Fjölskyldan — kærleiksrík ráðstöfun Jehóva
„Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum, sem hvert faðerni [„fjölskylda,“ NW] fær nafn af á himni og jörðu.“ — EFESUSBRÉFIÐ 3:14, 15.
1, 2. (a) Í hvaða tilgangi skapaði Jehóva fjölskylduna? (b) Hvaða hlutverki ætti fjölskyldan að hafa í fyrirkomulagi Jehóva nú á tímum?
JEHÓVA skapaði fjölskylduna. Með því gerði hann meira en að svala þörf mannsins fyrir félagsskap, stuðning eða hlýju. (1. Mósebók 2:18) Fjölskyldan var aðferð Guðs til að láta þann mikilfenglega tilgang sinn að uppfylla jörðina ná fram að ganga. Hann sagði fyrstu hjónunum: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna.“ (1. Mósebók 1:28) Hlýja og öryggi fjölskyldulífsins myndi vera gott uppvaxtarumhverfi þeirra fjölmörgu barna sem Adam og Eva og afkomendur þeirra ættu eftir að eignast.
2 Þessi fyrstu hjón kusu hins vegar að vera óhlýðin — með hrikalegum afleiðingum fyrir sig og afkomendur sína. (Rómverjabréfið 5:12) Þess vegna er fjölskyldulífið nú á dögum skrumskæling á því sem Guð vildi að það væri. Eigi að síður heldur fjölskyldan áfram að gegna þýðingarmiklu hlutverki í fyrirkomulagi Jehóva og er undirstöðueining kristins samfélags. Með þessum orðum er alls ekki verið að vanmeta gott starf hinna mörgu einhleypu kristnu manna okkar á meðal. Við gerum okkur hins vegar grein fyrir að fjölskyldur leggja einnig mikið af mörkum til að hið kristna skipulag í heild sé andlega heilbrigt. Sterkar fjölskyldur stuðla að sterkum söfnuðum. En hvernig getur fjölskylda þín þrifist undir álagi nútímans? Til að svara því skulum við athuga hvað Biblían segir um fjölskyldufyrirkomulagið.
Fjölskyldan á biblíutímanum
3. Hvaða hlutverki gegndi eiginmaður og eiginkona í ættfeðrafjölskyldunni?
3 Adam og Eva höfnuðu bæði forystufyrirkomulag Guðs. Trúaðir menn, svo sem Nói, Abraham, Ísak, Jakob og Job, gegndu eigi að síður hlutverki sínu sem fjölskylduhöfuð eins og þeim bar skylda til. (Hebreabréfið 7:4) Ættfeðrafjölskyldan var eins og smáríki þar sem faðirinn gegndi hlutverki trúarleiðtoga, fræðara og dómara. (1. Mósebók 8:20; 18:19) Eiginkonan gegndi einnig mikilvægu hlutverki; hún var ekki þræll heldur húsfreyja og aðstoðaði við umsjón með rekstri heimilisins.
4. Hvaða breytingar urðu á fjölskyldulífi með tilkomu Móselaganna en hvaða hlutverki gegndu foreldrarnir áfram?
4 Þegar Ísrael varð að þjóð árið 1513 f.o.t. var lögmálið, sem þjóðinni var gefið fyrir milligöngu Móse, sett ofar lögum fjölskyldunnar. (2. Mósebók 24:3-8) Dómsvaldið, einnig í málum sem vörðuðu líf og dauða, færðist nú til sérskipaðra dómara. (2. Mósebók 18:13-26) Prestastéttin af ætt Leví fékk það hlutverk að færa þær fórnir sem tengdust tilbeiðslunni. (3. Mósebók 1:2-5) Eigi að síður hélt faðirinn áfram að gegna þýðingarmiklu hlutverki. Móse hvatti feður: „Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ (5. Mósebók 6:6, 7) Mæðurnar höfðu töluverð áhrif. Orðskviðirnir 1:8 fyrirskipuðu börnum og unglingum: „Hlýð þú, son minn, á áminning föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar.“ Já, innan þess ramma, sem vald eiginmannsins leyfði, gat hebresk eiginkona sett fjölskyldunni lög og framfylgt þeim. Börnin áttu að heiðra hana, einnig á elliárunum. — Orðskviðirnir 23:22.
