9. KAFLI
„Forðist saurlifnaðinn“
„Deyðið því hið jarðbundna í fari ykkar: hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 3:5.
1, 2. Hvernig áformaði Bíleam að gera þjóð Guðs mein?
VEIÐIMAÐURINN fer á uppáhaldsveiðistaðinn sinn. Hann ætlar sér að veiða ákveðna fiskitegund. Hann velur sér agn og kastar. Augnabliki síðar strekkist á línunni, stöngin svignar og veiðimaðurinn dregur fiskinn að landi. Hann brosir með sjálfum sér. Hann veit að hann valdi rétta agnið.
2 Árið 1473 f.Kr. er maður að nafni Bíleam að leita að réttu agni. Bráðin er þjóð Guðs sem er í tjaldbúðum á Móabsvöllum, rétt við landamæri fyrirheitna landsins. Bíleam þykist vera spámaður Jehóva en er í rauninni bara ágjarn maður sem hefur verið ráðinn til að formæla Ísraelsmönnum. En Jehóva tekur fram fyrir hendurnar á honum svo að hann getur ekki annað en blessað þjóðina. Bíleam er staðráðinn í að vinna til launa sinna og hugsar með sér að takist honum að lokka þjóðina til að drýgja alvarlega synd geti hann kannski fengið Guð til að formæla sinni eigin þjóð. Með það í huga kastar Bíleam agni sínu — og agnið er lokkandi ungar konur frá Móab. — 4. Mósebók 22:1-7; 31:15, 16; Opinberunarbókin 2:14.
3. Að hvaða marki tókst Bíleam það sem hann ætlaði sér?
3 Hreif þetta kænskubragð? Já, að vissu marki. Tugþúsundir ísraelskra karlmanna bitu á agnið og ‚hóruðust með móabískum konum‘. Þeir tóku jafnvel að dýrka guði Móabíta, þar á meðal hinn viðurstyggilega Baal Peór, guð frjósemi og kynlífs. Þetta varð til þess að 24.000 Ísraelsmenn týndu lífi rétt við landamæri fyrirheitna landsins. Hvílíkur harmleikur! — 4. Mósebók 25:1-9.
4. Af hverju urðu þúsundir Ísraelsmanna siðleysi að bráð?
4 Hver var undanfari þessarar ógæfu? Margir voru komnir með illt hjarta. Þeir höfðu fjarlægst Jehóva Guð sem hafði þó frelsað þjóðina frá Egyptalandi, alið önn fyrir henni í eyðimörkinni og leitt hana örugga að landamærum fyrirheitna landsins. (Hebreabréfið 3:12) Páll postuli skrifaði um þetta mál: „Drýgjum ekki heldur hór eins og sumir þeirra, og tuttugu og þrjár þúsundir féllu á einum degi.“a — 1. Korintubréf 10:8.
5, 6. Hvers vegna hefur frásagan af synd Ísraelsmanna á Móabsvöllum mikið gildi fyrir okkur?
5 Þjónar Guðs nú á dögum geta dregið mikinn lærdóm af frásögunni í 4. Mósebók því að þeir eru rétt í þann mund að ganga inn í fyrirheitið land sem er miklu fremra en það sem Ísraelsmönnum var gefið. (1. Korintubréf 10:11) Heimur nútímans er með kynlíf á heilanum, líkt og Móabítar, en í margfalt víðtækari mæli. Og á hverju ári gera tugþúsundir þjóna Guðs sig seka um siðleysi — þeir bíta á sama agnið og Ísraelsmenn forðum daga. (2. Korintubréf 2:11) Sumir sem sækja samkomur votta Jehóva nú á dögum hafa haft spilland áhrif á söfnuðinn, ekki ósvipað og Simrí sem sprangaði með midíanska konu beint inn í búðir Ísraelsmanna og inn í tjald sitt. — 4. Mósebók 25:6, 14; Júdasarbréfið 4.
6 Sérðu sjálfan þig í svipaðri aðstöðu og Ísraelsmenn voru í á Móabsvöllum? Sérðu hilla undir launin við sjóndeildarhring — nýja heiminn sem menn hafa þráð svo lengi? Þá skaltu gera allt sem í þínu valdi stendur til að láta kærleika Guðs varðveita þig og fara eftir skipuninni: „Forðist saurlifnaðinn!“ — 1. Korintubréf 6:18.
HVAÐ ER SAURLIFNAÐUR?
