-
Hvað um kynlíf fyrir hjónaband?Spurningar unga fólksins — svör sem duga
-
-
23. kafli
Hvað um kynlíf fyrir hjónaband?
‚ER ÞAÐ ekki allt í lagi ef við elskum hvort annað? Eða ætti maður að bíða fram til hjónabands?‘ ‚Ég hef ekki haft kynmök enn þá. Er eitthvað að mér?‘ Spurningar af þessu tagi leita oft á unglinga.
Alan Guttmacher-stofnunin skýrði frá því árið 1981 að ‚það heyrði til undantekninga að fólk hefði ekki kynmök á táningsaldri.‘ Áfram var haldið: „Átta af hverjum 10 körlum og sjö af hverjum 10 konum segjast hafa haft kynmök á táningsaldri.“
‚Og hvað er að því?‘ spyrja sumir. Þegar allt kemur til alls er fullkomlega eðlilegt að maður vilji láta þykja vænt um sig. Á unglingsárunum getur kynhvötin verið svo sterk að erfitt er að hugsa um nokkuð annað. Og svo má ekki gleyma áhrifum jafnaldranna. Þeir tala um hve kynlífið sé skemmtilegt og segja að það sé bara eðlilegt að strákur og stelpa, sem þykir vænt hvort um annað, hafi kynmök. Sumir segja jafnvel að það sé þroskamerki að hafa kynmök. Og fæstir vilja láta líta á sig sem einhver viðundur, þannig að ungu fólki finnst þrýst mjög á sig að hafa kynmök.
Ólíkt því sem margir halda liggur ekki öllum unglingum á að hafa kynmök í fyrsta sinn. Ung, ógift kona, Ester að nafni, fór í læknisskoðun. Meðan á henni stóð spurði læknirinn eins og ekkert væri sjálfsagðara: „Hvaða getnaðarvarnir notarðu?“ Þegar Ester sagðist engar getnaðarvarnir nota svaraði læknirinn undrandi: „Hvað segirðu! Viltu verða barnshafandi? Hvernig heldurðu að þú komist hjá því ef þú notar engar getnaðarvarnir?“ „Vegna þess að ég hef aldrei kynmök!“ svaraði Ester.
Læknirinn starði vantrúaður á hana. „Þetta er lygilegt,“ sagði hann. „Hingað koma þrettán ára krakkar sem eru byrjaðir að stunda kynlíf. Þú ert óvenjuleg manneskja.“
Hvað gerði Ester ‚óvenjulega‘? Það að hún hlýddi áminningum Biblíunnar: „Líkaminn er ekki fyrir saurlífi [meðal annars kynlíf fyrir hjónaband]. . . . Flýið saurlifnaðinn!“ (1. Korintubréf 6:13, 18) Hún leit á kynlíf fyrir hjónaband sem alvarlega synd gegn Guði. „Það er vilji Guðs,“ segir 1. Þessaloníkubréf 4:3, „að þér haldið yður frá frillulífi.“ En hvers vegna skyldi Biblían banna kynlíf fyrir hjónaband?
Eftirköstin
Kynlíf fyrir hjónaband var þekkt jafnvel á biblíutímanum. Biblían lýsir siðlausri konu sem reynir með fortölum að lokka ungan mann til að gefa ástíðunum lausan tauminn: „Kom þú, við skulum drekka okkur ástdrukkin fram á morgun, gamna okkur með blíðuhótum.“ (Orðskviðirnir 7:18) En Biblían varar við því að unaður dagsins í dag geti haft slæm eftirköst á morgun. „Því að hunangsseimur drýpur af vörum lauslátrar konu, og gómur hennar er hálli en olía,“ sagði Salómon. Síðan bætti hann við: „En að síðustu er hún beiskari en malurt, beitt eins og tvíeggjað sverð.“ — Orðskviðirnir 5:3, 4.
Eftirköstin geta verið samræðissjúkdómar. Hugsaðu þér hugarangrið ef þú uppgötvaðir mörgum árum síðar að siðlaus verknaður hafi valdið þér óbætanlegu tjóni, ef til vill ófrjósemi eða alvarlegum heilsubresti! Eins og Orðskviðirnir 5:11 vara við: „Og þú andvarpir að lokum, þá er líkami þinn og hold veslast upp.“ Af öðrum hugsanlegum eftirköstum mætti nefna óskilgetið barn (sjá bls. 184-5), fóstureyðingu og skyndihjónaband sem allt hefur sársaukafullar afleiðingar, hvert á sinn veg. Það er vissulega engum ofsögum sagt að kynlíf fyrir hjónaband sé ‚synd á móti eigin líkama.‘ — 1. Korintubréf 6:18.
Þessar hættur voru dr. Richard Lee tilefni til að skrifa í tímaritinu Yale Journal of Biology and Medicine: „Við stærum okkur við unga fólkið af miklum framförum á sviði getnaðarvarna og meðferðar á kynsjúkdómum en minnumst ekki á öruggustu, markvissustu, ódýrustu og skaðlausustu aðferðina til að koma bæði í veg fyrir þungun og kynsjúkdóma — hina fornu, heiðvirðu og meira að segja heilbrigðu aðferð sem nefnist skírlífi.“
Sektarkennd og vonbrigði
Margir unglingar hafa orðið fyrir sárum vonbrigðum með kynmök fyrir hjónaband. Þeir hafa setið uppi með samviskubit, sektarkennd og sjálfsásökun. Kristján, 23 ára, segir: „Það voru mikil vonbrigði — engin vellíðan eða ástarylur eins og ég hafði búist við. Í staðinn rann ljóslega upp fyrir mér hve rangt þetta var. Ég skammaðist mín ákaflega fyrir að hafa ekki sýnt sjálfsstjórn.“ Ung kona viðurkennir: „Ég vaknaði aftur til veruleikans með andfælum. . . . Partýið var búið, mér var óglatt og fannst ég auvirðileg og óhrein. Mér leið ekkert betur við að heyra hann segja: ‚Af hverju í ósköpunum stoppaðirðu okkur ekki áður en við gengum of langt?‘“
Slík viðbrögð eru ekki fátíð að því er dr. Jay Segal segir. Eftir að hafa rannsakað kynlíf 2436 háskólanema komst hann að þessari niðurstöðu: „Nánast helmingi fleiri voru vonsviknir og óánægðir með fyrstu kynmök sín en ánægðir og spenntir. Bæði karlar og konur minntust þess að hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum.“ Að vísu eiga hjón stundum líka við vandamál að glíma í kynlífinu, en í hjónabandi, þar sem byggt er á sönnum kærleika og trúfesti, er að jafnaði hægt að leysa slík vandamál.
Gjaldið sem greiða þarf
Sumir unglingar finna reyndar ekki til neinnar sektarkenndar. Þeir hella sér út í siðleysið og hlaupa frá einum rekkjunaut til annars. Richard Sorensen, sem rannsakað hefur kynferðismál unglinga, segir að slíkir unglingar gjaldi lauslæti sitt dýru verði. Hann skrifar: „Í einkaviðtölum okkar hafa margir [lauslátir unglingar] gert uppskátt . . . að þeim finnist líf sitt tilgangslítið og hamingjusnautt.“ Fjörutíu og sex af hundraði þeirra féllust á fullyrðinguna: „Eins og ég lifi lífinu núna fara flestir hæfileikar mínir til spillis.“ Sorensen komst að þeirri niðurstöðu að lauslátir unglingar hefðu lítið „sjálfstraust og sjálfsvirðingu.“
Þetta kemur heim og saman við Orðskviðina 5:9: Þeir sem stunda siðleysi „gefa öðrum sæmd“ sína. — New World Translation.
