Skilnaðarbörnum veitt hjálp
„Einu sinni, þegar ég var um það bil þriggja ára, kom faðir minn til að sækja mig og vera með mér um stund. Hann fór með mig í verslun og keypti handa mér brúðu í fallegum, rauðum kjól og ók mér síðan heim. Við sátum saman í bílnum dálitla stund, en jafnskjótt og móðir mín kom til að sækja mig byrjuðu hún og faðir minn að hrópa hvort að öðru og rífast gegnum bílgluggann — og ég var mitt á milli.
Skyndilega þeytti faðir minn upp hurðinni og ýtti mér út úr bílnum. Síðan ók hann burt með vælandi hjólbörðum. Ég vissi ekki hvað var á seyði. Móðir mín leyfði mér ekki einu sinni að taka utan af nýju brúðunni. Ég sá hana aldrei eftir það. Og ég sá ekki föður minn aftur fyrr en ég var 19 ára.“ — Heidi.
„TÍMINN læknar öll sár,“ segir gamalt máltæki. Er það svo í raun réttri eða bíða börn óbætanlegt tjón af skilnaði foreldra sinna?
Að sögn tímaritsins The Journal of Social Issues veltur það mikið á því hvað gerist eftir skilnaðinn. Þar segir: „Þau fjölskyldusambönd, sem myndast eftir skilnaðinn, hafa jafnmikil eða meiri áhrif á börnin en skilnaðurinn sjálfur.“
Hvað Heidi varðaði var skilnaður foreldra hennar aðeins upphafið að erfiðleikunum. Eins og oft gerist varð annað hjónaband móður hennar litlu farsælla en það fyrsta. Sömu sögu var að segja um þriðja hjónabandið. Bernskuár Heidiar voru eins og ferð í rússíbana, sveifluðust frá dögum þegar öskrað var og slegist og diskar brotnir, upp í einmanalega sumardaga í tómri íbúð þar sem hún beið og velti því óttaslegin fyrir sér hvenær — og hvort — mamma hennar kæmi heim.
Foreldrar geta margt gert til að hlífa börnum sínum við svona ólgusömum eftirköstum hjónaskilnaðar. Þegar allt kemur til alls bindur hjónaskilnaður enda á hjónaband, ekki foreldrahlutverkið.
Hið mikilvæga hlutverk foreldra
„Hið sameiginlega hlutverk beggja í getnaði veitir börnum rétt til að eiga bæði móður og föður,“ sögðu tveir sálfræðingar í tímaritinu Psychology Today. Það þykja kannski augljós sannindi. Samt sem áður missir barn að sumu leyti báða foreldra sína í einu höggi við skilnað þeirra.
Lítum til dæmis á Bandaríkin sem tölfræðilega gætu kallast heimsborg hjónaskilnaðanna. Þar búa yfir 90 af hundraði skilnaðarbarna hjá móður sinni og umgangast föður sinn aðeins gegnum heimsóknir. Yfir helmingur þessara barna sér föður sinn sjaldnar en einu sinni á ári! Og sá tími, sem móðirin eyðir með börnunum, styttist líka stórlega eftir skilnaðinn, um allt að 21 klukkustund á viku að því er fram kom í könnun einni.
Ef sérfræðingar eru sammála um eitthvað er það sú niðurstaða að betri líkur séu á að börn aðlagist lífinu vel eftir skilnaðinn, ef þau halda áfram að eiga jákvætt og stöðugt samband við báða foreldra sína. Ef það er ekki gerlegt dregur gott samband við annað foreldranna samt sem áður úr áfallinu sem fylgir skilnaðinum. En hvernig geta foreldrar haldið nánu sambandi við börn sín eftir skilnað?
Notaðu tímann vel
Ef þú ert fráskilin móðir getur það reynst þitt erfiðasta verkefni að viðhalda nánu sambandi. Allt of oft fær fráskilin móðir stimpil sem í sumum þjóðfélögum er talinn tvöfaldur smánarblettur: fráskilin og fátæk. Fráskilin móðir þarf líklega að fara út á vinnumarkaðinn þótt hún sé jafnvel illa undir það búin, og basla við að afla þess sem á vantar á móti óvissum eða ófullnægjandi meðlagsgreiðslum frá fyrrverandi eiginmanni. Henni getur fundist sem lítill tími sé aflögu handa börnunum.
