Markús segir frá
1 Upphaf fagnaðarboðskaparins um Jesú Krist, son Guðs. 2 Í bók Jesaja spámanns stendur: „(Ég sendi sendiboða minn á undan þér sem greiðir veg þinn.)+ 3 Rödd manns hrópar í óbyggðunum: ‚Greiðið veg Jehóva!* Gerið brautir hans beinar.‘“+ 4 Jóhannes skírari var í óbyggðunum og boðaði að fólk ætti að skírast til tákns um iðrun svo að það gæti fengið syndir sínar fyrirgefnar.+ 5 Fólk frá allri Júdeu og allir Jerúsalembúar komu til hans. Fólk játaði syndir sínar opinberlega og hann skírði það* í ánni Jórdan.+ 6 Jóhannes klæddist fötum úr úlfaldahári og var með leðurbelti um mittið.+ Hann át engisprettur og villihunang.+ 7 Hann boðaði: „Á eftir mér kemur sá sem er máttugri en ég, og ég er ekki þess verðugur að krjúpa niður til að leysa ólarnar á sandölum hans.+ 8 Ég skírði ykkur með vatni en hann mun skíra ykkur með heilögum anda.“+
9 Um þessar mundir kom Jesús frá Nasaret í Galíleu og Jóhannes skírði hann í Jórdan.+ 10 Um leið og hann kom upp úr vatninu sá hann himnana opnast og andann koma niður yfir sig eins og dúfu,+ 11 og rödd heyrðist af himni: „Þú ert sonur minn sem ég elska. Ég hef velþóknun á þér.“+
12 Andinn knúði hann þegar í stað út í óbyggðirnar. 13 Hann dvaldist þar í 40 daga og Satan freistaði hans.+ Hann var meðal villidýranna en englar þjónuðu honum.+
14 Eftir að Jóhannes var handtekinn fór Jesús til Galíleu,+ boðaði fagnaðarboðskap Guðs+ 15 og sagði: „Tíminn er kominn og ríki Guðs er í nánd. Iðrist+ og trúið fagnaðarboðskapnum.“
16 Jesús gekk meðfram Galíleuvatni og sá Símon og Andrés bróður hans+ kasta netum sínum í vatnið+ en þeir voru fiskimenn.+ 17 Hann sagði við þá: „Komið og fylgið mér og ég skal láta ykkur veiða menn.“+ 18 Þeir yfirgáfu netin samstundis og fylgdu honum.+ 19 Hann gekk spölkorn lengra og sá þá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans þar sem þeir voru í báti sínum að bæta netin.+ 20 Hann kallaði strax á þá og þeir skildu Sebedeus föður sinn eftir í bátnum ásamt daglaunamönnunum og fylgdu honum. 21 Þeir komu nú til Kapernaúm.
Um leið og hvíldardagurinn hófst fór hann í samkunduhúsið og byrjaði að kenna.+ 22 Fólk var agndofa yfir kennslu hans því að hann kenndi eins og sá sem hefur vald en ekki eins og fræðimennirnir.+ 23 Á sama tíma var í samkunduhúsinu maður sem óhreinn andi hafði á valdi sínu. Hann hrópaði: 24 „Hvað viltu okkur, Jesús frá Nasaret?+ Ertu kominn til að tortíma okkur? Ég veit vel hver þú ert, hinn heilagi Guðs.“+ 25 En Jesús ávítaði andann og sagði: „Þegiðu og farðu úr honum!“ 26 Maðurinn fékk þá krampaflog af völdum óhreina andans sem æpti hástöfum og fór úr honum. 27 Allt fólkið var furðu lostið, fór að ræða þetta sín á milli og sagði: „Hvað er þetta? Hann kennir með nýjum hætti! Hann skipar jafnvel óhreinu öndunum fyrir og þeir hlýða honum.“ 28 Og fréttirnar af honum bárust hratt út um allt Galíleuhérað.
29 Þeir yfirgáfu nú samkunduhúsið og héldu heim til Símonar og Andrésar ásamt Jakobi og Jóhannesi.+ 30 Tengdamóðir Símonar+ lá veik með hita og þeir sögðu Jesú strax frá því. 31 Hann fór til hennar, tók í hönd hennar og reisti hana á fætur. Hitinn hvarf og hún fór að matbúa handa þeim.
32 Þegar komið var kvöld og sólin sest kom fólk til hans með alla sem voru veikir og andsetnir.+ 33 Allir borgarbúar voru samankomnir við dyrnar. 34 Hann læknaði marga sem þjáðust af ýmsum sjúkdómum+ og rak út marga illa anda en hann leyfði illu öndunum ekki að tala því að þeir vissu að hann var Kristur.*
35 Snemma morguns, meðan enn var myrkur, fór hann á fætur, gekk út og hélt á óbyggðan stað þar sem hann baðst fyrir.+ 36 En Símon og þeir sem voru með honum leituðu að honum 37 og fundu hann. Þeir sögðu við hann: „Allir eru að leita að þér.“ 38 En hann sagði við þá: „Förum annað, í bæina í grenndinni, til að ég geti líka boðað fagnaðarboðskapinn þar, því að til þess er ég kominn.“+ 39 Hann fór síðan og boðaði fagnaðarboðskapinn í samkunduhúsum um alla Galíleu og rak út illu andana.+
40 Holdsveikur maður kom einnig til Jesú, féll á kné og sárbændi hann: „Þú getur hreinsað mig ef þú bara vilt!“+ 41 Hann kenndi í brjósti um manninn, rétti út höndina, snerti hann og sagði við hann: „Ég vil! Vertu hreinn.“+ 42 Samstundis hvarf holdsveikin af honum og hann varð hreinn. 43 Síðan sendi hann manninn burt án tafar og gaf honum þessi ströngu fyrirmæli: 44 „Gættu þess að segja engum neitt, en farðu og sýndu þig prestinum og færðu fórn fyrir hreinsun þína eins og Móselögin kveða á um+ til að sanna að þú sért læknaður.“+ 45 Maðurinn fór en talaði mikið um þetta og sagði frá því úti um allt svo að Jesús gat ekki lengur sýnt sig opinberlega í borgum heldur hélt sig á óbyggðum slóðum. Fólk streymdi samt til hans úr öllum áttum.+