7, 8. Hvað er „saurlifnaður“ og hverjar eru oft afleiðingarnar?
7 Orðið „saurlifnaður“ (á grísku porneiʹa) er notað í Biblíunni um óleyfileg kynmök utan biblíulega lögmæts hjónabands. Það nær yfir hjúskaparbrot, vændi og kynmök ógiftra einstaklinga, svo og munn- og endaþarmsmök og það að handleika í kynferðislegum tilgangi kynfæri manneskju sem maður er ekki giftur. Það nær einnig yfir slíkar athafnir fólks af sama kyni og kynmök við dýr.b
8 Biblían er afdráttarlaus: Þeir sem stunda saurlifnað geta ekki verið í kristna söfnuðinum og hljóta ekki eilíft líf. (1. Korintubréf 6:9; Opinberunarbókin 22:15) Auk þess valda þeir sjálfum sér miklu tjóni. Þeir fyrirgera sjálfsvirðingunni og trausti annarra, setja hjónaband sitt eða annarra í uppnám, sitja uppi með slæma samvisku, óæskilega þungun eða sjúkdóma og setja sig jafnvel í lífshættu. (Galatabréfið 6:7, 8) Af hverju að fara út á þessa hættulegu braut? Margir hugsa því miður ekki um afleiðingarnar þegar þeir stíga fyrsta skrefið á óheillabrautinni — sem er oft fólgið í því að horfa á klám.
KLÁM — FYRSTA SKREFIÐ
9. Er klám skaðlaust eins og sumir halda fram? Skýrðu svarið.
9 Víða um lönd blasir klámið við á blaðsölustöðum, er sýnt í sjónvarpi og er fyrirferðarmikið í tónlist. Það nánast gegnsýrir Netið.c Er það skaðlaust eins og sumir halda fram? Aldeilis ekki. Hætt er við að þeir sem horfa á klámfengið efni frói sér að staðaldri og ali með sér ‚svívirðilegar girndir‘ sem geta brotist út í kynlífsfíkn og afbrigðilegum löngunum, valdið alvarlegum erfiðleikum milli hjóna og jafnvel skilnaði.d (Rómverjabréfið 1:24-27; Efesusbréfið 4:19) Rannsóknarmaður líkir kynlífsfíkn við krabbamein. „Hún vex og breiðist út jafnt og þétt,“ segir hann. „Hún gengur sárasjaldan til baka og það er ákaflega erfitt að meðhöndla hana og lækna.“
10. Hvernig er hægt að beita meginreglunni í Jakobsbréfinu 1:14, 15? (Sjá einnig rammagreinina „Styrkur til að vera siðferðilega hreinn“.)
10 Við skulum nú líta á Jakobsbréfið 1:14, 15. Þar stendur: „Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða.“ Ef spilltar langanir kvikna í huga þér skaltu losa þig við þær tafarlaust! Ef kynæsandi myndir ber óvart fyrir augu þér ættirðu að líta undan þegar í stað, slökkva á tölvunni eða skipta um sjónvarpsrás. Gerðu það sem gera þarf til að kæfa siðlausa löngun áður en hún verður óviðráðanleg og tekur af þér völdin. — Matteus 5:29, 30.
11. Hvernig getum við sýnt að við treystum Jehóva þegar við eigum í baráttu við rangar langanir?
11 Það er ærin ástæða fyrir því að sá sem þekkir okkur betur en við sjálf skuli hvetja okkur: „Deyðið því hið jarðbundna í fari ykkar: hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun.“ (Kólossubréfið 3:5) Þetta getur kostað talsvert átak. En munum að við eigum kærleiksríkan og þolinmóðan föður á himnum sem við getum ákallað. (Sálmur 68:20) Vertu fljótur að leita til hans þegar óhreinar hugsanir skjóta upp kollinum. Biddu hann að gefa þér ‚kraftinn mikla‘ og þvingaðu hugann til að einbeita sér að einhverju öðru. — 2. Korintubréf 4:7; 1. Korintubréf 9:27; sjá rammagreinina „Hvernig get ég sigrast á slæmum ávana?“.
