Losnað úr ánauð falskra trúarbragða
„Þess vegna segir [Jehóva]: ‚Farið burt frá þeim, . . . Snertið ekki neitt óhreint, og ég mun taka yður að mér.‘“ — 2. Korintubréf 6:17.
1. Hvaða viðskipti reyndi Satan að eiga við Jesú og um hvað tvennt upplýsir þetta tilboð hans okkur?
„ALLT þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig.“ Þó að þetta tilboð hafi verið gert þúsundum ára eftir að fölsk trúarbrögð hófust hjálpar það okkur að skilja hver stendur á bak við falska tilbeiðslu og hvaða tilgangi hún þjónar. Síðla árs 29 bauð djöfullinn Jesú öll ríki heims í skiptum fyrir tilbeiðslu á sér. Þetta atvik segir okkur tvennt: Að Satan geti ráðstafað ríkjum þessa heims og að endanlegt takmark falskra trúarbragða sé að tilbiðja djöfulinn. — Matteus 4:8, 9.
2. Hvað lærum við af orðum Jesú í Matteusi 4:10?
2 Með svari sínu bæði hafnaði Jesús fölskum trúarbrögðum og sýndi hvað sönn trúarbrögð fela í sér. Hann sagði: „Vík brott, Satan! Ritað er: ‚[Jehóva], Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.‘“ (Matteus 4:10) Markmið sannra trúarbragða er því tilbeiðsla á hinum eina sanna Guði, Jehóva. Það felur í sér trú og hlýðni, það að gera vilja Jehóva.
Uppruni falskra trúarbragða
3. (a) Hvenær og hvernig hófust fölsk trúarbrögð á jörðinni? (b) Hvert er fyrsta skráða dæmið um trúarlegt umburðarleysi og hvernig hafa trúarbragðaofsóknir haldið áfram síðan þá?
3 Fölsk trúarbrögð hófust á jörðinni þegar fyrstu mannhjónin óhlýðnuðust Guði og tóku tilboði höggormsins um að ákveða sjálf hvað væri ‚gott og illt.‘ (1. Mósebók 3:5) Með því höfnuðu þau réttmætu drottinvaldi Jehóva og yfirgáfu rétta tilbeiðslu, sanna trú. Þau voru fyrst þeirra manna sem „hafa skipt á sannleika Guðs og lyginni og göfgað og dýrkað hið skapaða í stað skaparans.“ (Rómverjabréfið 1:25) Sú sköpunarvera, sem þau óafvitandi völdu að tilbiðja, var enginn annar en Satan djöfullinn, ‚hinn gamli höggormur.‘ (Opinberunarbókin 12:9) Elsti sonur þeirra, Kain, neitaði að fylgja vinsamlegum ráðleggingum Jehóva og gerði þar með uppreisn gegn drottinvaldi hans. Vitandi eða óafvitandi varð Kain „barn hins vonda,“ Satans, og tók að tilbiðja djöfulinn. Hann drap yngri bróður sinn, Abel, sem iðkaði sanna tilbeiðslu, sanna trú. (1. Jóhannesarbréf 3:12, Revised English Bible; 1. Mósebók 4:3-8; Hebreabréfið 11:4) Morðið á Abel var fyrsta blóðsúthelling vegna trúarlegs umburðarleysis. Því miður hafa fölsk trúarbrögð haldið áfram að úthella saklausu blóði alveg fram á okkar daga. — Sjá Matteus 23:29-35; 24:3, 9.
4. Hvaða ritningarstaðir varðandi Nóa skýra eðli sannra trúarbragða?
4 Fyrir flóðið tókst Satan að snúa meirihluta mannkyns frá sannri trú. Nói fann þó „náð í augum [Jehóva].“ Hvers vegna? Vegna þess að hann „gekk með Guði.“ Hann iðkaði með öðrum orðum sanna tilbeiðslu. Sönn trú er ekki viðhafnar- eða helgisiðir heldur lífsstefna. Hún felur í sér að festa trú á Jehóva og þjóna honum í hlýðni, ‚ganga með honum‘ eins og Nói gerði. — 1. Mósebók 6:8, 9, 22; 7:1; Hebreabréfið 11:6, 7.
