Jehóva verðskuldar eilíft lof
„Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.“ — SÁLMUR 145:2.
1. Hvers vegna hafði Davíð margar ástæður til að lofa Jehóva?
DAVÍÐ, drottinhollur þjónn Jehóva, hafði margar ástæður til að lofa Guð. Þessi nafnkunni konungur Forn-Ísraels þekkti mikilleik Jehóva og gæsku og gerði sér ljóst að konungdómur hans væri eilífur. Hinn hæsti verðskuldaði lof fyrir það að fullnægja löngun alls sem lifir og fyrir að sýna trúum þjónum sínum miskunn.
2. (a) Hvernig er Sálmur 145 uppbyggður? (b) Hvaða spurningar munum við íhuga?
2 Davíð söng Guði slíkt lof í 145. sálminum. Versin í þessum sálmi eru í stafrófsröð samkvæmt hebreska stafrófinu, þannig að nýtt vers hefst á nýjum bókstaf. Einum staf (nún) er þó sleppt. Stafrófsröðin kann að hafa verið hugsuð sem minnishjálp. Sálmur 145 lofsyngur Jehóva svo sem með orðunum: „Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.“ (Sálmur 145:2) En hvernig getur þessi sálmur haft áhrif á okkur? Hvað getur hann gert varðandi samband okkar við Guð? Við skulum kanna það og byrja á að skoða versin 1 til 10.
Mikilleikur Jehóva er órannsakanlegur
3. Hvað skuldum við ‚Guði okkar og konungi,‘ líkt og Davíð, og hvers vegna?
3 Davíð var konungur en hann viðurkenndi drottinvald Jehóva yfir sér og sagði: „Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.“ (Sálmur 145:1) Með áþekkri lotningu upphefja vottar Jehóva nafn Guðs og lofa hann um víða veröld. Líf okkar auðgast við þátttöku í slíku starfi. Líkt og Davíð skuldum við Jehóva, ‚Guði okkar og konungi,‘ hlýðni og undirgefni. Og hví ekki? Hann er „konungur aldanna.“ (Opinberunarbókin 15:3) Auk þess gefur hinn meiri Davíð, Jesús Kristur, sem hefur stjórnað frá Síonfjalli á himnum frá 1914, okkur frábært fordæmi um undirgefni við Jehóva, konung eilífðarinnar.
4. Hvernig getum við ‚prísað nafn Guðs‘?
4 Davíð sagðist myndu ‚prísa nafn Guðs.‘ Hvernig getur lítilmótlegur maður gert það? Nú, við prísum aðra meðal annars með því að tala vel um þá. Að prísa nafn Guðs gefur til kynna að við elskum hann og heilagt nafn hans, Jehóva, heitt. Við kvörtum aldrei undan Guði, finnum aldrei að honum, véfengjum aldrei gæsku hans. Því aðeins að við höfum þetta hugarfar, höfum vígt okkur Jehóva og varðveitum ráðvendni sem skírðir vottar getum við tekið undir með Davíð að við ‚prísum nafn Guðs um aldur og ævi.‘ Ef við varðveitum okkur í kærleika Guðs, þá munum við hljóta þá gjöf sem er eilíft líf og geta blessað Jehóva að eilífu. — Júdasarbréfið 20, 21.
5. Hvaða áhrif ætti löngun til að lofa Jehóva „á hverjum degi“ að hafa á okkur?
5 Ef við elskum lífgjafa okkar í sannleika munum við taka undir með Davíð: „Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.“ (Sálmur 145:2) Sá dagur gæfi lítið af sér sem liði án þess að við prísuðum Guð! Megum við aldrei eiga svo annríkt eða hafa slíkar áhyggjur af efnislegum hlutum að við tölum ekki vel um himneskan föður okkar eða biðjum til hans daglega. Jesús gaf til kynna að við ættum að biðja dag hvern er hann sagði í fyrirmyndarbæninni: „Gef oss hvern dag vort daglegt brauð.“ (Lúkas 11:3) Margir þjóna Guði í fullu starfi og prísa hann dag hvern í hinni kristnu þjónustu. En hverjar svo sem aðstæður okkur eru ætti hjartað að koma okkur til að prísa Guð með einhverjum hætti á degi hverjum. Og hugsaðu þér! Sem vígðir vottar Jehóva höfum við von um eilíft líf og þá stórkostlegu framtíðarsýn að mega prísa nafn hans að eilífu! — Jóhannes 17:3.
