NÁMSGREIN 39
Mildi er styrkleiki
„Þjónn Drottins á ekki að rífast heldur á hann að vera ljúfur við alla.“ – 2. TÍM. 2:24.
SÖNGUR 120 Líkjum eftir hógværð Krists
YFIRLITa
1. Hvað gætum við verið spurð um í vinnunni eða skólanum?
HVERNIG líður þér þegar vinnufélagi eða skólafélagi spyr þig um trú þína? Finnst þér það stressandi? Það finnst flestum okkar. En slíkar spurningar geta hjálpað okkur að skilja hvernig hann hugsar og auðveldað okkur að segja honum frá fagnaðarboðskapnum. En stundum spyr fólk á ögrandi hátt. Það er oft vegna þess að það hefur fengið rangar upplýsingar um trú okkar. (Post. 28:22) Og við lifum á „síðustu dögum“ þegar margir eru „ósáttfúsir“ og jafnvel „grimmir“. – 2. Tím. 3:1, 3.
2. Hvers vegna er mildi eftirsóknarverður eiginleiki?
2 Þú veltir kannski fyrir þér hvernig þú getur verið þægilegur og vingjarnlegur þegar einhver vill deila við þig um trú þína. Mildi getur hjálpað þér. Sá sem er mildur kemst ekki auðveldlega í uppnám en er fær um að hafa stjórn á sjálfum sér þegar honum er ögrað eða hann er óviss um hvernig hann á að svara. (Orðskv. 16:32) En það getur verið hægara sagt en gert. Hvernig geturðu brugðist við með mildi þegar einhver setur út á trú þína? Og ef þú ert foreldri, hvernig geturðu þá kennt börnunum þínum að verja trú sína með mildi? Skoðum málið.
AÐ RÆKTA MEÐ SÉR MILDI
3. Hvernig vitum við að mildi er styrkleiki en ekki veikleiki? (2. Tímóteusarbréf 2:24, 25)
3 Mildi er styrkleiki, ekki veikleiki. Það þarf innri styrk til að halda ró sinni í erfiðum aðstæðum. Mildi er hluti af ‚ávexti andans‘. (Gal. 5:22, 23) Ein mynd gríska orðsins sem er þýtt „mildi“ var stundum notuð til að lýsa tömdum hesti. Sjáum fyrir okkur ótaminn og villtan hest sem verður síðan ljúfur og þægilegur. Hann er samt jafn sterkur og áður. Hvernig getum við ræktað með okkur mildi og verið á sama tíma sterk? Það þarf fleira en viljastyrk. Við þurfum að biðja Jehóva um anda hans og hjálp til að þroska með okkur þennan fallega eiginleika. Reynslan sýnir að þetta er hægt. Margir vottar hafa svarað mildilega þegar þeir hafa staðið andspænis andstæðingum. Það hefur oft haft jákvæð áhrif á skoðun fólks á þjónum Jehóva. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 2:24, 25, neðanmáls í versi 25.) Hvernig geturðu tileinkað þér þennan eiginleika?
4. Hvað getum við lært um mildi af Ísak?
4 Í Biblíunni eru margar frásögur sem sýna hversu verðmætur eiginleiki mildi er. Tökum Ísak sem dæmi. Þegar hann bjó í Gerar í landi Filistea byrgðu öfundsjúkir nágrannar hans brunnana sem þjónar föður hans höfðu grafið. Í stað þess að berjast fyrir rétti sínum færði hann sig um set ásamt heimilisfólki sínu og gróf aðra brunna. (1. Mós. 26:12–18) En Filistear fullyrtu að vatnið í þeim brunnum væri líka þeirra. Aftur brást Ísak friðsamlega við. (1. Mós. 26:19–25) Hvað hjálpaði honum að vera mildur þegar fólk virtist staðráðið í að ögra honum? Hann hafði eflaust tekið eftir fordæmi foreldra sinna og séð hvernig Abraham kom friðsamlega fram og að Sara var bæði friðsöm og hógvær. – 1. Pét. 3:4–6; 1. Mós. 21:22–34.