Morguninn eftir
Oft líta piltur og stúlka hvort annað öðrum augum eftir að hafa haft kynmök. Tilfinningar piltsins til stúlkunnar hafa kannski kólnað svolítið; ef til vill finnst honum hún ekki jafnaðlaðandi. Stúlkunni finnst hann kannski hafa misnotað sig. Biblían segir frá ungum manni sem Amnon hét. Hann var ástsjúkur í Tamar sem var hrein mey. En eftir að hafa þvingað hana til að hafa kynmök við sig „fékk Amnon mjög mikla óbeit á henni.“ — 2. Samúelsbók 13:15.
María varð fyrir svipaðri lífsreynslu. Eftir að hafa haft kynmök viðurkenndi hún: „Ég hataði sjálfa mig (fyrir veikleika minn) og ég hataði strákinn sem ég var með. Kynmökin, sem við héldum að myndu styrkja böndin milli okkar, bundu enda á samband okkar. Ég vildi ekki einu sinni sjá hann framar.“ Þegar fólk hefur haft kynmök fyrir hjónaband verður ekki aftur snúið!
Paul H. Landis, virtur rannsóknarmaður á sviði fjölskyldumála, segir: „Í fyrstu geta áhrifin [af kynlífi fyrir hjónaband] verið þau að styrkja sambandið, en þegar til lengdar lætur geta þau verið gagnstæð.“ Meiri líkur eru á að það slitni upp úr sambandi hjónaleysa, sem hafa kynmök, en þeirra sem ekki gera það! Ástæðan er sú að kynmökin kveikja afbrýði og tortryggni. Ungur piltur viðurkennir: „Eftir að hafa haft kynmök við stúlku hugsa sumir piltar með sér: ‚Fyrst hún hefur haft mök við mig hefur hún kannski haft þau við einhvern annan líka.‘ Reyndar hugsaði ég þannig sjálfur. . . . Ég var ákaflega afbrýðisamur og tortrygginn.“
Þetta er harla ólíkt ósviknum kærleika sem „öfundar ekki [„er ekki afbrýðisamur,“ New World Translation] . . . hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin.“ (1. Korintubréf 13:4, 5) Sá kærleikur, sem byggir upp traust og varanlegt samband, byggist ekki á blindum ástríðum.
Kostir hreinlífis — friður og sjálfsvirðing
Skírlífi gerir meira en að firra unglinga vandræðum og sársauka. Biblían segir frá ungri stúlku sem varðveitti meydóm sinn þrátt fyrir brennandi kærleika til unnusta síns. Þar af leiðandi gat hún sagt stolt í bragði: „Ég er múrveggur, og brjóst mín eru eins og turnar.“ Hún var ekki eins og „hurð“ sem lét greiðlega undan siðlausum þrýstingi. Siðferðilega var hún eins og ókleifur virkisveggur með óvinnandi turnum. Hún verðskuldaði að kallast „hrein“ og gat sagt um væntanlegan eiginmann sinn: „Ég varð í augum hans eins og sú er fann hamingjuna.“ Hugarfriður hennar stuðlaði að lífshamingju þeirra beggja. — Ljóðaljóðin 6:9, 10; 8:9, 10.
Ester, sem getið var fyrr í kaflanum, naut sams konar innri friðar og sjálfsvirðingar. Hún segir: „Ég var ánægð með sjálfa mig. Jafnvel þegar vinnufélagar gerðu gys að mér leit ég á meydóm minn sem demant, verðmætan af því að hann er svo sjaldgæfur.“ Unglingar eins og Ester eru ekki þjakaðir af samviskubiti. „Ekkert er yndislegra en að hafa góða samvisku gagnvart Jehóva Guði,“ segir Stefán, 19 ára kristinn maður.
‚En hvernig getur ungt fólk kynnst vel án þess að hafa kynmök?‘ spyrja unglingar gjarnan.
Að byggja upp náið samband sem endist
Kynmök ein sér duga ekki til þess að byggja upp traust og varanlegt samband, og það er ekki heldur hægt með kossum og atlotum. Anna varar við: „Mér lærðist af reynslunni að stundum er hægt að komast allt of fljótt í allt of nána snertingu.“ Þegar ungt par eyðir samverustundunum í blíðuhót verður lítið um marktækar samræður og skoðanaskipti. Þannig er oft breitt yfir alvarlega bresti sem koma ekki í ljós fyrr en síðar, eftir að fólk er gift. Seinna meir, þegar Anna tók að kynnast manninum sem hún átti eftir að giftast, gætti hún þess vel að þau yrðu ekki of nærgöngul hvort við annað. Hún segir: „Við notuðum tímann til að leysa vandamál og ræða markmið okkar í lífinu. Ég kynntist hvaða mann hann hafði að geyma. Það sem kom mér á óvart eftir að við vorum gift var allt saman ánægjulegt.“
Var það erfitt fyrir Önnu og vin hennar að sýna slíka sjálfsstjórn? „Já, það var það!“ viðurkennir hún. „Ég er mjög ástrík að eðlisfari, en við ræddum saman um hætturnar og hjálpuðumst að. Okkur var báðum mikið í mun að þóknast Guði og spilla ekki væntanlegu hjónabandi okkar.“
En er samt ekki gott fyrir nýbökuð hjón að hafa vissa kynlífsreynslu fyrir? Nei, þvert á móti, það spillir oft fyrir! Þegar fólk hefur kynmök fyrir hjónaband er öll áherslan lögð á hina líkamlegu þætti kynlífs og eigin fullnægingu. Stjórnlausar ástríður grafa undan gagnkvæmri virðingu. Það er erfitt að breyta slíku eigingjörnu mynstri eftir að það hefur myndast, og með tíð og tíma getur það haft í för með sér hin alvarlegustu vandamál.
Sjálfsstjórn er aftur á móti nauðsynleg til að hið nána samlíf hjóna sé heilbrigt og farsælt. Bæði hjónin þurfa að leggja áherslu á að gefa, að ‚gæta skyldu sinnar gagnvart hvort öðru,‘ í stað þess að fá. (1. Korintubréf 7:3, 4) Skírlífi hjálpar ungu fólki að þroska með sér slíka sjálfsstjórn. Það kennir því að taka óeigingjarna umhyggju fyrir velferð hins aðilans fram yfir eigin langanir. Og gleymdu ekki að hjónabandssælan byggist ekki á kynlífinu eingöngu. Félagsfræðingurinn Seymour Fisher segir að kynferðisleg svörun konu sé einnig háð því að hún finni til „öryggis, tryggðar og hlýju“ og að eiginmaðurinn sé „fær um að lifa sig inn í tilfinningar konu sinnar og . . . trausti hennar til hans.“
Í könnun, sem náði til 177 giftra kvenna, kom í ljós að þrjár af hverjum fjórum þeirra, sem höfðu stundað kynlíf fyrir hjónaband, áttu við erfiðleika að stríða í kynlífinu fyrstu tvær vikurnar eftir brúðkaupið. Allar, sem áttu við að stríða langvinna erfiðleika í kynlífinu, „höfðu haft kynmök fyrir hjónaband.“ Rannsóknir hafa enn fremur sýnt að hjúskaparbrot er tvöfalt líklegra hjá þeim sem hafa kynmök fyrir hjónaband en þeim sem hafa það ekki! Svo sannarlega er Biblían raunsæ er hún segir: „Hór, . . . tekur vitið burt.“ — Hósea 4:11.
