Jehú berst í þágu sannrar tilbeiðslu
JEHÚ barðist fyrir sannri tilbeiðslu. Hann var kappsfullur, röskur, hugrakkur og vægðarlaus í baráttu sinni. Jehú hafði til að bera mannkosti sem við ættum að taka okkur til fyrirmyndar.
Ísraelsmenn voru illa á vegi staddir þegar Jehú fékk verkefni frá Jehóva. Þjóðin var undir illum áhrifum Jesebelar, ekkju Akabs og móður Jórams konungs. Hún ýtti óspart undir Baalsdýrkun, beitti sér gegn því að Jehóva væri tilbeðinn, drap spámenn hans og spillti fólkinu með því að ,hórast og leggja stund á alls konar galdra‘. (2. Kon. 9:22; 1. Kon. 18:4, 13) Jehóva fyrirskipaði að ætt Akabs skyldi útrýmt, þar á meðal Jóram og Jesebel. Jehú átti að fara með forystu í þessari herferð.
Jehú er kynntur til sögunnar í Biblíunni þar sem hann situr meðal foringjanna í her Ísraels. Þjóðin átti í stríði við Sýrlendinga (Aramea) við Ramót í Gíleað. Jehú var háttsettur foringi í Ísraelsher, jafnvel yfirmaður hersins. Elísa spámaður sendi einn af spámannasveinunum til að smyrja Jehú sem konung og fyrirskipa honum að útrýma öllum körlum af ætt trúníðingsins Akabs. – 2. Kon. 8:28; 9:1-10.
Þegar herforingjarnir spyrja Jehú um tilgang heimsóknarinnar er hann tregur til að svara. En þegar þeir þrýsta á hann segir hann þeim sannleikann og því næst leggja hann og félagar hans á ráðin gegn Jóram. (2. Kon. 9:11-14) Líklega hefur undirliggjandi óánægja og andstaða verið meðal herforingjanna gegn stefnu konungsættarinnar og áhrifum Jesebelar. En hvað sem því líður úthugsar Jehú hvernig best sé að gera þessu verkefni skil.
Jóram konungur hafði særst í bardaga og snúið heim til Jesreel í von um geta gróið sára sinna. Jehú vissi að ef ráðagerð hans ætti að takast mætti ekkert fréttast til Jesreel. Hann mælti því svo fyrir: „Sjáið þá til þess að enginn sleppi út úr borginni til að segja frá þessu í Jesreel.“ (2. Kon. 9:14, 15) Hann bjóst kannski við einhverri mótspyrnu frá hermönnum sem voru hliðhollir Jóram. Jehú vildi koma í veg fyrir alla slíka mótspyrnu.
ÆÐISGENGINN AKSTUR
Jehú vildi koma Jóram í opna skjöldu svo að hann ók í vagni sínum með hraði frá Ramót í Gíleað til Jesreel sem er rúmlega 70 kílómetra leið. Þegar hann nálgaðist Jesreel sá varðmaður „flokk Jehú koma“. (2. Kon. 9:17) Að öllum líkindum hefur Jehú tekið með sér töluvert lið til að tryggja að sér tækist ætlunarverk sitt.
Varðmaðurinn áttaði sig á að hinn hugrakki Jehú væri í einum af vögnunum og hrópaði: „Hann ekur eins og vitlaus maður.“ (2. Kon. 9:20) Hafi Jehú venjulega ekið þannig var ökulag hans í þessari ferð sérstaklega ofsafengið.
Jóram sendi tvo riddara til móts við Jehú en Jehú svaraði þeim engu. Þá fóru Jóram og bandamaður hans, Ahasía Júdakonungur, til móts við Jehú, hvor í sínum vagni. „Kemur þú með friði, Jehú?“ spyr Jóram. „Hvernig get ég komið með friði á meðan Jesebel, móðir þín, hórast með hjáguðum og leggur stund á alls konar galdra?“ svarar Jehú að bragði. Jóram bregður við þetta svar og leggur á flótta. Jehú brást skjótt við, spennti bogann og skaut ör í gegnum hjarta Jórams. Konungur hné örendur niður í vagni sínum. Ahasía komst undan en Jehú hafði uppi á honum og lét taka hann af lífi. – 2. Kon. 9:22-24, 27.
