„Prófið yður sjálfa“
„Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni, prófið yður sjálfa.“ — 2. Korintubréf 13:5.
1, 2. (a) Hvaða áhrif getur það haft á okkur ef við efumst í trúnni? (b) Hvaða aðstæður í Korintu á fyrstu öldinni kunna að hafa gert suma óörugga um hvaða stefnu þeir ættu að taka?
MAÐUR nokkur er að ferðast úti á landi og kemur að vegamótum. Hann er ekki viss um hvor leiðin liggi að áfangastað og spyr því til vegar en vegfarendur gefa honum ólíkar upplýsingar. Þetta ruglar hann svo í ríminu að hann getur ekki haldið áfram. Ef við efumst í trúnni getur það haft svipuð áhrif á okkur. Óvissan getur gert okkur erfitt fyrir að taka ákvarðanir og orðið til þess að við verðum óörugg um hvaða veg við eigum að ganga.
2 Á fyrstu öldinni kom upp staða í kristna söfnuðinum í Korintu í Grikklandi sem hefði getað haft þessi áhrif á suma. Hinir „stórmiklu“ postular véfengdu vald Páls postula og sögðu: „Bréfin . . . eru þung og ströng, en sjálfur er hann lítill fyrir mann að sjá og enginn tekur mark á ræðu hans.“ (2. Korintubréf 10:7-12; 11:5, 6) Þessi afstaða kann að hafa gert einhverja í söfnuðinum í Korintu óörugga um hvaða stefnu þeir ættu að taka.
3, 4. Af hverju ættum við að hafa áhuga á leiðbeiningum Páls til Korintumanna?
3 Páll stofnaði söfnuðinn í Korintu í fyrstu heimsókn sinni til borgarinnar árið 50. Hann dvaldi þar „þrjú misseri og kenndi þeim orð Guðs“. Já, „margir Korintumenn, sem á hlýddu, tóku trú og létu skírast“. (Postulasagan 18:5-11) Páli var umhugað um hvernig trúsystkini hans í Korintu fótuðu sig í trúnni. Korintumenn höfðu meira að segja skrifað honum og beðið hann að ráðleggja sér í ákveðnum málum. (1. Korintubréf 7:1) Hann veitti þeim góðar leiðbeiningar.
4 „Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni,“ skrifaði Páll, „prófið yður sjálfa.“ (2. Korintubréf 13:5) Með því að fylgja þessum ráðum gátu bræðurnir í Korintu komið í veg fyrir að þeir yrðu óöruggir um hvaða veg þeir ættu að ganga. Þessar leiðbeiningar geta haft sömu áhrif á okkur. En hvernig getum við fylgt ráðum Páls? Hvernig reynum við hvort við erum í trúnni? Og hvað felst í því að prófa sjálf okkur?
„Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni“
5, 6. Hvaða mælikvarða höfum við til að reyna hvort við erum í trúnni og hvers vegna er þetta fullkominn mælikvarði?
5 Til að reyna og rannsaka sjálfan sig er nauðsynlegt að hafa mælikvarða til að miða við. Hér er ekki um það að ræða að rannsaka trúna sem við höfum meðtekið heldur ættum við að rannsaka sjálf okkur. Við höfum fullkominn mælikvarða til að miða okkur við. Davíð sagði í sálmi sem hann orti: „Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran. Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.“ (Sálmur 19:8, 9) Í Biblíunni er að finna lýtalaust lögmál Jehóva, rétt fyrirmæli hans og skír boðorð. Boðskapur Biblíunnar er því fullkominn mælikvarði til að reyna hvort við erum í trúnni.
6 Páll postuli sagði um innblásinn boðskap Guðs: „Orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ (Hebreabréfið 4:12) Við getum notað orð Guðs til að reyna hjarta okkar — okkar innri mann. En hvernig getum við látið þennan beitta og kröftuga boðskap snerta okkur? Sálmaritarinn tekur það skýrt fram. Hann söng: „Sæll er sá maður, er . . . hefir yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.“ (Sálmur 1:1, 2) ‚Lögmál Drottins‘ er að finna í Biblíunni, rituðu orði Guðs. Við verðum að hafa yndi af því að lesa orð Jehóva. Já, við verðum að gefa okkur tíma til að lesa það og hugleiða. Þegar við gerum það verðum við að bera sjálf okkur saman við það sem stendur í Biblíunni.
7. Hver er helsta leiðin til að reyna hvort við erum í trúnni?
7 Ein besta leiðin til að reyna hvort við erum í trúnni er að lesa og hugleiða orð Guðs og íhuga hvort hegðun okkar sé í samræmi við það sem við lærum. Það er hughreystandi að vita að við fáum hjálp til að skilja orð Guðs.
8. Hvernig geta ritin frá hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘ hjálpað okkur að reyna hvort við erum í trúnni?
