Hinum spurningunum svarað
Svarið við spurningunni hvernig við urðum til ræður svörunum við hinum spurningunum: Hvers vegna erum við hér? Hvert förum við? Hefur lífið tilgang?
SAMKVÆMT eðli sínu hlýtur þróun að vera blind, stefnulaus, án markmiðs. Ef við urðum til af völdum þróunar er enginn tilgangur með veru okkar hér, við erum ekki að fara eitt né neitt og líf okkar hefur ekkert markmið.
Til allrar hamingju fyrir okkur á þróunarkenningin ekki við rök að styðjast. Lífið kviknaði ekki af tilviljun og við erum ekki afsprengi blindrar þróunar. Vitnisburður vísindanna er ótvíræður: Lifandi fruma, þar sem í gangi eru samtímis þúsundir markvissra efnaferla, hefur ekki getað myndast við röð tilviljanakenndra breytinga. Þetta er augljóst hverjum manni sem lætur skynsemina en ekki óskadraum þróunarfræðinnar ráða ferðinni. Francis Crick komst svo að orði: „Heiðarlegur maður, búinn allri þeirri þekkingu sem við ráðum nú yfir, getur aðeins sagt að þessa stundina virðist tilurð lífsins í vissum skilningi vera kraftaverk.“ Og prófessor H. S. Lipson, félagi í hinu konunglega vísindafélagi, sagði treglega: „Við verðum að ganga skrefi lengra og játa að eina viðhlítandi skýringin sé sköpun.“
Þróunarsinnar tjá sig þó sjaldan svona hreinskilnislega. Oftast einkennist mál þeirra af skoðanahroka og þeir segja eitthvað í þessa áttina: ‚Þróunin er staðreynd. Ekki þarf lengur að færa sannanir fyrir henni. Enginn dugandi vísindamaður dregur hana í efa. Allir menntamenn trúa henni. Einungis fáfróðir hafna henni.‘ Stephen Jay Gould sagði í sjónvarpsviðtali í Bandaríkjunum að vísindin ‚endurspegluðu oft fordóma, aðallega ómeðvitaða, þeirra sem ynnu verkin.‘ Tveim mínútum síðar lét hann í ljós sína eigin fordóma þegar hann sagði að Darwin hefði gert meira en nokkur annar maður til að „sýna fram á að þróunin sé staðreynd.“
Darwin áleit að ‚skaparinn hefði upprunalega blásið lífi í fáeinar tegundir eða eina.‘ Sú skoðun hans að lífverurnar hafi þróast hver af annarri með hægfara, arfgengum breytingum er að ganga sér til húðar. Steingervingaskráin, sem hann treysti að myndi sanna kenningu sína, hefur brugðist honum. Stephen Jay Gould aðhyllist ekki lengur kenningar Darwins því að þær byggjast ekki á staðreyndum. Til að bjarga þróunarkenningunni hefur Gould horfið frá hugmyndinni um hægfara breytingar og heldur því nú fram að lífverurnar breytist frá einni til annarrar í stórum stökkum. En sú kenning á sér enga fótfestu. Hún er gerræðislegt bragð til að breiða yfir götin í steingervingasögunni þar sem millitegundirnar vantar. Vísindunum hefur ekki aðeins mistekist að færa sönnur á þróunarkenninguna — satt best að segja afsanna þau hana.
Það er síðasta hálmstrá þróunarsinna að fylla ritsmíðar sínar áróðri sem ætlað er að hræða menn til hlýðni og trúar. Með þvílíkum aðferðum smala þeir saman milljónum heilaþveginna trúskiptinga eins og vakningarprédikarar safna fólki á tjaldsamkomur! Með því að þá brestur sannanir fyrir kenningu sinni grípa þeir til valdníðslu eins og hinir rökþrota farísear beittu gegn Jesú:
„Musterislögreglan, sem send hafði verið til að handtaka hann, sneri því tómhent aftur til æðstu prestanna og Faríseanna. ‚Hvers vegna komuð þið ekki með hann?‘ spurðu þeir byrstir. ‚Það er svo margt stórkostlegt sem hann segir!‘ svöruðu þeir. ‚Við höfum aldrei áður heyrt neitt þessu líkt.‘ ‚Nú já, er þá líka búið að villa um fyrir ykkur?‘ spurðu Farísearnir hæðnislega. ‚Hver af okkur leiðtogunum eða Faríseunum trúir að hann sé Kristur?‘“ Þegar einn úr þeirra hópi andmælti gerðu þeir gys að honum: „Ert þú kannski einn af þessum auvirðilegu Galíleumönnum?“ (Jóhannes 7:45-52, Lifandi orð) Á sama hátt dæma þróunarsinnar vanhæfan hvern þann vísindamann sem hafnar þróunarkenningunni og ausa nöprum háðsglósum yfir þá ef þeir voga sér að aðhyllast sköpun!
