Lærum að þekkja vegi Jehóva
„Gjör mér kunna þína vegu, að ég megi þekkja þig.“ — 2. MÓSEBÓK 33:13.
1, 2. (a) Hvers vegna brást Móse við eins og hann gerði þegar hann sá Egypta misþyrma hebreskum manni? (b) Hvað þurfti Móse að læra svo að Jehóva gæti notað hann í þjónustu sinni?
MÓSE var alinn upp á heimili faraós og fræddur í speki sem valdastétt Egypta mat mikils. Hann gerði sér samt grein fyrir því að hann var ekki Egypti heldur átti hebreska foreldra. Fertugur að aldri fór hann út að vitja bræðra sinna, Ísraelsmanna. Þegar hann sá egypskan mann misþyrma hebreskum manni stóð honum ekki á sama og drap Egyptann. Móse tók málstað þjóðar Jehóva. Hann hélt að Jehóva væri að nota sig til að frelsa bræður sína. (Postulasagan 7:21-25; Hebreabréfið 11:24, 25) Þegar þetta fréttist leit valdastétt Egypta svo á að Móse hefði gert uppreisn og hann varð að flýja svo að hann yrði ekki tekinn af lífi. (2. Mósebók 2:11-15) Móse þurfti að kynnast vegum Jehóva betur svo að Jehóva gæti notað hann. Var hægt að kenna Móse? — Sálmur 25:9.
2 Næstu 40 árin bjó Móse í útlegð sem fjárhirðir. Þótt hebreskir bræður hans kynnu ekki að meta hann lét hann ekki biturð ná yfirhöndinni heldur tók því sem Guð hafði leyft að henti hann. Þótt mörg ár hefðu liðið án þess að hann fengi neina augljósa viðurkenningu leyfði hann Jehóva að móta sig. Seinna skrifaði hann: „Maðurinn Móse var einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.“ (4. Mósebók 12:3) Þetta var ekki hans persónulega álit heldur skrifaði hann þetta undir innblæstri heilags anda Guðs. Jehóva notaði Móse á einstakan hátt. Hann blessar okkur einnig ef við leitumst við að sýna hógværð. — Sefanía 2:3.
Móse fær verkefni
3, 4. (a) Hvaða verkefni fékk Jehóva Móse? (b) Hvaða stuðning fékk Móse?
3 Dag nokkurn gerðist það við Hórebfjall á Sínaískaga að engill talaði við Móse fyrir munn Jehóva. Móse var sagt: „Ég hefi sannlega séð ánauð þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt hversu hún kveinar undan þeim, sem þrælka hana; ég veit, hversu bágt hún á. Ég er ofan farinn til að frelsa hana af hendi Egypta og til að leiða hana úr þessu landi og til þess lands, sem er gott og víðlent, til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi.“ (2. Mósebók 3:2, 7, 8) Nú hafði Jehóva verkefni handa Móse en það þurfti að sinna því eins og hann bauð.
4 Engill Jehóva hélt áfram og sagði: „Far þú nú. Ég vil senda þig til Faraós, og þú skalt leiða þjóð mína, Ísraelsmenn, út af Egyptalandi.“ Móse hikaði. Honum fannst hann ekki hæfur til verksins og hann var það ekki einn og sér. En Jehóva fullvissaði hann: „Sannlega mun ég vera með þér.“ (2. Mósebók 3:10-12) Jehóva gaf Móse kraft til að gera stórbrotin tákn svo að hann gæti sannað að hann væri sendur af honum. Aron, bróðir Móse, átti að fara með honum og vera talsmaður hans. Jehóva ætlaði að segja þeim hvað þeir ættu að segja og gera. (2. Mósebók 4:1-17) Myndi Móse sinna þessu verkefni trúfastlega?
5. Hvernig reyndu Ísraelsmenn á þolrifin í Móse?
5 Í fyrstu trúðu öldungar Ísraels Móse og Aroni. (2. Mósebók 4:29-31) En fljótlega ásökuðu „tilsjónarmenn Ísraelsmanna“ Móse og bróður hans um að gera þá „illa þokkaða“ hjá faraó og þjónum hans. (2. Mósebók 5:19-21; 6:9) Þegar Ísraelsmenn yfirgáfu Egyptaland og sáu Egypta elta sig á vögnum urðu þeir hræddir. Þeim fannst þeir vera innikróaðir þar sem Rauðahafið var fram undan og stríðsvagnar fyrir aftan þá og kenndu Móse um. Hvernig hefðir þú brugðist við? Þótt Ísraelsmenn ættu enga báta fékk Móse bendingu frá Jehóva um að hvetja fólkið til að halda áfram. Síðan klauf Guð Rauðahafið svo að Ísraelsmenn gátu gengið þurrum fótum eftir hafsbotninum. — 2. Mósebók 14:1-22.