8 Jehóva hefur séð okkur fyrir kennslu og leiðbeiningum í biblíuskýringarritum frá hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘. (Matteus 24:45) Í lok flestra kafla bókarinnar Nálægðu þig Jehóvaa var til dæmis rammi með spurningum til íhugunar. Þessar spurningar hjálpa okkur að hugleiða hvar við stöndum. Í blöðunum Varðturninum og Vaknið! er einnig rætt um ýmis mál sem hjálpa okkur að reyna hvort við erum í trúnni. Kristin kona sagði til dæmis um greinar um Orðskviðina sem hafa nýlega birst í Varðturninum á mörgum tungumálum: „Mér finnst þessar greinar mjög gagnlegar. Þær hjálpa mér að athuga hvort tal mitt, hegðun og viðhorf samræmist í raun og veru réttlátum mælikvarða Jehóva.“
9, 10. Hverju hefur Jehóva séð okkur fyrir sem hjálpar okkur að reyna hvort við erum í trúnni?
9 Við fáum líka góða leiðsögn og uppörvun á safnaðarsamkomum og mótum. Þessar samkomur eru meðal þess sem Jehóva hefur gert fyrir þá sem Jesaja spáði um: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu allir lýðirnir streyma. Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall Drottins, . . . svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.‘“ (Jesaja 2:2, 3) Það er okkur svo sannarlega til blessunar að fá slíka fræðslu um vegi Jehóva.
10 Við fáum líka leiðbeiningar frá þeim sem eru þroskaðir í trúnni, þar á meðal kristnum öldungum. Biblían segir þeim: „Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka.“ (Galatabréfið 6:1) Við getum verið innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli hafa séð til þess að við getum fengið leiðréttingu með þessum hætti.
11. Hvað verðum við að gera til að reyna hvort við erum í trúnni?
11 Jehóva hefur séð okkur fyrir ritum, samkomum og safnaðaröldungum. En við verðum að gera sjálfsrannsókn til að reyna hvort við erum í trúnni. Þegar við lesum ritin okkar eða hlustum á biblíulegar leiðbeiningar verðum við að spyrja: „Lýsir þetta mér? Geri ég þetta? Held ég fast við allar kristnar meginreglur?“ Afstaðan til þeirra upplýsinga, sem við fáum eftir þessum leiðum, hefur áhrif á trúarþroskann. „Maðurinn án anda veitir ekki viðtöku því, sem Guðs anda er, því að honum er það heimska,“ segir Biblían. „En hinn andlegi dæmir um allt.“ (1. Korintubréf 2:14, 15) Kappkostum að vera jákvæð gagnvart því sem við lesum í bókum okkar, blöðum og öðrum ritum og gagnvart því sem við heyrum á samkomum og frá öldungum.
„Prófið yður sjálfa“
12. Hvað felst í því að prófa sjálfan sig?
12 Að prófa sig felur í sér að leggja mat á sjálfan sig. Þótt við séum í sannleikanum þurfum við að athuga hve vel við lifum í samræmi við hann. Við þurfum að kanna hvort við sýnum þroska og innilegt þakklæti fyrir andlegu gjafirnar sem við fáum.
13. Hvað sýnir hvort við erum þroskaðir einstaklingar samkvæmt Hebreabréfinu 5:14?
13 Hvernig getum við sannað að við séum þroskaðir kristnir einstaklingar? Páll postuli skrifaði: „Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá, sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.“ (Hebreabréfið 5:14) Við sýnum að við erum þroskaðir einstaklingar með því að temja skilningarvitin. Við temjum skilningarvitin með því að fara endurtekið eftir meginreglum Biblíunnar rétt eins og íþróttamenn verða að nota vissa vöðva í líkamanum aftur og aftur til að geta orðið góðir í íþrótt sinni.
14, 15. Af hverju verðum við að leggja okkur einlæglega fram um að rannsaka djúpu sannindin í orði Guðs?
14 Áður en við getum tamið skilningarvitin verðum við hins vegar að afla okkur þekkingar. Til þess þurfum við að vera iðnir biblíunemendur. Skilningarvitin skerpast við reglulegt einkanám — sérstaklega þegar við rannsökum djúp sannindi í orði Guðs. Varðturninn hefur tekið fyrir margs konar djúp sannindi á liðnum árum. Hver eru viðbrögð okkar þegar við rekumst á slíkar greinar? Forðumst við þær aðeins vegna þess að í þeim er „sumt þungskilið“? (2. Pétursbréf 3:16) Nei, alls ekki. Við leggjum okkur enn betur fram um að skilja það sem þar er fjallað um. — Efesusbréfið 3:18.
15 En hvað gerum við ef okkur finnst erfitt að lesa og hugleiða? Þá er mikilvægt að læra að hafa gaman af því.b (1. Pétursbréf 2:2) Við þurfum að læra að nærast af föstu fæðunni eða djúpu sannindunum í orði Guðs til að þroskast. Annars verða skilningarvit okkar takmörkuð. En við þurfum að gera meira til að temja skilningarvitin svo að við náum þroska. Á hverjum degi verðum við að fara eftir því sem við lærum í einkanáminu.