Leiðin til að mæta því er að sýna einbeitni og skipuleggja tímann sinn. Taktu frá hverja þá stund sem þú getur, þótt hún sé ekki löng, og skipulegðu með barni þínu það sem þið gerið saman þá stund. Jafnvel stutt stund á hverjum degi, þegar barnið nýtur óskiptrar athygli þinnar, er margfalt betri en alls engin stund. Séu skipulagðar fyrirfram sérstakar stundir til að fara eitthvað út með barninu hefur það eitthvað til að hlakka til.
Þá má ekki gleyma því að barnið hefur brýna þörf fyrir andlega handleiðslu, ögun og kennslu. Heillegar stundir til þessa geta virst vandfundnar þannig að Biblían ráðleggur: „Þú skalt brýna [lög Guðs] fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ — 5. Mósebók 6:7.
Eruð þið einhvern tíma „á ferðalagi“ saman, ef til vill í eigin bifreið eða almenningsvögnum? Að hverju beinir þú athyglinni — barninu þínu eða þá dagblaði eða útvarpinu? Drukkna allar samræður í glymjanda sjónvarpsins þegar þið borðið saman, eða er matmálstíminn stund fyrir fjölskylduna til að tala saman í friði? Getur barnið tekið þátt í heimilisstörfum, svo sem að matbúa eða þvo þvott?
Þetta þýðir auðvitað ekki að þú verðir að grípa þessi tækifæri til að lesa yfir barni þínu. Það eitt að vera með barninu og ræða hlýlega og opinskátt saman hefur óhjákvæmilega í för með sér að þú miðlir því einhverjum af lífsgildum þínum. Slíkar stundir eru líka kjörin tækifæri til að veita börnum þínum þá hughreystingu sem þau þarfnast svo mjög við þessar aðstæður. Sumum börnum finnst undir niðri að þau beri sökina á skilnaði foreldra sinna. Öðrum finnst það foreldra sinna, sem farið er af heimilinu, hafa hafnað sér. Ef þú fullvissar börnin oft um ást þína, hrósar þeim fyrir góða eiginleika og árangur og veitir þeim næga öryggiskennd til að þau segi hug sinn hreinskilnislega, þá hefur þú gert mikið til að milda það áfall sem skilnaðurinn hefur í för með sér.
Eftir skilnað vanrækja sumir foreldrar að aga börn sín, oft sökum sektarkenndar. Þeir virðast hugsa með sér að barnið hafi átt nógu erfitt upp á síðkastið. En það er enginn kærleikur að gefa börnunum lausan tauminn og leyfa þeim að fara sínu fram. Stjórnandi meðferðaráætlunar handa börnum og unglingum við geðsjúkrahús sagði við tímaritið The Washingtonian: „Krakkar eru alltaf að segja við mig: ‚Foreldrar mínir leyfa mér allt. Þeim er sama um mig.‘“ Eins og Biblían segir: „Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma.“ — Orðskviðirnir 13:24.
Togstreita um barnið
Lítill drengur, sem var beðinn um að teikna myndir á meðferðarstofnun fyrir fórnarlömb hjónaskilnaða, teiknaði sjálfan sig sem bitbein urrandi foreldra sinna; hann var að slitna í sundur á liðamótunum og blóðið draup af honum. Þannig líður sumum börnum fráskilinna foreldra. Þótt barnið elski báða foreldra sína má vera að hvorugt vilji að það elski hitt.
Sökum þeirrar beiskju og heiftar, sem svo oft fylgir hjónaskilnaði, er afar erfitt fyrir foreldra að draga ekki börnin inn í bardagann. Wallerstein og Kelly skýrðu frá því að tveir þriðju þeirra foreldra, sem könnun þeirra náði til, hafi keppt fyrir opnum tjöldum um ást og hollustu barna sinna. Dr. Bienenfeld varar foreldra við því að láta barni finnast það vera bitbein foreldra sinna, það geti vakið með því sektarkennd og hatur gagnvart sjálfu sér og „dragi úr líkunum á því að barnið verði hamingjusamt, farsælt og öðlist lífsfyllingu.“
Biblían gefur þessi viturlegu ráð: „Þér feður [eða mæður], enn á ný, megið ekki ýta börnum ykkar út í þykkju, heldur veitið þeim þá leiðsögn og leiðréttingu sem tilheyrir kristnu uppeldi.“ (Efesusbréfið 6:4, The New English Bible) Ljóst er að það á ekki heima í kristnu uppeldi að ýta undir óvild barns á hinu foreldrinu.