Það eru orð að sönnu að ‚við uppskerum það sem við sáum.‘ (Galatabréfið 6:7, 8) Sá sem sáir girnd og ástríðum uppsker ósköpin öll af efasemdum og öryggisleysi. Sá sem sáir sjálfsstjórn uppsker ríkulega tryggð og öryggi. Ester, sem áður er getið, hefur nú verið í hamingjusömu hjónabandi í nokkur ár. Eiginmaður hennar segir: „Það er ólýsanleg gleði að geta komið heim til konu sinnar og vitað að við tilheyrum bara hvort öðru. Ekkert getur komið í stað þessarar tryggðartilfinningar.“
Þeir sem bíða fram til hjónabands hafa einnig hugarfrið, vitandi að þeir þóknast Guði. Það er þó hvergi nærri auðvelt að halda sér siðferðilega hreinum nú á dögum. Hvað getur hjálpað þér til þess?
Spurningar til umræðu
◻ Hve algengt er kynlíf meðal unglinga sem þú þekkir? Hefur það áhrif á þig?
◻ Hvaða eftirköst getur kynlíf fyrir hjónaband haft? Þekkirðu einhverja unglinga sem hafa orðið fyrir slíku?
◻ Er örugglega hægt að forðast þungun með því að nota getnaðarvarnir?
◻ Hvers vegna finna sumir til vonbrigða og sektar eftir óleyfileg kynmök?
◻ Heldurðu að það stuðli að betra hjónabandi að hafa kynmök áður? Af hverju svararðu þannig?
◻ Hvernig getur ungt par kynnst vel í tilhugalífinu?
◻ Hvaða kosti telurðu það hafa að bíða með kynmök til hjónabands?
[Rammi á blaðsíðu 182]
„Það heyrir til undantekninga að fólk hafi ekki kynmök á táningsaldri.“ — Alan Guttmacher-stofnunin.
[Rammi á blaðsíðu 187]
„Það voru mikil vonbrigði — engin vellíðan og ástarylur eins og ég hafði búist við.“
[Rammi á blaðsíðu 190]
Þegar fólk hefur haft kynmök fyrir hjónaband verður ekki aftur snúið!
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 184, 185]
Barnshafandi unglingsstúlkur — ‚Það getur ekki komið fyrir mig!‘
„Yfir tíu af hundraði unglingsstúlkna verða barnshafandi árlega og hlutfallið fer hækkandi. Ef þróunin snýst ekki við verða fjórar af hverjum 10 stúlkum barnshafandi minnst einu sinni á táningsaldri,“ segir í skýrslunni Teenage Pregnancy: The Problem That Hasn’t Gone Away. Hvers konar stúlkur eru það sem verða barnshafandi? Tímaritið Adolescence svarar: „Stúlkur á skólaaldri, sem verða barnshafandi, koma úr öllum stéttum þjóðfélags og efnahags . . . af öllum kynþáttum, öllum trúarbrögðum, öllum landshlutum, jafnt til bæja sem sveita.“
Fæstar stúlkur vilja verða barnshafandi. Í tímamótakönnun Franks Furstenbergs, Jr., sem náði til yfir 400 barnshafandi unglingsstúlkna, „endurtóku flestar aftur og aftur í viðtölunum: ‚Mér datt aldrei í hug að það kæmi fyrir mig.‘“
Margar þeirra áttu vinkonur sem stunduðu kynlíf án þess að verða barnshafandi og héldu sig geta gert það líka. Furstenberg bætir við: „Margar sögðust hafa haldið að það væri ekki hægt að verða barnshafandi ‚strax.‘ Sumar héldu að þær gætu haft kynmök ‚af og til‘ án þess að verða barnshafandi. . . . Því lengur sem þeim tókst það án þess að verða barnshafandi, þeim mun líklegra var að þær tækju meiri áhættu.“
Sannleikurinn er hins vegar sá að hvenær sem stúlka hefur kynmök er hætta á að hún verði barnshafandi. (Af hópi 544 stúlkna ‚varð nálega fimmtungur barnshafandi innan hálfs árs eftir að þær byrjuðu að hafa kynmök.‘) Margar kusu af ásettu ráði að nota ekki getnaðarvarnir, eins og Sigga sem er nú einstæð móðir. Líkt og margir unglingar óttaðist hún að getnaðarvarnarpillur gætu verið skaðlegar heilsunni. „Ef ég hefði orðið mér úti um getnaðarvarnir,“ segir hún, „hefði ég þurft að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég væri að gera rangt. Það gat ég ekki. Þess vegna lokaði ég bara fyrir allar hugsanir um það hvað ég var að gera og vonaði að ekkert kæmi fyrir.“
Slíkur hugsanagangur er algengur meðal ógiftra mæðra. Í könnun Furstenbergs sagði „nálega helmingur táninganna að það væri mjög mikilvægt fyrir konu að láta kynlíf bíða fram til hjónabands . . . Óneitanlega var augljóst ósamræmi milli orða og verka . . . Þær höfðu lært einar lífsreglur og tamið sér að lifa eftir öðrum.“ Þessi tilfinningaárekstur „gerði þessum konum sérstaklega erfitt að mæta afleiðingum kynhegðunar sinnar af raunsæi.“
Getnaðarvarnir eru engin trygging gegn þungun. Bókin Kids Having Kids minnir á: „Engin aðferð er fullkomlega örugg . . . Jafnvel þótt ógiftir unglingar notuðu alltaf getnaðarvarnir . . . myndu 500.000 stúlkur [í Bandaríkjunum] verða barnshafandi ár hvert.“ Síðan er haft eftir sextán ára ógiftri móður sem heitir Steinunn: „Ég tók [getnaðarvarnarpillurnar] alltaf. Ég gleymdi þeim ekki einn einasta dag.“
„Villist ekki,“ segir Biblían í viðvörunartón: „Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“ (Galatabréfið 6:7) Þungun er aðeins ein af óæskilegum afleiðingum siðleysis. Sem betur fer geta ógiftar mæður, líkt og allir aðrir sem hafa fest sig í snöru siðleysisins, snúið við og leitað til Guðs með sama iðrunarhug og Davíð konungur sem bað: „Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni.“ (Sálmur 51:4) Guð mun blessa viðleitni þeirra, sem iðrast, til að ala börn sín upp „með aga og umvöndun [Jehóva].“ — Efesusbréfið 6:4.
Best er þó að halda sér frá kynlífi fyrir hjónaband! Láttu ekki blekkjast af þeim sem segja að þú komist upp með það.
[Mynd á blaðsíðu 183]
Eftir siðlaus kynmök finnst unglingi oft að hann hafi verið misnotaður eða jafnvel auðmýktur.
[Mynd á blaðsíðu 186]
Kynlíf fyrir hjónaband hefur oft samræðissjúkdóma í för með sér.
[Mynd á blaðsíðu 188]
Taumlaus ástaratlot geta haft siðferðilegar hættur í för með sér og takmarkað gagnlegar samræður og skoðanaskipti.
[Mynd á blaðsíðu 189]
Hamingja í hjónabandi er háð fleiru en holdlegu sambandi.
-
-
Kynlíf fyrir hjónaband – hvernig get ég sagt nei?Spurningar unga fólksins — svör sem duga
-
-
24. kafli
Kynlíf fyrir hjónaband – hvernig get ég sagt nei?
Í VÍÐTÆKRI könnun á vegum tímaritsins ’Teen kom í ljós að margir af hinum ungu lesendum blaðsins vildu fá svör við spurningunni: „Hvernig get ég sagt nei við kynmökum?“
Sálmaritarinn spurði svipaðrar spurningar í Sálmi 119:9: „Með hverju getur ungur maður [eða kona] haldið vegi sínum hreinum?“ Hann svarar: „Með því að gefa gaum að orði [Guðs].“ En það er ekki nóg bara að vita hvað er rétt og rangt. „Maður veit hvað Biblían segir um siðleysi,“ viðurkennir ung kona, „en hjartað er alltaf að reyna að þagga það niður.“ Sálmaritarinn bætti við þessum viðeigandi orðum: „Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.“ — Sálmur 119:11.
