Umbun Jobs — Uppspretta vonar
„[Jehóva] blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri.“ — JOBSBÓK 42:12.
1. Hvað gerir Jehóva fyrir þjóna sína, jafnvel þegar prófraunir veikja þá stórlega?
JEHÓVA ‚umbunar þeim er hans leita.‘ (Hebreabréfið 11:6) Hann hvetur líka trúa þjóna sína til að bera hugrakkir vitni, jafnvel þótt prófraunir hafi veikt þá svo að þeir séu nær dauða en lífi. (Jobsbók 26:5, NW; Opinberunarbókin 11:3, 7, 11) Þannig var það með hinn sárþjáða Job. Þótt þrír falskir huggarar baknöguðu hann lét hann ekki ótta við menn þagga niður í sér heldur bar djarflega vitni.
2. Hvernig hafa vottar Jehóva komið út úr prófraunum sínum, ofsóknum og erfiðleikum?
2 Margir nútímavottar Jehóva hafa mátt þola svo miklar ofsóknir og erfiðleika að þeir hafa verið nær dauða en lífi. (2. Korintubréf 11:23) En þeir hafa líkt og Job sýnt kærleika til Guðs og verið ráðvandir. (Esekíel 14:14, 20) Þeir hafa líka komið sterkir og vonglaðir út úr prófraunum sínum, staðráðnir í að þóknast Jehóva og bera djarflega vitni.
Job ber djarflega vitni
3. Hvers konar vitni bar Job í lokaræðu sinni?
3 Í lokaræðu sinni gaf Job jafnvel enn meiri vitnisburð en hann hafði áður gefið. Hann þaggaði fullkomlega niður í falshuggurum sínum. Með napurri kaldhæðni svaraði hann einum þeirra: „En hvað þú hefir hjálpað hinum þróttlausa!“ (Jobsbók 26:2) Job lofsöng Jehóva sem lætur jörðina svífa í tómum geimnum með krafti sínum og hengir vatnsþung ský yfir jörðinni. (Jobsbók 26:7-9) Þó sagði Job að slík undur væru „aðeins ystu takmörk vega hans.“ — Jobsbók 26:14.
4. Hvað sagði Job um ráðvendni og hvers vegna gat hann komist þannig að orði?
4 Job var sannfærður um sakleysi sitt og sagði: „Þar til er ég gef upp andann, læt ég ekki taka frá mér sakleysi mitt.“ (Jobsbók 27:5) Hann var saklaus af þeim falskærum, sem hann var borinn, og hafði að ósekju orðið fyrir þeim hörmungum sem hann mátti þola. Job vissi að Jehóva heyrir ekki bænir fráhvarfsmanna en umbunar ráðvöndum mönnum. Það minnir okkur á að bráðlega mun stormur Harmagedónstríðsins sópa hinum óguðlegu úr valdastólum sínum og þeir munu ekki komast undan óvæginni hönd Guðs. Þangað til heldur fólk Jehóva áfram að framganga í ráðvendni. — Jobsbók 27:11-23.
5. Hvernig skilgreindi Job sanna visku?
5 Við getum séð hina veraldarvísu þremenninga fyrir okkur þar sem þeir leggja við hlustirnar er Job bendir á að maðurinn hafi notað hæfileika sína til að finna gull, silfur og aðra fjársjóði í jörðu og hafi. En, bætti hann við, „að eiga spekina er meira um vert en perlur.“ (Jobsbók 28:18) Falshuggarar Jobs gátu ekki keypt sér sanna visku. Uppspretta hennar er skapari vindsins, regnsins, eldingarinnar og þrumunnar. Já, „að óttast [Jehóva]“ með djúpri lotningu, „það er speki, og að forðast illt — það er viska.“ — Jobsbók 28:28.
6. Af hverju talaði Job um fyrri hluta ævi sinnar?
6 Job hætti ekki að þjóna Jehóva þótt þjáður væri. Í stað þess að snúa baki við hinum hæsta þráði þessi ráðvandi maður ‚vináttu Guðs‘ á ný. (Jobsbók 29:4) Job var ekki að stæra sig er hann sagði frá því hvernig hann ‚bjargaði bágstöddum, íklæddist réttlætinu, og var faðir hinna snauðu.‘ (Jobsbók 29:12-16) Hann var einfaldlega að lýsa staðreyndum úr ævi sinni sem trúfastur þjónn Jehóva. Hefur þú byggt upp slíkan orðstír? Job var auðvitað líka að afhjúpa að ákærur hinna þriggja skinhelgu svikara væru rangar.