5. (a) Hverju reyndi djöfullinn að koma á eftir flóðið og hvernig? (b) Hvernig ónýtti Jehóva fyrirætlun djöfulsins og hverjar urðu afleiðingarnar?
5 Ljóst er að skömmu eftir flóðið notaði djöfullinn Nimrod, mann sem var alræmdur fyrir að vera í „andstöðu við Jehóva,“ í þeim tilgangi að sameina allt mannkynið undir tilbeiðsluform sem yrði aftur andsnúið Jehóva. (1. Mósebók 10:8, 9, NW; 11:2-4) Það hefðu orðið ein sameinuð fölsk trúarbrögð, samræmd tilbeiðsla á djöflinum, með miðstöð í þeirri borg og þeim turni sem þessir tilbiðjendur byggðu. Jehóva ónýtti þessa ráðagerð með því að rugla því ‚eina tungumáli‘ sem allt mannkynið talaði. (1. Mósebók 11:5-9) Þess vegna var borgin kölluð Babel og seinna meir Babýlon sem hvort tveggja þýðir „ruglingur.“ Þessi tungumálaruglingur tvístraði mannkyninu um jörðina.
6. (a) Hvaða trúarbragðahugmyndir voru greyptar í hugi tilbiðjenda Satans í Babýlon áður en þeim var tvístrað? (b) Af hverju hafa trúarbrögð um allan heim svipaðar trúarhugmyndir? (c) Hvaða djöfullegum tilgangi þjónaði Babýlon og táknmynd um hvað varð þessi forna borg?
6 Saga trúarbragða og goðafræði virðist þó bera það með sér að Satan hafi, áður en Jehóva tvístraði mannkyninu, innprentað tilbiðjendum sínum viss frumatriði falskra trúarbragða. Þeirra á meðal voru trúarhugmyndir um að sálin lifði af líkamsdauðann, ótti við hina dauðu, að til væru undirheimar með vítislogum, ásamt tilbeiðslu á ógrynni guða og gyðja sem stundum mynduðu þrenningar. Slíkar trúarhugmyndir bárust til endimarka jarðar með hinum margvíslegu tungumálahópum. Með tímanum urðu til ýmis afbrigði þessara grunnhugmynda, en að stofni til eru þær uppistaða falskra trúarbragða í öllum heimshlutum. Er tilraun Satans til að koma á fót sameinuðum falstrúarbrögðum með Babýlon að heimsmiðstöð hafði verið stöðvuð lét hann sér lynda fjölbreytileg form falskrar tilbeiðslu undir babýlonskum áhrifum til þess að beina tilbeiðslunni frá Jehóva og að sjálfum sér. Um aldaraðir var Babýlon áhrifamikil miðstöð skurðgoðadýrkunar, töfrabragða, galdra og stjörnuspeki — allt ómissandi þættir falskra trúarbragða. Það er því ekki undarlegt að Opinberunarbókin skuli tákna heimsveldi falskra trúarbragða með viðurstyggilegri skækju sem kölluð er Babýlon hin mikla. — Opinberunarbókin 17:1-5.
Sönn trúarbrögð
7. (a) Hvers vegna hafði ruglingur tungumálsins ekki áhrif á sönn trúarbrögð? (b) Hver varð þekktur sem „faðir allra þeirra, sem trúa,“ og hvers vegna?