12. Hvað er „hjartað“ og af hverju verðum við að varðveita það?
12 Vitringurinn Salómon skrifaði: „Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru því að þar eru uppsprettur lífsins.“ (Orðskviðirnir 4:23) „Hjartað“ er okkar innri maður, sú manneskja sem við erum í raun og veru í augum Guðs. Og það er ekki álit annarra manna sem ræður því hvort við hljótum eilíft líf heldur mat Jehóva á „hjarta“ okkar. Málið er ekki flóknara en það. En þetta er jafnframt alvarlegt mál. Job gerði sáttmála — formlegan samning — við augu sín um að horfa ekki girndarauga á konu. (Jobsbók 31:1) Það er gott dæmi til eftirbreytni. Sálmaskáldið var sama sinnis og bað til Guðs: „Snú augum mínum frá hégóma.“ — Sálmur 119:37.
ÓVITURLEG ÁKVÖRÐUN DÍNU
13. Hver var Dína og af hverju var óviturlegt af henni að vingast við kanverskar stúlkur?
13 Eins og fram kom í 3. kafla geta vinir okkar haft sterk áhrif á okkur til góðs eða ills. (Orðskviðirnir 13:20; 1. Korintubréf 15:33) Tökum Dínu sem dæmi en hún var dóttir ættföðurins Jakobs. (1. Mósebók 34:1) Þrátt fyrir gott uppeldi tók hún þá óviturlegu ákvörðun að vingast við kanverskar stúlkur. Kanverjar voru alræmdir fyrir lauslæti ekki síður en Móabítar. (3. Mósebók 18:6-25) Kanverskir karlar hljóta að hafa hugsað sem svo að Dína hefði ekkert á móti því að þeir reyndu við hana. Einn þessara karla var Síkem en sagt er að hann hafi notið „mestrar virðingar í ætt föður síns“. — 1. Mósebók 34:18, 19.
14. Hvernig hafði félagsskapur Dínu hörmulegar afleiðingar?
14 Dína hefur trúlega ekki haft kynmök í huga þegar hún sá Síkem. En hann gerði það sem flestir Kanverjar hafa sennilega talið eðlilegt þegar kynferðisleg örvun var annars vegar. Það stoðaði lítið fyrir Dínu að veita einhverja mótspyrnu á síðustu stundu því að hann „tók hana með valdi“ og „nauðgaði henni“. Hann virðist síðar hafa ‚lagt ást‘ á Dínu en það breytti ekki því sem hann hafði gert henni. (1. Mósebók 34:1-4) Og það var ekki aðeins Dína sem fór illa út úr þessu heldur varð félagsskapurinn, sem hún valdi sér, til þess að kalla hneisu og skömm yfir alla fjölskylduna. — 1. Mósebók 34:7, 25-31; Galatabréfið 6:7, 8.
15, 16. Hvernig getum við aflað okkur sannrar visku? (Sjá einnig rammagreinina „Biblíuvers til hugleiðingar“.)
15 Hafi Dína lært sína lexíu var það í hörðum skóla reynslunnar. Þeir sem elska Jehóva og hlýða honum þurfa ekki að læra á lífið með þessum hætti. Þeir hlýða á Guð og eiga „samneyti við vitra menn“. (Orðskviðirnir 13:20a) Þeir læra að skilja „sérhverja braut hins góða“ og forðast óþarfa erfiðleika og sársauka. — Orðskviðirnir 2:6-9; Sálmur 1:1-3.
16 Viskan frá Guði stendur öllum til boða sem þrá að eignast hana og leggja sig fram um það með því að vera bænræknir og iðnir að lesa Biblíuna og efni frá hinum trúa og hyggna þjóni. (Matteus 24:45; Jakobsbréfið 1:5) Það er einnig mikilvægt að vera auðmjúkur en það birtist í því að maður er fús til að fara eftir biblíulegum ráðum. (2. Konungabók 22:18, 19) Þjónn Guðs viðurkennir kannski þá staðreynd að hjartað geti verið svikult og forhert. (Jeremía 17:9) En er hann nógu auðmjúkur til að þiggja markviss og kærleiksrík ráð og aðstoð þegar á þarf að halda?
17. Lýstu hvað gæti komið upp í fjölskyldu og hvernig faðir gæti rökrætt við dóttur sína.
17 Hugsum okkur eftirfarandi dæmi. Faðir vill ekki leyfa dóttur sinni að fara út með ungum manni í söfnuðinum án þess að einhver sé með þeim. Stúlkan maldar í móinn: „En pabbi, treystirðu mér ekki? Við gerum ekkert af okkur!“ Stúlkan elskar Jehóva og vill gera hið rétta en breytir hún í samræmi við visku hans? Er hún að ‚forðast saurlifnaðinn‘ með þessu? Eða sýnir hún þá óskynsemi að ‚treysta á eigið hyggjuvit‘? (Orðskviðirnir 28:26) Kannski koma þér í hug fleiri meginreglur sem gætu hjálpað föðurnum og dótturinni að hugsa skynsamlega í þessu máli. — Sjá Orðskviðina 22:3; Matteus 6:13; 26:41.
