„Mitt ok er ljúft og byrði mín létt“
„Takið á yður mitt ok og lærið af mér.“ — MATTEUS 11:29.
1, 2. (a) Hverju hefur þú kynnst í lífinu sem hressir þig? (b) Hvað verðum við að gera til að öðlast þá hressingu sem Jesús lofaði?
FÁTT er jafnhressandi og kalt steypibað að loknum heitum og rökum degi eða góður nætursvefn eftir langt og þreytandi ferðalag. Eins er það þegar þungri byrði er af okkur létt eða þegar syndir og afbrot eru fyrirgefin. (Orðskviðirnir 25:25; Postulasagan 3:19, 20) Allt er þetta hressandi, yngir okkur upp og veitir nýjan kraft til að halda áfram.
2 Jesús bauð öllum, sem finnst byrðarnar þungar og eru þreyttir, að koma til sín því að það var einmitt þetta sem hann lofaði þeim — hvíld og hressingu. En til að hljóta hressinguna, sem er svo eftirsóknarverð, verðum við að vera fús til að gera svolítið sjálf. „Takið á yður mitt ok og lærið af mér,“ sagði Jesús, „og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ (Matteus 11:29) Hvert er þetta ok? Hvernig hvílir það og hressir?
Ljúft ok
3. (a) Hvers konar ok voru notuð á biblíutímanum? (b) Hvaða táknræn merking er tengd oki?
3 Jesús og áheyrendur hans bjuggu í bændasamfélagi og vissu mætavel hvað ok var. Ok getur verið langur trébjálki sem grópað er úr á tveim stöðum að neðanverðu þar sem hann fellur á herðakamb tveggja dráttardýra, yfirleitt uxa, þannig að hægt var að spenna þá saman fyrir plóg, vagn eða annað sem draga þurfti. (1. Samúelsbók 6:7) Ok handa mönnum voru einnig til. Þar var um að ræða slá sem lögð var á axlirnar og byrði fest á báða enda. Með slíkt ok á herðum gátu verkamenn borið þungar byrðar. (Jeremía 27:2; 28:10, 13) Þar eð ok var tengt byrðum og erfiði er það oft notað táknrænt í Biblíunni um drottnun og yfirráð. — 5. Mósebók 28:48; 1. Konungabók 12:4; Postulasagan 15:10.
4. Hvað táknar okið sem Jesús býður þeim er koma til hans?
4 Hvað er þá okið sem Jesús bauð mönnum að taka á sig er þeir kæmu til hans sér til hressingar? Munum að hann sagði: „Takið á yður mitt ok og lærið af mér.“ (Matteus 11:29) Sá sem lærir er lærisveinn. Að taka á sig ok Jesú merkir því einfaldlega að verða lærisveinn hans. (Filippíbréfið 4:3) En það útheimtir meira en aðeins að viðurkenna kenningar hans í huganum. Það útheimtir verk sem eru þeim samtaka — að vinna verkið sem hann vann og lifa eins og hann lifði. (1. Korintubréf 11:1; 1. Pétursbréf 2:21) Það útheimtir fúsa undirgefni við yfirráð hans og þá sem hann hefur falið yfirráð. (Efesusbréfið 5:21; Hebreabréfið 13:17) Það merkir að verða vígður, skírður kristinn maður, að taka á sig öll þau sérréttindi og alla þá ábyrgð sem fylgir slíkri vígslu. Þetta er okið sem Jesús býður þeim er koma til hans í leit að hvíld og hughreystingu. Ert þú fús til að taka það á þig? — Jóhannes 8:31, 32.
5. Af hverju er það ekki óþægileg reynsla að taka á okkur ok Jesú?
5 En er ekki mótsögn að það sé hvíld í því að taka á sig ok? Reyndar ekki því að Jesús sagði að ok hans væri „ljúft.“ Þetta orð merkir góður eða mildur, þægilegur, viðfelldinn. (Matteus 11:30; Lúkas 5:39; Rómverjabréfið 2:4; 1. Pétursbréf 2:3) Jesús var smiður og hafði trúlega smíðað plóga og ok, og hann kunni að móta okið þannig að það félli vel og hægt væri að ná sem mestum afköstum með sem minnstum óþægindum. Kannski fóðraði hann okgrópina með klæði eða leðri þannig að það nuddaðist ekki við eða særði hálsinn eða herðakambinn að óþörfu. Á sama hátt er hið táknræna ok, sem Jesús býður okkur, „ljúft.“ Enda þótt það fylgi því vissar skyldur og ábyrgð að vera lærisveinn hans er það ekki þjakandi eða óþægilegt heldur hressandi. Boðorð hins himneska föður hans, Jehóva, eru ekki heldur íþyngjandi. — 5. Mósebók 30:11; 1. Jóhannesarbréf 5:3.