7 Að sjálfsögðu urðu sönn trúarbrögð ekki fyrir áhrifum af því er Jehóva ruglaði tungumál manna í Babel. Fyrir flóðið höfðu trúfastir karlar og konur eins og Abel, Enok, Nói, eiginkona hans, synir og tengdadætur, stundað sanna guðsdýrkun. Eftir flóðið varðveittist sönn tilbeiðsla gegnum ætt Sems, sonar Nóa. Abraham, afkomandi Sems, iðkaði sanna trú og varð þekktur sem „faðir allra þeirra, sem trúa.“ (Rómverjabréfið 4:11) Trú hans var studd með verkum. (Jakobsbréfið 2:21-23) Trú hans var lífstefna.
8. (a) Hvernig stóðu hin sönnu trúarbrögð andspænis fölskum trúarbrögðum á 16. öld f.o.t. og hverjar urðu afleiðingarnar? (b) Hvaða nýju fyrirkomulagi kom Jehóva á varðandi hreina tilbeiðslu?
8 Iðkun sannrar tilbeiðslu hélt áfram gegnum afkomendur Abrahams — Ísak, Jakob (eða Ísrael) og 12 syni Jakobs sem hinar 12 ættkvíslir Ísraelsmanna komu af. Við lok 16. aldar f.o.t. var svo komið að afkomendur Abrahams í ættlegg Ísaks áttu í baráttu til að varðveita sanna trú í heiðnu, fjandsamlegu umhverfi — Egyptalandi — þar sem þeir voru hnepptir í þrældóm. Jehóva notaði trúfastan þjón sinn, Móse af Levíættkvísl, til að frelsa tilbiðjendur sína undan oki Egypta, úr landi gagnsýrðu fölskum trúarbrögðum. Í gegnum Móse gerði Jehóva sáttmála við Ísraelsmenn og gerði þá að sinni útvöldu þjóð. Á þeim tíma batt Jehóva tilbeiðsluna á sér í skráð lög, setti hana tímabundið innan ramma þar sem prestastétt færði fórnir í efnislegum helgidómi, fyrst í hinni færanlegu tjaldbúð og síðar í musterinu í Jerúsalem.
9. (a) Hvernig var sönn tilbeiðsla iðkuð fyrir lagasáttmálann? (b) Hvernig sýndi Jesús að hin efnislega umgjörð lögmálsins væri ekki varanleg?
9 Þó ber að hafa hugfast að það var ekki ætlunin að þessi efnislega tilhögun yrði varanlegur hluti hinna sönnu trúarbragða. Lögmálið var „skuggi þess, sem koma átti.“ (Kólossubréfið 2:17; Hebreabréfið 9:8-10; 10:1) Á tímum ættfeðranna, fyrir tilkomu Móselögmálsins, færðu fjölskylduhöfuð augsýnilega fórnir sem fulltrúar heimilisfólksins, á ölturum sem þeir höfðu reist. (1. Mósebók 12:8; 26:25; 35:2, 3; Jobsbók 1:5) En það var engin skipulögð prestastétt eða kerfisbundnar fórnir með viðhafnar- og helgisiðum. Enn fremur benti Jesús á að lögbundin tilbeiðsla með Jerúsalem sem miðstöð væri tímabundin þegar hann sagði samverskri konu: „Sú stund kemur, að þér munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli [Garísímfjalli þar sem áður var samverskt musteri] né í Jerúsalem. . . . Sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:21-23) Jesús benti á að iðka bæri sönn trúarbrögð, ekki með efnislegum hlutum, heldur í anda og sannleika.
Babýlonskir fjötrar
10. (a) Hvers vegna leyfði Jehóva að þjóð hans væri flutt í fjötrum til Babýlonar? (b) Á hvaða tvo vegu frelsaði Jehóva trúfastar leifar árið 537 f.o.t. og hver var aðaltilgangur heimfarar þeirra til Júda?