Nú er röðin komin að hinni illu Jesebel drottningu. Jehú kallar hana réttilega ,bölvaða kvensnift‘. Þegar hann ekur inn í Jesreel sér hann Jesebel horfa niður til sín úr glugga hallarinnar. Hann gengur beint til verks og skipar hirðmönnunum að fleygja henni niður. Síðan lætur hann hestana traðka á líki konunnar sem hafði spillt öllum Ísrael. Jehú lætur síðan taka af lífi tugi manna af ætt hins illa Akabs. – 2. Kon. 9:30-34; 10:1-14.
Þó að okkur finnist það ógeðfelld tilhugsun að beita ofbeldi ættum við að hafa í huga að í þá daga notaði Jehóva þjóna sína til að fullnægja dómum sínum. Í Biblíunni segir: „Guð hafði tekið þá ákvörðun að Ahasía færi til Jórams. Þegar hann var kominn þangað fór hann með Jóram á móti Jehú Nimsísyni sem Drottinn hafði látið smyrja til þess að tortíma ætt Akabs.“ (2. Kron. 22:7) Þegar Jehú fleygði líki Jórams af vagni hans gerði hann sér grein fyrir því að með þessu hefði ræst loforð Jehóva um að refsa Akab fyrir morðið á Nabót. Jehú hafði fengið þá fyrirskipun að ,koma fram hefndum fyrir blóð þjóna Guðs sem Jesebel hafði úthellt‘. – 2. Kon. 9:7, 25, 26; 1. Kon. 21:17-19.
Nú á dögum þurfa þjónar Jehóva ekki að beita valdi gegn andstæðingum sannrar tilbeiðslu því að Guð hefur sagt: „Mín er hefndin.“ (Hebr. 10:30) En til að vernda söfnuðinn gegn hugsanlegri spillingu þurfa safnaðaröldungar stundum að sýna sama hugrekki og Jehú. (1. Kor. 5:9-13) Og allir í söfnuðinum þurfa að vera ákveðnir í að forðast félagsskap við þá sem vikið er úr söfnuðinum. – 2. Jóh. 9-11.
BRENNANDI ÁKAFI JEHÚS VEGNA MÁLEFNA JEHÓVA
Orð Jehús við hinn trúfasta Jónadab bera með sér af hvaða hvötum hann gerði verkefni sínu skil: „Komdu með mér og sjáðu hvernig ég legg mig fram af brennandi ákafa vegna málefnis Drottins.“ Jónadab þáði boðið, steig upp í vagn Jehús og ók með honum til Samaríu. Þegar þangað var komið „beitti [Jehú] brögðum af því að hann ætlaði að tortíma öllum þeim sem dýrkuðu Baal“. – 2. Kon. 10:15-17, 19.
Jehú tilkynnti að hann ætlaði að „halda Baal mikla fórnarveislu“. (2. Kon. 10:18, 19) „Þetta er sniðugur orðaleikur hjá Jehú,“ segir fræðimaður. Orðið, sem hér er notað, „þýðir að öllu jöfnu ,fórn‘ en það getur líka þýtt ,slátrun‘ fráhvarfsmanna“. Jehú vildi ekki að nokkur Baalsdýrkandi missti af þessum atburði svo að hann boðaði þá alla í hús Baals og lét þá klæðast sérstökum auðkennandi fötum. „Þegar Jehú hafði lokið við að færa brennifórnina“ kallaði hann til 80 vopnaða menn og hjó niður áhangendur Baals. Síðan lét hann rífa hús Baals og gera þar náðhús svo að það yrði ekki framar notað sem tilbeiðsluhús. – 2. Kon. 10:20-27.