Sérhvert barn á tvo foreldra. Dauðsfall getur breytt því en hjónaskilnaður ekki. Og nema því aðeins að dómstóll eða yfirvöld takmarki aðgang hins foreldrisins að barninu (eða hitt foreldrið skjóti sér vísvitandi undan ábyrgð sinni), munt þú þurfa að eiga samstarf við fyrrverandi maka þinn um uppeldi barnanna.
Vel má vera að þú hafi réttmætt tilefni til að vera beisk(ur) í garð fyrrverandi maka þíns, en ef þú beitir börnunum til að refsa honum, þá eru það börnin sem líða. Dr. Bienenfeld leggur til að þú viðurkennir hreinskilnislega fyrir sjálfum (sjálfri) þér að þú kunnir líka að hafa átt þátt í hjúskaparerfiðleikunum, því að það geti hjálpað þér að draga úr beiskjunni. Tímaritið Parents segir frá konu sem reyndi að biðja fyrir fyrrverandi eiginmanni sínum hvenær sem hún fór að hugsa neikvætt um hann. Hún uppgötvaði að þessi aðferð vakti með henni vellíðunarkennd og sjálfsstjórn sem hún þekkti ekki fyrr og forðaði henni frá því að ‚setja sig í varanlegar bardagastellingar.‘ — Samanber Matteus 5:43-45.
Geta aðrir hjálpað?
Sálfræðingarnir Julius og Zelda Segal segja í tímaritinu Parents að „það styrki börn sundraðra fjölskyldna er einhverjir þræðir haldist óslitnir“ eftir skilnaðarstorminn. Þessir sálfræðingar segja að því miður hafi „nágrannar og vinir tilhneigingu til að halda sér í vissri fjarlægð og það sama gera líka sumir afar og ömmur sem eru önnum kafin við að taka afstöðu með öðru foreldrinu í deilum þeirra.“
Já, hjónaskilnaður er börnunum sérstaklega grimmur ef aðrir ættingjar hverfa líka úr lífi þeirra. Það eykur á þá tilfinningu að þau hafi verið yfirgefin. Ef þú átt frændbarn eða barnabarn sem hefur orðið fórnarlamb hjónaskilnaðar, þá skaltu einbeita þér að því að veita því þá huggun sem það þarfnast núna, í stað þess að blanda þér í skilnaðarrifrildi foreldranna. Stundum getur enginn uppörvað dapurt barn meira en ástríkur afi eða amma.
Heidi, sem getið var um í byrjun þessarar greinar, fékk engan slíkan stuðning. Eigi að síður hefur líf hennar verið farsælt. Hún er 26 ára núna, gift, hamingjusöm, veglynd og iðjusöm. Hverju má þakka þessa velgengni?
Því má svara með einu orði: vináttu. Sem unglingur byrjaði Heidi að nema Biblíuna með vottum Jehóva. Í Ríkissalnum, þar sem hún sótti samkomur, fann hún sanna vini. „Ég hafði gert mér í hugarlund að staðan væri vonlaus,“ segir hún, „en það er mikil hjálp í að eiga einhverja að sem maður getur talað við. Ég átti vinkonu sem ég gat sagt alla hluti. Hún vissi alltaf þegar eitthvað var að og það endaði alltaf með því að ég sagði henni frá því. Hún var nokkurs konar móðurímynd í huga mér. En þá voru líka aðrir sem ég gat gert ýmislegt með.“ Heidi sannreyndi loforð Jesú þess efnis að kristni söfnuðurinn gæti verið eins og fjölskylda fyrir þann sem hefði misst sína eigin. — Markús 10:29, 30.