Verndaðu hjartað
Til að geta geymt orð Guðs í hjarta sínu þarf fyrst að lesa og nema Biblíuna og biblíutengd rit. Það getur hjálpað þér að sannfærast um gildi laga Guðs. Ef þú hins vegar hlustar á, horfir á eða lest efni sem örvar kynhvötina æsir það upp „losta.“ (Kólossubréfið 3:5) Forðastu slíkt efni eins og pestina! Láttu hugann frekar dvelja við það sem er hreint og heiðvirt.
Rannsóknir hafa sýnt að nánir vinir geta haft mikil áhrif á hvort fólk er hreinlíft eða ekki. Sálmaritarinn sagði: „Ég er félagi allra þeirra er óttast þig [Guð] og varðveita fyrirmæli þín.“ — Sálmur 119:63.
Reyna vinir þínir í alvöru að ‚varðveita fyrirmæli Guðs‘? Ung kona, Jóhanna, segir um vinaval: „Ef maður umgengst fólk sem elskar Jehóva tileinkar maður sér sömu viðhorf í siðferðismálum og það. Ef maður til dæmis heyrir það segja að siðleysi sé ógeðslegt fer manni að finnast það líka. Ef maður er hins vegar með fólki sem stendur alveg á sama, þá verður maður fljótlega eins og það.“ — Orðskviðirnir 13:20.
En oft er hættan á siðleysi mest hjá ungu fólki sem byrjar að „vera saman.“ Í könnun, sem Robert Sorensen gerði í Bandaríkjunum, kom í ljós að 56 af hundraði ungra karla og 82 af hundraði ungra kvenna, sem höfðu haft kynmök, sögðust hafa gert það fyrst með þeim sem þau voru með „á föstu“ — eða þekktu að minnsta kosti vel og þótti vænt um. En hvað um fólk sem komið er á giftingaraldur og er að draga sig saman? Hvernig getur það kynnst vel en samt verið hreinlíft?
Varist tálgryfjur í tilhugalífinu
Biblían varar við: „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það. Hver þekkir það?“ (Jeremía 17:9) Það er fullkomlega eðlilegt að laðast að einhverjum af hinu kyninu. En því meir sem þið eruð saman, þeim mun sterkara verður aðdráttaraflið. Og þetta eðlilega aðdráttarafl getur leitt hjartað á villigötur. „Frá hjartanu koma illar hugsanir, . . . saurlifnaður,“ sagði Jesús Kristur. — Matteus 15:19.
Oft er það ekki ætlunin hjá ungu pari að hafa kynmök.a Í flestum tilvikum gerist það sem framhald annarra atlota. Ógift móðir viðurkennir: „Hjá mér og flestum krökkum, sem ég þekki, gekk það bara örlítið lengra í hvert sinn, og það endar með því að maður er ekki hrein mey lengur. Það byrjar með smá atlotum og áður en maður veit af ræður maður ekki við sig lengur.“
Ef þú vilt ekki leiðast út í siðleysi verður þú að ráða yfir hjartanu í stað þess að láta það ráða yfir þér. (Orðskviðirnir 23:19) Hvernig er það hægt?
Settu takmörk: Ungur maður heldur kannski að vinkona hans ætlist til að hann byrji að kyssa hana og láta vel að henni, þótt hún vilji það alls ekki. „Með hroka vekja menn aðeins þrætur, en hjá ráðþægnum mönnum er viska.“ (Orðskviðirnir 13:10) Þið getið verið ‚ráðþæg‘ með því að láta hvort annað vita hvað þið teljið viðeigandi og óviðeigandi. Skynsamlegt er að setja atlotum og blíðuhótum skýr takmörk. Og gættu þess að senda ekki mótsagnakennd skilaboð. Kynæsandi, þröng, næfurþunn eða flegin föt geta sent kolröng skilaboð.
Forðastu varhugaverðar aðstæður: Biblían segir frá ungri, ógiftri stúlku sem vinur hennar bauð í gönguferð á afvikinn stað upp til fjalla. Honum gekk ekkert annað til en að njóta fegurðar vorsins með henni. En bræður stúlkunnar komust á snoðir um fyrirætlanir þeirra og gerðu þær tafarlaust að engu. Héldu þeir að systir þeirra hefði einhverjar siðlausar tilhneigingar? Alls ekki. En þeir vissu hve sterk freistingin í þá átt getur verið við slíkar aðstæður. (Ljóðaljóðin 1:6; 2:8-15) Eins ættir þú að forðast aðstæður sem gætu leitt til freistinga, svo sem að vera einn í húsinu, íbúðinni eða í bíl á afviknum stað með þeim sem þú ert að gera hosur þínar grænar fyrir.
Þekktu takmörk þín: Á vissum tímum geturðu verið veikari fyrir kynferðislegri freistingu en endranær. Kannski ertu dapur yfir einhverjum mistökum eða ósætti við foreldrana. Vertu sérstaklega varkár þegar þú ert þannig stemmdur. (Orðskviðirnir 24:10) Gættu þín einnig í umgengni við áfenga drykki. Það getur verið erfitt að hafa hemil á sér undir áhrifum áfengis. „Vín og vínberjarlögur tekur vitið burt.“ — Hósea 4:11.
Segðu nei og meintu það: Hvað geta hjónaleysi gert þegar tilfinningarnar stigmagnast og þau gerast hættulega ástleitin hvort við annað? Annað þeirra verður að segja eða gera eitthvað til að stöðva keðjuverkunina. Dóra var úti að keyra með vini sínum þegar hann stöðvaði bílinn á afviknum stað til að þau gætu „talað saman.“ Þegar þau voru að missa stjórn á tilfinningunum sagði Dóra við hann: „Heyrðu, erum við ekki farin að kela? Eigum við ekki að hætta?“ Það dugði og hann ók henni heim þegar í stað. Að segja nei við slíkar aðstæður er kannski það erfiðasta sem þú hefur nokkurn tíma gert. En eins og tvítug kona, sem lét undan freistingunni til að hafa kynmök, sagði: „Mann iðrar þess eftir á ef maður stöðvar ekki leikinn!“
Verið ekki ein saman: Sumum finnst það ef til vill gamaldags að hafa velsæmisvörð með sér en það er samt góð hugmynd. „Það lítur út eins og okkur sé ekki treystandi,“ kvarta sumir. Kannski. En er skynsamlegt að treysta sjálfum sér? Orðskviðirnir 28:26 segja umbúðalaust: „Sá sem treystir eigin hyggjuviti er heimskingi, en sá sem breytir viturlega, mun undan komast.“ Sýndu þá visku að hafa einhvern eða einhverja með þegar þið hittist. „Ég ber mikla virðingu fyrir manni sem hefur velsæmisvörð með sér. Ég veit að hann hefur jafnmikinn áhuga og ég á að halda vegi sínum hreinum,“ segir Dóra. „Það er ekkert óþægilegt, því að ef maður vill segja eitthvað einslega er ekkert auðveldara en að víkja sér aðeins frá. Verndin sem það veitir er þess virði.“
Vinátta við Guð
Framar öllu öðru er það mikils virði að byggja upp náin vináttubönd við Guð, þekkja hann sem raunverulega persónu sem hefur tilfinningar. Það hjálpar þér að forðast hvaðeina sem myndi særa hann. Þú styrkir tengsl þín við hann ef þú opnar hjarta þitt fyrir honum og ræðir vandamál þín opinskátt við hann. Mörg hjónaleysi, sem hafa lagt sig fram um að varðveita hreinleika sinn, hafa jafnvel beðið sameiginlega til Guðs þegar þau hafa átt erfitt með að hafa hemil á tilfinningunum, og beðið hann að gefa sér nauðsynlegan styrk.
