Fyrra bréfið til Korintumanna
7 Varðandi það sem þið skrifuðuð mér þá er best fyrir mann að snerta* ekki konu, 2 en vegna þess hve kynferðislegt siðleysi* er algengt skal hver maður hafa sína eiginkonu+ og hver kona sinn eiginmann.+ 3 Maðurinn gæti skyldu sinnar* gagnvart konunni og konan sömuleiðis gagnvart manni sínum.+ 4 Konan hefur ekki vald yfir eigin líkama heldur eiginmaður hennar. Eins hefur maðurinn ekki vald yfir eigin líkama heldur eiginkona hans. 5 Neitið ekki hvort öðru um þetta nema eftir samkomulagi um ákveðinn tíma þannig að þið hafið næði til að biðjast fyrir, og verið síðan saman aftur. Annars gæti Satan nýtt sér að ykkur skorti sjálfstjórn og freistað ykkar. 6 Það sem ég hef sagt er þó ekki skipun heldur aðeins möguleiki. 7 Ég vildi óska að allir væru eins og ég. En hver hefur fengið sína gjöf+ frá Guði, einn þessa og annar hina.
8 Nú segi ég hinum ógiftu og ekkjunum að það sé þeim fyrir bestu að vera áfram eins og ég er.+ 9 En ef þau hafa ekki stjórn á sjálfum sér þá gangi þau í hjónaband því að betra er að giftast en að brenna af girnd.+
10 Þeim sem eru í hjónabandi gef ég þær leiðbeiningar, þó ekki ég heldur Drottinn, að kona eigi ekki að fara frá eiginmanni sínum.+ 11 En ef hún fer frá honum skal hún vera ógift áfram eða sættast aftur við hann. Og maður á ekki að yfirgefa eiginkonu sína.+
12 En hinum segi ég, já, ég, ekki Drottinn:+ Ef bróðir á vantrúaða konu og hún er sátt við að búa áfram með honum á hann ekki að yfirgefa hana. 13 Og ef kona á vantrúaðan eiginmann og hann er sáttur við að búa áfram með henni á hún ekki að yfirgefa hann. 14 Vantrúaði maðurinn er helgaður vegna eiginkonu sinnar og vantrúaða konan helguð vegna bróðurins. Annars væru börn ykkar óhrein en nú eru þau heilög. 15 En ef vantrúaði makinn kýs að fara þá leyfið honum að fara. Hvorki bróðir né systir eru bundin við slíkar aðstæður því að Guð hefur kallað ykkur til að lifa í friði.+ 16 Hver veit, kona, nema þú getir bjargað eiginmanni þínum?+ Eða hvað veistu, maður, nema þú getir bjargað eiginkonu þinni?
17 Hver og einn haldi sig við það hlutskipti sem Jehóva* hefur gefið honum og hann hafði þegar Guð kallaði hann.+ Þessar leiðbeiningar gef ég í öllum söfnuðunum. 18 Sá sem var umskorinn þegar hann var kallaður+ ætti ekki að breyta því. Sá sem var óumskorinn þegar hann var kallaður ætti ekki að láta umskerast.+ 19 Það skiptir engu hvort maður er umskorinn eða óumskorinn.+ Það sem skiptir máli er að halda boðorð Guðs.+ 20 Hver og einn sé áfram eins og hann var þegar hann var kallaður.+ 21 Varstu þræll þegar þú varst kallaður? Hafðu ekki áhyggjur af því+ en gríptu tækifærið ef þú getur orðið frjáls. 22 Sá sem var þræll þegar Drottinn kallaði hann er leysingi* hans+ og sá sem var frjáls þegar hann var kallaður er að sama skapi þræll Krists. 23 Þið eruð verði keyptir.+ Verið ekki lengur þrælar manna. 24 Bræður,* hver og einn sé áfram frammi fyrir Guði eins og hann var þegar hann var kallaður.
25 Um þá sem hafa aldrei gifst* hef ég engin fyrirmæli frá Drottni en ég segi skoðun mína+ og þar sem Drottinn sýndi mér miskunn getið þið treyst því sem ég segi. 26 Miðað við núverandi erfiðleika tel ég best fyrir manninn að vera áfram eins og hann er. 27 Ertu bundinn eiginkonu? Reyndu þá ekki að losna.+ Ertu laus við konu? Leitaðu þér þá ekki að konu. 28 En þó að þú giftir þig syndgarðu ekki. Einhleyp manneskja* syndgar ekki þó að hún giftist. En þeir sem giftast verða fyrir erfiðleikum í lífinu, og ég vildi hlífa ykkur við þeim.
29 Auk þess segi ég, bræður og systur: Tíminn er orðinn naumur.+ Héðan í frá skulu þeir sem eru giftir vera eins og þeir væru það ekki, 30 þeir sem gráta eins og þeir grétu ekki, þeir sem fagna eins og þeir fögnuðu ekki, þeir sem kaupa eins og þeir ættu ekki það sem þeir keyptu 31 og þeir sem notfæra sér heiminn eins og þeir nýttu sér hann ekki til fulls, því að sviðsmynd þessa heims breytist. 32 Ég vil að þið séuð áhyggjulaus. Ógiftur maður er upptekinn af því sem viðkemur Drottni, hvernig hann geti þóknast honum. 33 En giftur maður er upptekinn af því sem viðkemur heiminum,+ hvernig hann geti þóknast eiginkonu sinni, 34 og hann er tvískiptur. Ógift kona eða hrein mey er upptekin af því sem viðkemur Drottni,+ að vera heilög bæði á huga og líkama. En gifta konan er upptekin af því sem viðkemur heiminum, hvernig hún geti þóknast eiginmanni sínum. 35 Ég segi þetta ykkur til gagns, ekki til að skerða frelsi ykkar* heldur til að hvetja ykkur til að gera það sem er viðeigandi og þjóna Drottni af öllu hjarta, stöðugt og án truflunar.
36 En ef einhver telur að hann hegði sér ósæmilega með því að vera áfram ógiftur* og æskublóminn er liðinn hjá er betra að hann gifti sig ef það er það sem hann vill. Hann syndgar ekki.+ 37 En sá sem er staðfastur í hjarta sínu og hefur ekki þessa þörf heldur hefur vald yfir vilja sínum og hefur ákveðið í hjarta sínu að vera ógiftur* gerir vel.+ 38 Þannig gerir sá vel sem giftist* en hinn gerir betur sem giftist ekki.+
39 Kona er bundin meðan eiginmaður hennar lifir.+ En ef maðurinn deyr er henni frjálst að giftast hverjum sem hún vill, þó aðeins ef hann þjónar Drottni.+ 40 En það er mín skoðun að hún sé hamingjusamari ef hún verður áfram eins og hún er. Og ég er sannfærður um að ég hafi anda Guðs.