5. Nefndu dæmi sem sýnir að foreldrar geta kennt börnunum sínum gildi þess að sýna mildi.
5 Kristnir foreldrar, þið getið verið vissir um að þið getið líka kennt börnum ykkar mikilvægi mildi. Skoðum reynslu Maxence, en hann er 17 ára. Hann þurfti að eiga samskipti við reitt fólk bæði í skólanum og í boðuninni. Foreldrar hans hjálpuðu honum þolinmóðir að rækta með sér mildi. Þeir segja: „Maxence hefur áttað sig á að það kallar á meiri styrk að halda aftur af sér en að bregðast við með reiði eða ofbeldi þegar honum er ögrað.“ Sem betur fer er mildi orðin styrkleiki Maxence.
6. Hvernig getur bæn hjálpað okkur að taka framförum í að sýna mildi?
6 Hvað getum við gert ef okkur er ögrað, til dæmis ef einhver rægir Jehóva eða hæðist að Biblíunni? Við þurfum að biðja Jehóva um anda hans og visku til að bregðast mildilega við. En hvað ef við gerum okkur grein fyrir að við brugðumst ekki eins vel við og við hefðum átt að gera? Þá getum við rætt það aftur við Jehóva í bæn og hugleitt hvernig við getum gert betur næst. Hann mun gefa okkur af heilögum anda sínum til að við getum haft stjórn á skapi okkar og sýnt mildi.
7. Hvernig getur það að leggja ákveðin biblíuvers á minnið hjálpað okkur að hafa stjórn á tali okkar og viðbrögðum? (Orðskviðirnir 15:1, 18)
7 Í Biblíunni eru mörg vers sem geta hjálpað okkur að hafa stjórn á tali okkar í erfiðum aðstæðum. Andi Guðs getur hjálpað okkur að muna eftir þessum biblíuversum. (Jóh. 14:26) Við finnum til dæmis meginreglur í Orðskviðunum sem geta hjálpað okkur að vera mild. (Lestu Orðskviðina 15:1, 18.) Þessi biblíubók sýnir líka hversu gagnlegt það er að halda ró sinni þegar aðstæður eru stressandi. – Orðskv. 10:19; 17:27; 21:23; 25:15.
INNSÆI HJÁLPAR OKKUR AÐ VERA MILD
8. Hvers vegna er gott að hugleiða hver gæti verið ástæðan fyrir því að einhver spyr ákveðinna spurninga varðandi trúarskoðanir okkar?
8 Innsæi getur líka hjálpað okkur. (Orðskv. 19:11) Maður sem býr yfir innsæi sýnir sjálfstjórn þegar einhver vefengir trúarskoðanir hans. Sumar spurningar eru eins og ísjakar, meirihluti þeirra er undir yfirborðinu. Á svipaðan hátt má vera að hvöt þess sem spyr sé ekki augljós. Það er þess vegna gott að átta sig á, áður en við svörum, að við vitum kannski ekki hvers vegna hann spyr. – Orðskv. 16:23.
9. Hvernig sýndi Gídeon innsæi og mildi þegar hann talaði við Efraímíta?
9 Hugleiðum hvernig Gídeon svaraði Efraímítum. Þeir spurðu hann reiðir hvers vegna hann hefði ekki kallað á þá fyrr til að taka þátt í stríðinu gegn óvinum Ísraels. Hver var eiginlega ástæðan fyrir reiði þeirra? Sært stolt? Hver sem ástæðan var sýndi Gídeon þá skynsemi að taka tillit til tilfinninga þeirra og svaraði mildilega. Hver var árangurinn? Það var búið að slá vopnin úr höndum þeirra og ‚þeir róuðust‘. – Dóm. 8:1–3.
10. Hvað getur hjálpað okkur að vita hvernig við eigum á svara þeim sem spyrja okkur um trú okkar? (1. Pétursbréf 3:15)
10 Vinnufélagi eða skólafélagi spyr okkur kannski um skoðun okkar á málum sem tengjast siðferði. Þá virðum við skoðanir hans en gerum jafnframt okkar besta til að verja afstöðu okkar. (Lestu 1. Pétursbréf 3:15.) Það er oft gagnlegt að líta á spurninguna sem tækifæri til að skilja hvað skiptir hann máli, frekar en árás eða ögrun. Óháð því hvers vegna er spurt ættum við að svara mildilega og vinsamlega. Það gæti fengið hann til að endurmeta viðhorf sitt. Og jafnvel þótt sá sem spyr sé ókurteis eða kaldhæðinn ættum við að leggja okkur fram um að svara á vinsamlegan hátt. – Rómv. 12:17.