Þýðingarmeira en frelsun
6. Á hvað lagði Jehóva áherslu þegar hann fól Móse að leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi?
6 Þegar Jehóva fékk Móse þetta verkefni lagði hann áherslu á mikilvægi nafn síns. Nauðsynlegt var að virða það og þann sem það bar. Móse spurði Jehóva um nafn hans og Jehóva svaraði: „Ég verð sá sem ég verð.“ (2. Mósebók 3:13, 14, NW) Auk þess átti Móse að segja Ísraelsmönnum: „Jahve [eða Jehóva], Guð feðra yðar, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs sendi mig til yðar.“ Síðan bætti Jehóva við: „Þetta er nafn mitt um aldur og þetta er heiti mitt frá kyni til kyns.“ (2. Mósebók 3:15, Biblían 1908) Þjónar Guðs um allan heim þekkja hann enn þá undir nafninu Jehóva. — Jesaja 12:4, 5; 43:10-12.
7. Hvað hvatti Guð Móse til að gera þrátt fyrir hroka faraós?
7 Móse og Aron komu fram fyrir faraó og færðu honum boð í nafni Jehóva. En faraó sagði hrokafullur: „Hver er Jahve, að eg skuli hlýða honum til þess að leyfa Ísrael að fara; eg þekki ekki Jahve og Ísrael leyfi eg eigi heldur að fara.“ (2. Mósebók 5:1, 2, Biblían 1908) Faraó reyndist vera bæði þrjóskur og svikull en samt sem áður hvatti Jehóva Móse til að færa honum boð aftur og aftur. (2. Mósebók 7:14-16, 20-23; 8:1, 2, 20) Móse sá að faraó var orðinn ergilegur. Hefði það eitthvað að segja að fara aftur til fundar við hann? Ísraelsmenn þráðu frelsun en faraó var harðákveðinn í að banna þeim að fara. Hvað hefðir þú gert?
8. Hvaða gagn hlaust af því að Jehóva tók á málum faraós eins og hann gerði og hvaða áhrif ættu þessir atburðir að hafa á okkur?
8 Móse færði faraó enn ein boðin og sagði: „Svo segir Jahve, Guð Hebrea: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér.“ (2. Mósebók 9:13, Biblían 1908) Guð sagði líka: „Ég hefði þegar getað rétt út hönd mína og slegið þig og fólk þitt með drepsótt, svo að þú yrðir afmáður af jörðinni. En þess vegna hefi ég þig standa látið, til þess að ég sýndi þér mátt minn og til þess að nafn mitt yrði kunngjört um alla veröld.“ (2. Mósebók 9:14-16) Með dómi sínum yfir hinum þrjóska faraó ætlaði Jehóva að sýna mátt sinn þannig að það yrði öllum til viðvörunar sem standa gegn honum, þar á meðal Satan djöflinum sem Jesús Kristur kallaði síðar ‚höfðingja heimsins‘. (Jóhannes 14:30; Rómverjabréfið 9:17-24) Nafn Jehóva var kunngert um alla jörðina eins og spáð hafði verið. Langlyndi hans leiddi til frelsunar Ísraelsmanna og fjölda annarra sem sameinuðust þeim í tilbeiðslu á honum. (2. Mósebók 9:20, 21; 12:37, 38) Síðan þá hafa milljónir manna, sem hafa tekið upp sanna tilbeiðslu, notið góðs af því að nafn hans hefur verið kunngert.
