Höfuðþættir biblíubókanna Prédikarinn 1:1–12:14
„Óttastu Guðs og haltu hans boðorð“
Á okkar dögum telja flestir það óraunhæft að óttast og hlýða Guði. En biblíubókin, sem nefnd er Prédikarinn (á hebresku quoheleð, sá sem safnar saman) sem Salómon konungur (1:1) ritaði fyrir um það bil 3000 árum, lýsir því hversu fánýt sé viðleitni manna sem virðir tilgang Guðs að vettugi.
Þessi bók er sérlega hrífandi fyrir þá sök hve fjölbreytt efni ritarinn tekur til meðferðar — visku og stjórn manna, efnislegan auð og unað, trúariðkun sem birtist í ytri siðum og svo framvegis. Allt er þetta fánýtt því það er ekki varanlegt. Það að hugleiða það kemur skynugum manni til að draga aðeins eina ályktun: „Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ — Prédikarinn 12:13.
‚Allt er hégómi‘
Lestu 1. og 2. kafla. Í samanburði við endalausa hringrás náttúrunnar er öll mannleg viðleitni hverful og skammær (1:4-7). Jafnvel stærstu afrek Prédikarans verða að ganga í arf til einhvers annars sem ef til vill er ekki eins verðugur (2:18, 19). „Hégómi“ merkir á hebresku „gufa“ eða „andardráttur.“
◆ 1:9 — Í hvaða skilningi er ‚ekkert nýtt undir sólinni‘?
Í daglegri hringrás náttúrunnar, sem sólin skín á, er ekkert raunverulega nýtt. Jafnvel „nýjar“ uppfinningar byggja að mestu á meginreglum sem Jehóva hafði fyrir löngu notað í sköpunarverkinu. En „undir sólinni“ hefur Jehóva látið verða nýja andlega þróun sem varðar mannkynið. — Sjá Varðturninn, 1. september 1987, bls. 29-32.
◆ 2:2 — Er rangt að skemmta sér?
Nei, alls ekki. Hlátur, eða það að skemmta sér, getur leyft manninum að gleyma vandamálum sínum um stund, en þau leysast ekki við það. Það að reyna að finna sanna hamingju með skemmtun og gleðskap einum saman er því ‚vitlaust‘; það er engin skynsemi í því. ‚Gleðin‘ fær ekki leyst vandamál lífsins. Glaðværð og skemmtun er þannig stillt upp sem andstæðu þeirrar hamingju sem stafar af því að Jehóva blessar handaverk mannsins. — 2:24.
Lærdómur fyrir okkur: Við ættum að hlýða ráðleggingu Salómons og láta ekki eftirsókn eftir efnislegum gæðum eða spennandi, nýrri lífsreynslu verða meginmarkmið lífsins. Við ættum þess í stað að gera okkur far um að ‚geðjast Guði‘ með því að hlýða honum. Þá munum við njóta blessunar hans í mynd ‚visku, þekkingar og gleði.‘ — 2:26.
Allt hefur sinn tíma
Lestu 3. og 4. kafla. Salómon var ekki að prédika forlagatrú. (3:1-9) Hann var að benda á að maðurinn geti einfaldlega ekki breytt því sem Guð hefur komið af stað (3:14). Að þessu leyti eru mennirnir ekki betur settir en skepnurnar (3:19-21). Samstarfsvilji (4:9-12) er því langtum blessunarríkari en samkeppnishugur (4:4).
◆ 3:11 — Hvernig hefur Guð gert allt „hagfellt á sínum tíma“?
Orðið „hagfellt“ getur líka merkt „gott, viðeigandi, hæfandi.“ Í fyllingu tímans kemur í ljós hvernig sérhvert verk Guðs fellur að tilgangi hans. Guð hefur gert marga ‚hagfellda‘ hluti fyrir mannkynið. Til dæmis gaf hann mannkyninu fullkomna byrjun í Eden. Við syndafall mannsins sagði hann fyrir að koma myndi sæði til að endurkaupa það. Í fyllingu tímans sendi Guð þetta sæði. Og ‚hagfelldast‘ var það að Jehóva skyldi gera sæðið að konungi í ríki sínu.
◆ 4:6 — Var Salómon að hvetja til makræðis?
