Líf í friðsömum nýjum heimi
Hvaða tilfinningar bærast með þér þegar þú virðir fyrir þér myndina sem hér er dregin upp? Þráir ekki hjarta þitt þann frið, hamingju og velsæld sem þar er lýst? Svo hlýtur að vera. En eru það aðeins draumórar að slík skilyrði geti einhvern tíma orðið á jörðinni?
Flestir eru sennilega þeirrar skoðunar. Veruleiki dagsins í dag er styrjaldir, glæpir, hungur, sjúkdómar og öldrun — svo aðeins nokkur dæmi séu nefnd. Þó er tilefni til bjartrar vonar. Með vísan til framtíðarinnar segir Biblían frá ‚nýjum himni og nýrri jörð, eftir fyrirheiti Guðs, þar sem réttlæti mun búa.‘ — 2. Pétursbréf 3:13; Jesaja 65:17.
Þessi ‚nýi himinn og nýja jörð‘ eru, samkvæmt Biblíunni, ekki nýr efnislegur himinn og ný bókstafleg jörð. Jörðin og himinninn voru í upphafi gerð fullkomin og Biblían segir að hvort tveggja skuli standa að eilífu. (Sálmur 89:37, 38; 104:5) ‚Nýja jörðin‘ verður réttlátt þjóðfélag manna á jörðinni og ‚nýi himinninn‘ fullkomið himneskt ríki eða stjórn sem mun fara með yfirráð yfir þessu jarðneska mannfélagi. En er það raunsæi að trúa á tilurð ‚nýrrar jarðar‘ eða dýrlegs nýs heims?
Líttu á þá staðreynd að slík skilyrði voru hluti upphaflegrar fyrirætlunar Guðs með jörðina. Hann setti fyrstu hjónin í jarðneska paradís, Edengarðinn, og fól þeim heillandi verkefni: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna.“ (1. Mósebók 1:28) Já, sá var tilgangur Guðs að þau eignuðust börn og færðu út landamæri paradísar þar til hún næði um alla jörðina. Þótt þau ákvæðu síðar að óhlýðnast Guði, og reyndust þar með óhæf til að lifa eilíflega, breyttist upphaflegur tilgangur Guðs ekki. Hann mun verða að veruleika í nýjum heimi! — Jesaja 55:11.
Þegar þú ferð með fyrirmyndarbænina, „Faðirvorið,“ og biður þess að Guðsríki komi, ert þú í raun að biðja um að himnesk stjórn hans sópi allri mannvonsku af jörðinni og taki völd í þessum nýja heimi. (Matteus 6:9, 10) Og við getum verið viss um að Guð muni svara þeirri bæn því að orð hans lofar: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:29.
Líf í nýjum heimi Guðs
Ríki Guðs mun veita jarðarbúum meiri blessun en orð fá lýst og koma til leiðar öllu því góða sem Guð í upphafi ætlaði mönnum að njóta á jörðinni. Hatur og hleypidómar hverfa og að lokum munu allir jarðarbúar vera sannir vinir. Í Biblíunni heitir Guð að ‚stöðva styrjaldir til endimarka jarðar.‘ „Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ — Sálmur 46:10; Jesaja 2:4.
Allri jörðinni verður breytt í fagran lystigarð, paradís. Biblían segir: „Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja . . . því að vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum. Sólbrunnar auðnir skulu verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum.“ — Jesaja 35:1, 6, 7.
Ærin ástæða verður til að vera hamingjusamur á þeirri jörð sem verður paradís. Aldrei framar mun fólk líða hungur né skorta viðurværi. „Jörðin hefur gefið ávöxt sinn,“ segir Biblían. (Sálmur 67:7; 72:16) Allir munu njóta ávaxtar erfiðis síns eins og skapari okkar lofar: „Þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. . . . Eigi munu þeir planta og aðrir eta.“ — Jesaja 65:21, 22.
Í nýjum heimi Guðs verður fólki ekki hrúgað saman í stór fjölbýlishús eða sóðaleg fátækrahverfi því að Guð segir: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim . . . eigi munu þeir reisa og aðrir í búa.“ Biblían lofar einnig: „Eigi munu þeir erfiða til ónýtis.“ (Jesaja 65:21-23) Allir munu hafa arðsamt starf sem veitir þeim lífsfyllingu. Tilveran verður ekki leiðinleg.
Með tíð og tíma mun ríki Guðs jafnvel endurvekja hið friðsama samband milli dýranna, sem var í Edengarðinum, og milli manna og dýra. Biblían segir: „Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra.“ — Jesaja 11:6-9; Hósea 2:18.
Hugsaðu þér. Í paradís á jörð munu allir sjúkdómar og krankleikar hverfa! Orð Guðs fullvissar okkur: „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:4.
Hvernig þú getur höndlað það
Hjarta þitt hlýtur að vera snortið af fyrirheitum Guðs varðandi líf í réttlátum nýjum heimi hans. Og þótt sumir álíti allt þetta einum of gott til að geta verið satt er það ekki of gott til að koma frá hendi hins ástríka skapara okkar. — Sálmur 145:16; Míka 4:4.
Að sjálfsögðu þurfum við að uppfylla ákveðnar kröfur ef við eigum að hljóta eilíft líf í hinni komandi paradís á jörð. Jesús benti á hver væri sú veigamesta þegar hann sagði í bæn til Guðs: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3.
Ef við viljum fá að lifa í nýjum heimi Guðs verðum við fyrst að læra hver sé vilji Guðs og fara síðan eftir honum. Staðreynd er að „heimurinn [sem nú er] fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu“ og mun njóta að eilífu þeirrar blessunar sem ástríkur skapari okkar mun úthella yfir hann. — 1. Jóhannesarbréf 2:17.
Nema annað sé tekið fram eru allar tilvitnanir í Biblíuna teknar úr íslensku biblíunni frá 1981.