Gefurðu gaum að spurningum Jehóva?
Í BIBLÍUNNI er að finna hundruð spurninga sem geta hreyft við hjarta okkar. Í raun notar Jehóva Guð sjálfur spurningar til þess að kenna okkur mikilvæg biblíusannindi. Jehóva notaði til dæmis nokkrar spurningar þegar hann varaði Kain við rangri breytni hans. (1. Mós. 4:6, 7) Stundum var ein spurning frá Jehóva nóg til þess að einstaklingur tæki við sér. Þegar Jehóva spurði á sínum tíma: „Hvern skal ég senda? Hver vill reka erindi vort?“ svaraði spámaðurinn Jesaja: „Hér er ég. Send þú mig.“ — Jes. 6:8.
Jesús, kennarinn mikli, beitti líka spurningum á áhrifaríkan hátt. Í guðspjöllunum eru skrásettar fleiri en 280 spurningar sem hann notaði. Jafnvel þótt hann hafi við ákveðin tækifæri notað spurningar til þess að þagga niður í gagnrýnendum sínum var markmið hans yfirleitt að ná til hjartna hlustenda sinna og fá þá til að hugleiða samband sitt við Guð. (Matt. 22:41-46; Jóh. 14:9, 10) Páll postuli, sem skrifaði 14 af bókum Grísku ritninganna, beitti spurningum á sannfærandi hátt. (Rómv. 10:13-15) Rómverjabréfið hefur til dæmis að geyma fjölmargar spurningar. Spurningar Páls voru áheyrendum hans hvatning til að reyna að skilja „djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs“. — Rómv. 11:33.
Þótt sumar spurninganna hafi kallað á munnleg svör voru aðrar ætlaðar til að vekja dýpri viðbrögð hjá fólki. Í guðspjöllunum má sjá að Jesús notaði yfirleitt þess konar spurningar. Við eitt tækifæri áminnti hann lærisveinana og sagði: „Gætið ykkar, varist súrdeig farísea og súrdeig Heródesar,“ og átti þar við hræsni þeirra og falskenningar. (Mark. 8:15; Matt. 16:12) Lærisveinarnir skildu ekki hvað hann átti við og fóru að ræða um að þeir hefðu gleymt að taka með brauð. Taktu eftir hvernig Jesús notaði spurningar í samræðunum sem fylgdu í kjölfarið. Hann segir við þá: „Hvað eruð þið að tala um að þið hafið ekki brauð? Skynjið þið ekki enn né skiljið? Eru hjörtu ykkar sljó? Þið hafið augu, sjáið þið ekki? Þið hafið eyru, heyrið þið ekki?. . . Skiljið þið ekki enn?“ Spurningar Jesú voru ætlaðar til að vekja lærisveina hans til umhugsunar, fá þá til að hugleiða hvað hann var í raun og veru að segja. — Mark. 8:16-21.
„Nú ætla ég að spyrja þig“
Jehóva Guð notaði spurningar til þess að fá þjón sinn Job til að endurskoða hugarfar sitt. Með því að spyrja hann fjölmargra spurninga leiddi hann Job fyrir sjónir hversu lítilvægur hann væri miðað við skaparann sjálfan. (Job., kaflar 38-41) Ætlaðist Jehóva til þess að Job svaraði öllum þessum spurningum? Það er ólíklegt. Spurning eins og: „Hvar varstu þegar ég grundvallaði jörðina?“ átti greinilega að hreyfa við tilfinningum Jobs og vekja hann til umhugsunar. Eftir nokkrar af þessum áleitnu spurningum var Job nánast orðlaus. Hann sagði einfaldlega: „Hverju get ég svarað þér? Ég legg hönd mér á munn.“ (Job. 38:4; 40:4) Job skildi hvað Jehóva var að segja honum og sýndi auðmýkt. En Jehóva var ekki eingöngu að kenna Job auðmýkt. Hann leiðrétti líka hugsunarhátt Jobs. Hvernig þá?