7. Hvers konar maður hafði Job verið?
7 Job var athlægi ungra manna, en hann hefði ekki ‚virt feður þeirra þess að setja þá hjá fjárhundum sínum.‘ Hann var fyrirlitinn og það var hrækt á hann. Þótt sárkvalinn væri var honum engin tillitssemi sýnd. (Jobsbók 30:1, 10, 30) En þar eð hann var fullkomlega trúr Jehóva hafði hann hreina samvisku og gat sagt: „Vegi Guð mig á rétta vog, til þess að hann viðurkenni sakleysi mitt!“ (Jobsbók 31:6) Job var hvorki hórdómsmaður né bragðarefur og hafði ekki vanrækt að hjálpa bágstöddum. Þótt ríkur hefði verið treysti hann aldrei á efnislegan auð sinn. Og Job hafði aldrei dýrkað lífvana hluti svo sem tunglið. (Jobsbók 31:26-28) Hann treysti Guði og gaf gott fordæmi í ráðvendni. Þrátt fyrir allar þjáningar sínar og nærveru falshuggaranna varði Job sig snilldarlega og gaf afbragðsvitnisburð. Er hann hafði lokið máli sínu horfði hann til Guðs sem dómara síns og treysti á umbun hans. — Jobsbók 31:35-40.
Elíhú tekur til máls
8. Hver var Elíhú og hvernig sýndi hann bæði virðingu og hugrekki?
8 Ungi maðurinn Elíhú var nærstaddur en hann var afkomandi Búss Nahorssonar og þar með fjarskyldur ættingi Abrahams, vinar Jehóva. (Jesaja 41:8) Elíhú sýndi sér eldri mönnum virðingu með því að hlusta á báðar hliðar kappræðunnar, en hann var djarfmæltur er hann benti á hvar hallað hefði verið réttu máli. Til dæmis reiddist hann Job sem „taldi sig hafa á réttu að standa gagnvart Guði.“ Reiðastur var Elíhú þó falshuggurunum. Þeir virtust upphefja Guð með orðum sínum en í rauninni voru þeir að lasta hann með því að taka málstað Satans í deilunni. „Fullur af orðum“ og knúinn af heilögum anda var Elíhú óhlutdrægur vottur um Jehóva. — Jobsbók 32:2, 18, 21.
9. Hvernig gaf Elíhú í skyn að Job yrði reistur við?
9 Job var farinn að hugsa meira um réttlætingu sjálfs sín en réttlætingu Guðs. Hann hafði meira að segja deilt við Guð. En þegar sál Jobs stóð við dauðans dyr fékk hann þó von um að ná aftur heilsu. Hvernig þá? Elíhú var knúinn til að segja að Jehóva sendi Job þessi boð: „‚Endurleys hann og lát hann eigi stíga niður í gröfina, ég hefi fundið lausnargjaldið,‘ þá svellur hold hans af æskuþrótti, hann snýr aftur til æskudaga sinna.“ — Jobsbók 33:24, 25.
10. Að hvaða marki átti að reyna Job en hvað megum við vera viss um með hliðsjón af 1. Korintubréfi 10:13?
10 Elíhú leiðrétti Job fyrir að segja að það væri ekkert gagn í því að vera í vinfengi við Guð og varðveita ráðvendni. Hann sagði: „Fjarri fer því, að Guð aðhafist illt og hinn Almáttki fremji ranglæti. Nei, hann geldur manninum verk hans.“ Job hljóp á sig með því að leggja megináherslu á sitt eigið réttlæti, en hann gerði það án nægrar þekkingar og innsæis. Elíhú bætti við: „Ó að Job mætti reyndur verða æ að nýju [„til hins ítrasta,“ NW], af því að hann svarar eins og illir menn svara.“ (Jobsbók 34:10, 11, 35, 36) Á sama hátt er aðeins hægt að fullreyna trú okkar og ráðvendni ef við erum ‚reynd til hins ítrasta‘ á einhvern hátt. En ástríkur, himneskur faðir okkar lætur ekki freista okkar um megn fram. — 1. Korintubréf 10:13.