En Heidi átti ekki sjálf frumkvæðið að því að eignast þessa vini. „Þeir leituðu mig uppi,“ segir hún, og það er atburðarás sem endurtekur sig hvað eftir annað í tengslum við skilnaðarbörn í kristna söfnuðinum. Ung kona, sem heitir Meg, minnist þess með hlýju hvernig hjón nokkur vinguðust við hana þegar foreldrar hennar skildu: „Þau vissu bara að ég þarfnaðist þeirra og þau voru til taks. Mann langar ekki til að segja: ‚Veistu hvað, ég þarfnast hjálpar. Ég vil að þú elskir mig núna.‘“
Hvað um þig? Gætir þú verið eins og bróðir, systir, móðir, faðir, afi eða amma einhvers skilnaðarbarns? Það mun sjálfsagt ekki koma biðjandi til þín en með því er ekki sagt að það þarfnist þín ekki.
Að sjálfsögðu getur þú aldrei bætt upp allt það sem tapast þegar foreldrar skilja, en þú getur verið vinur og góður, sammúðarfullur áheyrandi. Þú getur líka átt þátt í að leiða ungan einstakling til betra sambands við skapara okkar — hinn sanna ‚föður föðurlausra‘ og besta vin sem nokkur getur óskað sér. — Sálmur 68:6.
En er engin von um það að hjónaskilnuðum muni einhvern tíma fara fækkandi og börn eigi það víst að vaxa upp í ósundruðum og hamingjusömum fjölskyldum?
Þegar fjölskyldun verður læknuð
Ef við ættum að reiða okkur á mannkynið til að leysa vandann, þá væri svarið nei, það væri engin raunhæf von fyrir börnin. Mannkynið er langt frá því að geta unnið bug á ólæknandi sundrung sjálfs sín, að ekki sé talað um þær óteljandi sundruðu fjölskyldur sem mynda það. Eins og Linda Bird Francke sagði í bókinni Growing Up Divorced: „Allt of mikið hefur gerst allt of hratt. Dómstólarnir basla við að ná fótfestu. Skólarnir gera það einnig og sama gildir um fjölskyldurnar. Á þessum tímum fjöldahjónaskilnaða veit enginn til hvers hann má ætlast af öðrum, því að það eru engar reglur, engin fordæmi til að byggja á.“
En skapari mannkynsins er ekki að basla við að ná fótfestu. Hann skilur eðli okkar sundraða heims og veit að honum verður ekki bjargað með því að mannlegir „sérfræðingar“ fínstilli gang hans. Hann veit að heimurinn þarf að víkja og nýr að koma í hans stað og hefur lofað að láta það gerast. Hann heitir því að þeir sem gera vilja hans muni lifa af þegar þetta spillta kerfi líður undir lok og sjá paradís endurreista um allan hnöttinn. (Lúkas 23:43; 1. Jóhannesarbréf 2:17) Undir stjórn Guðs verður maðurinn síðan læknaður af þeirri synd sem spillir eðlisgerð hans. Sú eigingirni og ófullkomleiki, sem veldur sundrungu, hatri og fjandskap, verður loksins yfirunnin. Mannkynið verður læknað. — Opinberunarbókin 21:3, 4.
Og þá verða hjónaskilnaðir einungis minjar frá tímaskeiði sem fjarlægist og dofnar.
[Rammagrein á blaðsíðu 9]
Heilræði handa fráskildum foreldrum
Ekki rífast við fyrrverandi maka þinn — símleiðis eða augliti til auglitis — í viðurvist barnanna.
Ekki gagnrýna fyrrverandi maka þinn í áheyrn barnanna. Ekki hvetja börnin eða taka undir með þeim þegar þau gagnrýna það foreldri sem fjarri er.
Ekki neyða börnin til að velja milli foreldra sinna og ekki gera þau andsnúin fyrrverandi maka þínum.
Ekki leyfa börnunum að kúga þig með hótunum um að flytja til hins foreldrisins. Ef þú þolir þeim slíka tilfinningalega kúgun hvetur þú þau til að ráðskast með fólk með kænskubrögðum og óheilindum og getur jafnvel tálmað siðferðisþroska þeirra.
Ekki nota börnin til að njósa um fyrrverandi maka þinn og neyða þau til að segja frá að hverri heimsókn lokinni.
Ekki biðja börnin að flytja fyrrverandi maka þínum reiðileg skilaboð eða auðmýkjandi bón um peninga.
Ekki gera lítið úr barninu þínu með því að segja: „Þú ert alveg eins og pabbi þinn,“ eða eitthvað þvílíkt. Bæði skynjar barnið það sem gagnrýni á föður sinn og eins getur það haft þau áhrif að því finnist það dæmt til að endurtaka mistök hans.
