Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Jeremíabókar
FÓLKI hlýtur að hafa verið brugðið að heyra Jeremía boða allar þær hörmungar sem hann sagði eiga að ganga yfir þjóðina. Hið dýrlega musteri hafði verið tilbeiðslumiðstöð Gyðinga í meira en þrjár aldir en það yrði brennt til grunna. Jerúsalem og Júda áttu að leggjast í eyði og íbúarnir yrðu fluttir í útlegð. Þessir dómar Guðs og aðrir eru skráðir í næstlengstu bók Biblíunnar, Jeremíabók. Hún segir jafnframt frá því sem dreif á daga Jeremía sjálfs á þeim 67 árum sem hann gegndi spámennsku. Bókin er ekki skrifuð í tímaröð heldur efnisröð.
Af hverju er Jeremíabók áhugaverð fyrir okkur? Uppfylltir spádómar hennar styrkja þá trú að Jehóva standi við fyrirheit sín. (Jesaja 55:10, 11) Spámannsstarf Jeremía og viðbrögð fólks við boðskap hans á sér hliðstæðu á okkar dögum. (1. Korintubréf 10:11) Og sagan af samskiptum Jehóva við fólk sitt dregur skýrt fram þá eiginleika sem hann hefur til að bera og hún ætti að hafa djúpstæð áhrif á okkur. — Hebreabréfið 4:12.
„TVENNT ILLT HEFIR ÞJÓÐ MÍN AÐHAFST“
Jeremía er skipaður spámaður á 13. stjórnarári Jósía Júdakonungs, 40 árum áður en Jerúsalem er eydd en það gerðist árið 607 f.Kr. (Jeremía 1:1, 2) Illska Júdamanna er afhjúpuð í spádómum, sem eru aðallega bornir fram á síðustu 18 stjórnarárum Jósía, og kveðnir eru upp dómar Jehóva yfir þeim. „Ég vil gjöra Jerúsalem að grjóthrúgum,“ segir Jehóva, „og Júdaborgir vil ég gjöra að auðn, þar sem enginn býr.“ (Jeremía 9:11) Af hverju? „Því að tvennt illt hefir þjóð mín aðhafst.“ — Jeremía 2:13.
Jeremía boðar einnig að iðrandi menn af hópi Gyðinga fái að snúa heim. (Jeremía 3:14-18; 12:14, 15; 16:14-21) En boðberanum er ekki vel tekið. „Yfirumsjónarmaður í musteri Drottins“ lætur húðstrýkja Jeremía og setja hann næturlangt í gapastokk. — Jeremía 20:1-3.
Biblíuspurningar og svör:
1:11, 12 — Af hverju er „möndluviðargrein“ sett í samband við það að Jehóva skuli vaka yfir orði sínu? Möndlutréð er eitt fyrsta tréð til að blómstra að vori. Jehóva sendi spámenn sína „daglega snemma morguns“ til að vara þjóðina við dómum sínum og hann ‚vakti‘ uns þeir rættust. — Jeremía 7:25, Biblían 1859.
2:10, 11 — Hvað var óvenjulegt við verk hinna ótrúu Ísraelsmanna? Heiðnu þjóðirnar vestur að Kittím og austur að Kedar áttu það til að taka heim með sér guði annarra þjóða og dýrka þá ásamt sínum eigin guðum. Það var hins vegar óþekkt að menn hættu alveg að tilbiðja sína eigin guði og tækju sér aðra. Ísraelsmenn höfðu aftur á móti yfirgefið Jehóva og tekið að dýrka lífvana skurðgoð í stað hans.
3:11-22; 11:10-12, 17 — Nú hafði Samaría fallið árið 740 f.Kr. Hvers vegna nefndi Jeremía þá norðurríkið Ísrael í spádómum sínum? Ástæðan var sú að með eyðingu Jerúsalem árið 607 f.Kr. var Jehóva að fullnægja dómi sínum á Ísraelsþjóðinni allri, ekki aðeins Júdamönnum. (Esekíel 9:9, 10) Og eftir að tíuættkvíslaríkið féll átti það sér fulltrúa áfram í Jerúsalem vegna þess að spámenn Guðs héldu áfram að flytja boð sem náðu til Ísraelsmanna.
4:3, 4 — Hvað merkja þessi fyrirmæli? Ótrúir Gyðingar þurftu að undirbúa, mýkja og hreinsa jarðveginn í hjarta sér. Þeir þurftu að fjarlægja „yfirhúð“ hjartna sinna, það er að segja að losa sig við óhreinar hugsanir, tilfinningar og hvatir. (Jeremía 9:25, 26; Postulasagan 7:51) Þeir þurftu að breyta líferni sínu, hætta að gera hið illa og fara að vinna verk sem höfðu blessun Guðs í för með sér.
4:10; 15:18 — Í hvaða skilningi sveik Jehóva uppreisnargjarna þjóð sína? Sumir spámenn á dögum Jeremía ‚kenndu lygar‘. (Jeremía 5:31; 20:6; 23:16, 17, 25-28, 32) Jehóva hindraði ekki að þeir flyttu rangan boðskap.