6. Hvers vegna er Jehóva „mjög vegsamlegur“?
6 Við höfum sannarlega ástæðu til að prísa Guð allan daginn því að Davíð bætti við: „Mikill er [Jehóva] og mjög vegsamlegur. Mikilleikur hans er órannsakanlegur.“ (Sálmur 145:3) Svo mikill er Jehóva að enginn er hans líki og drottinvald hans er algert. Nebúkadnesar konungur í Babýlon varð að viðurkenna: „Enginn er sá, er fái [Guði] tálmun gjört og við hann sagt: ‚Hvað gjörir þú?‘“ (Daníel 4:34, 35) Jehóva ‚er óttalegur öllum guðum framar.‘ (Sálmur 96:4) Það er því engin furða að hann skuli vera „mjög vegsamlegur.“ Engin vegsemdarorð eru nógu hástemmd til að lofsyngja Jehóva! Hann verðskuldar ótakmarkað, eilíft lof.
7. Hvað sannar að ‚mikilleikur Guðs er órannsakanlegur‘?
7 „Mikilleikur [Jehóva] er órannsakanlegur.“ Óháð því hve mikill Jehóva er að líkamanum til byggist mikilleikur hans á því hvers konar Guð hann er. Það sem hann hefur skapað er stórfenglegra en svo að við skiljum og sjálf erum við ‚undursamlega sköpuð.‘ (Sálmur 139:14; Jobsbók 9:10; 37:5) Og Jehóva er líka mikillegur í framkomu. Hann heldur loforð sín orð fyrir orð og opinberar tilgang sinn á kærleiksríkan hátt. Samt sem áður munum við aldrei gjörþekkja Guð. Um alla eilífð munum við geta vaxið í þekkingu á honum, sköpunarverki hans og tilgangi. — Rómverjabréfið 11:33-36.
Vegsamið verk Jehóva
8. (a) Hvernig hefur ‚ein kynslóð vegsamað verk Guðs fyrir annarri‘? (b) Hvernig munu börn okkar líklega líta á tilbeiðslu á Jehóva, ef við kennum þeim að þekkja hann og verk hans? (c) Hvað hafa hinar smurðu leifar, sem eru glöð ‚kynslóð,‘ gert?
8 Svo margt er hægt að segja til lofs hinum órannsakanlega mikla Guði okkar að Davíð fann sig knúinn til að segja: „Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.“ (Sálmur 145:4) Kynslóð eftir kynslóð hefur mannkynið vegsamað verk Jehóva og rakið máttarverk hans. Hvílík sérréttindi eru það ekki að segja þeim sem við nemum Biblíuna með frá öllu þessu! Til dæmis getum við sagt þeim að Guð hafi skapað alla hluti. (1. Mósebók 1:1-2:25; Opinberunarbókin 4:11) Við getum talað um máttarverk hans á þeim tíma er hann frelsaði Ísraelsmenn úr fjötrum í Egyptalandi, hjálpaði þeim að vinna bug á óvinum sínum, Kanverjum, kom í veg fyrir að þeim yrði útrýmt í Persíu til forna og margt, margt fleira. (2. Mósebók 13:8-10; Dómarabókin 4:15; Esterarbók 9:15-17) Og finnum við okkur ekki knúin til að segja börnum okkar frá verkum og athöfnum Jehóva? Ef við veitum börnum okkar slíka fræðslu og þau sjá okkur þjóna Guði með gleðihug, þá er líklegt að þau muni hafa unun af að tilbiðja hann og vaxa upp með ‚gleði Jehóva sem hlífiskjöld.‘ (Nehemía 8:10; Sálmur 78:1-4) Hinar smurðu leifar eru glöð ‚kynslóð‘ votta Jehóva sem vegsamar verk Guðs fyrir ‚múginum mikla,‘ hluta þeirrar kynslóðar sem mun byggja paradís á jörð. — Opinberunarbókin 7:9.
9. Hvað megum við vera viss um er við ígrundum verk Guðs og máttarverk?
9 Er við ígrundum verk Guðs og máttarverk sannfærumst við æ betur um að ‚Jehóva muni eigi útskúfa lýð sínum vegna síns mikla nafns.‘ (1. Samúelsbók 12:22; Sálmur 94:14) Þegar prófraunir, þrengingar og ofsóknir mæta okkur, þá getum við varðveitt stillingu okkar og það traust að „friður Guðs“ muni varðveita hjörtu okkar og hugsanir. (Filippíbréfið 4:6, 7) Það er því viðeigandi að við segjum öðrum frá elskuríkum föður á himni sem heldur verndarhendi yfir okkur!