Nei, en Salómon veitti því eftirtekt að kapp og eljusemi vegna ágóðans eins leiðir oft til samkeppni og öfundar (4:4). Það getur síðan leitt til erfiðleika og jafnvel ótímabærs dauða. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Hvert er þá hið öfgalausa viðhorf? Láttu þér nægja minni ágóða og hugarró í stað þess að tvöfalda ávinninginn í gegnum erfiði og deilur.
Lærdómur fyrir okkur: Núna er rétti tíminn til að leita fyrst Guðsríkis í stað þess að leggja metnað í að þjóna eigin hag (3:1). Við ættum að vinna með kristnum bræðrum okkar í stað þess að vinna ein (4:9-12). Þannig getum við hlotið nauðsynlega hjálp og uppörvun, þrátt fyrir erfiðleika og andstöðu.
Sönn guðsdýrkun veitir hamingju
Lestu 5. og 6. kafla. Þar eð Jehóva er alvaldur verðum við að taka samband okkar við hann alvarlega, ekki hegða okkur heimskulega og búast svo við að hann þiggi „sláturfórn“ okkar (4:17; 5:1). Sá sem óttast Guð hefur ánægju af því að nota efni sín, en sá sem hrúar þeim upp hefur enga ánægju af þeim. — Berðu saman 5:17-19 og 6:2, 3.
◆ 5:1 — Hvernig eiga þessi ráð við?
Við ættum að úthella hjörtum okkar fyrir Guði, en við verðum að varast hvatvísleg, vanhugsuð orð sökum mikilleiks hans og hátignar. (Sálmur 62:9) Í stað þess að vaða úr einu í annað ættum við að nota einföld, innileg orð. (Matteus 6:7) Með aðeins fimm orðum á hebresku bað Móse Mirjam griða og fékk jákvætt svar. — 4. Mósebók 12:13.
◆ 6:9 — Hvað er „reik girndarinnar“?
Hér er átt við endalaust kapphlaup við að fullnægja löngunum sem ekki er hægt að fullnægja. Það er borið saman við „sjón augnanna,“ það er að segja að horfast í augu við veruleikann. Sú vitneskja að einungis ríki Guðs geti áorkað raunverulegri breytingu ætti að gera okkur sátt við hlutskipti okkar þannig að óraunhæfar langanir ræni okkur ekki hugarrónni.
Lærdómur fyrir okkur: Á tilbeiðslustað okkar ættum við að sýna viðeigandi reisn í hegðun og fylgjast vel með (4:17). Við ættum líka að vera skjót til að uppfylla heit okkar frammi fyrir Jehóva. Ef við erum í hjónabandi felur það í sér að standa við hjúskaparheitið. — 5:3.
Spekiorð
Lestu 7. og 8. kafla. Prédikarinn fjallar um hin umhugsunarverðu áhrif dauðans (7:1-4) og gildi viskunnar (7:11, 12, 16-19); auk þess varar hann við slæmri konu (7:26). Hann gefur ráð um hegðun gagnvart valdhöfum (8:2-4) og varar okkur við að láta okkur gremjast ranglætið. — 8:11-14.
◆ 7:28 — Er verið að niðurlægja konuna með þessum orðum?
Svo er að sjá sem siðferði hafi verið á mjög lágu stigi. Salómon var að tala um hvað sjaldgæft væri að finna réttláta karla eða konur á þeim tíma. Meðal þúsunda manna var erfitt að finna einn réttlátan mann og enn erfiðara að finna eina réttláta konu. Biblían fer hins vegar lofsamlegum orðum um ‚væna konu.‘ (Rutarbók 3:11; Orðskviðirnir 31:10) Þessi orð kunna líka að hafa spádómlegt gildi, því að aldrei hefur kona sýnt Jehóva fullkomna hlýðni en það hefur karlmaður gert — Jesús Kristur.
◆ 8:8 — Um hvað er Prédikarinn hér að tala?
Hann er að tala um dauðann. Enginn getur komið í veg fyrir að lífskrafturinn hverfi úr líkamsfrumum hans og frestað þar með dauðadeginum. Enginn getur fengið sig lausan úr stríðinu við okkar sameiginlega óvin, dauðann, eða sent annan í sinn stað. (Sálmur 49:8-10) Jafnvel óguðlegir menn geta ekki með klækjabrögðum sínum komist undan dauðanum.
