Esekíel
23 Orð Jehóva kom aftur til mín: 2 „Mannssonur, einu sinni voru tvær konur, dætur sömu móður.+ 3 Þær lögðust í vændi í Egyptalandi.+ Allt frá unga aldri stunduðu þær vændi. Menn þukluðu brjóst þeirra og struku meyjarbarm þeirra. 4 Sú eldri hét Ohola* og systir hennar Oholíba.* Þær urðu eiginkonur mínar og þær fæddu syni og dætur. Ohola táknar Samaríu+ og Oholíba Jerúsalem.
5 Ohola lagðist í vændi+ meðan ég átti hana. Hún girntist ástríðufulla elskhuga sína,+ nágranna sína, Assýringa.+ 6 Þetta voru bláklæddir landstjórar og embættismenn – allt aðlaðandi ungir menn ríðandi hestum. 7 Hún hélt áfram að stunda vændi með öllum fremstu sonum Assýríu og óhreinkaði sig+ á viðbjóðslegum skurðgoðum* þeirra sem hún girntist. 8 Hún hætti ekki vændinu sem hún stundaði í Egyptalandi. Á æskuárum hennar höfðu menn lagst með henni, gælt við meyjarbarm hennar og ausið losta* sínum yfir hana.+ 9 Þess vegna gaf ég hana á vald ástríðufullra elskhuga hennar, sona Assýríu+ sem hún hafði girnst. 10 Þeir beruðu hana+ og tóku syni hennar og dætur.+ Þeir drápu hana með sverði og fullnægðu dómi yfir henni. Hún varð alræmd meðal kvenna.
11 Þegar Oholíba systir hennar sá það varð hún enn spilltari í losta sínum og gekk enn lengra í vændinu en systir hennar.+ 12 Hún girntist nágranna sína, syni Assýríu,+ prúðbúna landstjóra og embættismenn sem riðu hestum. Allt voru þetta aðlaðandi ungir menn. 13 Þegar hún óhreinkaði sig áttaði ég mig á að báðar höfðu farið sömu leiðina.+ 14 En hún gekk sífellt lengra í vændinu. Hún sá myndir af mönnum ristar á vegg, fagurrauðar myndir af Kaldeum 15 með belti um mittið og flaksandi vefjarhetti á höfði. Þeir litu út eins og hermenn, Babýloníumenn fæddir í landi Kaldea. 16 Hún girntist þá um leið og hún sá myndirnar og gerði út sendimenn til þeirra í Kaldeu.+ 17 Synir Babýlonar komu þá til ástarhvílu hennar og flekkuðu hana með losta* sínum. Eftir að hafa óhreinkast af þeim sneri hún baki við þeim með viðbjóði.
18 Þar sem hún hélt blygðunarlausu vændi sínu áfram og beraði sig+ sneri ég baki við henni með óbeit eins og ég hafði gert við systur hennar.+ 19 Hún gekk æ lengra í vændinu.+ Hún hugsaði til æskudaga sinna þegar hún stundaði vændi í Egyptalandi.+ 20 Hún girntist ástmenn sína eins og hjákonur manna sem eru reðurmiklir eins og asnar og með kynfæri á við stóðhesta. 21 Þú saknaðir ólifnaðar æskuáranna í Egyptalandi+ þegar menn þukluðu á barmi þínum og meyjarbrjóstum.+
22 Þess vegna, Oholíba, segir alvaldur Drottinn Jehóva: ‚Ég espa upp ástmenn þína,+ þá sem þú snerir baki við með óbeit, og ég stefni þeim gegn þér úr öllum áttum,+ 23 sonum Babýlonar+ og öllum Kaldeum,+ mönnunum frá Pekod,+ Sjóa og Kóa ásamt öllum sonum Assýríu. Allt eru þetta aðlaðandi ungir menn, landstjórar og embættismenn, hermenn og úrvalsmenn,* allir ríðandi hestum. 24 Þeir ráðast á þig á stríðsvögnum með drynjandi hjólum og með miklum fjölda hermanna búnum stórum skjöldum og smáum* og hjálmum á höfði. Þeir umkringja þig og ég gef þeim vald til að fella dóm, og þeir dæma þig eins og þeim þóknast.+ 25 Ég gef reiði minni útrás og þeir láta þig kenna á heift sinni. Þeir skera af þér nef og eyru og þeir sem eftir eru hjá þér falla fyrir sverði. Þeir taka frá þér syni þína og dætur og þeir sem eftir eru verða eldi að bráð.+ 26 Þeir rífa af þér fötin+ og hirða fallegu skartgripina þína.+ 27 Ég bind enda á ólifnað þinn og vændi+ sem hófst í Egyptalandi.+ Þú hættir að horfa á þá* og minnist ekki Egyptalands framar.‘
28 Alvaldur Drottinn Jehóva segir: ‚Nú ætla ég að láta þig í hendur þeirra sem þú hatar, þeirra sem þú snerir baki við með viðbjóði.+ 29 Þeir ausa yfir þig hatri sínu, taka allt sem þú hefur stritað fyrir+ og skilja þig eftir bera og nakta. Skammarleg nekt þín, siðleysi, ólifnaður og vændi verður afhjúpað.+ 30 Þannig fer fyrir þér af því að þú eltist við þjóðirnar eins og vændiskona,+ af því að þú óhreinkaðir þig á viðbjóðslegum skurðgoðum þeirra.+ 31 Þú hefur farið sömu leiðina og systir þín+ og ég læt þig fá bikar hennar.‘+
32 Þetta segir alvaldur Drottinn Jehóva:
‚Þú skalt drekka djúpan og víðan bikar systur þinnar+
og þú verður höfð að athlægi og háði en af því er bikarinn fullur.+
33 Þú verður drukkin og buguð af sorg.
