Postulasagan
8 Sál lagði blessun sína yfir morðið á Stefáni.+
Sama dag hófust miklar ofsóknir gegn söfnuðinum í Jerúsalem. Allir nema postularnir dreifðust um alla Júdeu og Samaríu.+ 2 Guðræknir menn báru Stefán burt til að jarða hann og þeir syrgðu hann mjög. 3 En Sál réðst af hörku gegn söfnuðinum. Hann óð inn í hvert húsið á fætur öðru, dró út bæði karla og konur og lét varpa þeim í fangelsi.+
4 Þeir sem höfðu dreifst fóru um landið og boðuðu fagnaðarboðskap Guðs.+ 5 Filippus hélt til borgarinnar* Samaríu+ og tók að boða Krist þar. 6 Allur fjöldinn fylgdist með honum af athygli, hlustaði á hann og sá táknin sem hann gerði. 7 Margir voru haldnir óhreinum öndum og þeir fóru úr þeim með háu ópi.+ Auk þess læknuðust margir sem voru lamaðir og fatlaðir. 8 Það varð því mikill fögnuður í þeirri borg.
9 Í borginni var maður sem hét Símon. Hann hafði lagt stund á galdra og vakið hrifningu Samaríubúa. Hann þóttist vera mikill. 10 Allir, jafnt háir sem lágir, veittu honum mikla athygli og sögðu: „Þessi maður er kraftur Guðs, krafturinn mikli.“ 11 Áhugi þeirra stafaði af því að hann hafði heillað þá lengi með göldrum sínum. 12 En þegar Filippus boðaði fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs+ og nafn Jesú Krists tóku menn trú, bæði karlar og konur, og létu skírast.+ 13 Símon tók líka trú, lét skírast og fylgdi síðan Filippusi.+ Hann hreifst mjög þegar hann sá þau tákn og miklu máttarverk sem áttu sér stað.
14 Þegar postularnir í Jerúsalem fréttu að íbúar Samaríu hefðu tekið við orði Guðs+ sendu þeir Pétur og Jóhannes til þeirra. 15 Þeir fóru þangað og báðu Guð að gefa þeim heilagan anda+ 16 því að hann hafði enn ekki komið yfir nokkurn þeirra heldur höfðu þeir aðeins verið skírðir í nafni Drottins Jesú.+ 17 Þeir lögðu nú hendur yfir þá+ og þeir fengu heilagan anda.
18 Símon sá að menn fengu andann þegar postularnir lögðu hendur yfir þá og bauð þeim þá peninga 19 og sagði: „Gefið mér líka þetta vald svo að allir sem ég legg hendur yfir fái heilagan anda.“ 20 En Pétur svaraði: „Megi silfur þitt farast með þér fyrst þú hélst að þú gætir fengið gjöf Guðs fyrir peninga.+ 21 Þú átt enga hlutdeild í þessu því að Guð sér að hjarta þitt er ekki einlægt. 22 Þú skalt því iðrast þessarar illsku þinnar og biðja Jehóva* að fyrirgefa þér, ef mögulegt er, það illa sem þú hafðir í huga 23 því að ég sé að þú ert með eitur í hjarta* og ert þræll hins illa.“ 24 Símon svaraði þeim: „Biðjið Jehóva* að láta ekkert af því sem þið hafið sagt koma yfir mig.“
25 Þegar þeir höfðu boðað trúna rækilega og flutt orð Jehóva* sneru þeir aftur til Jerúsalem og boðuðu fagnaðarboðskapinn í mörgum þorpum Samverja á leiðinni.+
26 Engill Jehóva*+ talaði nú til Filippusar og sagði: „Stattu upp og haltu suður á veginn sem liggur ofan frá Jerúsalem til Gasa.“ (Vegurinn liggur um óbyggðir.) 27 Hann lagði þá af stað og kom þar auga á eþíópískan mann* sem var háttsettur við hirð Kandake drottningar Eþíópíumanna og var yfir allri fjárhirslu hennar. Hann hafði farið til Jerúsalem til að tilbiðja Guð+ 28 en var nú á heimleið og sat í vagni sínum og las upphátt úr Jesaja spámanni. 29 Andinn sagði þá við Filippus: „Gakktu að þessum vagni.“ 30 Filippus hljóp að vagninum, heyrði manninn lesa í Jesaja spámanni og spurði: „Skilurðu það sem þú ert að lesa?“ 31 „Hvernig ætti ég að geta það ef enginn leiðbeinir mér?“ svaraði hann og bað síðan Filippus að stíga upp í vagninn og setjast hjá sér. 32 Ritningarstaðurinn sem hann var að lesa var þessi: „Eins og sauður var hann leiddur til slátrunar, og eins og lamb þegir hjá þeim sem rýir það, þannig opnaði hann ekki munninn.+ 33 Hann var auðmýktur og fékk ekki að njóta réttlætis.+ Hver mun segja frá ætterni hans fyrst líf hans er tekið burt af jörðinni?“+
34 Hirðmaðurinn spurði nú Filippus: „Segðu mér, um hvern segir spámaðurinn þetta? Um sjálfan sig eða einhvern annan?“ 35 Filippus tók þá til máls, byrjaði á að ræða þennan ritningarstað og boðaði honum fagnaðarboðskapinn um Jesú. 36 Á leið sinni eftir veginum komu þeir að vatni nokkru. Þá sagði hirðmaðurinn: „Sjáðu, hér er vatn! Hvað hindrar mig í að skírast?“ 37* —— 38 Hann lét stöðva vagninn, þeir stigu báðir út í vatnið og Filippus skírði hann. 39 Þegar þeir stigu upp úr vatninu leiddi andi Jehóva* Filippus strax burt. Hirðmaðurinn sá hann ekki framar en fór fagnandi leiðar sinnar. 40 Filippus kom til Asdód og fór um svæðið og boðaði fagnaðarboðskapinn í hverri borg þar til hann kom til Sesareu.+