16:16 — Hvað er átt við með því að Jehóva sendi „eftir mörgum fiskimönnum“ og „mörgum veiðimönnum“? (Biblíurit, ný þýðing 1997) Hugsanlega er átt við það að sendar yrðu út óvinasveitir til að leita að ótrúum Gyðingum sem Jehóva ætlaði að fullnægja dómi yfir. Miðað við Jeremía 16:15 gæti þetta einnig merkt að iðrandi Ísraelsmenn yrðu leitaðir uppi.
20:7 — Í hvaða skilningi var það sem Jehóva ‚tók Jeremía tökum‘ og tældi hann? Jeremía fannst ef til vill að hann hefði ekki kraft til að halda áfram að boða dóma Jehóva andspænis sinnuleysi, höfnun og ofsóknum. En Jehóva beitti mætti sínum gegn þessum hugsunum Jeremía og gaf honum kraft til að halda áfram. Hann tældi Jeremía með því að nota hann til að gera hluti sem spámaðurinn hafði ekki ímyndað sér að hann gæti.
Lærdómur:
1:8. Stundum frelsar Jehóva fólk sitt úr ofsóknum, til dæmis með hjálp óhlutdrægra dómara. Eins getur hann látið fjandsamlega embættismenn víkja fyrir sanngjörnum eða gefið tilbiðjendum sínum styrk til að halda út. — 1. Korintubréf 10:13.
2:13, 18. Ótrúir Ísraelsmenn gerðu tvennt af sér. Þeir yfirgáfu Jehóva sem var örugg uppspretta blessunar, leiðsagnar og verndar. Einnig grófu þeir sér táknræna brunna með því að ganga til hernaðarbandalags við Egypta og Assýringa. Ef við yfirgæfum hinn sanna Guð og snerumst á sveif með heimspeki manna og stjórnmálum heimsins værum við að yfirgefa „uppsprettu hins lifandi vatns“ og grafa okkur „brunna með sprungum“.
6:16. Jehóva hvetur uppreisnargjarna þjóð sína til að staldra við, líta í eigin barm og snúa aftur á „gömlu göturnar“ sem trúir forfeður þeirra gengu. Ættum við ekki að líta gagnrýnu auga á sjálf okkur af og til og kanna hvort við göngum í raun og veru á þeim vegi sem Jehóva vill að við göngum?
7:1-15. Það bjargaði ekki Gyðingum að treysta á musterið og líta á það sem einhvers konar verndargrip. Við ættum að lifa í trú en ekki eftir hinu sýnilega. — 2. Korintubréf 5:7.
15:16, 17. Við getum sigrast á kjarkleysi líkt og Jeremía gerði. Við gerum það með því að stunda sjálfsnám í Biblíunni, upphefja nafn Jehóva í boðunarstarfinu og forðast vondan félagsskap.
17:1, 2. Jehóva hafði ekki velþóknun á fórnum Júdamanna af því að þeir syndguðu. Lofgerðarfórnir okkar eru einskis virði ef við erum siðferðilega óhrein.
17:5-8. Menn og stofnanir verðskulda því aðeins traust okkar að þær breyti í samræmi við vilja Guðs og meginreglur. Það er viturlegt að treysta engum nema Jehóva fyrir málum eins og hjálpræði okkar og því að koma á sönnum friði og öryggi. — Sálmur 146:3.
20:8-11. Við ættum ekki að láta áhugaleysi, andstöðu eða ofsóknir draga úr kostgæfni okkar í boðunarstarfinu. — Jakobsbréfið 5:10, 11.
„SVEIGIÐ HÁLS YÐAR UNDIR OK BABELKONUNGS“
Jeremía flytur dóma Guðs yfir síðustu fjórum konungum Júda ásamt falsspámönnum, illum hirðum og spilltum prestum. Jehóva líkir þeim fáu, sem eru trúfastir, við góðar fíkjur og segir: „Ég beini augum mínum á þá þeim til heilla.“ (Jeremía 24:5, 6) Í þrem spádómum í 25. kafla eru dregnir saman dómar sem eru útlistaðir ítarlegar í síðari köflum bókarinnar.
Prestar og spámenn leggja á ráðin um að verða Jeremía að bana. Hann flytur þann boðskap að þeir eigi að þjóna konungi Babýlonar. Hann segir Sedekía konungi: „Sveigið háls yðar undir ok Babelkonungs.“ (Jeremía 27:12) En „sá, sem tvístraði Ísrael, safnar honum saman“. (Jeremía 31:10) Rekabítum er gefið loforð og það af ærnu tilefni. Jeremía er „settur í varðhald í varðgarðinum“. (Jeremía 37:21) Jerúsalem er lögð í eyði og flestir íbúarnir teknir til fanga. Jeremía og Barúk, ritari hans, eru meðal þeirra sem eru skildir eftir. Þrátt fyrir viðvaranir Jeremía flýr þetta fólk óttaslegið til Egyptalands. Í 46. til 51. kafla er að finna orð Jeremía um þjóðirnar.