Þetta er bikar hryllings og eyðingar,
bikar Samaríu systur þinnar.
34 Þú neyðist til að drekka hann í botn+ og naga leirbrotin úr honum
og skera síðan í brjóstin af sorg,
„því að ég hef talað“, segir alvaldur Drottinn Jehóva.‘
35 Þess vegna segir alvaldur Drottinn Jehóva: ‚Þar sem þú hefur gleymt mér og snúið algerlega baki við mér+ þarftu að taka afleiðingum ólifnaðar þíns og vændis.‘“
36 Jehóva sagði síðan við mig: „Mannssonur, ætlarðu að kveða upp dóm yfir Oholu og Oholíbu+ og leiða þeim fyrir sjónir hvílíkan viðbjóð þær hafa stundað? 37 Þær hafa haldið fram hjá*+ og eru með blóðugar hendur. Auk þess að halda fram hjá með viðbjóðslegum skurðgoðum sínum hafa þær brennt syni sína, sem þær fæddu mér, í eldi* til að næra skurðgoð sín.+ 38 Þar að auki hafa þær gert mér þetta: Sama dag óhreinkuðu þær helgidóm minn og þær vanhelguðu hvíldardaga mína. 39 Sama dag og þær slátruðu sonum sínum og færðu þá viðbjóðslegum skurðgoðum sínum að fórn+ gengu þær inn í helgidóm minn til að vanhelga hann.+ Þetta gerðu þær í húsi mínu. 40 Þær sendu jafnvel eftir mönnum til fjarlægra staða.+ Þegar þeir nálguðust þvoðir þú þér, málaðir þig um augun og settir á þig skartgripi.+ 41 Þú settist á glæsilegan legubekk+ og fyrir framan þig var dúkað borð+ þar sem þú settir reykelsi mitt+ og olíu.+ 42 Þar heyrðist kliður í glaðværum hópi manna og meðal þeirra voru drykkjumenn sem sóttir höfðu verið í óbyggðirnar. Mennirnir drógu armbönd á handleggi kvennanna og settu fallegar kórónur á höfuð þeirra.
43 Þá sagði ég um konuna sem var illa farin af framhjáhaldi: ‚Nú heldur hún vændinu áfram.‘ 44 Og mennirnir gengu inn til hennar eins og menn ganga inn til vændiskonu. Þannig gengu menn inn til Oholu og Oholíbu, þessara lauslátu kvenna. 45 En réttlátir menn munu dæma hana eins og hún á skilið fyrir framhjáhald sitt+ og blóðsúthellingar.+ Konurnar eru ótrúar og með blóðugar hendur.+
46 Alvaldur Drottinn Jehóva segir: ‚Her verður stefnt gegn þeim og það veldur því að menn hryllir við þeim og þær verða rændar.+ 47 Hermennirnir grýta þær+ og höggva með sverði. Þeir drepa syni þeirra og dætur+ og brenna hús þeirra.+ 48 Ég bind enda á ólifnaðinn í landinu og allar konur draga lærdóm af því og líkja ekki eftir ólifnaði ykkar.+ 49 Þeir láta ykkur taka afleiðingum ólifnaðar ykkar og synda sem þið drýgðuð með viðbjóðslegum skurðgoðum ykkar. Þið munuð komast að raun um að ég er alvaldur Drottinn Jehóva.‘“+