10. Hvað er fólgið í ‚dásemdum‘ Jehóva og hvernig höfum við gagn af því að íhuga þær?
10 Við ættum að taka okkur tíma til að ígrunda hátign Jehóva og verk því að Davíð bætti við: „Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: ‚Ég vil syngja um dásemdir þínar.‘“ (Sálmur 145:5) Tign Guðs er óttaleg og óviðjafnanleg. (Jobsbók 37:22; Sálmur 148:13) Davíð vildi því ígrunda tign og dýrð vegsemdar Jehóva. Sálmaritarinn lét sig líka varða ‚dásemdarverk‘ Guðs. Þau fela í sér meðal annars að Guð beiti réttvísi sinni til að eyða syndurum og varðveita guðrækna menn, eins og í flóðinu. (1. Mósebók 7:20-24; 2. Pétursbréf 2:9) Er við hugleiðum slík atriði styrkir það samband okkar við Jehóva og gerir okkur fært að segja öðrum frá tign hans og dásemdarverkum. Í 40 daga í eyðimörkinni styrkti það Jesú gegn freistingu að hugleiða það sem honum hafði vitrast af himnum. (Matteus 3:13-4:11) Síðan talaði hann við aðra um tign Jehóva og dásemdarverk.
11. (a) Hvers vegna voru Jeríkóbúar óttaslegnir? (b) Með hvaða anda tala vottar Jehóva um ‚ógnarverk‘ Guðs og ‚stórvirki‘?
11 Um leið og við tölum um tign Guðs og verk hvetjum við aðra til að gera það líka. Davíð sagði: „Og um mátt ógnarverka þinna tala þær: ‚Ég vil segja frá stórvirkjum þínum.‘“ (Sálmur 145:6) Rahab talaði um þann ótta sem kom yfir Jeríkóbúa er þeir heyrðu hvernig Jehóva hefði bjargað Ísraelsmönnum við Rauðahafið og veitt þeim sigur yfir tveim Amorítakonungum. Það hlýtur að hafa verið mikið talað um slík ‚ógnarverk‘ í Jeríkó. (Jósúa 2:9-11) Og vissulega verður hin yfirvofandi ‚mikla þrenging‘ mikið ógnarverk. (Matteus 24:21) En það sem er svo óttalegt í hugum fólks, sem er fjarlægt Guði, vekur í hjörtum réttlátra manna ‚ótta Jehóva‘ sem er heilnæm, óttablandin lotning fyrir honum. (Orðskviðirnir 1:7) Með slíkum lotningarhug tala vottar Jehóva um það hvernig máttur Guðs birtist. Hinn mikli Guð og verk hans eru aðalumræðuefni hinna smurðu og jarðneskra félaga þeirra! Og jafnvel ofsóknir koma ekki í veg fyrir að þeir segi öðrum frá þessu og „stórvirkjum“ Jehóva. — Postulasagan 4:18-31; 5:29.
Lofið Jehóva fyrir gæsku hans
12. Hvernig kemur gæska Jehóva okkur til að vera uppfullir af orðum?
12 Guð verðskuldar lof ekki aðeins vegna mikilleiks síns heldur einnig gæsku og réttlætis. Því sagði Davíð: „Þær minna á þína miklu gæsku og fagna yfir réttlæti þínu.“ (Sálmur 145:7) Gæska Jehóva er svo ríkuleg að við erum uppfull af gleðiríkum orðum um hana. Í hebreska textanum er notuð sú hugmynd að vatn gusist fram úr uppsprettu. Við getum því verið uppfull af lof- og þakkargjörð til Guðs, líkt og vatn streymir fram úr uppsprettulind. (Orðskviðirnir 18:4) Ísrael gleymdi gæsku Jehóva og varð það þjóðinni til mikils, andlegs tjóns. (Sálmur 106:13-43) En við skulum láta hjörtu okkar vera uppfull af slíku þakklæti að aðrir iðrist eftir að þeir kynnast því hve Jehóva er góður við vígða votta sína. — Rómverjabréfið 2:4.