6. Hvað kann Jesús að hafa átt við er hann sagði: „Takið á yður mitt ok“?
6 Annað er það sem gerir ok Jesú „ljúft“ eða þægilegt að bera. Þegar hann sagði: „Takið á yður mitt ok,“ kann hann að hafa haft annað tveggja í huga. Hafi hann haft tvöfalda okið í huga, sem notað er til að beisla tvö dráttardýr saman til að draga hlass, þá var hann að bjóða okkur að ganga undir sama ok með sér. Hvílík blessun væri það ekki — að hafa Jesú okkur við hlið til að bera byrðina með okkur! En hafi Jesús haft í huga oktré verkamannsins, þá var hann að bjóða okkur að gera hverja þá byrði, sem við berum, léttari og meðfærilegri. Hvort heldur þá er ok hans hressandi af því að hann fullvissar okkur: „Því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur.“
7, 8. Hvaða mistök gera margir undir álagi?
7 Hvað ættum við þá að gera ef okkur finnst álagið af vandamálum lífsins, sem á okkur hvílir, vera að verða óbærilegt og við að niðurlotum komin? Sumum finnst kannski ranglega það vera of erfitt ok að vera lærisveinn Jesú Krists eða of krefjandi, jafnvel þótt það sé amstur hins daglega lífs sem á þeim hvíli. Í slíkri aðstöðu hætta sumir að sækja kristnar samkomur eða að taka þátt í þjónustunni, og finnst að þeim hljóti að létta eitthvað við það. En það eru alvarleg mistök.
8 Við gerum okkur grein fyrir að okið, sem Jesús býður, er „ljúft.“ Ef við leggjum það ekki rétt á gæti það sært okkur. Ef svo er ættum við að athuga nánar okið sem hvílir á herðum okkar. Ef okið er einhverra orsaka vegna í ólagi eða fellur ekki rétt að, þá kostar það meiri áreynslu að nota það, auk þess sem það meiðir okkur. Með öðrum orðum, ef guðræðisleg störf eru farin að vera eins og byrði fyrir okkur, þá verðum við að athuga hvort við tökum þau réttum tökum. Af hvaða hvötum erum við að gera það sem við gerum? Erum við nægilega undirbúin þegar við förum á samkomur? Erum við vel undirbúin í huga og á líkama þegar við tökum þátt í boðunarstarfinu? Eigum við náið og heilbrigt samband við aðra í söfnuðinum? Og, framar öllu, hvernig er einkasamband okkar við Jehóva Guð og son hans, Jesú Krist?
9. Af hverju ætti hið kristna ok aldrei að vera óbærileg byrði?
9 Þegar við tökum af öllu hjarta á okkur okið, sem Jesús býður, og lærum að bera það rétt, er engin ástæða til að okkur finnist það nokkurn tíma óbærileg byrði. Ef við reynum að sjá þetta fyrir okkur — Jesú að ganga undir okinu með okkur — er reyndar ekki erfitt að sjá hver ber hita og þunga af byrðinni. Við erum ekki í ósvipaðri aðstöðu og smábarn sem heldur um handfangið á kerrunni sinni og þykist ýta henni, en auðvitað er það foreldrið sem ýtir í raun og veru. Jehóva Guð er ástríkur faðir og er fullkunnugt um takmörk okkar og veikleika, og hann bregst við þörfum okkar fyrir milligöngu Jesú Krists. „Guð . . . mun af auðlegð dýrðar sinnar í Kristi Jesú uppfylla sérhverja þörf yðar,“ sagði Páll. — Filippíbréfið 4:19; samanber Jesaja 65:24.
10. Hver er reynsla konu sem er lærisveinn af fullri alvöru?
10 Margir vígðir kristnir menn hafa kynnst því af eigin raun. Til dæmis má nefna Jenný sem viðurkennir að það sé mikið álag að þjóna sem aðstoðarbrautryðjandi í hverjum mánuði og vera auk þess í krefjandi veraldlegu starfi alla daga. En henni finnst brautryðjandastarfið í rauninni hjálpa sér að halda jafnvægi. Mesta gleðin í öllu annríkinu hjá henni felst í því að aðstoða fólk við að kynnast sannleika Biblíunnar og sjá það breyta líferni sínu til að öðlast velþóknun Guðs. Hún tekur af heilum hug undir Orðskviðinn sem segir: „Blessun Jehóva — það er hún sem auðgar og hann lætur enga kvöl fylgja henni.“ — Orðskviðirnir 10:22, NW.