Jehóva svarar slíkum bænum örlátlega með ‚ofurmagni kraftarins.‘ (2. Korintubréf 4:7) Þú verður auðvitað að leggja þitt af mörkum, en þú mátt treysta því að með hjálp Guðs og blessun er vel hægt að forðast kynferðislegt siðleysi.
[Neðanmáls]
a Samkvæmt einni könnun sögðu 60 af hundraði kvenna að kynmökin hefðu ekki verið fyrirfram ákveðin.
Spurningar til umræðu
◻ Nefndu sumt af því sem getur hjálpað þér að virða lög Jehóva í kynferðismálum.
◻ Hvernig geta vinir þínir haft áhrif á viðhorf þín til kynlífs fyrir hjónaband?
◻ Hvers vegna telur þú nauðsynlegt að gæta varúðar þegar þú ert með einhverjum af hinu kyninu?
◻ Hvað er hægt að gera í tilhugalífinu til að vernda sig gegn siðleysi?
[Rammi á blaðsíðu 193]
„Það byrjar með smá atlotum . . . “
[Rammi á blaðsíðu 194]
Forðist siðleysi í tilhugalífinu með því að einangra ykkur ekki.
[Rammi/Myndir á blaðsíðu 195]
‚Haldið vegi ykkar hreinum‘ í tilhugalífinu
Forðist aðstæður sem gætu leitt til ástaratlota.
Verið í hóp með öðrum þegar þið farið út saman eða hafið velsæmisvörð.
Haldið samræðunum á uppbyggilegum nótum.
Láttu vita strax frá upphafi hvaða takmörk þú setur atlotum og blíðuhótum.
Klæddu þig sómasamlega og forðastu ögrandi framkomu.
Biddu um að farið sé heim með þig ef þér finnst hreinleiki þinn í hættu.
Forðist langdregnar kveðjustundir.
Verið ekki of seint úti á kvöldin.
[Mynd]
Margt er hægt að gera í tilhugalífinu án þess að einangra sig frá öðrum.
[Mynd á blaðsíðu 196]
Vertu nógu skynsamur til að segja nei ef ástríðurnar blossa upp — og meintu það!
-
-
Er sjálfsfróun alvarlegur löstur?Spurningar unga fólksins — svör sem duga
-
-
25. kafli
Er sjálfsfróun alvarlegur löstur?
„Ég er að velta fyrir mér hvort sjálfsfróun sé röng í augum Guðs. Ætli hún hafi áhrif á andlega og líkamlega heilsu mína í framtíðinni, og ef ég skyldi giftast?“ — Margrét, fimmtán ára.
SLÍKAR hugsanir hafa þjakað marga unglinga. Hvers vegna? Vegna þess að sjálfsfróun er mjög algeng. Talið er að við 21 árs aldur hafi 97 af hundraði karla og yfir 90 af hundraði kvenna einhvern tíma fróað sér. Auk þess hefur þessum ávana verið kennt um alls konar kvilla og krankleika — allt frá vörtum og þrútnum augum upp í flogaveiki og geðsjúkdóma.
Læknavísindin eru hætt að halda fram slíkum kynjasögum. Læknar telja meira að segja að sjálfsfróun geti alls ekki valdið nokkrum líkamlegum kvillum. Rannsóknarmennirnir William Masters og Virginia Johnson segja: „Engin læknisfræðileg rök eru fyrir því að sjálfsfróun, hversu tíð sem hún er, leiði til geðveiki.“ Sjálfsfróun er eigi að síður skaðleg á ýmsa aðra vegu og er þar af leiðandi alvarlegt áhyggjuefni fyrir mörg kristin ungmenni. „Þegar ég lét undan og fróaði mér fannst mér ég alltaf vera að bregðast Jehóva Guði,“ sagði unglingur. „Stundum varð ég mjög niðurdreginn.“
Hvað er sjálfsfróun eiginlega? Hve alvarlegt mál er hún og hvers vegna eiga margir unglingar mjög erfitt með að sigrast á henni?
Hvers vegna unglingar eru veikir fyrir
Sjálfsfróun er það fitla við kynfæri sín til að valda kynferðislegri örvun. Á kynþroskaaldrinum vaknar kynhvötin og líkaminn byrjar að framleiða sterk hormón sem hafa áhrif á þroska kynfæranna. Unglingurinn uppgötvar að þessir líkamshlutar geta veitt honum vissa ánægjukennd. Stundum finnur hann jafnvel fyrir kynferðislegri örvun án þess að hafa nokkuð verið að hugsa um kynferðismál.
Til dæmis geta áhyggjur, ótti eða vonbrigði haft þau áhrif á viðkvæmt taugakerfi ungs pilts að hann finni til kynferðislegrar örvunar. Uppsafnað sæði getur komið honum til að vakna í kynferðislegu uppnámi eða valdið sáðlátum í svefni, oft samfara ástarlífsdraumum. Ungar stúlkur geta einnig orðið fyrir kynferðislegri örvun án þess að ætla sér það. Margar stúlkur finna fyrir aukinni kynhvöt rétt fyrir eða eftir tíðablæðingar.
Það er því ekkert að þér þótt þú finnir fyrir kynferðislegri örvun af þessu tagi. Hún er hluti af eðlilegri líkamsstarfsemi unglings. Slíkar kenndir, jafnvel þótt þær séu mjög sterkar, eru ekki hið sama og sjálfsfróun því að þær eru að mestu leyti ósjálfráðar. Með aldrinum verða þessar nýju kenndir viðráðanlegri.
En forvitnin og nýjabrumið fær suma unglinga til að fitla við kynfærin eða gæla við þau.
‚Olía á eldinn‘
Biblían segir frá ungum manni sem hittir lausláta konu. Hún kyssir hann og segir: „Kom þú, við skulum . . . gamna okkur með blíðuhótum.“ Og hvað svo? „Hann fer rakleiðis á eftir henni, eins og naut gengur fram á blóðvöllinn.“ (Orðskviðirnir 7:7-22) Hvað vakti upp ástríður þessa unga manns? Það var ekki bara eðlileg hormónastarfsemi heldur það sem hann sá og heyrði.
Ungur maður viðurkennir: ‚Í hnotskurn var vandamálið fólgið í því sem ég hleypti inn í hugann. Ég horfði á sjónvarpsþætti með siðlausum atriðum og stundum á myndir í kapalsjónvarpi þar sem sýnd voru nektaratriði. Slíkar myndir brenna sig inn í vitundina. Þær komu aftur upp í hugann og voru eins og olía á eldinn og komu mér til að fróa mér.‘
Kveikjan að sjálfsfróun er oft það sem fólk les, horfir á, hlustar á, talar um eða hugsar um. Tuttugu og fimm ára kona viðurkennir: „Það var eins og ég gæti bara ekki hætt því. En ég var líka vön að lesa ástarsögur og það gerði málið auðvitað verra viðfangs.“
„Róandi lyf“
Þessi unga kona bendir hér vafalaust á algengustu ástæðuna fyrir því að flestum finnst erfitt að hætta sjálfsfróun. Hún segir: „Ég fróaði mér yfirleitt til að fá útrás fyrir álag, spennu eða áhyggjur. Hinn stundlegi unaður var fyrir mig eins og sopinn sem drykkjusjúklingurinn fær sér til að róa taugarnar.“
Rannsóknarmennirnir Suzanne og Irving Sarnoff segja: „Hjá sumum getur sjálfsfróun orðið að ávana sem þeir nota sér til hughreystingar þegar þeim er hafnað eða þeir eru kvíðnir út af einhverju. Aðrir nota þessa flóttaleið aðeins stöku sinnum þegar þeir verða fyrir miklu tilfinningaálagi.“ Hjá sumum er sjálfsfróun greinilega eins og „róandi lyf“ sem þeir grípa til þegar þeir eru í uppnámi, niðurdregnir, einmana eða undir miklu álagi.