5. Hvernig skilgreindu Móselögin hlutverk barna innan fjölskyldunnar?
5 Staða barnanna var einnig vel skilgreind í lögmáli Guðs. Fimmta Mósebók 5:16 sagði: „Heiðra föður þinn og móður þína, eins og [Jehóva] Guð þinn hefir boðið þér, svo að þú verðir langlífur og svo að þér vegni vel í því landi, sem [Jehóva] Guð þinn gefur þér.“ Óvirðing fyrir foreldrum var mjög alvarlegt brot undir Móselögunum. (2. Mósebók 21:15, 17) „Hver sá, sem bölvar föður sínum eða móður sinni,“ sagði lögmálið, „skal líflátinn verða.“ (3. Mósebók 20:9) Uppreisn gegn foreldrum var lögð að jöfnu við uppreisn gegn Guði sjálfum.
Hlutverk kristinna eiginmanna
6, 7. Hvers vegna virtust orð Páls í Efesusbréfinu 5:23-29 byltingarkennd á fyrstu öld?
6 Kristnin varpaði skærara ljósi á fjölskyldufyrirkomulagið, einkum hlutverk föðurins. Utan kristna safnaðarins var algengt að eiginmenn á fyrstu öld væru harðir við eiginkonur sínar og kúguðu þær. Konur fengu ekki að njóta sjálfsögðustu mannréttinda og reisnar. The Expositor’s Bible segir: „Hinn fágaði Grikki tók sér konu til að ala börn. Hún hafði engan rétt til að setja kynlífi hans skorður. Ást var ekki hluti hjónabandssáttmálans. . . . Konan var þrælkuð og hafði engin réttindi. Eigandi hennar hafði full yfirráð yfir líkama hennar.“
7 Það var við slíkar aðstæður sem Páll skrifaði orðin í Efesusbréfinu 5:23-29: „Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns. . . . Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana, . . . Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig. Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast.“ Þetta voru byltingarkennd orð fyrir almennan lesanda á fyrstu öld. The Expositor’s Bible segir: „Ekkert í kristninni virtist nýstárlegra og strangara í samanburði við siðspillingu samtíðarinnar, en viðhorf hennar til hjónabands. . . . [Það] markaði þáttaskil í sögu mannkyns.“
8, 9. Hvaða óheilbrigð viðhorf til kvenna eru algeng meðal karlmanna og hvers vegna er mikilvægt að kristnir karlmenn hafni slíkum sjónarmiðum?
8 Heilræði Biblíunnar til eiginmanna eru ekkert síður byltingarkennd nú á tímum. Þrátt fyrir alla umræðuna um kvenfrelsi er það viðhorf margra karlmanna að konur séu til þess eins að fullnægja kynhvöt þeirra. Margir karlmenn trúa þeirri goðsögn að konur raunverulega njóti þess að láta drottna yfir sér, stjórna sér og kúga sig með offorsi og þjösnaskap. Þeir misþyrma því eiginkonum sínum líkamlega og tilfinningalega. Það væri mikil smán fyrir kristinn karlmann að láta hugsanagang heimsins hafa áhrif á sig og fara illa með konuna sína! „Maðurinn minn var safnaðarþjónn og flutti opinbera fyrirlestra,“ segir kristin kona og bætir svo við að hann hafi barið hana. Ljóst er að slíkt hátterni gengur þvert á fyrirkomulag Guðs. Þessi eiginmaður var sjaldgæf undantekning og hann þurfti að leita hjálpar til að hemja bræði sína ef hann vonaðist til að hafa velþóknun Guðs. — Galatabréfið 5:19-21.
9 Guð fyrirskipar eiginmönnum að elska konur sínar eins og eigin líkami. Að gera það ekki er uppreisn gegn fyrirkomulagi Guðs og getur grafið undan sambandi manns við Guð. Orð Péturs postula eru skýr: „Og þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, . . . Þá hindrast bænir yðar ekki.“ (1. Pétursbréf 3:7) Sá sem beitir eiginkonu sína hörku hættir auk þess á að andleg heilsa hennar og barnanna bíði skaða af.
