nefndu nokkur mikilvæg aðalatriði í 1. Jóhannesarbréfi.
26 Hið fyrsta innblásna bréf Jóhannesar hjálpaði frumkristnum mönnum að forðast skurðgoðadýrkun. Það gerði þeim fært að hrekja lygar fráhvarfsmanna og þjónar sama tilgangi núna. Til dæmis sannar það að Jesús Kristur var til sem maður og dó sem „friðþæging“ fyrir syndir. Bréfið bendir á hver „andkristur“ sé og gerir greinarmun á börnum Guðs og börnum djöfulsins. Það sýnir fram á hvernig eigi að reyna „andana“ eða innblásin ummæli til að sjá hvort þau séu komin frá Jehóva. Orð Jóhannesar sannfæra okkur enn fremur um að ‚Guð sé kærleikur,‘ að sönn trú sigri heiminn og að Jehóva heyri bænir drottinhollra votta sinna.
27. Á hvaða vegu getur hið fyrsta innblásna bréf Jóhannesar verið okkur hjálp?
27 Andspænis freistingum heimsins er viturlegt að hafa í huga aðvörun Jóhannesar gegn því að elska heiminn! Ef árekstrar manna í milli reyna á samband okkar við ákveðna bræður geta orð postulans minnt okkur á að við getum sýnt að við elskum Guð með því að sýna bróðurkærleika. Með hjálp Guðs og með því að hlýða ráðum Jóhannesar getum við forðast það að iðka synd og varðveitt trú sem sigrar heiminn. Við skulum því sýna þakklæti okkar fyrir þetta innblásna bréf, halda áfram að ganga í ljósi Guðs, lifa eins og börn Guðs og láta alltaf í ljós kærleika og trú til dýrðar okkar himneska föður, Jehóva.
Hverju svarar þú?
◻ Hvaða áhrif ætti það að hafa á samband okkar við trúbræður okkar að við skulum elska Jehóva?
◻ Hvernig getum við ‚sigrað heiminn‘?
◻ Hverjir eru þeir ‚þrír sem vitna‘ um son Guðs?
◻ Hverju getum við treyst í sambandi við bænina?
◻ Hvernig getur 1. Jóhannesarbréf hjálpað okkur?
[Rammi á blaðsíðu 28]
Þar eð Jehóva elskaði okkur meðan við vorum syndarar ‚ber okkur einnig að elska hver annan.‘
[Rammi á blaðsíðu 29]
Trú okkar á Guð, orð hans og eingetinn son gerir okkur fært að ‚sigra heiminn.‘
[Mynd á blaðsíðu 31]
Heilagur andi, skírnarvatn Jesú, úthellt blóð hans og Jehóva sjálfur báru því vitni að Jesús Kristur væri sonur Guðs.