10 Allt frá uppreisninni í Eden hefur verið stöðugur fjandskapur milli sannra og falskra trúarbragða. Stundum hafa sannir tilbiðjendur verið á táknrænan hátt í fjötrum falskra trúarbragða táknuðum með Babýlon síðan á dögum Nimrods. Áður en Jehóva leyfði að fólk hans yrði flutt í fjötrum til Babýlonar árið 617 og 607 f.o.t. var það þegar orðið fórnarlömb babýlonskra falstrúarbragða. (Jeremía 2:13-23; 15:2; 20:6; Esekíel 12:10, 11) Árið 537 f.o.t. sneru trúfastar leifar aftur til Júda. (Jesaja 10:21) Þær gáfu gaum að hinu spámannlega kalli: „Gangið út úr Babýlon“! (Jesaja 48:20) Þetta átti ekki bara að vera líkamleg frelsun. Þetta var líka andleg frelsun úr óhreinu umhverfi falskra trúarbragða og hjáguðadýrkunar. Þessum trúföstu leifum var þess vegna fyrirskipað: „Farið burt, farið burt, gangið út þaðan! Snertið ekkert óhreint! Gangið burt þaðan, hreinsið yður, þér sem berið ker [Jehóva]!“ (Jesaja 52:11) Aðaltilgangur þess að þeir sneru aftur til Júda var að endurreisa hreina tilbeiðslu, sönn trúarbrögð.
11. Auk endurreisnarinnar á hreinni tilbeiðslu í Júda, hvaða trúarbragðastefnur byrjuðu að mótast á sjöttu öld f.o.t.?
11 Það er athyglisvert að um svipað leyti, á 6. öld f.o.t., urðu til nýjar greinar falskra trúarbragða innan Babýlonar hinnar miklu. Þá komu fram á sjónarsviðið búddhatrú, kenningar Konfúsíusar og Zaraþústra og Jainareglan, að ekki sé minnst á hina grísku rökhyggjuheimspeki sem síðar meir hafði gríðarleg áhrif innan kirkna kristna heimsins. Þannig var erkióvinur Guðs, samhliða endurreisn hreinnar tilbeiðslu í Júda, að láta í té fleiri valmöguleika á vettvangi falskra trúarbragða.
12. Hvaða frelsun frá babýlonskum fjötrum átti sér stað á fyrstu öldinni og hvaða aðvörun gaf Páll?
12 Á þeim tíma er Jesús kom fram í Ísrael iðkaði meirihluti Gyðinga ýmsar myndir gyðingdóms, trúarbragðaform sem hafði tekið upp margar babýlonskar trúarhugmyndir. Gyðingdómurinn hafði gengið til fylgis við Babýlon hina miklu. Kristur fordæmdi hann og frelsaði lærisveina sína úr babýlonskum fjötrum. (Matteus 23. kafli; Lúkas 4:18) Þar sem fölsk trúarbrögð og grísk heimspeki var útbreidd á þeim svæðum sem Páll postuli prédikaði vitnaði hann í spádóm Jesaja og heimfærði hann á kristna menn sem þurftu að forðast óhrein áhrif Babýlonar hinnar miklu. Hann skrifaði: „Hvernig má sætta musteri Guðs við [babýlonsk] skurðgoð? Vér erum musteri lifanda Guðs, eins og Guð hefur sagt: ‚Ég mun búa hjá þeim og ganga um meðal þeirra, og ég mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn.‘ Þess vegna segir [Jehóva]: ‚Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint, og ég mun taka yður að mér.‘“ — 2. Korintubréf 6:16, 17.
Losnað úr ánauð falskra trúarbragða á tímum endalokanna
13. Hvað er gefið til kynna í þeim boðskap sem Kristur sendi til safnaðanna sjö í Litlu-Asíu og til hvers leiddi það?
13 Sá boðskapur, sem Kristur sendi söfnuðunum sjö í Litlu-Asíu í opinberunarsýnum Jóhannesar postula, gefur ljóslega til kynna að við lok fyrstu aldar voru babýlonskar túarbragðaiðkanir og viðhorf að læðast inn í kristna söfnuðinn. (Opinberunarbókin 2. og 3. kafli) Fráhvarfið blómstraði sérstaklega frá annarri öld og fram á fimmtu öld og leiddi til þess að brenglaðar eftirlíkingar hinnar hreinu kristnu trúar komu fram á sjónarsviðið. Babýlonskar kenningar um ódauðleika sálarinnar, brennandi víti og þrenningu voru teknar upp sem kenningar fráhvarfskristninnar. Kirkjur kaþólskra, rétttrúaðra og seinna mótmælenda tóku allar upp þessar fölsku trúarsetningar og urðu þar af leiðandi hluti Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða djöfulsins.
