Fyrsta Mósebók
6 Mönnunum fór nú að fjölga á jörðinni og þeir eignuðust dætur. 2 Synir hins sanna Guðs*+ tóku eftir hversu fallegar dætur mannanna voru og fóru að taka sér hverja þá konu sem þeim leist vel á. 3 Þá sagði Jehóva: „Ég* umber manninn ekki að eilífu+ því að hann er holdlegur.* Dagar hans verði því 120 ár.“+
4 Á þeim tíma og einnig síðar voru risarnir* á jörðinni því að synir hins sanna Guðs höfðu samfarir við dætur mannanna og eignuðust með þeim syni. Það voru kapparnir sem voru frægir forðum daga.
5 Jehóva sá nú að illska mannsins var mikil á jörðinni og að hugur hans og hjarta hneigðist stöðugt að því sem var illt.+ 6 Jehóva sá eftir því* að hafa skapað mennina á jörðinni og honum sárnaði* í hjarta sínu.+ 7 Jehóva sagði því: „Ég ætla að afmá af yfirborði jarðar mennina sem ég skapaði, já, menn ásamt búfé, dýrum sem skríða á jörðinni og fleygum dýrum himins, því að ég sé eftir því að hafa skapað þá.“ 8 En Jehóva hafði velþóknun á Nóa.
9 Þetta er saga Nóa:
Nói var réttlátur maður.+ Hann var óaðfinnanlegur* og skar sig þannig úr meðal samtímamanna* sinna. Nói gekk með hinum sanna Guði.+ 10 Nói eignaðist þrjá syni, Sem, Kam og Jafet.+ 11 En jörðin var orðin spillt í augum hins sanna Guðs og full af ofbeldi. 12 Já, Guð sá að jörðin var spillt+ – allir menn á jörðinni höfðu spillt líferni sínu.+
13 Þá sagði Guð við Nóa: „Ég hef ákveðið að eyða öllum mönnum því að jörðin er full af ofbeldi vegna þeirra. Ég ætla því að eyða þeim ásamt jörðinni.+ 14 Gerðu þér örk* úr kvoðuríkum viði.*+ Skiptu örkinni í rými og berðu á hana tjöru*+ að innan og utan. 15 Þannig áttu að gera hana: Örkin skal vera 300 álna* löng, 50 álna breið og 30 álna há. 16 Þú skalt gera glugga* á örkina til að hleypa inn birtu, alin frá þakinu. Láttu inngang arkarinnar vera á hlið hennar+ og hafðu þrjú þilför: neðst, í miðjunni og efst.
17 Ég læt vatnsflóð+ koma yfir jörðina til að eyða öllu* undir himninum sem dregur lífsandann.* Allt sem er á jörðinni mun farast.+ 18 En ég geri sáttmála við þig. Þú skalt ganga inn í örkina ásamt sonum þínum, eiginkonu og tengdadætrum.+ 19 Taktu með þér inn í örkina tvö dýr af hverri tegund,+ karldýr og kvendýr,+ til að þau haldi lífi með þér. 20 Tvö dýr af hverri tegund fleygra dýra, búfjár og dýra sem skríða á jörðinni munu fara inn til þín svo að þau haldi lífi.+ 21 Safnaðu saman alls konar mat handa þér og fóðri handa dýrunum og taktu með þér.“+
22 Og þetta gerði Nói. Hann fylgdi fyrirmælum Guðs í einu og öllu.+