16, 17. Hvernig ráðleggur lærisveinninn Jakob okkur að vera ‚gerendur orðsins‘?
16 Til að prófa sjálf okkur þurfum við einnig að ganga úr skugga um að við séum þakklát fyrir sannleikann og sýna það í verki. Lærisveinninn Jakob notaði sterka líkingu til að lýsa slíkri sjálfsrannsókn. Hann sagði: „Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður. Því að ef einhver er heyrandi orðsins og ekki gjörandi, þá er hann líkur manni, er skoðar andlit sitt í spegli. Hann skoðar sjálfan sig, fer burt og gleymir jafnskjótt, hvernig hann var. En sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því, sem hann heyrir, heldur framkvæmir það, hann mun sæll verða í verkum sínum.“ — Jakobsbréfið 1:22-25.
17 Hér er Jakob í rauninni að segja: ‚Notið orð Guðs að staðaldri eins og spegil til að skoða ykkur í. Rannsakið ykkur í ljósi þess sem þið lesið í orði Guðs. Gleymið svo ekki því sem þið sáuð. Gerið viðeigandi breytingar.‘ En það getur stundum verið erfitt að fylgja þessum ráðum.
18. Af hverju getur verið erfitt að fylgja orðum Jakobs?
18 Tökum sem dæmi kröfuna um að boða Guðsríki. Páll skrifaði: „Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis.“ (Rómverjabréfið 10:10) Við þurfum að gera þó nokkrar breytingar á lífi okkar til að játa með munninum til hjálpræðis. Fæstum finnst auðvelt að taka þátt í boðunarstarfinu. Það krefst síðan enn meiri fórna og breytinga að sinna þessu starfi af eldmóði og skipa því þann sess sem það á að hafa í lífi okkar. (Matteus 6:33) En með því að vera gerendur orðsins og taka þátt í starfinu, sem Guð hefur falið okkur, verðum við hamingjusöm vegna þess að það færir honum lof. Erum við iðnir boðberar Guðsríkis?
19. Hvað felst í trúarverkum okkar?
19 En hversu víðtæk ættu trúarverk okkar að vera? Páll segir: „Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins mun vera með yður.“ (Filippíbréfið 4:9) Við sýnum hvar við stöndum í trúnni með því að fara eftir því sem við höfum lært, numið, heyrt og séð — öllu sem felst í kristinni vígslu og þjónustu. Jehóva sagði fyrir milligöngu spámannsins Jesaja: „Hér er vegurinn! Farið hann!“ — Jesaja 30:21.
20. Hvers konar einstaklingar eru söfnuðinum mikil blessun?
20 Ráðvandir karlar og konur, sem eru iðnir biblíunemendur, duglegir prédikarar fagnaðarerindisins og hollir stuðningsmenn Guðsríkis, reynast söfnuðinum mikil blessun. Nærvera þeirra veitir söfnuðinum stöðugleika. Þeir koma að miklu gagni, sérstaklega í ljósi þess að svo margir nýir þarfnast umönnunar. Þegar við tökum til okkar ráð Páls og reynum hvort við erum í trúnni og prófum okkur getum við líka haft góð áhrif á aðra.
Hafðu yndi af því að gera vilja Guðs
21, 22. Hvernig getum við haft yndi af því að gera vilja Guðs?
21 „Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér,“ söng Davíð konungur í Ísrael til forna. (Sálmur 40:9) Davíð hafði yndi af því að gera vilja Guðs. Af hverju? Af því að lög Jehóva voru í hjarta hans. Hann var ekki óöruggur um hvaða veg hann ætti að ganga.
22 Þegar lög Guðs eru innra með okkur erum við ekki óörugg um hvaða veg við eigum að ganga. Við höfum yndi af því að gera vilja Guðs. Við skulum því leggja hart að okkur og þjóna Jehóva af öllu hjarta. — Lúkas 13:24.
[Neðanmáls]
a Gefin út af Vottum Jehóva.
b Finna má gagnlegar leiðbeiningar um sjálfsnám á bls. 27-32 í bókinni Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum, gefin út af Vottum Jehóva.
Manstu?
• Hvernig getum við reynt hvort við erum í trúnni?
• Hvað felst í því að prófa sjálfan sig?
• Hvernig getum við sýnt að við erum þroskaðir kristnir einstaklingar?
• Hvernig hjálpa verk trúarinnar okkur að gera sjálfsrannsókn?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Hver er ein besta leiðin til að reyna hvort við erum í trúnni?
[Mynd á blaðsíðu 16]
Við sönnum að við erum þroskaðir kristnir einstaklingar með því að temja skilningarvitin.
[Myndir á blaðsíðu 17]
Við sýnum hvernig við stöndum í trúnni með því að gleyma ekki því sem við heyrum heldur vera gerendur orðsins.