11, 12. (a) Hvað gætum við hugleitt áður en við svörum erfiðri spurningu? (Sjá einnig mynd.) (b) Hvernig getur spurning sem við fáum opnað leiðina að góðum umræðum? Nefndu dæmi.
11 Ef vinnufélagi spyr til dæmis hvers vegna við höldum ekki upp á afmæli gætum við spurt okkur: Veltir hann fyrir sér hvort við megum ekki gera okkur dagamun? Eða hugsar hann kannski að afstaða okkar gæti haft neikvæð áhrif á samstarfið og andann á vinnustaðnum? Við gætum kannski dregið úr áhyggjum hans með því að láta hann vita að við kunnum að meta áhuga hans á starfsfélögum og fullvissa hann um að við viljum líka stuðla að góðu andrúmslofti á vinnustaðnum. Það gæti skapað tækifæri til að ræða á rólegum nótum það sem Biblían gefur til kynna í sambandi við afmæli.
12 Við getum nálgast málið á svipaðan hátt þegar önnur erfið umræðuefni koma til tals. Skólafélagi gæti til dæmis haldið því fram að vottar Jehóva ættu að breyta viðhorfi sínu til samkynhneigðar. Getur verið að hann skilji ekki afstöðu okkar? Eða getur verið að hann eigi vin eða ættingja sem er samkynhneigður? Gerir hann ráð fyrir að okkur þyki ekki vænt um samkynhneigt fólk? Við þurfum kannski að fullvissa hann um að okkur sé annt um alls konar fólk og að við viðurkennum rétt hvers og eins til að taka sínar eigin ákvarðanir.b (1. Pét. 2:17) Síðan getum við kannski rætt siðferðismælikvarða Biblíunnar og hversu gagnlegt sé að fylgja honum.
13. Hvernig gætirðu hjálpað einhverjum sem segir að það sé heimskulegt að trúa á Guð?
13 Þegar við stöndum andspænis einstaklingi sem hefur mjög sterkar skoðanir ættum við ekki að vera fljót að hugsa að við vitum hverju hann trúir. (Tít. 3:2) Hvað ef skólafélagi þinn segir til dæmis að það sé heimskulegt að trúa á Guð? Ættirðu að gera ráð fyrir að hann sé alveg sannfærður um þróunarkenninguna og viti mikið um hana? Það getur verið að hann hafi ekki sjálfur skoðað málið neitt að ráði. Í stað þess að byrja að ræða málið á vísindalegum nótum gætirðu kannski gefið skólafélaga þínum eitthvað sem hann gæti hugsað um seinna. Þú gætir kannski bent honum á efni um sköpun á jw.org. Ef til vill er hann tilbúinn að ræða einhvern tíma seinna um grein eða myndband sem hann hefur fundið þar. Þegar þú bregst þannig við með virðingu má vera að hann sé tilbúinn að endurskoða afstöðu sína.
14. Hvernig notaði Niall vefsetur okkar á áhrifaríkan hátt til að hjálpa bekkjarfélaga að leiðrétta ranghugmynd um votta Jehóva?
14 Táningur að nafni Niall notaði vefsetur okkar til að leiðrétta ranghugmyndir um votta Jehóva. Hann segir: „Einn skólafélagi minn sagði oft að ég tryði ekki á vísindi vegna þess að ég treysti á bók fulla af uppspuna.“ Þar sem skólafélaginn vildi ekki að Niall útskýrði afstöðu sína benti hann honum á hlekkinn „Vísindin og Biblían“ á jw.org. Seinna áttaði Niall sig á að skólafélaginn hafði skoðað efni þar og var fyrir vikið fúsari að ræða um uppruna lífsins. Þú gætir átt eftir að upplifa eitthvað svipað.
