Babýlon miðpunktur falskrar guðsdýrkunar
„FALLIN, fallin er Babýlon, og allar goðalíkneskjur hennar liggja sundur brotnar á jörðinni.“ Hvers konar borg var sú Babýlon sem Jesaja spáði um? Það er mikilvæg vísbending fyrir okkur til að skilja þýðingu Babýlonar hinnar miklu nútímans. — Jesaja 21:9.
Forn-Babýlon var kunn fyrir dýrkun sína á heiðnum guðum og gyðjum. Í bók sinni Babylonian and Assyrian Religion segir prófessor S. H. Hooke: „Babýlon var borgin þar sem Mardúk gegndi æðstri stöðu meðal hina guðanna sem dýrkaðir voru þar. . . . Á tímum Nebúkadnesars II. voru í Babýlon ekki færri en 58 musteri sem tilheyrðu nafngreindum guðum, og er þá ekki minnst á fjölmörg önnur musteri sem ekki voru þannig auðkennd. Af því má sjá hve stóru hlutverki prestastéttin hlýtur að hafa gegnt í lífi þessarar stórborgar.“ Sagt er að musteri Mardúks í Babýlon hafi haft 55 hliðarkapellur. Óneitanlega minnir það á hin fjölmörgu musteri, kirkjur og dómkirkjur nútímans sem eru með hliðarkapellur handa óæðri guðum, dýrlingum og Maríumyndum!
Babýlon var miðpunktur skurðgoðadýrkunar. Í einni lýsingunni er sagt að prestar og hinir trúuðu hafi verið „stórtækir í þjónustu sinni við helgimyndir sínar, og litið á stytturnar sem tengilið við guðina. Stytturnar voru þaktar dýru skrúði, skreyttar hálsmenum, armböndum og hringjum; þær hvíldu á dýrindishvílum og farið var með þær í skrúðgöngur um landið eða skrúðsiglingar, á vögnum og einkabátum.“a Þessi lýsing er harla keimlík dýrkun guða, dýrlinga og Maríumynda í hindúatrú, búddhatrú og kaþólskri trú okkar tíma, en hjá þeim tíðkast einnig að fara með helgimyndir sínar í skrúðgöngur um strætin og skrúðsiglingar um ár og höf!
Sem frekara dæmi um hliðstæðuna milli Forn-Babýlonar og trúarbragða nútímans má líta á eftirfarandi lýsingu sem tekin er úr sömu alfræðibók: „Tryggir áhangendur hennar kalla hana fegurstu nöfnum: Hún er ekki aðeins gyðja og frú heldur einnig miskunnsöm móðir, hún sem hlýðir á bænir, hún sem biður öðrum miskunnar. . . . hún sem hefur veitt alheiminum og mannkyninu líf.“ Berðu þessa lýsingu saman við eftirfarandi bæn sem tekin er úr El Santo Rosario (Hið heilaga talnaband): „Vér þökkum þér, alvöld prinsessa, fyrir þá náð sem vér hljótum dag hvern úr góðgerðasamri hönd þinni; veittu okkur, göfuga mey, vernd þína og skjól, nú og um eilífð.“
Hverjum er hér verið að lýsa og hver er sú sem beðið er til? Margir munu hiklaust svara: „Maríu mey.“ Það er aðeins að hálfu leyti rétt. Bænin er borin fram til Maríu en Las Grandes Religiones Illustradas skýrir okkur frá því að fyrri tilvitnunin sé lýsing á Ístar, „ástargyðjunni,“ gyðju frjósemis, ástar og stríðs hjá Babýloníumönnum. Stundum sýna líkneski hana sem „móður með sveinbarn á brjósti.“b Hér er enn eitt dæmi sem sýnir að nútímatrúarbrögð eru ekki í neinni órafjarlægð frá Forn-Babýlon!
Við gætum einnig bent á hliðstæður milli hugmynda Forn-Babýloníumanna um mannssálina og guðaþrenningar þeirra og samsvarandi hugmynda trúarbragða okkar tíma um ódauðlega sál og þrenningar. Fyrirliggjandi heimildir styðja þann skilning okkar að „Babýlon hin mikla“ sé viðeigandi tákn heimsveldis falskra trúarbragða Satans.