Létt byrði
11, 12. Hvað átti Jesús við þegar hann sagði að ‚byrði sín væri létt?
11 Auk þess að heita okkur ‚ljúfu‘ oki fullvissar Jesús okkur um að ‚byrði sín sé létt.‘ „Ljúft“ ok gerir vinnuna strax auðveldari; ef byrðin er auk þess létt verður verkið hreinlega ánægjulegt. En hvað hafði Jesús í huga með þessum orðum?
12 Hugsum okkur hvað bóndi gerir þegar hann lætur dráttardýrin taka til við annað verk, til dæmis að draga vagn í stað þess að plægja akur. Hann losar plóginn frá áður en hann tengir vagninn. Það væri fáránlegt af honum að spenna bæði plóginn og vagninn við aktygin. Jesús var ekki heldur að segja fólki að leggja byrði sína ofan á þá sem fyrir var. Hann sagði lærisveinunum: „Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum.“ (Lúkas 16:13) Jesús var því að bjóða fólki að velja. Hvort vildi það heldur halda áfram að bera þá þungu byrði, sem það bar, eða leggja hana frá sér og þiggja það sem hann var að bjóða? Jesús kom með kærleiksríka hvatningu: „Byrði mín [er] létt.“
13. Hvaða ok þurfti fólk að bera á dögum Jesú og með hvaða afleiðingum?
13 Á dögum Jesú var fólk að sligast undan þungri byrði sem harðráðir, rómverskir valdhafar og hræsnisfullir trúarleiðtogar lögðu á það. (Matteus 23:23) Sumir reyndu að hrista af sér ok Rómverja með því að taka málin í sínar hendur. Þeir drógust inn í pólitísk átök með hrikalegum afleiðingum. (Postulasagan 5:36, 37) Aðrir reyndu að bæta hlut sinn með því að sökkva sér niður í efnishyggju. (Matteus 19:21, 22; Lúkas 14:18-20) Þegar Jesús bauðst til að létta þeim lífið með því að gefa þeim kost á að gerast lærisveinar hans voru ekki allir tilbúnir til þess. Þeir hikuðu við að leggja frá sér byrði sína, þótt þung væri, og taka við byrði hans. (Lúkas 9:59-62) Það voru sorgleg mistök!
14. Hvernig geta áhyggjur lífsins og efnislegar langanir íþyngt okkur?
14 Ef við erum ekki varkár getum við gert sömu mistök núna. Þegar við gerumst lærisveinar Jesú frelsar það okkur frá því að keppa eftir sömu markmiðum og lífsgildum og fólkið í heiminum. Enda þótt við þurfum eftir sem áður að vinna hörðum höndum til að sjá okkur farborða gerum við það ekki að þungamiðju lífsins. En áhyggjur lífsins og löngun í efnisleg þægindi geta átt sterk ítök í okkur. Ef við leyfum það geta slíkar langanir jafnvel kæft sannleikann sem við höfum tekið við af svo miklum ákafa. (Matteus 13:22) Við getum orðið svo upptekin að fullnægja slíkum löngunum að okkur finnist kristnar skyldur þreytandi kvöð sem við viljum skila af okkur sem fljótast svo að þær séu ekki að þvælast fyrir. Við getum vissulega ekki vænst þess að þjónustan við Guð hressi okkur ef við innum hana af hendi með þessu hugarfari.
15. Hverju varaði Jesús við í sambandi við efnislegar langanir?
15 Jesús benti á að lífshamingja sé ekki fólgin í því að reyna að fullnægja öllum löngunum okkar heldur hinu að fullvissa okkur um það sem mestu máli skiptir í lífinu. „Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast,“ áminnti hann. „Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin?“ Síðan vakti hann athygli á fuglum himinsins og sagði: „Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá.“ Um liljur vallarins sagði hann: „Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.“ — Matteus 6:25-29.