Lærdómur fyrir okkur: Þótt efnislegur auður sé orðinn keppikefli margra í lífinu getur aðeins viska frá Guði leitt til eilífs lífs. (7:12; Lúkas 12:15) Það að þrá hina „gömlu góðu daga“ bætir ekki hlutskipti okkar (7:10). Þess í stað mun okkur „vel vegna“ aðeins ef við höldum áfram að óttast Guð. — 8:5, 12.
Tilviljanir lífsins
Lestu 9. og 10. kafla. Lífið er dýrmætt og Guð vill að við njótum þess (9:4, 7). Þar eð við ráðum engu um það hvernig fer fyrir okkur (9:11, 12) er betra að hlýða á viskuna frá Guði, jafnvel þótt fæstir kunni að meta hana (9:17). Sökum óvissunar í lífinu ættum við að varðveita hjörtu okkar (10:2), sýna aðgát í öllu sem við gerum og láta visku ráða gerðum okkar. — 10:8-10.
◆ 9:1 — Með hvaða hætti eru verk hins réttláta í hendi Guðs?
Þótt ógæfa geti hent hina vitru og réttlátu gerist það aðeins vegna þess að Guð leyfir það, og hann mun aldrei yfirgefa þá. Með „hendi“ eða mætti Guðs er annaðhvort hægt að frelsa hinn réttláta úr þrengingu eða að styrkja hann til að þola hana. (1. Korintubréf 10:13) Þjónn Guðs getur leitað styrks í þessari vitneskju þegar erfiðleikar mæta honum.
◆ 10:2 — Hvað er átt við með því að hjarta viturs manns stefni á heillabraut?
Að hjarta viturs manns ‚stefni á heillabraut‘ merkir að það knýr hann til að taka góða og hyggilega stefnu. Heimskingjann vantar góðar áhugahvatir og hann hegðar sér heimskulega. Hjarta hans „leiðir hann í ógæfu,“ kemur honum til að taka ranga stefnu.
Lærdómur fyrir okkur: Með því að sérhvert okkar getur skyndilega orðið dauðanum að bráð (9:12) ættum við að nota líf okkar til að þjóna Jehóva ef við skyldum deyja og öll starfsemi stöðvast þar með (9:10). Við ættum líka að ná leikni í þjónustu okkar því að vanhæfi, jafnvel í svo einföldum atriðum sem að grafa holu eða höggva við, getur verið skaðlegt fyrir sjálfa okkur og aðra. — 10:8, 9.
Æska og tilgangur lífsins
Lestu 11. og 12. kafla. Við ættum öll að ástunda örlæti og vera ákveðin í því sem við gerum (11:1-6). Ungt fólk, sem notar vel tíma sinn og krafta í að þjóna skaparanum, mun einskis þurfa að iðrast síðar á ævinni (11:9, 10). Það veit að það hefur notað krafta sína til að þóknast Guði áður en heilsan bilar og þrótturinn þverr. — 12:1-7; sjá Varðturninn 1. nóvember 1980, bls. 23, 24.
◆ 11:1 — Hvað er átt við með því að ‚varpa brauði sínu út á vatnið‘?
Brauð er undirstaða lífsins. Að senda það út á „vatnið“ merkir að láta frá sér eitthvað verðmætt. Samt „munt þú finna það aftur,“ því að örlæti þitt verður umbunað með óvæntum hætti. — Lúkas 6:38.
◆ 12:12 — Hvers vegna er Prédikarinn svona neikvæður gagnvart bókum?
Í samanburði við orð Jehóva hafa hinar ‚endalausu‘ bækur heimsins aðeins mannlega visku að geyma. Verulegur hluti hennar ber keim af hugarfari Satans. (2. Korintubréf 4:4) Það að gefa slíku veraldlegu efni mikinn gaum hefur lítið varanlegt gildi.
Lærdómur fyrir okkur: Eins og Salómon ættum við að ígrunda það sem orð Guðs segir um lífið. Það mun styrkja þann ásetning okkar að óttast og hlýða Guði. Sú vissa að Jehóva beri mikla umhyggju fyrir okkur (12:13, 14) styrkir tengsl okkar við hann.
Megum við því ‚óttast Guð og halda hans boðorð.‘ Það er skylda okkar og veitir okkur varanlega hamingju.