UNDIRBÚIÐ YKKUR SAMAN SEM FJÖLSKYLDA
15. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að bregðast mildilega við þegar skólafélagar þeirra spyrja þau um trú þeirra?
15 Foreldrar geta kennt börnum sínum að bregðast mildilega við þegar spurt er um trú þeirra. (Jak. 3:13) Sumir foreldrar æfa þetta í biblíunámsstund fjölskyldunnar. Þeir taka fyrir málefni sem gætu komið til tals í skólanum, ræða málin og sýna hvernig megi svara, og kenna börnunum að tala á mildan og aðlaðandi hátt. Sjá rammann „Æfingar geta verið gagnlegar fyrir fjölskylduna þína“.
16, 17. Hvernig geta æfingar verið gagnlegar fyrir ungt fólk?
16 Að æfa sig í að leggja fram sannfærandi rök getur hjálpað þeim sem eru ungir að árum að útskýra trú sína fyrir öðrum og styrkt trú þeirra sjálfra. Undir flokknum „Unglingar“ á jw.org er að finna vinnublöð fyrir unglinga. Þau eru gerð til að hjálpa unga fólkinu að styrkja trú sína og búa sig undir að svara með eigin orðum. Fjölskyldan gæti skoðað þau og greinaflokkinn „Ungt fólk spyr“ saman til að læra hvernig verja má trú sína á mildilegan og aðlaðandi hátt.
17 Unglingur sem heitir Matthew útskýrir hvernig æfingar hafa hjálpað sér. Í biblíunámsstund fjölskyldunnar rannsaka Matthew og foreldrar hans oft viðfangsefni sem gætu komið upp í bekknum. Hann segir: „Við hugleiðum hvaða spurningar gætu komið upp og æfum hvernig við getum svarað þeim með hliðsjón af efninu sem við höfum rannsakað. Þegar ég hef rökin fyrir afstöðu minni skýrt í huga verð ég öruggur og það er auðveldara að vera mildur í samskiptum við aðra.“
18. Hvað er undirstrikað í Kólossubréfinu 4:6?
18 Skýr og sannfærandi rök duga ekki til að sannfæra alla. En það getur hjálpað að sýna nærgætni og mildi. (Lestu Kólossubréfið 4:6.) Að ræða trú sína við einhvern má líkja við það að kasta bolta. Við getum kastað honum mjúklega eða þrusað honum af miklu afli. Ef við köstum honum mjúklega er líklegra að hinn leikmaðurinn geti gripið hann og leikurinn haldið áfram. Á svipaðan hátt getur fólk verið tilbúnara að hlusta og halda umræðunum áfram ef við tjáum okkur með háttvísi og mildi. Okkur ber auðvitað engin skylda til að halda umræðunum áfram ef viðmælandinn hefur bara áhuga á að sigra í kappræðum eða hæðast að trú okkar. (Orðskv. 26:4) En líklega eru fæstir þannig. Ef við sýnum mildi gætu margir kosið að hlusta.
19. Hvað ætti að hvetja okkur til að vera mild þegar við verjum trú okkar?
19 Það er sannarlega gagnlegt fyrir okkur að rækta með okkur mildi. Biddu Jehóva um styrk til að bregðast mildilega við þegar þú svarar ósanngjarnri gagnrýni og erfiðum eða eldfimum spurningum. Gleymdu ekki að mildi getur komið í veg fyrir að skoðanamunur magnist upp í rifrildi. Og milt svar sem ber vott um virðingu getur fengið suma til að líta okkur og sannindi Biblíunnar öðrum augum. Vertu alltaf tilbúinn að færa rök fyrir trú þinni „með hógværð og djúpri virðingu“. (1. Pét. 3:15) Megi mildi vera styrkur þinn!
SÖNGUR 88 Vísaðu mér veg þinn
a Í þessari námsgrein skoðum við hvernig við getum varið trú okkar með mildi þegar okkur er ögrað.
b Gagnlegar tillögur er að finna í greininni „Hvað segir Biblían um samkynhneigð?“ í Vaknið! nr. 4, 2016.
c Gagnlegar tillögur má finna í greinaröðunum „Ungt fólk spyr“ og „Spurningar og svör um Votta Jehóva“ á jw.org.