10. Nefndu dæmi um hvernig eiginmenn geta farið með forystu að fyrirmynd Krists.
10 Eiginmaður, fjölskylda þín dafnar undir forystu þinni ef þú beitir henni að hætti Krists. Kristur var aldrei hörkulegur eða hrottafenginn. Þvert á móti gat hann sagt: „Lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ (Matteus 11:29) Getur fjölskylda þín sagt það um þig? Kristur kom fram við lærisveina sína eins og vini og treysti þeim. (Jóhannes 15:15) Veitir þú konu þinni slíka virðingu? Biblían segir um „væna konu“: „Hjarta manns hennar treystir henni.“ (Orðskviðirnir 31:10, 11) Það felur í sér að veita henni visst athafnafrelsi og sjálfstæði og setja henni ekki ósanngjarnar hömlur. Jesús hvatti lærisveina sína enn fremur til að tjá tilfinningar sínar og skoðanir. (Matteus 9:28; 16:13-15) Gerir þú hið sama við konu þína eða finnst þér yfirráðum þínum ögrað ef hún er þér ósammála? Þú ert í raun að byggja upp virðingu hennar fyrir forystuhlutverki þínu ef þú tekur tillit til skoðana hennar í stað þess að virða þær að vettugi.
11. (a) Hvernig geta feður fullnægt andlegum þörfum barna sinna? (b) Hvers vegna verða öldungar og safnaðarþjónar að setja gott fordæmi í umönnun fjölskyldna sinna?
11 Ef þú ert fjölskyldufaðir er þess einnig krafist af þér að þú takir forystuna í því að fullnægja andlegum, tilfinningalegum og líkamlegum þörfum barna þinna. Það felur í sér að hafa góðar, andlegar venjur í fjölskyldunni: starfa með henni á akrinum, stjórna biblíunámi á heimilinu og ræða um dagstextann. Athyglisvert er að Biblían segir að öldungur eða safnaðarþjónn ætti að „vera maður, sem veitir góða forstöðu heimili sínu.“ Karlmenn, sem gegna þessum þjónustustörfum, ættu að vera til fyrirmyndar sem höfuð fjölskyldna sinna. Þótt þeir þurfi að axla mikla ábyrgð í söfnuðinum ber þeim eigi að síður að láta fjölskyldu sína ganga fyrir. Páll nefndi ástæðuna: „Hvernig má sá, sem ekki hefur vit á að veita heimili sínu forstöðu, veita söfnuði Guðs umsjón?“ — 1. Tímóteusarbréf 3:4, 5, 12.
Kristnar eiginkonur sem styðja menn sína
12. Hvaða hlutverki gegnir eiginkonan í kristnu fyrirkomulagi?
12 Ert þú kristin eiginkona? Þá gegnir þú líka mikilvægu hlutverki í fjölskyldunni. Kristnar eiginkonur eru hvattar „til að elska menn sína og börn, vera hóglátar, skírlífar, heimilisræknar, góðlátar og eiginmönnum sínum undirgefnar.“ (Títusarbréfið 2:4, 5) Þú ættir þannig að leggja þig fram um að vera til fyrirmyndar sem húsmóðir og halda heimilinu hreinu og notalegu. Heimilisstörfin geta stundum verið leiðigjörn en þau eru hvorki auvirðileg né lítils virði. Sem eiginkona ‚stjórnar þú heimili‘ og getur haft töluvert frjálsar hendur um það. (1. Tímóteusarbréf 5:14) ‚Væna konan‘ keypti til dæmis inn til heimilisins, átti fasteignaviðskipti og aflaði jafnvel tekna með örlitlum atvinnurekstri. Engin furða er að eiginmaður hennar skyldi hrósa henni! (Orðskviðirnir 31. kafli) Að sjálfsögðu var frumkvæði hennar innan þess ramma sem eiginmaður hennar og höfuð setti.
13. (a) Hvers vegna geta sumar eiginkonur átt erfitt með að vera undirgefnar? (b) Hvers vegna er það til góðs fyrir kristnar eiginkonur að vera undirgefnar eiginmönnum sínum?
13 Það er kannski ekki alltaf auðvelt fyrir þig að vera eiginmanni þínum undirgefin. Það vekja ekki allir menn virðingu. Vera má að þú hafir góða skipulagsgáfu og kunnir vel að annast fjármál. Ef til vill vinnur þú úti og aflar töluverðs hluta af tekjum fjölskyldunnar. Eins getur þér fundist erfitt að vera undirgefin karlmanni vegna slæmrar reynslu áður fyrr af yfirdrottnun karlmanna. Eigi að síður sýnir þú virðingu fyrir yfirvaldi Guðs með „lotningu“ þinni (á grísku: „ótta“) fyrir eiginmanni þínum. (Efesusbréfið 5:33, Kingdom Interlinear; 1. Korintubréf 11:3) Undirgefni er einnig nauðsynleg til að fjölskyldan þrífist því að með henni gerir þú þitt til að forða hjónabandinu frá óþarfri spennu og álagi.