11. Hvað ættum við að muna þegar við lendum í mjög erfiðum prófraunum?
11 Elíhú sýndi aftur fram á að Job legði of mikla áherslu á sitt eigið réttlæti. Athyglin ætti að beinast að mikilfenglegum skapara okkar. (Jobsbók 35:2, 6, 10) Guð „viðheldur ekki lífi hins óguðlega, en veitir hinum voluðu rétt þeirra,“ sagði Elíhú. (Jobsbók 36:6) Enginn getur fyrirskipað Guði veg hans og sagt að hann hafi verið ranglátur. Hann er háleitari en við fáum skilið og tala ára hans órannsakanleg, án enda. (Jobsbók 36:22-26) Þegar við erum reynd til hins ítrasta skulum við muna að hinn eilífi Guð okkar er réttlátur og mun umbuna okkur fyrir trúfasta þjónustu sér til dýrðar.
12. Hvað gefa lokaorð Elíhús til kynna um dómsúrskurð Guðs yfir hinum illu?
12 Stormur er í aðsigi meðan Elíhú talar. Hjarta hans titrar og tekur kipp er stormurinn nálgast. Hann talar um hin miklu verk Jehóva og segir: „Hlýð þú á þetta, Job, stattu kyrr og gef gaum að dásemdum Guðs.“ Líkt og Job þurfum við að íhuga hin undursamlegu verk og ógurlega tign Guðs. „Vér náum eigi til hins Almáttka,“ segir Elíhú, „til hans, sem er mikill að mætti. En réttinn og hið fulla réttlæti vanrækir hann ekki. Fyrir því óttast mennirnir hann.“ (Jobsbók 37:1, 14, 23, 24) Lokaorð Elíhús minna okkur á að þegar Guð fullnægir bráðlega dómi á hinum óguðlegu, mun hann ekki vanrækja rétt og réttlæti heldur varðveita þá sem óttast hann og tilbiðja með lotningu. Hvílík sérréttindi að vera í hópi slíkra ráðvandra manna er viðurkenna Jehóva sem alheimsdrottin! Vertu þolgóður eins og Job og láttu djöfulinn aldrei svipta þig blessunarríkri stöðu þinni meðal þessara hamingjusömu manna.
Jehóva svarar Job
13, 14. (a) Um hvað spurði Jehóva Job út úr? (b) Hvað getum við lært af öðrum spurningum sem Guð spurði Job?
13 Job hlýtur að hafa orðið yfir sig undrandi þegar Jehóva talaði til hans út úr storminum! Þessi stormur var frá Guði kominn, ólíkt fellibylnum sem Satan notaði til að fella húsið og drepa börn Jobs. Job var orðlaus er Guð spurði: „Hvar varst þú, þegar ég grundvallaði jörðina? . . . Hver lagði hornstein hennar, þá er morgunstjörnurnar sungu gleðisöng allar saman og allir guðssynir fögnuðu?“ (Jobsbók 38:4, 6, 7) Jehóva spurði Job spjörunum úr um hafið, skýjaklæði þess, morgunroðann, hlið dauðans, ljósið og myrkrið og stjörnumerkin. Job gat engu svarað þegar hann var spurður: „Þekkir þú lög himinsins?“ — Jobsbók 38:33.
14 Aðrar spurningar gáfu til kynna að áður en maðurinn var skapaður og gefin yfirráð yfir fiskunum, fuglunum, skepnunum og skriðdýrunum hefði Guð séð þeim fyrir viðurværi án nokkurrar hjálpar eða ráða frá mönnum. Í spurningunum á eftir minntist Jehóva á dýr svo sem vísundinn, strútinn og hestinn. Job var spurður: „Er það eftir þinni skipun að örninn flýgur svo hátt og byggir hreiður sitt hátt uppi?“ (Jobsbók 39:27) Auðvitað ekki! Reyndu að ímynda þér viðbrögð Jobs þegar Guð spurði hann: „Vill ámælismaðurinn þrátta við hinn Almáttka?“ Engin furða er að Job skyldi segja: „Sjá, ég er of lítilmótlegur, hverju á ég að svara þér? Ég legg hönd mína á munninn.“ (Jobsbók 40:2, 4) Þar eð Jehóva hefur alltaf rétt fyrir sér ættum við að ‚leggja hönd á munninn‘ ef við finnum einhvern tíma fyrir freistingu til að kvarta yfir honum. Spurningarnar mikluðu líka yfirburði Guðs, hátign hans og mátt eins og þau birtast í sköpunarverkinu.