Bein sköpun á sér langtum meiri vísindalega stoð en þróunarkenningin. Hún skýrir þá stefnuföstu hönnun sem við sjáum á himni og jörð, meðal jurta og dýra, í okkar eigin líkama og okkar undraverða heila. Hið feiknamikla upplýsingamagn geymt í kjarnsýrunni er vitnisburður um handaverk stórkostlegrar vitsmunaveru. Albert Einstein kærði sig aldrei um Guð kristna heimsins, en var djúpt snortinn af „samhljóm náttúrulögmálanna sem endurspegla svo ofurmannlega vitsmuni að í samanburði við þá er öll kerfisbundin hugsun og athafnir manna ósköp ómerkilegt endurkast.“
Trú á sköpun opnar okkur líka leið til að finna svör við hinum stóru spurningum lífsins.
Hvers vegna erum við hér?
Jehóva svaraði þeirri spurningu þegar hann skapaði fyrstu mannlegu hjónin. „Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd,“ sagði Guð við Logos (sem síðar kom til jarðar sem Jesús), „líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum, sem skríða á jörðinni.“ Guð gerði líka garð í Eden og „setti þar manninn, sem hann hafði myndað.“ Enn fremur gaf hann þessum fyrstu hjónum í Eden boð um að ‚vera frjósöm, margfaldast og uppfylla jörðina.‘ — 1. Mósebók 1:26, 28; 2:8, 15.
Sem afkomendur Adams og Evu erum við hér á jörðinni til að uppfylla hana, annast og rækta, og fara með kærleiksríkt yfirvald yfir jurta- og dýraríki hennar. Við erum af Guði gerð til að geta gert það, sköpuð í hans líkingu — ekki í útliti heldur í þeim skilningi að við erum gædd vissum eiginleikum sem hann hefur, svo sem kærleika, visku, mætti, réttlætiskennd og löngun til að finna að verk okkar hafi tilgang og að við áorkum einhverju gagnlegu. Í þessum skilningi erum við sköpuð í mynd Guðs og sett skör ofar en dýrin. Þess vegna ígrundum við hinar stóru spurningar lífsins sem aðrar sköpunarverur jarðarinnar leiða aldrei hugann að.
Guðsafneitarar halda því aftur á móti fram að við séum ekki sköpuð í líkingu Guðs heldur höfum skapað Guð í okkar mynd. En þar skjátlast þeim. Þeir guðir, sem menn hafa skapað sér, líkjast sól, tungli, stjörnum, trjám, þrumum, eldingum, fjöllum, dýrum, þjóðhöfðingjum, peningum, kynlífi, maganum og hverju því öðru sem manninnum hugkvæmist að dýrka og tilbiðja. (Rómverjabréfið 1:25; Filippíbréfið 3:19) Maðurinn endurspeglar ekki eiginleika Guðs í fullkomnu jafnvægi. Í okkar ófullkomna ástandi erum við því hvött til að snúa okkur aftur til hans myndar. (Kólossubréfið 3:9, 10) Þróunarkenningin kann ekki skýringu á því mikla hyldýpi sem aðgreinir menn frá dýrum og hún skýrir ekki heldur hvers vegna við höfum innra með okkur sterka löngun til að fá svör við hinum stóru spurningum lífsins. Það að við erum sköpuð í mynd Guðs og líkingu skýrir það.
Hvert förum við?
