Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir bréfanna til Þessaloníkumanna og Tímóteusar
HINN ungi söfnuður í Þessaloníku hefur mátt þola mótlæti síðan hann var stofnaður þegar Páll postuli var staddur þar í borg. Tímóteus, sem er ef til vill á þrítugsaldri, kemur nú þaðan og færir góðar fréttir. Páll skrifar þá söfnuðinum bréf til að hrósa honum og hvetja hann. Bréfið er sennilega skrifað síðla árs 50 og er fyrsta innblásna bréfið sem hann skrifar. Skömmu síðar sendir hann kristnum mönnum í Þessaloníku annað bréf. Þar leiðréttir hann röng sjónarmið sumra og hvetur hina trúuðu til að vera staðfastir í trúnni.
Um tíu árum síðar er Páll staddur í Makedóníu en Tímóteus í Efesus. Páll skrifar honum þá bréf og hvetur hann til að dvelja áfram í Efesus og hjálpa bræðrum og systrum að varðveita gott samband við Jehóva þrátt fyrir áhrif falskennara innan safnaðarins. Páll skrifar Tímóteusi síðara bréfið þegar miklar ofsóknir skella á kristnum mönnum í kjölfar bruna sem varð í Róm árið 64. Það er síðasta innblásna bréfið sem Páll skrifar. Við höfum mikið gagn af hvatningarorðum og heilræðum Páls í þessum fjórum bréfum. — Hebr. 4:12.
„VÖKUM“
Páll hrósar Þessaloníkumönnum fyrir ‚hve mikið þeir starfa í trúnni, stríða í kærleikanum og eru staðfastir‘. Hann segir þeim að þeir séu ‚von sín og gleði og sigursveigur sem hann miklast af‘. — 1. Þess. 1:3; 2:19.
Eftir að hafa hvatt kristna menn þar í borg til að hugga og hughreysta hver annan með voninni um upprisu segir Páll: „Dagur Drottins kemur sem þjófur á nóttu.“ Hann hvetur þá til að halda vöku sinni og heilbrigðu hugarfari. — 1. Þess. 4:16-18; 5:2, 6.
Biblíuspurningar og svör:
4:15-17 — Hverjir eru ‚hrifnir burt í skýjum til fundar við Drottin í loftinu‘ og hvernig gerist það? Hér er átt við andasmurða kristna menn sem eru á lífi þegar Kristur er nærverandi sem konungur Guðsríkis. Þeir ganga „til fundar við Drottin“ Jesú á himnum, ósýnilegir augum manna. En til að gera það þurfa þeir fyrst að deyja og hljóta upprisu sem andaverur. (Rómv. 6:3-5; 1. Kor. 15:35, 44) Nærvera Krists er nú hafin þannig að hinir andasmurðu, sem deyja nú á tímum, sofa ekki dauðasvefni. Þeir eru ‚hrifnir burt‘, það er að segja reistir upp þegar í stað. — 1. Kor. 15:51, 52.
5:23 — Hvað á Páll við þegar hann biður þess að „andi yðar, sál og líkami varðveitist“? Hann á hér við anda, sál og líkama kristna safnaðarins í heild sem hinir andasmurðu í Þessaloníku tilheyrðu. Í stað þess að biðja einfaldlega um að söfnuðurinn varðveitist biður hann þess að „andi hans“ varðveitist, það er að segja hugarfarið. Hann biður þess einnig að „sál“ safnaðarins varðveitist, það er að segja líf hans og tilvera, og „líkami“ sem táknar alla hina andasmurðu í heild. (1. Kor. 12:12, 13) Bæn Páls vitnar um sterka umhyggju hans fyrir söfnuðinum.
Lærdómur:
1:3, 7; 2:13; 4:1-12; 5:15. Það er áhrifaríkt að leiðbeina öðrum með því að blanda saman viðeigandi hrósi og hvatningu til að gera betur.
4:1, 9, 10. Þeir sem tilbiðja Jehóva ættu að vinna stöðugt að því að styrkja sambandið við hann.