Samskipti við erfiða þjóð
9. Hvernig vanvirtu Ísraelsmenn Jehóva?
9 Hebrear þekktu nafn Guðs og Móse notaði nafnið þegar hann talaði við þá. En þeir sýndu ekki alltaf þeim sem bar nafnið næga virðingu. Stuttu eftir að Jehóva frelsaði þá fyrir kraftaverk út úr Egyptalandi fundu þeir ekki drykkjarhæft vatn. Hvað gerðist þá? Þeir mögluðu gegn Móse. Næst kvörtuðu þeir undan matnum. Móse varaði þá við að kvartanir þeirra beindust ekki aðeins gegn honum og Aroni heldur gegn Jehóva. (2. Mósebók 15:22-24; 16:2-12) Við Sínaífjall gaf Jehóva Ísraelsmönnum lögmálið og birti þeim samtímis yfirnáttúrleg tákn. En fólkið óhlýðnaðist og bjó til gullkálf sem það tilbað og sagðist vera að halda „hátíð Drottins“. — 2. Mósebók 32:1-9.
10. Af hverju er beiðni Móse í 2. Mósebók 33:13 sérstaklega áhugaverð fyrir kristna umsjónarmenn nú á dögum?
10 Hvernig átti Móse að taka á málum þjóðar sem Jehóva sagði sjálfur að væri harðsvíruð? Móse bað Jehóva: „Hafi ég nú fundið náð í augum þínum, þá bið ég: Gjör mér kunna þína vegu, að ég megi þekkja þig, svo að ég finni náð í augum þínum.“ (2. Mósebók 33:13) Kristnir umsjónarmenn í söfnuði Votta Jehóva nú á dögum annast mun auðmjúkari hjörð. Þeir biðja samt á svipaðan hátt: „Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.“ (Sálmur 25:4) Þegar umsjónarmenn þekkja vegi Jehóva eiga þeir auðveldara með að taka á málum í samræmi við orð hans og persónuleika.
Hvers vænti Jehóva af þjóðinni?
11. Hvaða viðmiðunarreglur gaf Jehóva Móse og hvers vegna eru þær áhugaverðar fyrir okkur?
11 Við Sínaífjall tók Jehóva munnlega fram hvers hann vænti af þjóðinni. Seinna fékk Móse tvær steintöflur og á þær voru rituð boðorðin tíu. Þegar hann fór niður af fjallinu sá hann Ísraelsmenn tilbiðja gullkálf og varð svo reiður að hann henti töflunum frá sér og braut þær. Jehóva skrifaði boðorðin tíu aftur á steintöflur sem Móse hjó út. (2. Mósebók 32:19; 34:1) Lögin voru þau sömu og hann fékk í fyrstu og hann átti að breyta í samræmi við þau. Guð sýndi Móse einnig hvers konar persóna hann er svo að Móse gæti vitað hvernig hann ætti að hegða sér sem fulltrúi hans. Kristnir menn eru ekki undir Móselögunum en margar meginreglur felast í því sem Jehóva sagði Móse og þær hafa ekki breyst og gilda enn fyrir þá sem þjóna Jehóva. (Rómverjabréfið 6:14; 13:8-10) Lítum á nokkrar þeirra.
12. Hvaða áhrif átti krafa Jehóva um óskipta hollustu að hafa á Ísraelsmenn?
12 Veitið Jehóva óskipta hollustu. Ísraelsmenn voru viðstaddir þegar Jehóva lýsti því yfir að hann krefðist óskiptrar hollustu. (2. Mósebók 20:2-5) Þeir höfðu séð ótal sannanir fyrir því að Jehóva væri hinn sanni Guð. (5. Mósebók 4:33-35) Jehóva kom því skýrt til skila að hann umbæri aldrei skurðgoðadýrkun eða spíritisma af neinu tagi meðal þjóðar sinnar, hvað sem aðrar þjóðir gerðu. Hollusta hennar átti ekki aðeins að vera á yfirborðinu. Öll þjóðin átti að elska Jehóva af öllu hjarta, allri sálu og öllum mætti. (5. Mósebók 6:5, 6) Þetta átti að hafa áhrif á tal þeirra, hegðun og í rauninni öll svið lífsins. (3. Mósebók 20:27; 24:15, 16; 26:1) Jesús Kristur kom því einnig skýrt til skila að Jehóva krefst óskiptrar hollustu. — Markús 12:28-30; Lúkas 4:8.