Jafnvel þótt Job væri ,maður ráðvandur og réttlátur‘ sýndu orð hans stundum að hann hafði ekki rétt viðhorf. Elíhú tók eftir þessu og ávítaði Job fyrir að vera „réttlátur í eigin augum“. (Job. 1:8; 32:1, 2; 33:8-12) Spurningar Jehóva leiðréttu því hugsunarhátt Jobs. Þegar hann talaði til Jobs úr stormviðrinu sagði hann: „Hver er sá sem hylur ráðsályktunina myrkri með innihaldslausum orðavaðli? Gyrtu lendar þínar eins og manni sæmir, nú ætla ég að spyrja þig en þú skalt svara.“ (Job. 38:1-3) Með spurningum sínum beindi Jehóva athyglinni að ótakmarkaðri visku sinni og mætti sem endurspeglast í dásemdarverkum hans. Þessi reynsla hjálpaði Job að treysta enn betur á úrskurði Jehóva og fyrirætlanir hans. Hvílík upplifun fyrir Job — að vera spurður út úr af almáttugum Guði.
Tökum spurningar Jehóva til okkar
Hvað um okkur? Getum við notið gagns af þeim spurningum sem er að finna í Biblíunni? Já, svo sannarlega! Ef við hugleiðum þær vel geta þær styrkt trú okkar. Áleitnar spurningar Biblíunnar eiga sinn þátt í því hversu mikil áhrif hún hefur á fólk. Reyndar segir í Biblíunni: „Orð Guðs er . . . kröftugt . . . það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ (Hebr. 4:12) Ef við viljum hafa sem mest gagn af þessum spurningum verðum við hins vegar að taka þær til okkar, rétt eins og Jehóva væri að spyrja okkur persónulega. (Rómv. 15:4) Skoðum nokkur dæmi.
„Mun dómari allrar jarðarinnar ekki gera rétt?“ (1. Mós. 18:25) Abraham varpaði þessari spurningu fram þegar Jehóva felldi dóm yfir Sódómu og Gómorru. Fyrir Abraham var óhugsandi að Jehóva myndi dæma á óréttlátan hátt — dæma réttláta menn til dauða með hinum vondu. Spurning Abrahams endurspeglaði sterka trú hans á réttlæti Jehóva.
Nú á dögum gætu sumir farið að velta fyrir sér dómum Jehóva sem heyra framtíðinni til, eins og til dæmis hverjir muni lifa af Harmagedón eða hverjir muni hljóta upprisu. Í stað þess að láta slíkar hugsanir trufla okkur getum við hugleitt spurningu Abrahams. Og þar sem við vitum að Jehóva er gæskuríkur himneskur faðir okkar og treystum fullkomlega á réttlæti hans og miskunn, eins og Abraham gerði, eyðum við ekki tíma okkar eða kröftum í óþarfar áhyggjur, nagandi efasemdir eða tilgangslausar samræður um slíkt.
„Hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?“ (Matt. 6:27) Þegar Jesús ávarpaði stóran hóp fólks, þar á meðal lærisveina sína, notaði hann þessa spurningu til að undirstrika hversu mikilvægt það er að treysta á hjálp Jehóva. Síðustu dagar þessa illa heimskerfis geta verið tilefni mikilla áhyggna, en þó að við sökkvum okkur djúpt í þær lengir það hvorki líf okkar né bætir lífsgæðin.
Ef við hugleiðum spurningu Jesú í hvert sinn sem við höfum áhyggjur af velferð okkar sjálfra eða ástvina okkar getur það auðveldað okkur að hafa rétt viðhorf. Það hjálpar okkur að losna við áhyggjur og neikvæðar hugsanir sem annars draga úr okkur kraft, bæði andlega, tilfinningalega og líkamlega. Himneskur faðir okkar, sem fæðir fugla himinsins og hyggur að gróðri jarðar, veit fullkomlega hvers við þörfnumst eins og Jesús fullvissaði okkur um. — Matt. 6:26-34.