Jehú úthellti vissulega miklu blóði. En Biblían lýsir honum sem hugrökkum manni sem frelsaði Ísrael undan kúgun og ofríki Jesebelar og fjölskyldu hennar. Til að takast það þurfti leiðtogi Ísraels að vera hugrakkur, einbeittur og kostgæfinn mjög. „Þetta var erfitt verkefni og það var framkvæmt undanbragðalaust,“ að því er segir í biblíuorðabók. „Mildari aðferðir hefðu sennilega ekki dugað til að uppræta Baalsdýrkunina úr Ísrael.“
Þú gerir þér eflaust grein fyrir að aðstæður kristinna manna nú á tímum kalla á suma af þeim eiginleikum sem Jehú hafði til að bera. Hvernig eigum við til dæmis að bregðast við ef reynt er að freista okkar til að gera eitthvað sem Jehóva fordæmir? Þá ættum við að hafna því einarðlega og tafarlaust. Þegar tilbeiðslan á Jehóva er annars vegar gerum við engar málamiðlanir.
GÆTTU ÞESS AÐ FYLGJA LÖGMÁLI JEHÓVA
Sögulokin fela þó í sér sterka viðvörun því að Jehú,sneri ekki baki við því að dýrka gullkálfana í Betel og Dan‘. (2. Kon. 10:29) Hvernig gat maður, sem sýndi svona brennandi ákafa vegna málefna Jehóva, umborið skurðgoðadýrkun?
Ef til vill trúði Jehú að Ísraelsríkið gæti ekki haldið sjálfstæði sínu gagnvart Júda nema ríkin tvö væru trúarlega aðgreind. Þess vegna reyndi hann, líkt og fyrri konungar Ísraels, að halda þeim aðgreindum með því að viðhalda kálfadýrkuninni. En þar sýndi hann að trú hans á Jehóva, sem hafði gert hann að konungi, var ekki nógu sterk.
Jehóva hrósaði Jehú fyrir að ,gera það sem rétt er í augum hans‘. En Jehú gætti þess ekki „að fylgja lögmáli Drottins, Guðs Ísraels, af heilum huga“. (2. Kon. 10:30, 31) Það er bæði dapurlegt og furðulegt í ljósi alls þess sem Jehú var búinn að gera. En við getum dregið ákveðinn lærdóm af því og hann er sá að við getum aldrei gengið að því sem gefnum hlut að eiga gott samband við Jehóva. Við þurfum að vinna að því dag hvern að vera trú föður okkar á himnum með því að lesa og hugleiða orð hans og biðja innilega til hans. Við skulum því gæta þess vandlega að halda áfram að fylgja lögmáli Jehóva af heilum hug. – 1. Kor. 10:12.
[Rammi á bls. 4]
Veraldlegar heimildir um Jehú
Gagnrýnismenn hafa oft dregið í efa að þær persónur, sem sagt er frá í Biblíunni, hafi verið til. Eru til einhverjar heimildir um tilvist Jehús aðrar en Biblían?
Jehú er nafngreindur í að minnsta kosti þrem assýrskum heimildum. Ein þeirra á að sýna þennan konung Ísraels eða einn af sendimönnum hans beygja sig fyrir Salmaneser þriðja Assýríukonungi og gjalda honum skatt. Í meðfylgjandi áletrun segir: „Skattur Jehús (Ia-ú-a), sonar Omrí (Hu-um-ri); ég fékk frá honum silfur, gull og saplu-skál úr gulli, gullvasa með mjóum botni, drykkjarker úr gulli, fötur úr gulli, tin, staf ætlaðan konungi (og) puruhtu [merking óþekkt] úr tré.“ Jehú var ekki bókstaflega sonur Omrí en þetta orðfæri var notað til að lýsa konungaröð Ísraels, trúlega vegna þess að Omrí var víðkunnur og hafði byggt höfuðborgina Samaríu.
Ógerlegt er að staðfesta að Jehú hafi greitt Assýríukonungi umræddan skatt. En hvað sem því líður nefnir hann Jehú þrívegis – í áletrun á súlu, á styttu Salmanesers og í konungaannálum Assýríu. Þessi þrjú dæmi taka af öll tvímæli um að Jehú Biblíunnar hafi verið til.