14, 15. (a) Hvað sýndi dæmisaga Jesú um hveitið og illgresið? (b) Hvað átti sér stað undir lok 19. aldar og hvaða framförum varðandi kenningar höfðu sannkristnir menn tekið kringum 1914?
14 Sönn trúarbrögð hafa aldrei verið fyllilega afmáð. Það hafa alltaf verið til sannleiksunnendur í gegnum aldirnar sem sumir hverjir hafa látið líf sitt vegna trúfesti sinnar við Jehóva og orð hans, Biblíuna. En eins og dæmisaga Jesú um hveitið og illgresið sýnir, þá yrði hið táknræna hveiti eða synir ríkisins og illgresið eða börn hins vonda ekki aðskilið fyrr en „við endi veraldar.“ (Matteus 13:24-30, 36-43) Er tími endalokanna — tímabil þessarar aðgreiningar — færðist nær, byrjuðu einlægir biblíunemendur í lok 19. aldar að losa sig úr ánauð falskra trúarbragða.
15 Um 1914 höfðu þessir kristnu menn, nú þekktir sem vottar Jehóva, ræktað með sér sterka trú á lausnargjaldið. Þeir vissu að nærvera Krists hlyti að vera ósýnileg. Þeir skildu að árið 1914 myndu „tímar heiðingjanna“ líða undir lok. (Lúkas 21:24) Og þeir skildu greinilega hvað átt var við með sálinni og upprisunni. Þeir voru líka vel upplýstir varðandi hinar áberandi villukenningar kirknanna um vítiseld og þrenningu. Þeir uppgötvuðu og byrjuðu að nota nafn Guðs og áttuðu sig á að þróunarkenningin og andatrúariðkanir væru rangar.
16. Hvaða kalli svöruðu smurðir kristnir menn árið 1919?
16 Það var farið vel af stað í að fleygja burt hlekkjum falskra trúarbragða og árið 1919 missti Babýlon hin mikla algerlega tök sín á þjónum Guðs. Eins og leifar Gyðinganna höfðu verið frelsaðar úr Babýlon árið 537 f.o.t. gáfu trúfastar leifar smurðra kristinna manna gaum að kallinu um að ‚fara burt‘ úr Babýlon hinni miklu. — Jesaja 52:11.
17. (a) Hvað þróaðist frá og með 1922 og hvaða þörf varð tilfinnanleg meðal þjóna Guðs? (b) Hvaða róttæk afstaða var tekin og hvers vegna er það skiljanlegt?
17 Frá árinu 1922 var dreift opinberlega óvægilegum biblíusannindum sem flettu ofan af babýlonskum falstrúarbrögðum, sérstaklega kirkjum kristna heimsins. Menn gerðu sér grein fyrir að það þyrfti að innprenta hreinsuðum þjónum Guðs að þeir yrðu að slíta sig algerlega frá öllu sem tengdist fölskum trúarbrögðum. Þannig forðuðust þeir árum saman jafnvel að nota orðið „trúarbrögð“ þegar rætt var um hreina tilbeiðslu. Gengið var um með slagorð eins og: „Trúarbrögð eru snara og svikamilla,“ eftir strætum stórborga. Bækur eins og Stjórn (1928) og „Sannleikurinn mun gera yður frjálsa“ (1943) gerðu skýran greinarmun á „kristni“ og „trúarbrögðum.“ Þessi róttæka afstaða er skiljanleg þar sem slíta þurfti fullkomlega tengsl við hin allsráðandi trúarkerfi Babýlonar hinnar miklu.