Vertu góður áheyrandi og leyfðu börnum þínum að lýsa tilfinningum sínum — jafnvel þeim sem þér eru ekki að skapi.
Vertu skýrmælt(ur), og opinská(r) og eigðu góðar samræður og skoðanaskipti við börnin. Hlífðu þeim þó við smáatriðum sem þau þurfa ekki að vita. Sonur eða dóttir gæti virst hinn kjörni trúnaðarvinur, en mundu að barn er hvorki fullorðinn maður í smækkaðri mynd eða staðgengill maka þíns, hversu þroskað sem það kann að virðast.
Vertu hughreystandi við börnin og fullvissaðu þau um að þau séu ekki völd að skilnaðinum og að þau geti ekki heldur gripið til sinna ráða núna og bjargað hjónabandinu.
Vertu óspar á ósvikna ástúð og hlýju. Börn geta hugsað með sér að foreldrar, sem geta hætt að elska hvort annað, geti jafnauðveldlega hætt að elska börnin sín.
Vertu samstarfsfús við fyrrverandi maka þinn um að hlífa börnunum við deilum ykkar.
Vertu öfgalaus í hrósi og ögun og settu börnunum sanngjörn takmörk og raunhæf markmið.
Vertu gott fordæmi sjálf(ur) og forðaðust þá siðlausu hegðun sem þú kennir þeim að forðast.
Vertu eins mikið með börnum þínum í frístundum og þú getur.
[Rammagrein á blaðsíðu 11]
Ert þú foreldri í fjarlægð?
EF SVO er getur virst undur auðvelt að hverfa úr lífi barnanna. Að skipuleggja heimsóknir barnanna getur virst óþægilega líkt því að biðja fyrrverandi maka þinn um leyfi til að hitta þín eigin börn. Kannski hafa börnin eignast stjúpforeldri og þér finnst sem þín sé ekki lengur þörf.
En þín er sannarlega þörf. Biblían hvetur: „Þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði.“ (Efesusbréfið 6:4) Ef þú hverfur út úr lífi barna þinna bæði reitir þú þau til reiði og eins getur þú grafið undan sjálfsvirðingu þeirra þannig að þeim finnist þau ekki elskuð og elskuverð. Jafnvel takmarkað samband við börn þín er betra en alls ekkert.
Svo virðist sem lengd heimsóknanna séu mikilvægari en tíðni þeirra. Því lengri sem heimsóknin er, þeim mun líklegra er að barnið þitt eigi eftirminnilegar stundir með þér. Miriam Galper Cohen, sem sjálf er móðir í fjarlægð, segir í bók sinni um þetta efni að þessar heimsóknir þurfi ekki að vera einhverjar stórkostlegar útivistarferðir. Hæglát gönguferð eða sameiginleg máltíð getur skilið eftir ánægjulegustu minningarnar.
Tíð símtöl með reglulegu millibili stuðla líka að nánu sambandi við barn þitt. Eins gætir þú lesið inn á segulband sögu fyrir barnið þitt eða talað um bernsku þína við það. Auk þess að senda barninu segulbönd og bréf gætir þú sent því ljósmyndir, teikningar, myndasögur eða blaðagreinar sem þér þóttu skemmtilegar eða athyglisverðar. Cohen leggur einnig til að þú kynnir þér hvaða bókum eða sjónvarpsefni barnið þitt hefur gaman af, lesir síðan bækurnar eða horfir á sjónvarpsþættina sjálfur og ræðir loks um þær símleiðis eða bréflega.
Eins og Cohen bendir á er það „lakasti kosturinn miðað við annað forræðisfyrirkomulag að rækja foreldrahlutverkið úr fjarlægð, að því undanskildu að hitta börnin alls ekki.“ Samt sem áður er hægt með ýmsum móti að láta barnið finna reglulega fyrir áframhaldandi ást þinni og umhyggju. Jafnvel smæstu atriði, sem sýna að þér er annt um barnið, geta hlíft því við mikilli sálarkvöl.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Getur þú látið barnið þitt taka þátt með þér í einhverju sem þú þarft að sinna? Hjónaskilnaður bindur enda á hjónaband, ekki foreldrahlutverkið.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Veist þú af einhverjum skilnaðarbörnum sem eru vinarþurfi?