13. Hvaða áhrif ætti réttvísi og réttlæti Guðs að hafa á okkur?
13 Megi það hvernig réttlæti og réttvísi Guðs birtist einnig koma okkur til að hrópa af gleði. Ef okkur líður þannig munum við leita fyrst ekki aðeins Guðsríkis heldur líka réttlætis þess. Við munum alltaf vilja að hegðun okkar geti verið Jehóva til lofs. Já, við munum vera reglulegir boðberar Guðsríkis og hafa kappnóg að gera í þjónustu Guðs. Lofgjörð okkar til Jehóva verður aldrei grafin í gröf þagnarinnar. — Matteus 6:33; 1. Korintubréf 15:58; Hebreabréfið 10:23.
Jehóva er miskunnsamur
14. Hvaða merki sjást þess að Jehóva sé „náðugur og miskunnsamur“?
14 Davíð nefnir fleiri lofsverða eiginleika Guðs: „Náðugur og miskunnsamur er [Jehóva], þolinmóður og mjög gæskuríkur.“ (Sálmur 145:8) Guð er náðugur á þann hátt að hann er á allan hátt góður og örlátur. (Matteus 19:17; Jakobsbréfið 1:5) Hann gerir gott jafnvel þeim sem ekki þjóna honum. (Postulasagan 14:14-17) Jehóva er líka miskunnsamur og hluttekningarsamur, hann „minnist þess að vér erum mold.“ Hann fyrirlítur ekki sundurmarið hjarta eða geldur okkur eftir syndum okkar, heldur er hann langtum miskunnsamari en ástríkasti faðir úr hópi manna. (Sálmur 51:19; 103:10-14) Kærleikur hans birtist í sinni sterkustu mynd er hann sendi ástkæran son sinn til að deyja fyrir okkur, þannig að við gætum sæst við Guð og smakkað náð hans í æðstu mynd! — Rómverjabréfið 5:6-11.
15. Hvers vegna má segja að Jehóva Guð sé „þolinmóður“ og „mjög gæskuríkur“?
15 Himneskur faðir okkar er líka seinn til reiði. Hann fær ekki stjórnlaus reiðiköst. Jehóva er einnig „mjög gæskuríkur.“ Hebreskan gefur hér til kynna góðvild sem stafar af kærleika og beinist að manni eða hlut. Hún gerir það uns tilganginum sem tengist þeim manni eða hlut, er náð. Orðin má einnig þýða „tryggur kærleikur.“ Gæska Guðs eða tryggur kærleikur birtist meðal annars í verkum til hjálpræðis, varðveislu, verndar, lausnar úr erfiðleikum og endurlausn úr fjötrum syndar vegna lausnargjaldsins. (Sálmur 6:5; 25:7; 31:17, 22; 40:12; 61:8; 119:88, 159; 143:12; Jóhannes 3:16) Sú staðreynd að Jehóva lét ekki Harmagedón skella á strax eftir ‚stríðið á himnum‘ opnar miklum fjölda manna leið til hjálpræðis, en það er áberandi merki um kærleika og gæsku Guðs. — Opinberunarbókin 12:7-12; 2. Pétursbréf 3:15.
16. Hvernig hefur Jehóva reynst „öllum góður“?
16 Þegar litið er á miskunn Guðs mætti segja að hann sé hjartastór. Davíð lýsti yfir: „[Jehóva] er öllum góður, og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.“ (Sálmur 145:9) Já, Guð var Ísraelsmönnum góður. Reyndar lætur hann „sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.“ (Matteus 5:43-45) Í Eden gaf Jehóva fyrirheit um ‚sæði‘ er skyldi veita blessun. Síðar sagði hann Abraham: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta.“ (1. Mósebók 3:15; 22:18) Og gæska Guðs er svo mikil á endalokatímanum að hver sem er getur ‚komið og tekið ókeypis lífsins vatn.‘ (Daníel 12:4; Opinberunarbókin 22:17) Jehóva er fús til að gera gott öllum skynsemigæddum sköpunarverum sínum, og gæska hans ætti að tengja okkur honum enn nánari böndum.
17. Í hvaða skilningi er ‚miskunn Jehóva yfir öllu því sem hann skapar‘?