Babýlon — hrokafullur óvinur sannrar guðsdýrkunar
Babýlon var líka hrokafullur óvinur Ísraels, þjóðar Guðs til forna, og fyrirleit sanna guðsdýrkun hennar. Babýlon jafnaði musterið í Jerúsalem við jörðu árið 607 f.o.t., flutti burt með sér öll hin verðmætu áhöld tilbeiðslunnar á Jehóva og vanhelgaði þau í veislu Belsasars. — Daníel 5:3, 4.
Babýlon hin mikla nútímans hefur með sama móti verið vægðarlaus andstæðingur sannrar guðsdýrkunar. Þegar vottar Jehóva hafa verið ofsóttir hefur það í flestum tilvikum verið að undirlagi klerka, oft í gegnum bandalag þeirra við pólitíska valdhafa.
Eitt skýrt dæmi um andstöðu að undirlagi klerka er frá árinu 1917 og áþekk atvik hafa endurtekið sig aftur og aftur. Það ár gáfu Alþjóðasamtök biblíunemenda, eins og vottarnir kölluðu sig þá, út bókina The Finished Mystery (Hinn fullnaði leyndardómur). Kanadískir og bandarískir klerkar túlkuðu fáeinar blaðsíður þessarar bókar sem undirróður, en báðar þjóðirnar voru þá þátttakendur í fyrri heimsstyrjöldinni. Þeir gerðu pólitískum friðlum sínum tafarlaust viðvart um þetta rit. Afleiðingin var sú sem prófessor Martin Marty lýsir í bók sinni Modern American Religion — The Irony of It All: „Klerkarnir snerust gegn Russellítunum [vottunum] og ráku upp fagnaðaróp þegar þeir fréttu að leiðtogar votta Jehóva, sem höfðu verið sakfelldir [fyrir meintan undirróður] ættu að hljóta 20 ára fangelsisdóm.“
En hver urðu viðbrögð klerkanna fáeinum mánuðum síðar þegar þessir sömu leiðtogar fengu algera uppreisn æru? „Það heyrðust engin fagnaðarlæti frá meðlimum rétttrúnaðarkirknanna.“ Vottarnir stóðu einir með meginreglum Biblíunnar „að því marki að þeir fengu alríkisstjórnina á móti sér vegna trúar sinnar.“ Vottarnir voru ekki og hafa aldrei verið fúsir til að vera þrælslundaðir lagsmenn stjórnmálamanna, ekki einu sinni undir stjórn nasista í Þýskalandi eða stjórn fasista á Ítalíu, Spáni og Portúgal.
Babýlon fordæmd og smánuð
Babýlon hinni miklu er því rétt lýst þegar Opinberunarbókin segir að hún sé „drukkin af blóði hinna heilögu og af blóði Jesú votta“ og að í henni hafi fundist „blóð spámanna og heilagra og allra þeirra, sem hafa drepnir verið á jörðinni.“ Hægt er að rekja blóðugan feril heimstrúarbragðanna í gegnum alla mannkynssöguna, blóðskuld sem stafar annaðhvort af virkri þátttöku þeirra í styrjöldum og í ofsóknum á hendur sannkristnum mönnum eða þegjandi samþykki þeirra. — Opinberunarbókin 17:6; 18:24.
Babýlon hin mikla, heimsveldi falskra trúarbragða, hefur lifað munaðarlífi og verið valdamikil út í gegnum mannkynssöguna. En engill sagði Jóhannesi að skækjan mikla myndi falla í valinn þegar þar að kæmi. Frásagan segir: „Og hann hrópaði með sterkri röddu og sagði: ‚Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla og orðin að djöfla heimkynni og fangelsi alls konar óhreinna anda og fangelsi alls konar óhreinna og viðbjóðslegra fugla.‘“ — Opinberunarbókin 18:2.
Hvenær mun Babýlon falla eða er hún nú þegar fallin? Á hvaða hátt fellur hún og hvaða áhrif hefur það á þig? Þessum spurningum og öðrum fleiri verður svarað í næsta tölublaði Varðturnsins.
[Neðanmáls]
a Las Grandes Religiones Illustradas: Asirio-Babylonica, 20. bindi Mateu-Rizzoli, Barcelona, Spáni, 1963, bls. 53.
b 19. bindi, bls. 19, 20.
[Mynd á blaðsíðu 8, 9]
Babýlon hin mikla á sér rætur í fornum, babýlonskum trúarbrögðum.