Biblíuspurningar og svör:
22:30 — Ógilti þessi úrskurður rétt Jesú Krists til að setjast í hásæti Davíðs? Nei, hann útilokaði hins vegar að nokkur af afkomendum Jójakíns fengi að „sitja í hásæti Davíðs og ríkja . . . yfir Júda“. Jesús átti að ríkja af himnum ofan en ekki sitja í hásæti í Júda.
23:33 — Hver er „byrði Drottins“? Hinn þungi boðskapur spámannsins um eyðingu Jerúsalem var byrði fyrir samlanda hans. En þeir sem tóku ekki við boðskapnum voru slík byrði fyrir Jehóva að hann ætlaði að hafna þeim. Boðskapur Biblíunnar um eyðingu kristna heimsins er sömuleiðis byrði fyrir kristna heiminn, og þeir sem gefa ekki gaum að boðskapnum eru Guði til byrði.
31:33 — Hvernig eru lög Guðs rituð á hjörtu manna? Hægt er að segja að lög Guðs séu rituð á hjarta þess manns sem elskar þau svo heitt að hann þráir að gera vilja hans.
32:10-15 — Í hvaða tilgangi voru gerð tvö kaupbréf um sömu viðskipti? Opna bréfið lá fyrir til skoðunar en innsiglaða bréfið var haft til vara ef nauðsynlegt reyndist að staðfesta réttmæti hins. Jeremía er okkur góð fyrirmynd um að hafa í heiðri skynsamlegar, lagalegar starfsreglur, jafnvel í viðskiptum við ættingja eða trúsystkini.
33:23, 24 — Hvaða tvær ættkvíslir er um að ræða? Önnur er konungsættin sem komin var af Davíð en hin var prestaættin sem kom af Aroni. Þegar Jerúsalem og musteri Jehóva var eytt virtist sem hann hefði hafnað báðum þessum ættum. Það var engu líkara en að hann ætti ekki framar ríki yfir jörðinni og ætlaði ekki að endurvekja tilbeiðsluna á sér.
46:22 — Hvers vegna er rödd Egyptalands líkt við þrusk í höggormi? Hugsanlega er átt við hvæsið í hopandi höggormi eða auðmýkingu Egypta þegar hörmungar dundu yfir þjóðina. Líkingin dregur einnig fram hve tilgangslaust það var fyrir faraóa Egypta að bera höggormslíkan á höfuðbúnaði sínum í von um að hljóta vernd höggormagyðjunnar Úatsit.
Lærdómur:
21:8, 9; 38:19. Iðrunarlausir Jerúsalembúar áttu skilið að deyja en fram á elleftu stundu gaf Jehóva þeim tækifæri til að velja. Já, „mikil er miskunn hans“. — 2. Samúelsbók 24:14; Sálmur 119:156.
31:34. Það er hughreystandi til þess að vita að Jehóva minnist ekki framar synda þeirra sem hann fyrirgefur og grípur ekki til aðgerða gegn þeim í framtíðinni.
38:7-13; 39:15-18. Jehóva gleymir ekki dyggri þjónustu okkar en hún er meðal annars fólgin í því að ‚veita hinum heilögu þjónustu‘. — Hebreabréfið 6:10.
45:4, 5. Síðustu dagar Júdaríkisins voru ekki rétti tíminn til að ætla sér „mikinn hlut“, svo sem auðlegð, frama eða fjárhagslegt öryggi. Hið sama er að segja um síðustu daga þessa heimskerfis. — 2. Tímóteusarbréf 3:1; 1. Jóhannesarbréf 2:17.
JERÚSALEM BRENNUR
Árið 607 f.Kr. er runnið upp. Þetta er 11. stjórnarár Sedekía. Nebúkadnesar Babelkonungur hefur setið um Jerúsalem síðastliðna 18 mánuði. Nebúsaradan lífvarðarforingi kemur til borgarinnar á 19. stjórnarári Nebúkadnesars, á sjöunda degi fimmta mánaðarins. (2. Konungabók 25:8) Hugsanlega virðir hann borgina fyrir sér frá herbúðunum og leggur á ráðin um aðgerðir. Þrem dögum síðar, á tíunda degi mánaðarins, kemur hann svo til Jerúsalem í þeirri merkingu að hann ræðst inn í hana. Hann brennir síðan borgina. — Jeremía 52:12, 13
Jeremía gefur ítarlega lýsingu á falli borgarinnar og lýsing hans er eins og staðfesting á harmljóðunum sem hann orti en þau er að finna í næstu biblíubók.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Hvernig ‚tók Jehóva Jeremía tökum‘?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Jeremía flutti meðal annars dóm Jehóva yfir Jerúsalem.
[Mynd á blaðsíðu 12]
„Eins og á þessar góðu fíkjur, svo lít ég á hina herleiddu úr Júda.“ — Jeremía 24:5.