Hvað segir Biblían?
Unglingur spurði: „Er sjálfsfróun ófyrirgefanleg synd?“ Sjálfsfróun er reyndar hvergi nefnd í Biblíunni.a Hún var algeng í hinum grískumælandi heimi á biblíutímanum og til eru nokkur grísk orð sem notuð voru um hana. Biblían notar þó ekkert þeirra.
Má þá skilja það svo að sjálfsfróun sé skaðlaus úr því að hún er ekki beinlínis fordæmd í Biblíunni? Alls ekki! Þótt sjálfsfróun sé ekki flokkuð með grófum syndum, svo sem saurlifnaði, er hún tvímælalaust óhreinn ávani. (Efesusbréfið 4:19) Meginreglur Biblíunnar gefa til kynna að það sé „gagnlegt“ að spyrna harkalega við fótum gegn þessum óhreina ávana. — Jesaja 48:17.
Vekur „losta“
Biblían hvetur okkur til að ‚deyða hið jarðneska í fari okkar,‘ meðal annars „losta.“ (Kólossubréfið 3:5) ‚Losti‘ er ekki eðlileg kynhvöt heldur taumlaus fýsn. Slíkur ‚losti‘ getur leitt menn út í gróft siðleysi eins og Páll lýsir í Rómverjabréfinu 1:26, 27.
En ‚deyðir‘ maður ekki þessar langanir með því að fróa sér? Nei, þvert á móti eins og ungur maður viðurkennir: „Þegar maður fróar sér er maður með hugann við rangar langanir, og það gerir það eitt að magna þær upp.“ Oft er reynt að auka nautnina með siðlausum hugarórum. (Matteus 5:27, 28) Ef tækifæri gæfist til siðlauss verknaðar gæti maður hæglega fallið fyrir freistingunni. Það henti ungan mann sem viðurkennir: „Einu sinni fannst mér að sjálfsfróun gæti dregið úr spennunni án þess að ég þyrfti að vera í tygjum við konu. Samt sem áður magnaðist upp hjá mér óstjórnleg löngun til þess.“ Hann drýgði hór. Yfirgripsmikil könnun leiddi í ljós að þorri unglinga, sem fróaði sér, stundaði einnig saurlifnað. Þeir sem það gerðu voru 50 af hundraði fleiri en þeir sem höfðu aldrei haft kynmök!
Saurgar hugann og tilfinningarnar
Með sjálfsfróun er fólk að tileinka sér viðhorf sem spilla huganum. (Samanber 2. Korintubréf 11:3.) Meðan á sjálfsfróun stendur er einstaklingurinn algerlega upptekinn af sjálfum sér og nautn sinni. Kynlíf er slitið úr samhengi við ást og breytist í ósjálfráð viðbrögð til að slaka á spennu. En Guð ætlaðist til að menn svöluðu kynhvötinni með kynmökum — sem tjáningu ástar milli hjóna. — Orðskviðirnir 5:15-19.
Sá sem fróar sér getur líka haft tilhneigingu til að líta á hitt kynið eingöngu sem kynveru — verkfæri til að fullnægja kynhvöt sinni. Þannig geta röng viðhorf, sem sjálfsfróun ýtir undir, saurgað „anda“ mannsins eða hinar ríkjandi hneigðir hans. Í sumum tilvikum geta þau vandamál, sem sjálfsfróunin veldur, haldist við eftir að stofnað er til hjónabands! Það er því af ærnu tilefni sem orð Guðs hvetur: „Hreinsum sjálfa oss af allri saurgun á holdi og anda.“ — 2. Korintubréf 7:1, Biblían 1912.
Öfgalaust viðhorf til sektarkenndar
Margir unglingar, sem hafa að mestu leyti sigrast á þessum slæma ávana, láta þó undan af og til. Sem betur fer er Guð mjög miskunnsamur. „Þú, [Jehóva], ert góður og fús til að fyrirgefa,“ sagði sálmaritarinn. (Sálmur 86:5) Þegar kristinn maður lætur undan freistingunni til að fróa sér dæmir hjartað hann oft. Þó segir Biblían að ‚Guð sé meiri en hjarta vort og þekki alla hluti.‘ (1. Jóhannesarbréf 3:20) Guð sér fleira en syndir okkar. Í sinni miklu þekkingu getur hann hlustað með samúð á einlægar bænir okkar um fyrirgefningu. Eins og ung kona komst að orði: „Ég hef sektarkennd að vissu marki, en vitneskjan um það hve kærleiksríkur Guð Jehóva er og að hann geti lesið hjarta mitt og þekki alla viðleitni mína og ásetning, forðar mér frá því að verða of niðurdregin þegar mér mistekst af og til.“ Ef þú berst gegn lönguninni til að fróa þér er ekki líklegt að þú drýgir hina alvarlegu synd, saurlifnað.
Tímaritið Varðturninn (ensk útgáfa) sagði hinn 1. september 1959: „Stundum hrösum við og föllum mörgum sinnum vegna ávana sem var orðinn rótgrónari í okkar fyrra lífsmynstri en við höfðum gert okkur grein fyrir. . . . Ekki örvænta. Ekki halda að þú hafir drýgt ófyrirgefanlega synd. Satan vill einmitt að þú haldir það. Sú staðreynd að þú ert sorgmæddur og óánægður með sjálfan þig sannar einmitt að þú hefur ekki farið yfir mörkin. Þreystu aldrei á að snúa þér í auðmýkt og einlægni til Guðs, leita fyrirgefningar hans, hreinsunar og hjálpar. Leitaðu til hans eins og barn leitar til föður síns þegar það á í erfiðleikum, óháð því hve oft það er vegna sama veikleika, og Jehóva mun náðarsamlega hjálpa þér vegna óverðskuldaðrar gæsku sinnar, og ef þú ert einlægur mun hann láta þig finna að hann hefur hreinsað samvisku þína.“
Hvernig er hægt að fá ‚hreina samvisku‘?
[Neðanmáls]
a Guð tók Ónan af lífi fyrir að ‚láta sæði sitt spillast á jörðu.‘ Þar var hins vegar um að ræða rofin kynmök, ekki sjálfsfróun. Ónan var líflátinn vegna þess að í eigingirni sinni vildi hann ekki ganga að eiga ekkju bróður síns í þeim tilgangi að viðhalda ættlegg hans. (1. Mósebók 38:1-10) Hvað er þá átt við með því að ‚láta sæði‘ eins og getið er um í 3. Mósebók 15:16-18? Hér er greinilega ekki átt við sjálfsfróun heldur ósjálfráð sáðlát að næturlagi og kynmök í hjónabandi.
Spurningar til umræðu
◻ Hvað er sjálfsfróun og hvaða misskilningur er útbreiddur í sambandi við hana?
◻ Hvers vegna finna unglingar oft fyrir mjög sterkri kynhvöt? Heldur þú að það sé rangt?
◻ Hvað getur kynt undir lönguninni til að fróa sér?
◻ Er sjálfsfróun á einhvern hátt skaðleg fyrir ungling?
◻ Hve alvarleg synd er sjálfsfróun að þínu mati?
◻ Hvernig lítur Jehóva á ungling sem berst gegn tilhneigingunni, þótt hann eigi stundum erfitt með að sporna gegn henni?