Behemot og levjatan
15. Hvaða dýr er behemot talið vera og hvað einkennir það meðal annars?
15 Jehóva minnist því næst á nykurinn eða behemot sem yfirleitt er talinn vera flóðhesturinn. (Jobsbók 40:15-24, neðanmáls) Þessi grasbítur er athyglisverður sakir stærðar, þyngdar og sterkrar húðar. Styrkur hans og kraftur liggur í lendunum og kviðvöðvunum. Leggjabein hans eru jafnsterk og „eirpípur.“ Nykurinn fælist ekki í vatnavöxtum heldur syndir léttilega gegn straumnum.
16. (a) Hvaða dýr samsvarar lýsingunni á levjatan og hvað er sagt um það? (b) Hvað minnir kraftur behemots og levjatans á í sambandi við verkefni okkar í þjónustu Jehóva?
16 Guð spurði Job einnig: „Getur þú veitt krókódílinn á öngul, getur þú heft tungu hans með snæri?“ Hér er hebreska orðið levjatan þýtt krókódíll enda á lýsingin vel við hann. (Jobsbók 41:1-34, neðanmáls) Krókódíllinn gerir ekki friðarsáttmála við neinn og enginn skynsamur maður er svo fífldjarfur að egna þetta skriðdýr. Hann fælist ekki örvar og ‚hlær að hvin spjótsins.‘ Reiður krókódíll lætur vella í djúpinu eins og smyrslakatli. Sú staðreynd að behemot og levjatan voru langtum sterkari en Job auðmýktu hann. Við verðum líka að viðurkenna í auðmýkt að við erum ekki máttug í eigin krafti. Við þörfnumst visku og kraftar frá Guði til að sleppa undan tönnum Satans, höggormsins, og til að gera verkefnum okkar í þjónustu Jehóva full skil. — Filippíbréfið 4:13; Opinberunarbókin 12:9.
17. (a) Hvernig ‚sá Job Guð‘? (b) Hvað sannaðist með spurningunum sem Job gat ekki svarað, og hvernig getur það hjálpað okkur?
17 Fullkomlega auðmýktur viðurkenndi Job röng sjónarmið sín og játaði að hann hefði talað af hyggjuleysi. Þó hafði hann látið í ljós þá trú að hann myndi „líta Guð.“ (Jobsbók 19:25-27) Hvernig átti það að geta gerst þar eð enginn maður getur séð Jehóva og haldið lífi? (2. Mósebók 33:20) Í raun réttri sá Job opinberun máttar Guðs, heyrði orð hans og fékk skilningsaugu sín opnuð fyrir sannleikanum um Jehóva. Job ‚tók því orð sín aftur og iðraðist í dufti og ösku.‘ (Jobsbók 42:1-6) Hinar mörgu spurningar, sem hann gat ekki svarað, höfðu sannað yfirburði Jehóva og sýnt smæð mannsins, jafnvel manns sem var jafn trúr honum og Job. Það sýnir að hagsmunir okkar eiga ekki að ganga fyrir því að helga nafn Jehóva og upphefja drottinvald hans. (Matteus 6:9, 10) Við ættum fyrst og fremst að láta okkur umhugað um að varðveita ráðvendni við Jehóva og heiðra nafn hans.