5:1-3, 8, 20, 21. Þegar dagur Jehóva nálgast þurfum við að vera heilbrigð í hugsun, „klædd trú og kærleika sem brynju og voninni um frelsun sem hjálmi“. Og við þurfum að gefa alvarlegan gaum að spádómsorði Guðs, Biblíunni.
„STANDIÐ . . . STÖÐUG“
Sumir í söfnuðinum rangsnúa því sem Páll sagði í fyrra bréfinu og halda greinilega fram að nærvera Drottins Jesú sé þegar fyrir höndum. Til að leiðrétta það skýrir Páll fyrir þeim hvað eigi að ‚koma fyrst‘. — 2. Þess. 2:1-3.
„Standið . . . stöðug og haldið fast við þær postullegu kenningar er ég hef flutt ykkur,“ segir Páll. Safnaðarmenn eiga að sneiða hjá „hverjum þeim bróður, er lifir óreglulega“. — 2. Þess. 2:15; 3:6, Biblían 1981.
Biblíuspurningar og svör:
2:3, 8 — Hver er „maður lögleysisins“ og hvernig verður honum tortímt? Þessi „maður“ táknar hóp manna — prestastétt kristna heimsins. Jesús Kristur hefur umboð til að boða dóma Guðs yfir óguðlegum og fyrirskipa að þeim sé fullnægt en hann er helsti talsmaður Guðs og kallaður „Orðið“. (Jóh. 1:1) Þess vegna má kveða svo að orði að Jesús eyði manni lögleysisins „með anda [krafti] munns síns“.
2:13, 14 — Hvernig útvaldi Guð hina andasmurðu til frelsunar „frá upphafi“? (Biblían 1981) Jehóva tók ákvörðun um hina andasmurðu sem hóp þegar hann ákvað að ‚niðji‘ konunnar myndi merja höfuð Satans. (1. Mós. 3:15) Sömuleiðis tók hann fram hvaða skilyrði þeir þyrftu að uppfylla, hvaða starf þeir myndu vinna og hvaða prófraunir þeir þyrftu að ganga í gegnum. Hann kallaði þá „til þessa“.
Lærdómur:
1:6-9. Jehóva velur úr þá sem hann fullnægir dómum sínum á.
3:8-12. Þó að dagur Jehóva sé nærri ættum við ekki að nota það sem afsökun fyrir því að vinna ekki til að sjá okkur farborða þegar við þjónum Jehóva. Iðjuleysi og að „hlutast til um það er öðrum kemur við“ er ávísun á leti. — 1. Pét. 4:15.
„VARÐVEIT ÞAÐ SEM ÞÉR ER TRÚAÐ FYRIR“
Páll hvetur Tímóteus til að „berjast hinni góðu baráttu í trú og með góða samvisku“. Hann útlistar hvaða hæfniskröfur karlmenn þurfa að uppfylla til að vera útnefndir til ábyrgðarstarfa í söfnuðinum. Og hann segir Tímóteusi að „hafna . . . vanheilögum hégiljum“. — 1. Tím. 1:18, 19; 3:1-10, 12, 13; 4:7.
„Ávíta þú ekki aldraðan mann harðlega,“ skrifar Páll og segir síðar í bréfinu: „Varðveit það sem þér er trúað fyrir og forðast hinar vanheilögu hégómaræður og mótsagnir þeirrar speki sem svo er rangnefnd“. — 1. Tím. 5:1; 6:20.
Biblíuspurningar og svör:
1:18; 4:14 — Hvaða „spádómsorð“ voru töluð yfir Tímóteusi? Þetta kunna að hafa verið spádómar um framtíðarhlutverk hans í kristna söfnuðinum sem Páli hefur ef til vill verið innblásið að flytja þegar hann heimsótti Lýstru á annarri trúboðsferðinni. (Post. 16:1, 2) Í samræmi við þessi „spádómsorð“ hlaut hinn ungi Tímóteus „handayfirlagningu öldunganna“ í söfnuðinum og var þar með útvalinn til sérstakra starfa.