„Getur nokkur borið glóð í klæðafaldi án þess að föt hans sviðni?“ (Orðskv. 6:27) Í fyrstu níu köflum Orðskviðanna má lesa orð föður sem gefur syni sínum góð ráð. Spurningin hér að ofan fjallar um sársaukafullar afleiðingar framhjáhalds. (Orðskv. 6:29) Ef við stöndum okkur að því að daðra eða ala á röngum kynlífslöngunum ætti þessi spurning að hrista við okkur. Í raun á hún við í hvert sinn sem einstaklingi finnst freistandi að taka óviturlega stefnu í lífinu. Spurningin undirstrikar þessa meginreglu í Biblíunni: ,Þú uppskerð eins og þú sáir‘! — Gal. 6:7.
„Hvað átt þú með að dæma þjón annars manns?“ (Rómv. 14:4) Í Rómverjabréfinu tók Páll fyrir vandamál sem komu upp í frumkristna söfnuðinum. Söfnuðurinn samanstóð af fólki með mismunandi menningarlegan bakgrunn og sumir höfðu tilhneigingu til að fella dóm yfir ákvörðunum og hegðun annarra. Spurning Páls minnti þá á að taka trúsystkinum sínum opnum örmum og láta Jehóva um að dæma.
Það er eins nú á tímum, þjónar Jehóva koma frá öllum þjóðfélagsstigum. En Jehóva hefur leitt okkur saman og veitt okkur dýrmæta einingu. Vinnum við að því að styrkja þessa einingu? Ef okkur hættir til að vera fljót að dæma ákvarðanir, sem aðrir taka með góðri samvisku, væri viturlegt af okkur að hugleiða spurningu Páls.
Spurningar sem styrkja samband okkar við Jehóva
Þessi fáu dæmi sýna að spurningarnar, sem er að finna í orði Guðs, geta verið okkur hvatning til að rannsaka okkur sjálf. Þegar við hugleiðum í hvaða samhengi spurningin stendur getur það hjálpað okkur að nýta leiðbeiningar Guðs við okkar eigin aðstæður. Og þegar við lesum í Biblíunni munum við taka eftir fleiri gagnlegum spurningum. — Sjá rammann á blaðsíðu 14.
Ef við látum áleitnar spurningar í orði Guðs snerta okkur djúpt hjálpar það okkur að fara eftir réttlátum leiðbeiningum Guðs af öllum huga og öllu hjarta. Eftir að Jehóva hafði spurt Job margra spurninga lýsti Job yfir: „Ég þekkti þig af afspurn en nú hefur auga mitt litið þig.“ (Job. 42:5) Já, Jehóva var Job raunverulegri en áður, rétt eins og hann hefði séð hann með eigin augum. Síðar útskýrði lærisveinninn Jakob þetta nánar og sagði: „Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ (Jak. 4:8) Nýtum okkur allt sem stendur í orði Guðs, þar á meðal spurningarnar, til þess að taka andlegum framförum þannig að við getum „séð“ Jehóva enn skýrar.
[Rammi á bls. 14]
Hvernig geturðu tileinkað þér sama viðhorf og Jehóva með því að spyrja þig eftirfarandi spurninga?
▪ „Hefur Drottinn þá sömu velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum og hlýðni við boð sín?“ — 1. Sam. 15:22.
▪ „Mun sá . . . eigi sjá sem augað hefur til búið?“ — Sálm. 94:9.
▪ „Hve lengi ætlar þú að hvílast, letingi? Hvenær ætlar þú að rísa af svefni?“ — Orðskv. 6:9.
▪ „Gerir þú rétt er þú reiðist?“ — Jónas 4:4.
▪ „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni?“ — Matt. 16:26.
▪ „Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists?“ — Rómv. 8:35.
▪ „Hvað hefur þú sem þú hefur ekki þegið?“ — 1. Kor. 4:7.
▪ „Hvað er sameiginlegt . . . með ljósi og myrkri?“ — 2. Kor. 6:14.
[Mynd á bls. 15]
Hvað lærði Job af spurningum Jehóva?