16. Hvað hefur reynslan sýnt um áhrif þess að sækjast eftir efnislegum gæðum?
16 Getum við lært eitthvað af þessum einföldu samlíkingum? Algengt er að því meir sem maður reynir að bæta hlutskipti sitt efnalega, þeim mun flæktari verður hann í veraldlegum hugðarefnum og því þyngri verður byrðin á herðum hans. Heimurinn er fullur af athafnamönnum sem hafa goldið fyrir efnalega velgengni sína með sundruðum fjölskyldum, hjónaskilnuðum, heilsu- bresti og fleiru. (Lúkas 9:25; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Nóbelsverðlaunahafinn Albert Einstein sagði einu sinni: „Eignir, yfirborðsvelgengni, frægð og munaður — ég hef alltaf haft andstyggð á þessu. Ég álít að fábrotið og látlaust líferni sé öllum fyrir bestu.“ Hann endurómar aðeins einfalt ráð Páls postula: „Guðhræðslan samfara nægjusemi er mikill gróðavegur.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:6.
17. Hvers konar líferni mælir Biblían með?
17 Hér má ekki gleyma mikilvægu atriði. Enda þótt „fábrotið og látlaust líferni“ hafi marga kosti er það sem slíkt ekki forskrift lífshamingjunnar. Margir eru neyddir til að lifa einföldu lífi aðstæðna vegna en eru samt ekki ánægðir eða hamingjusamir. Biblían er ekki að hvetja okkur til að hafna efnislegum gæðum og lifa fábrotnu einsetulífi. Hún leggur aðaláherslu á guðrækni, ekki nægjusemi. Það er aðeins þegar þetta tvennt kemur saman sem úr verður „mikill gróðavegur.“ Hvaða gróði er það? Síðar í sama bréfi bendir Páll á að þeir sem „ekki . . . treysta fallvöltum auði, heldur Guði,“ séu að „safna . . . handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna, og munu geta höndlað hið sanna líf.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:17-19.
18. (a) Hvernig getum við hlotið ósvikna hvíld og hressingu? (b) Hvernig ættum við að líta á þær breytingar sem við þurfum kannski að gera?
18 Ef við lærum að setja frá okkur þungar, persónulegar byrðar sem við burðumst með og taka á okkur hina léttu byrði, sem Jesús býður, þá er það hvíld og hressing. Margir, sem hafa komið málum sínum í það horf að þeir geti aukið hlut sinn í þjónustu Guðsríkis, hafa hlotið gleði og lífshamingju að launum. Það kostar að sjálfsögðu trú og hugrekki að gera slíkar breytingar og ýmis ljón geta verið á veginum. En Biblían áminnir okkur: „Sá sem sífellt gáir að vindinum, sáir ekki, og sá sem sífellt horfir á skýin, uppsker ekki.“ (Prédikarinn 11:4) Margt er ekki svo erfitt þegar við höfum einsett okkur að gera það. Erfiðasti þröskuldurinn er oft sá að gera upp hug okkar. Við slítum okkur kannski út með því að streitast á móti hugmyndinni. Ef við herðum okkur upp, gerum hugi okkar viðbúna og tökum áskoruninni, getur blessunin, sem við hljótum í staðinn, komið okkur á óvart. Sálmaritarinn hvatti: „Finnið og sjáið, að [Jehóva] er góður.“ — Sálmur 34:9; 1. Pétursbréf 1:13.
„Hvíld sálum yðar“
19. (a) Hverju megum við búast við samhliða versnandi heimsástandi? (b) Hvaða vissu höfum við meðan við göngum undir oki Jesú?
19 Páll postuli minnti lærisveina fyrstu aldar á að ‚við verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar.‘ (Postulasagan 14:22) Þetta er enn í fullu gildi. Heimsástandið versnar sífellt og álagið á eftir að aukast á alla sem eru ákveðnir í að lifa réttlátlega og guðrækilega. (2. Tímóteusarbréf 3:12; Opinberunarbókin 13:16, 17) En okkur er eins innanbrjósts og Páli er hann sagði: „Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki, ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki.“ Ástæðan er sú að við getum treyst að Jesús Kristur veiti okkur ofurmagn kraftarins. (2. Korintubréf 4:7-9) Ef við öxlum af heilum hug það ok að vera lærisveinar, uppfyllist loforð Jesú á okkur: „Þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ — Matteus 11:29.
Geturðu svarað?
◻ Hvert er hið ljúfa ok sem Jesús bauð?
◻ Hvað ættum við að gera ef okkur finnst okið vera orðið íþyngjandi?
◻ Hvað átti Jesús við er hann sagði: „Byrði mín [er] létt.“
◻ Hvernig getum við tryggt að byrði okkar haldi áfram að vera létt?