Ekkert dýr slær fram slíkri spurningu. Dýrin bera ekkert meðvitað skynbragð á tíma, fortíð eða framtíð. Það gerir maðurinn aftur á móti. Einnig í þessu efni er mikið djúp sem aðskilur manninn og dýrin, eins og fram kemur í Prédikaranum 3:11: „Jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra [mannanna].“ Maðurinn ber því skynbragð á liðnar árþúsundir og veit um þann óendanleik sem framundan er. Og þessi vitneskja er honum tilefni heilabrota. Hvað verðum um okkur þegar við deyjum? Höfum við ódauðlega sál sem lifir áfram? Svífum við upp í himneska alsælu, steypumst niður í kvalir vítis eða hverfum bara í gleymsku grafarinnar? Endurfæðumst við kannski í öðrum líkama?
Tilhugsunin um að deyja og hverfa fyrir fullt og allt er okkur ekki geðfelld. Sú hugsun er okkur ofraun að tíminn muni halda áfram endalaust án okkar, jörðin og mannfólkið án okkar meðan við liggjum gleymd og grafin um eilífð. Til að forðast þessa ómeðtækilegu hugsun heldur maðurinn dauðahaldi í hugmyndina um ódauðlega sál — kenningu sem er hvergi kennd í Biblíunni. — Esekíel 18:4.
Biblían segir að þegar maðurinn deyr hverfi hann í duftið. ‚Á þeim degi verða áform hans að engu.‘ „Hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Sálmur 146:4; Prédikarinn 9:5) Í framtíðinni eiga milljarðar manna að hljóta upprisu: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram.“ Þeir sem þá elska Guð og náunga sinn munu heyra orð konungsins Jesú Krists: „Takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.“ — Jóhannes 5:28, 29; Matteus 25:34.
Allt frá öndverðu var sá tilgangur Jehóva að hin mannlega fjölskylda byggi að eilífu í paradís á jörð. Nú er sá tími nálægur að hlýðið mannkyn fái það ríki að erfð. Því er lýst í Opinberunarbókinni 21:3, 4: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“
Þetta eru þau örlög sem bíða hlýðins mannkyns. En óforbetranlegir guðleysingjar munu sofna eilífum dauðasvefni. „Innan stundar eru engir guðlausir til framar,“ segir sálmaritarinn, „þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir. En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ — Sálmur 37:10, 11; Rómverjabréfið 6:23.
Hefur líf okkar tilgang?
Í alheiminum eru milljónir vetrarbrauta og í hverri vetrarbraut milljarðar stjarna. Í ómælivíddum geimsins er sólkerfi okkar aðeins örlítill depill og jörðin nánast hverfur. Þeir fimm milljarðar manna, sem byggja jörðina, eru eins og ekki neitt. En það er fleira en smæð okkar í geimnum sem lætur okkur finnast sem við séum einskis virði. Hið örskamma brot af eilífðinni, sem við erum til, lætur okkur finnast sem líf okkar skorti tilgang. Þrátt fyrir það heimtar vitund okkar tilgang. Okkur er þessi tilfinning ásköpuð.
Þótt okkur finnist við minna en ekkert í ómælivíddum geimsins og ævi okkar sem eitt andartak í eilífðinni er staða okkar á jörðinni einstök og líf okkar tengt merkingarþrungnustu deilu í öllum alheiminum. Ekki aðeins setti Jehóva Guð, skapari alheimsins, okkur hér heldur fékk hann okkur líka verk að vinna: Að fylla jörðina, annast hana og fara með kærleiksríkt yfirvald yfir jurta- og dýraríkinu. Og það sem meira er — við getum átt þátt í að boða ríki Jehóva í höndum Krists sem mun hreinsa alla illsku af jörðinni, upphefja nafn Guðs og orð og binda enda á stjórn illra anda yfir jörðinni.
Ef við lifum lífinu í samræmi við þetta hefur það tilgang. Og það getur varað endalaust. Guð fer með þjóna sína eins og sjáaldur auga síns. (5. Mósebók 32:10) Og þeir njóta friðar í huga og hjarta því að þeir hafa fundið svör við hinum stóru spurningum lífsins.