JÓSEF FORÐAÐIST SAURLIFNAÐ
18, 19. Fyrir hvaða freistingu varð Jósef og hvernig brást hann við henni?
18 Jósef, hálfbróðir Dínu, var ungur maður sem elskaði Guð og forðaðist saurlifnað. (1. Mósebók 30:20-24) Sem drengur hafði hann séð með eigin augum hvað hlaust af heimskulegri breytni systur hans. Minningin um það og löngun hans til að láta kærleika Guðs varðveita sig hefur eflaust verndað hann löngu seinna þegar hann var kominn til Egyptalands og eiginkona húsbónda hans reyndi „dag eftir dag“ að draga hann á tálar. Jósef var þræll og þar af leiðandi gat hann ekki bara sagt upp og farið. Hann þurfti að takast á við áreitið með hugrekki og skynsemi. Hann færðist undan umleitunum hennar æ ofan í æ og lagði að lokum á flótta. — 1. Mósebók 39:7-12.
19 Ætli Jósef hefði getað verið ráðvandur ef hann hefði rennt löngunaraugum til konunnar eða látið sig dreyma dagdrauma um kynlíf? Sennilega ekki. En Jósef gældi ekki við syndsamlegar hugsanir. Hann lagði mikið upp úr sambandi sínu við Jehóva eins og glöggt má sjá af orðum hans við konu Pótífars. Hann sagði: „Húsbóndi minn . . . neitar mér ekki um neitt nema þig vegna þess að þú ert kona hans. Hvers vegna skyldi ég þá aðhafast svo illt og syndga á móti Guði?“ — 1. Mósebók 39:8, 9.
20. Hvernig bjó Jehóva um hnútana í máli Jósefs?
20 Við getum rétt ímyndað okkur hvað það hlýtur að hafa glatt Jehóva að sjá hvernig ungi maðurinn Jósef var honum trúr dag eftir dag, fjarri fjölskyldu sinni. (Orðskviðirnir 27:11) Síðar bjó Jehóva svo um hnútana að Jósef var ekki aðeins sleppt úr fangelsi heldur var hann gerður að forsætis- og matvælaráðherra Egyptalands! (1. Mósebók 41:39-49) Það er dagsatt sem segir í Sálmi 97:10: „Þér, sem elskið Drottin, hatið illt. Hann verndar dýrkendur sína, frelsar þá úr hendi óguðlegra.“
21. Hvernig sýndi ungur bróðir í Afríku staðfestu?
21 Margir þjónar Guðs nú á dögum sýna og sanna að þeir ‚hata hið illa og elska hið góða‘. (Amos 5:15) Ungur bróðir í landi einu í Afríku minnist þess að bekkjarsystir bauð honum blygðunarlaust að eiga við hann kynmök ef hann vildi hjálpa henni í stærðfræðiprófi. „Ég hafnaði boðinu þegar í stað“, segir hann. „Með því að vera ráðvandur hélt ég reisn minni og sjálfsvirðingu sem er miklu verðmætara en gull og silfur.“ Vissulega er hægt að „njóta skammvinns unaðar af syndinni“ en sá unaður er hverfull og hefur oft mikinn sársauka í för með sér. (Hebreabréfið 11:25) Og hann er hjómið eitt í samanburði við þá varanlegu hamingju sem fylgir því að hlýða Jehóva. — Orðskviðirnir 10:22.
ÞIGGÐU HJÁLP FRÁ MISKUNNSÖMUM GUÐI
22, 23. (a) Af hverju er ekki öll von úti þó að kristinn maður drýgi alvarlega synd? (b) Hvaða hjálp getur sá fengið sem syndgar?
22 Þar sem við erum ófullkomin kostar það baráttu að halda löngunum holdsins í skefjum og gera það sem er rétt í augum Guðs. (Rómverjabréfið 7:21-25) Jehóva veit það og „minnist þess að vér erum mold“. (Sálmur 103:14) En stundum getur það gerst að kristinn maður drýgir alvarlega synd. Er þá öll von úti? Alls ekki. Auðvitað getur hann þurft að súpa seyðið af því sem hann gerði, rétt eins og Davíð konungur. Guð er hins vegar alltaf „fús til að fyrirgefa“ þeim sem iðrast og játar syndir sínar opinskátt. — Sálmur 86:5; Jakobsbréfið 5:16; Orðskviðirnir 28:13.