[Rammi á blaðsíðu 200]
Sumir finna fyrir hvöt til að fróa sér þegar þeir eru einmana, niðurdregnir, taugaspenntir eða undir álagi.
[Rammi á blaðsíðu 202]
‚Í hnotskurn var vandamálið fólgið í því sem ég hleypti inn í hugann.‘
[Rammi á blaðsíðu 204]
„Þegar ég lét undan og fróaði mér fannst mér ég alltaf vera að bregðast Jehóva Guði.“
[Mynd á blaðsíðu 198]
Sjálfsfróun getur vakið mjög sterka sektarkennd, en einlæg bæn til Guðs um fyrirgefningu og heiðarleg viðleitni til að yfirstíga þennan ávana getur veitt manni góða samvisku á ný.
[Mynd á blaðsíðu 203]
Kvikmyndir, bækur og sjónvarpsþættir, sem hafa ástarlíf að viðfangsefni, eru oft eins og ‚olía á eldinn.‘
-
-
Hvernig get ég barist gegn sjálfsfróun?Spurningar unga fólksins — svör sem duga
-
-
26. kafli
Hvernig get ég barist gegn sjálfsfróun?
„FÍKNIN er mjög sterk,“ segir ungur maður sem barðist gegn sjálfsfróun í 15 ár. „Hún getur verið jafn vanabindandi og fíkniefni eða áfengi.“
Páll postuli vissi að ástríður holdsins geta verið harður húsbóndi og gætti þess að verða ekki þræll þeirra. Hann sagði: „Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum.“ (1. Korintubréf 9:27) Hann var harður við sjálfan sig! Hver sem er getur sigrast á þeim ávana að fróa sér, ef hann er harður við sjálfan sig.
„Búið hugi ykkar til verka“
Fyrir marga er sjálfsfróun leið til að losa um taugaspennu og áhyggjur. En það eru auðvitað barnaleg viðbrögð við vandamálum. (Samanber 1. Korintubréf 13:11.) Betra er að sýna „hyggindi“ og ráðast gegn sjálfu vandamálinu. (Orðskviðirnir 1:4) Þegar erfiðleikar og áhyggjur virðast yfirþyrmandi er kominn tími til að ‚varpa allri áhyggju sinni á Guð.‘ — 1. Pétursbréf 5:6, 7.
Segjum að þú sjáir eða heyrir af tilviljun eitthvað sem hefur kynæsandi áhrif á þig. Biblían ráðleggur: „Búið hugi ykkar til verka; sýnið sjálfstjórn.“ (1. Pétursbréf 1:13, New International Version) Beittu huganum af alefli og rektu burt hina siðlausu hugsun. Þá rennur æsingurinn fljótt af þér.
Óhreinar hugsanir eru sérstaklega erfiðar viðfangs að næturþeli þegar maður er einn. Ung kona ráðleggur: „Það besta, sem hægt er að gera, er að snara sér út úr rúminu og fara að gera eitthvað eða fá sér smásnarl, til að beina huganum að einhverju öðru.“ Já, neyddu sjálfan þig til að ‚hugfesta allt sem er göfugt, rétt og hreint, elskuvert og gott afspurnar.‘ — Filippíbréfið 4:8.
Reyndu að líkja eftir hinum trúfasta Davíð konungi ef þú átt erfitt með að festa svefn. Hann skrifaði: „Ég minnist þín [Guðs] í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.“ (Sálmur 63:7) Oft er hægt að rjúfa vítahring rangra hugsana með því að neyða sig til að hugsa um Guð og eiginleika hans. Það er líka gott að hugsa um það hvernig Guð lítur á þennan óhreina ávana. — Sálmur 97:10.
Fyrirbyggjandi aðgerðir
„Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því,“ sagði hinn innblásni spekingur. (Orðskviðirnir 22:3) Vitur maður sýnir fyrirhyggju. Ef þú uppgötvar til dæmis að ákveðnar athafnir, þröng föt eða vissar fæðutegundir hafa kynörvandi áhrif á þig, þá skaltu fyrir alla muni forðast slíkt. Áfengi getur til dæmis dregið úr hömlum og torveldað sjálfstjórn. Forðastu líka eins og pestina allt kynæsandi lesefni, sjónvarpsefni eða kvikmyndir. „Snú augum mínum frá því að horfa á hégóma,“ bað sálmaritarinn. — Sálmur 119:37.
Ef þú finnur að þú ert sérstaklega veikur fyrir á vissum tímum geturðu líka gert fyrirbyggjandi ráðstafanir. Ung kona veit kannski að kynhvöt hennar er sterkari á vissum tímum mánaðarins en endranær. Sárindi eða depurð geta einnig haft sitt að segja. „Látir þú hugfallast á neyðarinnar degi, þá er máttur þinn lítill,“ segja Orðskviðirnir 24:10 í viðvörunartón. Reyndu þá að vera ekki einn lengi í senn. Leggðu drög að uppbyggjandi viðfangsefnum sem gera kröfur til hugans og gefa honum sem minnst tækifæri til siðlausra hugsana.
Andleg sókn
Tuttugu og sjö ára gamall maður, sem hafði barist gegn sjálfsfróun síðan hann var ellefu ára, vann að lokum sigur. „Það sem réði úrslitum var að fara úr vörn í sókn,“ segir hann. „Ég las undantekningarlaust minnst tvo kafla í Biblíunni hvern einasta dag.“ Hann hefur gert það staðfastlega í þrjú ár. Annar kristinn maður ráðleggur: „Lestu eitthvað fyrir háttinn sem tengist andlegum málum. Það er mjög mikilvægt að síðustu hugsanir dagsins séu andlegar. Auk þess er mjög gagnlegt að biðja á þeim tíma.“
Að ‚vera síauðugur í verki Drottins,‘ svo sem því starfi að kenna öðrum með hjálp Biblíunnar, er einnig gott. (1. Korintubréf 15:58) Kona, sem sigraðist á sjálfsfróun, sagði: „Eitt sem hjálpar mér mikið núna að forðast þennan ávana er að vera boðberi fagnaðarerindisins í fullu starfi. Þá einbeiti ég huga mínum og kröftum að því að hjálpa öðrum að eiga velþóknun Guðs.“
Í innilegri bæn geturðu sárbænt Guð um „ofurmagn kraftarins.“ (2. Korintubréf 4:7) ‚Úthelltu hjarta þínu fyrir Guði.‘ (Sálmur 62:9) Ung kona segir: „Bænin veitir manni styrk á augabragði. Það kemur tvímælalaust að gagni að biðja þegar löngunin vaknar.“ Það er líka gott að tjá Guði ásetning sinn strax að morgni og nefna hann í bænum sínum yfir daginn og sárbæna hann um styrk heilags anda. — Lúkas 11:13.