18. Hvað þurftu falshuggarar Jobs að gera?
18 En hvað um hina sjálfbirgingslegu falshuggara? Jehóva hefði með réttu getað líflátið Elífas, Bildad og Sófar fyrir að tala ekki sannleikann um sig eins og Job hafði gert. „Takið yður því sjö naut og sjö hrúta og farið til þjóns míns Jobs,“ sagði Guð, „og fórnið brennifórn fyrir yður, og Job þjónn minn skal biðja fyrir yður.“ Þremenningarnir urðu að auðmýkja sig til að gera það sem Jehóva sagði. Hinn ráðvandi Job átti að biðja fyrir þeim og Jehóva tók bæn hans til greina. (Jobsbók 42:7-9) En hvað um konu Jobs sem hafði hvatt hann til að formæla Guði og deyja? Hún virðist hafa sæst við hann vegna miskunnar Guðs.
Hin fyrirheitna umbun veitir okkur von
19. Hvernig sýndi Jehóva yfirburði sína yfir djöfulinn í sambandi við Job?
19 Jafnskjótt og Job hætti að hafa áhyggjur af þjáningum sínum og var reistur við í þjónustu Guðs breytti Guð lífshögum hans. Eftir að Job bað fyrir þremenningunum ‚sneri Jehóva við högum hans‘ og gaf honum ‚allt sem hann hafði átt tvöfalt aftur.‘ Jehóva sýndi yfirburði sína yfir djöflinum með því að lækna Job af sjúkdóminum sem Satan hafði lagt á hann. Guð rak einnig djöflasveitirnar á flótta og hélt þeim í skefjum með því að láta engla sína slá aftur skjólgarði um Job. — Jobsbók 42:10; Sálmur 34:8.
20. Á hvaða hátt umbunaði Jehóva og blessaði Job?
20 Bræður, systur og fyrrverandi kunningjar Jobs komu nú til að matast með honum, sýna honum samúð og hughreysta hann eftir alla þá ógæfu sem Jehóva hafði leyft að kæmi yfir hann. Hver og einn gaf Job fé og gullhring. Jehóva blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri, þannig að hann eignaðist 14.000 sauði, 6000 úlfalda, 1000 sameyki nauta og 1000 ösnur. Job eignaðist líka sjö syni og þrjár dætur eða jafnmörg börn og hann átti áður. Dætur hans — Jemíma, Kesía og Keren Happúk — voru fríðustu konur landsins og Job gaf þeim arf með bræðrum sínum. (Jobsbók 42:11-15) Auk þess lifði Job 140 ár í viðbót og sá afkomendur sína í fjóra ættliði. Frásögunni lýkur: „Og Job dó gamall og saddur lífdaga.“ (Jobsbók 42:16, 17) Þessi viðbót við ævi hans var kraftaverk af hendi Jehóva Guðs.
21. Hvernig höfum við gagn af frásögn Biblíunnar um Job og hverju ættum við að vera staðráðin í?
21 Frásaga Biblíunnar af Job vekur okkur betur til vitundar um vélabrögð Satans og sýnir okkur hvernig drottinvaldið yfir alheiminum tengist ráðvendni manna. Líkt og Job verða allir, sem elska Guð, reyndir. En við getum verið þolgóðir eins og Job. Hann kom út úr prófraunum sínum með sterka trú og von, og umbun hans var margvísleg. Við sem erum þjónar Jehóva nú á tímum höfum sanna trú og von. Og það er stórfengleg von sem Guð hefur gefið okkur öllum! Að hafa himnesk laun sín í huga hjálpar hinum smurðu að þjóna Guði í trúfesti það sem eftir er ævinnar hér á jörð. Margir sem hafa jarðneska von munu aldrei deyja, en þeim sem deyja verður umbunað með upprisu í paradís á jörð ásamt Job. Með þessa ósviknu von í huga og hjarta skulu allir sem elska Jehóva sanna Satan lygara með því að standa óhagganlegir með Jehóva. Megi þeir allir vera ráðvandir og dyggir stuðningsmenn drottinvalds hans yfir alheimi.
Hverju svarar þú?
◻ Nefndu nokkur atriði sem Job minntist á í lokasvari sínu til falshuggaranna.
◻ Hvernig reyndist Elíhú óhlutdrægur vottur um Jehóva?
◻ Hvaða spurninga spurði Guð Job og hvaða áhrif höfðu þær?
◻ Hvaða gagn hefur þú haft af frásögn Biblíunnar af Job?
[Mynd á blaðsíðu 26]
Orð Jehóva um behemot og levjatan gerðu Job auðmjúkan.