2:15 — Hvernig verður kona ‚hólpin er hún fæðir börnin‘? Að eignast börn, annast þau og halda heimili getur komið í veg fyrir að konur verði „iðjulausar . . . málugar og hlutsamar“ um málefni annarra. — 1. Tím. 5:11-15.
3:16 — Hver er „leyndardómur trúarinnar“? Það var leyndardómur öldum saman hvort menn væru færir um að hlýða drottinvaldi Jehóva fullkomlega. Jesús svaraði spurningunni með því að sýna Guði fullkomna ráðvendni allt til dauða.
6:15, 16 — Eiga þessi orð við Jehóva Guð eða Jesú Krist? Þau lýsa hvernig Jesús Kristur birtist og eiga því við hann. (1. Tím. 6:14) Í samanburði við mennska konunga og drottna er Jesús hinn „eini alvaldur“ og hann einn er líka ódauðlegur. (Dan. 7:14; Rómv. 6:9) Hann er ósýnilegur augum manna síðan hann steig upp til himna og þess vegna getur enginn maður á jörð séð hann.
Lærdómur:
4:15. Hvort sem við höfum verið lengi í trúnni eða ekki ættum við að gera okkur far um að taka stöðugum framförum og styrkja sambandið við Jehóva.
6:2. Ef við erum ráðin í vinnu hjá trúsystkini ættum við ekki að reyna að misnota okkur það á nokkurn hátt heldur leggja okkur enn betur fram en við myndum gera fyrir einhvern sem er ekki í söfnuðinum.
„PRÉDIKA ÞÚ ORÐIÐ, GEF ÞIG AÐ ÞVÍ“
Páll vill búa Tímóteus undir erfiða tíma fram undan og skrifar: „Ekki gaf Guð okkur anda hugleysis heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.“ Síðar í bréfinu segir hann: „Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari.“ — 2. Tím. 1:7; 2:24.
„Halt þú stöðuglega við það sem þú hefur numið og hefur fest trú á,“ skrifar Páll. Fráhvarfskenningar voru á kreiki þannig að postulinn hvetur hinn unga umsjónarmann: „Prédika þú orðið, gef þig að því . . . Vanda um, ávíta og uppörva.“ — 2. Tím. 3:14; 4:2.
Biblíuspurningar og svör:
1:13 — Hver voru ‚heilnæmu orðin‘? Hér er átt við ‚orð Drottins Jesú Krists‘ — hinar sönnu kenningar kristninnar. (1. Tím. 6:3) Það sem Jesús kenndi og gerði var í samræmi við orð Guðs þannig að í víðara samhengi geta ‚heilnæmu orðin‘ verið allar kenningar Biblíunnar. Þessar kenningar sýna okkur til hvers Jehóva ætlast af okkur. Við förum eftir þeim með því að stunda það sem við höfum lært af Biblíunni.
4:13 — Hverjar voru „skinnbækurnar“? Hugsanlegt er að Páll sé að biðja um einhverjar af bókum Hebresku ritninganna sem hann vildi lesa og hugleiða meðan hann væri fangi í Róm. Vera má að einhverjar papírusbækur hafi verið meðtaldar.
Lærdómur:
1:5; 3:15. Meginástæðan fyrir því að Tímóteus trúði á Jesú Krist og að trúin hafði áhrif á allt sem hann gerði var að hann hafði fengið biblíufræðslu heima sem ungur drengur. Það er mikilvægt að foreldrar hugsi alvarlega um það hvernig þeir rækja skyldur sínar við Guð og börn sín.
1:16-18. Þegar trúsystkini eiga í prófraunum, eru ofsótt eða er varpað í fangelsi skulum við biðja fyrir þeim og gera allt sem við getum til að hjálpa þeim. — Orðskv. 3:27; 1. Þess. 5:25.
2:22. Kristnir menn, sérstaklega ungt fólk, ættu ekki að vera svo uppteknir af líkamsrækt, íþróttum, tónlist, skemmtunum, afþreyingu, ferðalögum, innihaldslitlum samræðum og öðru slíku að lítill tími sé eftir til að sinna andlegum hugðarefnum.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Hvert var síðasta innblásna bréfið sem Páll postuli skrifaði?