Hjálp annarra
Ef viðleitni þín dugir ekki til skaltu leita til einhvers sem getur hjálpað þér, til dæmis föður þíns, móður eða öldungs í kristna söfnuðinum. Ung stúlka getur kannski leitað til þroskaðrar kristinnar konu. (Títusarbréfið 2:3-5) Ungur maður, sem rambaði á barmi örvæntingar, segir: „Ég talaði einslega um þetta við pabba eitt kvöldið. Ég þurfti að taka á öllu sem ég átti til að segja honum frá því. Ég skammaðist mín svo mikið að ég grét þegar ég sagði honum frá því. En ég mun aldrei gleyma því sem hann sagði. Hann brosti vingjarnlega og sefandi og sagði: ‚Ég er stoltur af þér.‘ Hann vissi hvað ég þurfti að leggja á mig til að leita til hans. Ekkert hefði getað uppörvað mig og styrkt ásetning minn meira.“
Ungi maðurinn heldur áfram: „Pabbi sýndi mér síðan fáeina ritningarstaði til að benda mér á að það væri ekki algerlega úti um mig, og svo nokkra í viðbót til að fullvissa sig um að ég skildi alvöruna í því ranga sem ég gerði. Hann sagði mér að ‚halda vegi mínum hreinum‘ um ákveðinn tíma og síðan myndum við ræða málið á ný. Hann hvatti mig til að missa ekki kjarkinn þótt ég hrasaði, heldur sjá bara til þess að það liði lengri tími þar til ég hrasaði á ný.“ Ungi maðurinn hefur nú sigrast algerlega á vandamáli sínu og segir: „Mesta hjálpin var sú að það skyldi einhver annar vita af vandamáli mínu og styðja mig.“
Ef þú hrasar
Ungur maður hrasaði á bataveginum eftir að hafa lagt hart að sér til að sigrast á þessum ávana. Hann viðurkennir: „Þetta hvíldi á mér eins og mara. Mér fannst ég vera til háborinnar skammar. Síðan hugsaði ég: ‚Ég er búinn að ganga of langt. Ég hef ekki velþóknun Jehóva hvort eð er þannig að ég hef enga ástæðu til að vera harður við sjálfan mig.‘“ En hrösun á bataveginum er ekki það sama og að tapa stríðinu. Nítján ára stúlka segir: „Í fyrstu gerðist það hjá mér næstum á hverri nóttu, en svo fór ég að reiða mig meira á Jehóva, og með hjálp anda hans er það komið niður í svona sex skipti á ári. Mér líður hræðilega á eftir en í hvert sinn, sem mér mistekst, er ég miklu sterkari þegar freistingin kemur yfir mig næst.“ Hún er því smám saman að sigra í baráttunni.
Þegar þú hrasar á bataveginum skaltu brjóta aðdragandann til mergjar. Ung stúlka segir: „Ég rifja upp hvað ég hef verið að lesa eða hugsa um. Ég get næstum alltaf fundið ástæðuna fyrir því að ég féll. Þannig get ég leiðrétt sjálfa mig og hætt því.“
Umbun góðrar baráttu
Ungur maður, sem sigraðist á sjálfsfróun, segir: „Síðan ég sigraðist á vandamálinu hef ég haft hreina samvisku frammi fyrir Jehóva, og hana vildi ég ekki láta í skiptum fyrir nokkuð annað!“
Já, góð samviska, aukin sjálfsvirðing, meira siðferðisþrek og nánara samband við Guð eru launin fyrir harða baráttu gegn sjálfsfróun. Ung kona, sem sigraði eftir langa baráttu, segir: „Trúið mér, sigur á þessum ósið er fyrirhafnarinnar virði.“
Spurningar til umræðu
◻ Af hverju er hættulegt að láta hugann dvelja við ástarlífið? Hvað getur unglingur gert til að beina huganum inn á aðrar brautir?
◻ Hvaða fyrirbyggjandi aðgerðir geta dregið úr freistingunni til að fróa sér?
◻ Hvers vegna kemur andleg sókn að gagni?
◻ Hvert er hlutverk bænarinnar í því að sigrast á sjálfsfróun?
◻ Hvers vegna er gott að trúa öðrum fyrir vandamáli sínu?
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 208, 209]
Klám – vanabindandi og hættulegt!
„Klámið er alls staðar. Maður gengur eftir götunni og það blasir við manni á blaðsölustöðunum,“ segir Róbert sem er 19 ára. „Sumir af kennurunum okkar höfðu klámrit með sér í skólann og lásu þau við kennaraborðið meðan þeir biðu eftir næsta tíma.“ Já, margir lesa klámrit af áfergju og virðist aldur, uppruni og menntun skipta þar litlu máli. Sverrir segir: „Mér fannst mjög spennandi að lesa klámblöð og skoða myndirnar! . . . Ég beið spenntur eftir nýjum blöðum vegna þess að mér fannst ekki jafnæsandi að fletta gömlu blöðunum aftur. Þetta er vanabindandi.“ En er þetta góður ávani?
Boðskapur klámsins er skýr og ótvíræður: ‚Kynlífið snýst um það að fullnægja sjálfum sér.‘ Að stórum hluta er það gagnsýrt nauðgunum, kvalalosta og öðru ofbeldi. Þeir sem horfa á klámkvikmyndir og skoða klámblöð komast fljótt að raun um að hinar „mildari“ útgáfur hætta að hafa æsandi áhrif á þá, og þá leita þeir uppi enn grófari myndir eða kvikmyndir! Ernest van den Haag, sem er aðstoðarprófessor við New York University, segir: „Klámið hvetur okkur til að skynja aðra bara sem kjötstykki, sem brúkunarhold til að fullnægja eigin fýsnum.“
Klám gefur afskræmda mynd af kynlífinu og gerir það að hálfgerðum átrúnaði sem leiðir síðan oft til vandamála í hjónabandi. Ung eiginkona segir: „Lestur klámrita vakti hjá mér löngun í þær óeðlilegu athafnir sem ritin lýstu. Það leiddi til stöðugra vonbrigða í kynlífinu.“ Árið 1981 var gerð könnun meðal nokkur hundruð kvenna á áhrifum kláms á tengsl þeirra við karlmennina í lífi þeirra. Fram kom hjá nálega helmingi þeirra að það ylli alvarlegum vandamálum. Meira að segja eyðilagði það hjónabönd eða trúlofanir í nokkrum tilvikum. Ein eiginkona kvartaði: „Þörf [mannsins míns] fyrir klámrit til að fá fullnægju getur einungis látið mig fá á tilfinninguna að ég nægi honum ekki . . . Ég vildi að Guð gæfi að ég væri þannig kona sem gæti fullnægt honum, en hann tekur plast og pappír fram yfir, og þessi þörf hans hefur eyðilagt eitthvað hið innra með mér. . . . Klám er . . . andhverfa kærleikans . . . Það er ljótt, grimmt og skaðlegt.“
Það sem skiptir kristna unglinga þó langmestu máli er að klám vinnur beinlínis gegn viðleitni þeirra til að halda sér hreinum í augum Guðs. (2. Korintubréf 6:17-7:1) Biblían segir frá því að hið „harða hjarta“ sumra manna til forna hafi gert þá ‘tilfinningalausa‘ og valdið því að þeir ‘ofurseldu sig lostalífi svo að þeir frömdu alls konar siðleysi af græðgi.‘ (Efesusbréfið 4:18, 19) Langar þig til að verða slíkri spillingu að bráð? Mundu að jafnvel þótt þú leyfir þér ekki að horfa á klámfengið efni nema af og til getur það gert samvisku þína ónæmari. Klám hefur leitt sum kristin ungmenni út í sjálfsfróun, og það sem verra er, siðleysi. Það er því viturlegt að leggja sig alla fram við að halda sér frá klámi.
„Klámrit blasa oft við mér þar sem ég er á ferli,“ segir Þráinn. „Oft kemst ég ekki hjá því að reka augun í þau, en ég þarf ekki að horfa á þau í annað sinn.“ Já, láttu það vera að renna augunum þangað sem klámritin blasa við og neitaðu að láta undan hvatningu bekkjarfélaganna til að horfa á þau. Karen, 18 ára, hefur lög að mæla: „Sem ófullkominni manneskju finnst mér nógu erfitt að reyna að halda huganum við það sem er hreint og lofsvert. Væri það ekki enn þá erfiðara ef ég læsi klámrit?“
[Mynd á blaðsíðu 206]
„Bænin veitir manni styrk á augabragði. Það kemur tvímælalaust að gagni að biðja þegar löngunin vaknar.“
-