13. Af hverju hefðu Ísraelsmenn átt að hlýða Guði kostgæfilega og hvað hvetur okkur til að hlýða honum? (Prédikarinn 12:13)
13 Hlýðið boðorðum Jehóva kostgæfilega. Minna þurfti Ísraelsmenn á að þeir hefðu lofað að hlýða Jehóva kostgæfilega þegar þeir stofnuðu sáttmálasamband við hann. Þeir höfðu mikið frelsi í persónulegum málum en þurftu að hlýða grandgæfilega þeim boðorðum sem Jehóva hafði gefið þeim. Þannig myndu þeir sanna kærleika sinn til Guðs. Það hefði líka blessanir í för með sér fyrir þá og afkomendur þeirra því að allar kröfur Guðs voru þeim til góðs. — 2. Mósebók 19:5-8; 5. Mósebók 5:27-33; 11:22, 23.
14. Hvernig lagði Guð áherslu á mikilvægi þess að Ísraelsmenn létu andleg mál hafa forgang í lífi sínu?
14 Látið andleg mál hafa forgang. Þótt Ísraelsmenn þyrftu að sinna líkamlegum þörfum sínum mátti það ekki skyggja á andleg mál. Þeir áttu ekki að helga líf sitt eftirsókn eftir veraldlegum gæðum. Jehóva tók frá tíma í hverri viku sem hann lýsti heilagan. Þennan tíma átti eingöngu að nota til að sinna því sem tengdist tilbeiðslunni á hinum sanna Guði. (2. Mósebók 35:1-3; 4. Mósebók 15:32-36) Þar að auki tók hann frá tíma á hverju ári fyrir helgar samkomur. (3. Mósebók 23:4-44) Þessar samkomur gáfu fólki tækifæri til að ræða um stórvirki Jehóva, fræðast um vegi hans og sýna honum þakklæti fyrir alla gæsku hans. Þjóðin myndi styrkjast í kærleika og guðsótta og fá hjálp til að ganga á vegum Jehóva ef hún tjáði hollustu sína í garð hans. (5. Mósebók 10:12, 13) Þær heilnæmu meginreglur sem felast í þessum fyrirmælum gagnast þjónum Guðs nú á dögum. — Hebreabréfið 10:24, 25.
Mettu eiginleika Jehóva að verðleikum
15. (a) Af hverju var gagnlegt fyrir Móse að þekkja eiginleika Jehóva og meta þá að verðleikum? (b) Hvaða spurningar hjálpa okkur að hugleiða vandlega eiginleika Jehóva?
15 Með því að þekkja eiginleika Jehóva og meta þá að verðleikum átti Móse auðveldara með að eiga samskipti við þjóðina. Í 2. Mósebók 34:5-7 segir að Guð hafi gengið fram hjá Móse og kallað: „Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir, en lætur þeirra þó eigi með öllu óhegnt, heldur vitjar misgjörða feðranna á börnum og barnabörnum, já í þriðja og fjórða lið.“ Gefðu þér tíma til að hugleiða þessi orð. Spyrðu sjálfan þig: „Hvað felur hver og einn eiginleiki í sér? Hvernig sýndi Jehóva hann? Hvernig geta kristnir umsjónarmenn sýnt þennan eiginleika? Hvaða áhrif ætti þessi eiginleiki að hafa á það sem við gerum?“ Tökum örfá dæmi.
16. Hvernig getum við orðið þakklátari fyrir miskunn Guðs og hvers vegna er það mikilvægt?
16 Jehóva er „miskunnsamur og líknsamur Guð“. Ef þú átt uppsláttarritið Insight on the Scriptures væri gott að lesa það sem þar segir um miskunn (mercy). Einnig er hægt að leita upplýsinga um miskunn í efnisskrá Varðturnsfélagsins eða á geisladisknum Watchtower Library.a Notaðu orðstöðulykil til að finna ritningarstaði sem fjalla um miskunn. Þú munt komast að raun um að miskunn Jehóva lýsir sér ekki bara í vægari refsingu heldur birtist hún líka í innilegri umhyggju hans. Það er vegna miskunnar sinnar sem Guð veitir fólki sínu aðstoð. Þessu til sönnunar annaðist Guð Ísraelsþjóðina bæði andlega og líkamlega á göngunni til fyrirheitna landsins. (5. Mósebók 1:30-33; 8:4) Jehóva var miskunnsamur og fyrirgaf þjóðinni þegar hún gerði mistök. Fyrst hann sýndi þjónum sínum til forna miskunn hafa þjónar hans núna enn ríkari ástæðu til að vera miskunnsamir í garð hver annars. — Matteus 9:13; 18:21-35.
