Matteus segir frá
16 Þar komu farísear og saddúkear til hans. Þeir vildu reyna hann og báðu hann að sýna sér tákn af himni.+ 2 Hann svaraði þeim: „Að kvöldi segið þið: ‚Það verður gott veður því að himinninn er eldrauður,‘ 3 og að morgni: ‚Það verður kuldi og rigning í dag því að himinninn er eldrauður en þungbúinn.‘ Þið getið spáð um veðrið af útliti himins en þið kunnið ekki að ráða tákn tímanna. 4 Vond og ótrú kynslóð heimtar stöðugt að fá tákn en hún fær ekkert annað en tákn Jónasar.“+ Síðan fór hann og skildi við þá.
5 Lærisveinarnir fóru nú yfir vatnið en gleymdu að taka með sér brauð.+ 6 Jesús sagði við þá: „Hafið augun opin og varið ykkur á súrdeigi farísea og saddúkea.“+ 7 Þeir fóru þá að ræða sín á milli og sögðu: „Við tókum ekkert brauð með.“ 8 Jesús varð þess var og sagði: „Hvers vegna eruð þið að tala um að þið hafið ekkert brauð, þið trúlitlu menn? 9 Skiljið þið þetta ekki enn eða munið þið ekki eftir brauðunum fimm handa þeim 5.000 og hve margar körfur þið tókuð saman?+ 10 Eða brauðunum sjö handa þeim 4.000 og hve margar stórar körfur þið tókuð saman?+ 11 Hvers vegna skiljið þið þetta ekki? Ég var ekki að tala við ykkur um brauð heldur að þið ættuð að vara ykkur á súrdeigi farísea og saddúkea.“+ 12 Þá skildu þeir að hann var ekki að vara við súrdeigi í brauði heldur því sem farísear og saddúkear kenndu.
13 Þegar Jesús var kominn í grennd við Sesareu Filippí spurði hann lærisveinana: „Hver heldur fólk að Mannssonurinn sé?“+ 14 Þeir svöruðu: „Sumir segja Jóhannes skírari,+ sumir Elía+ og aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“ 15 Hann spurði þá: „En þið, hver segið þið að ég sé?“ 16 Símon Pétur svaraði: „Þú ert Kristur,+ sonur hins lifandi Guðs.“+ 17 Jesús sagði þá við hann: „Vertu ánægður, Símon Jónasson, því að það var ekki maður* sem opinberaði þér þetta heldur faðir minn á himnum.+ 18 Og ég segi þér: Þú ert Pétur+ og á þessum kletti+ mun ég byggja söfnuð minn og hlið grafarinnar* munu ekki yfirbuga hann. 19 Ég gef þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörð hefur þegar verið bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörð hefur þegar verið leyst á himnum.“ 20 Síðan harðbannaði hann lærisveinunum að segja nokkrum að hann væri Kristur.+
21 Upp frá því fór Jesús að skýra fyrir lærisveinunum að hann yrði að fara til Jerúsalem og þola miklar þjáningar af hendi öldunganna, yfirprestanna og fræðimannanna. Hann yrði líflátinn en reistur upp á þriðja degi.+ 22 Pétur tók hann þá afsíðis, ávítaði hann og sagði: „Hlífðu þér, Drottinn. Þetta mun aldrei koma fyrir þig.“+ 23 Jesús sneri þá bakinu í Pétur og sagði við hann: „Farðu burt frá mér,* Satan! Þú leggur stein í götu mína því að þú hugsar ekki eins og Guð heldur eins og menn.“+
24 Jesús sagði nú við lærisveinana: „Sá sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kvalastaur* sinn og fylgi mér.+ 25 Hver sem vill bjarga lífi sínu týnir því en hver sem týnir lífi sínu vegna mín finnur það.+ 26 Hvaða gagn hefði maðurinn af því að eignast allan heiminn en týna lífi sínu?+ Eða hvað gæfi maðurinn í skiptum fyrir líf sitt?+ 27 Mannssonurinn kemur í dýrð föður síns ásamt englum sínum og þá endurgeldur hann hverjum og einum eftir breytni hans.+ 28 Trúið mér, sumir þeirra sem standa hér munu ekki deyja fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu.“+