17 „Miskunn [Jehóva] er yfir öllu, sem hann skapar,“ á þann hátt að hann sér ríkulega fyrir jafnt mönnum sem dýrum. Hann „gefur fæðu öllu holdi.“ (Sálmur 136:25; 147:9) Guð heiðrar ekki hina ríku og smánir hina undirokuðu, dáir hina rembilátu og fyrirlítur hina hógværu, upphefur hina heimsku og niðurlægir hina vitru. Syndugir menn gera það en ekki hinn miskunnsami faðir okkar á himnum. (Sálmur 102:17; Sefanía 3:11, 12; Prédikarinn 10:5-7) Miskunn Guðs, gæska og góðvild er sannarlega mikil að hann skuli gera okkur mögulegt að hljóta hjálpræði vegna lausnarfórnar síns ástkæra sonar! — 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10.
Hinir drottinhollu prísa Jehóva
18. (a) Hvernig ‚lofa‘ öll verk Guðs hann? (b) Hvenær ættum við að finna hvöt hjá okkur til að lofa Jehóva?
18 Guð verðskuldar lof úr öllum áttum. Eins og Davíð orðaði það: „Öll sköpun þín lofar þig, [Jehóva], og dýrkendur þínir prísa þig.“ (Sálmur 145:10) Sköpunarverk Guðs ‚lofa‘ hann á sama hátt og vel byggt hús er byggingarmeistara sínum til heiðurs og fallegur vasi leirkerasmiðnum. (Samanber Hebreabréfið 3:4; Jesaja 29:16; 64:8.) Svo dásamleg eru sköpunarverk Jehóva að þau hafa komið englum og mönnum til að prísa hann. Englasynir Guðs ráku upp fagnaðaróp er hann grundvallaði jörðina. (Jobsbók 38:4-7) Davíð sagði að ‚himnarnir segðu frá dýrð Guðs og festingin boðaði verk handa hans.‘ (Sálmur 19:1-6) Við getum lofað Jehóva þegar við sjáum fálka svífa þöndum vængjum um himin eða hindarkálf stökkva í loftköstum yfir grösuga hæð. (Jobsbók 39:26; Ljóðaljóðin 2:17) Lofgjörð er við hæfi þegar við skerum upp af gróðri jarðar eða njótum matar með vinum. (Sálmur 72:16; Orðskviðirnir 15:17) Hinn undursamlega gerði líkami okkar getur líka kveikt hjá okkur þakklæti og lof til Guðs. — Sálmur 139:14-16.
19. Hverjir eru „dýrkendur“ Guðs og hvað gera þeir?
19 Andasmurðir „dýrkendur“ Jehóva á jörðinni nú á dögum prísa hann. Þeir lofa hann og þrá að sjá vilja hans gerðan á jörð eins og á himni. (Matteus 6:9, 10) Er hinir smurðu segja öðrum frá undraverkum Guðs bregðast fleiri og fleiri af múginum mikla jákvætt við. Ásamt drottinhollum smurðum mönnum þjóna þeir kostgæfilega sem boðberar Guðsríkis. Fær þakklæti þig til að eiga reglulegan þátt í þessu starfi, Guði til lofs?
20. (a) Hvernig verður nafn Jehóva helgað? (b) Hvaða spurningar varðandi Sálm 145 eru óræddar?
20 Við sem erum vottar Jehóva líkjumst Davíð í því að lofa Guð. Það er okkur alvarlegt hugðarefni að helga hið heilaga nafn Jehóva og prísa það. Þar eð nafn Guðs verður helgað fyrir tilstilli Guðsríkis er kenning Biblíunnar um ríkið áberandi þáttur þess fagnaðarerindis sem við boðum. Veitir Sálmur 145 andlega upplýsingu um þetta efni? Hvað mun umræða okkar um síðara hluta þessa sálms leiða í ljós? Á hvaða aðra vegu sýnir hann að Jehóva verðskuldar eilíft lof?
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig getum við prísað nafn Jehóva?
◻ Nefndu nokkur af hinum miklu verkum Guðs.
◻ Hvað gerum við ef við metum gæsku Jehóva að verðleikum?
◻ Á hvaða vegu hefur miskunn Guðs birst?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Segir þú börnum þínum frá máttarverkum Jehóva eins og guðræknir foreldar í Forn-Ísrael?
[Mynd á blaðsíðu 27]
Sköpunarverk Jehóva eru honum til lofs, líkt og vel byggt hús lofar meistara sinn.