17. Hvernig getur skilningur okkar á líknsemi Jehóva orðið sannri tilbeiðslu til eflingar?
17 Oft er talað um líknsemi eða náð Jehóva í sömu andránni og miskunn hans. Ef þú átt orðabók skaltu lesa skýringuna við orðið „líknsamur“. Berðu skýringuna saman við ritningarstaði sem fjalla um að Jehóva sé líknsamur eða náðugur. Líknsemi eða miskunn Jehóva birtist til dæmis í ástríkri umhyggju hans fyrir bágstöddum þjónum sínum. (2. Mósebók 22:26, 27) Í hvaða landi sem er geta útlendingar eða aðrir staðið illa að vígi. Þegar Jehóva kenndi Ísraelsmönnum að vera óhlutdrægir og sýna útlendingum og bágstöddum góðvild minnti hann þá á að þeir hefðu verið útlendingar í Egyptalandi. (5. Mósebók 24:17-22) En hvað um þjóna Guðs nú á dögum? Ef við sýnum líknsemi sameinar það okkur og laðar aðra að tilbeiðslunni á Jehóva. — Postulasagan 10:34, 35; Opinberunarbókin 7:9, 10.
18. Hvað lærum við af því sem Jehóva sagði Ísraelsmönnum um siði þjóðanna í kring?
18 Umhyggja Ísraelsmanna fyrir fólki af öðrum þjóðum átti hins vegar ekki að vera sterkari en kærleikur þeirra til Jehóva og siðferðisreglna hans. Þess vegna var Ísraelsmönnum kennt að taka hvorki upp siði þjóðanna í kring né trúarvenjur þeirra eða siðlausan lífsmáta. (2. Mósebók 34:11-16; 5. Mósebók 7:1-4) Þetta á líka við okkur nú á dögum. Við eigum að vera heilög eins og Jehóva Guð er heilagur. — 1. Pétursbréf 1:15, 16.
19. Hvernig getur það verið þjónum Guðs til verndar að þekkja viðhorf hans til rangrar breytni?
19 Jehóva vildi að Móse þekkti vegi sína og þess vegna tók hann skýrt fram að þótt hann hefði ekki velþóknun á syndum væri hann seinn til reiði. Hann gefur fólki tíma til að kynnast kröfum sínum og fylgja þeim. Jehóva fyrirgefur þeim sem iðrast en hlífir fólki ekki við verðskuldaðri refsingu vegna alvarlegrar syndar. Hann varaði Móse við því að breytni Ísraelsmanna gæti annaðhvort haft góð eða slæm áhrif á komandi kynslóðir. Ef þjónar Jehóva þekkja og kunna að meta vegi hans kenna þeir honum ekki um aðstæður sem þeir kölluðu sjálfir yfir sig eða draga þá ályktun að hann sé seinn á sér.
20. Hvað getur hjálpað okkur að eiga góð samskipti við trúsystkini og þá sem við hittum í boðunarstarfinu? (Sálmur 86:11)
20 Ef þú vilt kynnast Jehóva og vegum hans betur skaltu halda áfram að rannsaka og hugleiða það sem þú lest í Biblíunni. Kynntu þér vandlega hinar ýmsu hrífandi hliðar á persónuleika Jehóva. Hugleiddu í bænarhug hvernig þú getur líkt eftir Guði og lagað líf þitt betur að fyrirætlun hans. Þetta getur hjálpað þér að forðast ýmsar tálgryfjur, eiga góð samskipti við trúsystkini og aðstoða aðra við að kynnast stórkostlegum Guði okkar og læra að elska hann.
[Neðanmáls]
a Allt gefið út af Vottum Jehóva.
Hvað lærðir þú?
• Hvers vegna var mikilvægt fyrir Móse að sýna hógværð og hvers vegna er nauðsynlegt að við gerum það?
• Hvað ávannst með því að koma aftur og aftur fram fyrir faraó og flytja honum orð Jehóva?
• Hvaða góðu meginreglur, sem Jehóva kenndi Móse, eiga líka erindi til okkar?
• Hvernig getum við dýpkað skilning okkar á eiginleikum Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Móse flutti faraó orð Jehóva trúfastlega.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Jehóva lét Móse vita hverjar kröfur sínar væru.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Hugleiddu eiginleika Jehóva.