Sönn trúarbrögð og fölsk
18. Hvaða nýr skilningur varðandi „trúarbrögð“ kom fram árið 1951 og hvernig er það útskýrt í Árbókinni 1975?
18 Þá, árið 1951, var kominn tími Jehóva til að láta þjóna sína skilja til fulls muninn á sönnum og fölskum trúarbrögðum. Árbók votta Jehóva 1975 skýrir svo frá: „Árið 1951 lærðu stuðningsmenn sannrar tilbeiðslu svolítið merkilegt varðandi hugtakið ‚trúarbrögð.‘ Sumir þeirra mundu vel eftir árinu 1938 þegar þeir báru stundum hin ögrandi skilti sem á stóð: ‚Trúarbrögð eru snara og svikamilla.‘ Eins og þeir sáu hlutina á þeim tíma voru öll ‚trúarbrögð‘ ókristin, frá djöflinum. En Varðturninn 15. mars 1951 taldi rétt að nota lýsingarorðin ‚sönn‘ og ‚fölsk‘ í tengslum við trúarbrögð. Enn fremur hafði hin hrífandi bók Hvað hafa trúarbrögðin gert fyrir mannkynið? (gefin út 1951 og dreift á mótinu ‚Hrein tilbeiðsla‘ á Wembley-leikvanginum í Lundúnum) þetta að segja: ‚Þegar tillit er tekið til þess, hvernig orðið „trúarbrögð“ (religion) er notað, þá þýðir það dýrkun eða tilbeiðsla, án þess að tillit sé tekið til þess, hvort hún er sönn eða röng. Þetta er í samræmi við merkingu orðsins á hebresku, ‛abohdáh, sem þýðir bókstaflega „þjónusta“, án tillits til hverjum þjónustan er veitt.‘ Eftir þetta urðu orðtökin ‚fölsk trúarbrögð‘ og ‚sönn trúarbrögð‘ algeng meðal votta Jehóva.“ — Bls. 225.
19, 20. (a) Hvers vegna áttu sannir tilbiðjendur ekki að láta notkun orðsins „trúarbrögð“ í tengslum við hreina tilbeiðslu koma sér úr jafnvægi? (b) Hvað gerði þessi nýi skilningur þjónum Jehóva kleift?
19 Í svari við spurningu frá lesanda sagði Varðturninn þann 15. ágúst 1951: „Enginn ætti að láta notkun orðsins ‚trúarbrögð‘ koma sér úr jafnvægi. Það að við notum þetta orð bendlar okkur ekki við hin hefðbundnu falstrúarbrögð frekar en það að kalla okkur kristin setur okkur í hóp með falskristnum mönnum innan kristna heimsins.“
20 Þessi nýi skilningur á orðinu „trúarbrögð“ var alls ekki tilslökun heldur gerði hann þjónum Jehóva kleift að breikka gjána milli sannrar tilbeiðslu og falskrar eins og við munum sjá í næstu grein.
Prófum skilning okkar
◻ Hvenær og hvernig hófust fölsk trúarbrögð á jörðinni?
◻ Hverju reyndi Satan að koma á eftir flóðið og hvernig var ráðagerð hans kollvarpað?
◻ Ímynd hvers varð Babýlon?
◻ Hvaða frelsun átti sér stað árið 537 f.o.t., á fyrstu öldinni og árið 1919?
◻ Hvaða nýr skilningur á orðinu „trúarbrögð“ kom fram árið 1951 og hvers vegna þá?
[Rammi/Mynd á blaðsíðu 11]
Falskar trúarkenningar út um allan heim eru upprunnar í Babýlon:
◻ Þrenningar eða þríeinir guðir
◻ Mannssálin lifir af líkamsdauðann
◻ Andatrú — að tala við hina „dánu“
◻ Notkun líkneskja við tilbeiðslu
◻ Galdrar til að blíðka illa anda
◻ Voldug klerkastjórn