23 Guð hefur enn fremur í gæsku sinni gefið söfnuðinum þroskaða umsjónarmenn sem eru bæði færir um að veita aðstoð og fúsir til þess. (Efesusbréfið 4:8, 12; Jakobsbréfið 5:14, 15) Markmiðið er að hjálpa hinum brotlega að endurheimta sambandið við Guð og ‚auka skynsemi sína‘, eins og spekingurinn orðar það, til að syndin endurtaki sig ekki. — Orðskviðirnir 15:32.
AÐ ‚AUKA SKYNSEMI SÍNA‘
24, 25. (a) Hvernig sýndi ungi maðurinn, sem er lýst í Orðskviðunum 7:6-23, að hann var „vitstola“? (b) Hvernig getum við ‚aukið skynsemi okkar‘?
24 Í Biblíunni er talað um fólk sem er „vitstola“ og fólk sem „eykur skynsemi sína“. (Orðskviðirnir 7:7) Hjá þeim sem er óþroskaður í trúnni og reynslulítill í þjónustu Guðs getur vantað eitthvað upp á góða dómgreind. Honum gæti hætt til að fremja alvarlega synd líkt og unga manninum sem sagt er frá í Orðskviðunum 7:6-23. „Sá sem öðlast skilning“ fylgist hins vegar vel með ástandi hins innra manns með því að vera bænrækinn og stunda reglulegt biblíunám. Að því marki sem ófullkomleikinn leyfir samræmir hann hugsanir sínar, langanir, tilfinningar og markmið því sem Guð hefur velþóknun á. Hann „vinnur sér mest gagn“ og „hlýtur hamingju“. — Orðskviðirnir 19:8.
25 Spyrðu sjálfan þig hvort þú sért fullkomlega sannfærður um að meginreglur Jehóva séu réttar. Trúirðu staðfastlega að það sé þér til farsældar að fylgja þeim? (Sálmur 19:8-11; Jesaja 48:17, 18) Ef þú ert í minnsta vafa skaltu reyna að eyða honum. Hugleiddu hvaða afleiðingar það hefur að virða ekki lög Guðs. ‚Finndu og sjáðu að Jehóva er góður‘ með því að lifa í samræmi við sannleikann og með því að fylla hugann af heilnæmum hugsunum — af því sem er satt, rétt, hreint, elskuvert og göfugt. (Sálmur 34:9; Filippíbréfið 4:8, 9) Þú mátt treysta að því meira sem þú leggur þig fram þeim mun heitar muntu elska Jehóva, elska það sem hann elskar og hata það sem hann hatar. Jósef var ekkert ofurmenni. Samt gat hann ‚forðast saurlifnaðinn‘ af því að hann leyfði Jehóva að móta sig árum saman og þráði að þóknast honum. Vonandi gerir þú það líka. — Jesaja 64:7.
26. Um hvaða mikilvæga mál er fjallað næst?
26 Skaparinn gaf okkur ekki getnaðarfærin til að nota sem leikföng heldur til að gera okkur kleift að eignast börn og eiga ánægjustundir með maka okkar. (Orðskviðirnir 5:18) Í næstu tveim köflum er fjallað um það hvernig Guð lítur á hjónabandið.
a Í 4. Mósebók eru greinilega taldir þeir sem Jehóva tók sjálfur af lífi og ‚leiðtogar þjóðarinnar‘ sem dómarar tóku af lífi en þeir kunna að hafa verið 1000 talsins. — 4. Mósebók 25:4, 5.
b Fjallað er um merkingu hugtakanna óhreinleiki og ólifnaður í „Spurningum frá lesendum“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. júlí 2006, gefið út af Vottum Jehóva.
c „Klám“ er notað hér um myndir og talað eða prentað mál sem beinir athyglinni að ástalífi og er ætlað að örva kynhvötina. Það getur verið allt frá myndum af fólki í kynæsandi stellingum upp í grófustu myndir af kynferðislegum athöfnum tveggja eða fleiri einstaklinga.
d Rætt er um sjálfsfróun í viðaukanum á „Að sigrast á sjálfsfróun“.