14. Hvað getur eiginkona gert þegar hún er ósammála ákvörðun eiginmanns síns?
14 Merkir þetta þá að þú verðir að þegja ef þú heldur að maðurinn þinn sé að taka ákvörðun er myndi vinna gegn hagsmunum fjölskyldunnar? Ekki endilega. Sara, eiginkona Abrahams, þagði ekki þegar hún gerði sér grein fyrir að velferð Ísaks sonar hennar var ógnað. (1. Mósebók 21:8-10) Eins gæti þér stundum fundist þér skylt að láta tilfinningar þínar í ljós. Ef það er gert með virðingu á réttu augnabliki hlustar guðrækinn, kristinn eiginmaður. (Orðskviðirnir 25:11) En sé ekki er farið eftir tillögu þinni og ekki er um að ræða neitt alvarlegt brot á meginreglu í Biblíunni væri það þá ekki sjálfri þér til tjóns að ganga gegn óskum eiginmanns þíns? Mundu að „viska kvennanna reisir húsið, en fíflskan rífur það niður með höndum sínum.“ (Orðskviðirnir 14:1) Ein leið til að byggja upp hús þitt er að styðja forystu eiginmanns þíns, hrósa honum fyrir það sem hann gerir vel og taka mistökum hans með ró.
15. Hvernig getur konan tekið þátt í ögun og uppeldi barnanna?
15 Önnur leið til að byggja upp hús þitt er sú að taka þátt í uppeldi og ögun barnanna. Til dæmis getur þú lagt þitt af mörkum til að biblíunám fjölskyldunnar sé uppbyggjandi og haldið reglulega. „Lát hendur þínar eigi hvílast“ hvað það varðar að fræða börnin þín um sannleika Guðs við hvert tækifæri, til dæmis þegar þú ferð í búðir eða ert á ferðalagi með þeim. (Prédikarinn 11:6) Hjálpaðu þeim að búa sig undir að gefa athugasemdir á samkomum og skila verkefnum sínum í Guðveldisskólanum. Hafðu auga með félagsskap þeirra. (1. Korintubréf 15:33) Láttu börnin vita að þið hjónin séuð einhuga í sambandi við ögun og það að lifa eftir stöðlum Guðs. Leyfðu börnunum ekki að tefla þér gegn eiginmanni þínum.
16. (a) Hvaða fordæmi úr Biblíunni eru einstæðum foreldrum og þeim sem eiga maka sinn ekki í trúnni, til hvatningar? (b) Hvernig geta aðrir í söfnuðinum hjálpað þeim?
16 Ef þú ert einstætt foreldri eða maki þinn er ekki í trúnni má vera að þú þurfir að taka forystuna í andlegum málum. Það getur verið erfitt og stundum jafnvel dregið úr þér kjark, en gefstu ekki upp. Evníke, móður Tímóteusar, tókst að kenna honum Heilaga ritningu „frá blautu barnsbeini“ þótt eiginmaður hennar væri ekki í trúnni. (2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:15) Og mörgum okkar á meðal tekst það einnig. Ef þú þarfnast aðstoðar á þessu sviði gætir þú látið öldungana vita af því. Vera má að þeir geti fengið einhvern til að hjálpa þér að komast á samkomur og út í þjónustuna á akrinum. Þeir geta hvatt aðra til að bjóða fjölskyldu þinni með sér í útivistarferðir eða boð. Einnig gætu þeir fengið reyndan boðbera til að hjálpa þér að koma fjölskyldunámi í gang.
Þakklát börn
17. (a) Hvernig geta börn og unglingar stuðlað að velferð fjölskyldunnar? (b) Hvaða fordæmi gaf Jesús í þessu efni?
17 Kristin börn og unglingar geta stuðlað að velferð fjölskyldunnar með því að hlýða ráðleggingu Efesusbréfsins 6:1-3: „Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt. ‚Heiðra föður þinn og móður,‘ — það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti: ‚til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni.‘“ Þú sýnir Jehóva virðingu með því að vera samvinnuþýður við foreldra þína. Jesús Kristur var fullkominn og hefði hæglega getað hugsað með sér að það væri fyrir neðan virðingu hans að vera undirgefinn ófullkomnum foreldrum. Eigi að síður ‚var hann þeim hlýðinn. . . . Og Jesús þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum.‘ — Lúkas 2:51, 52.
18, 19. (a) Hvað merkir það að heiðra foreldra sína? (b) Hvernig getur heimilið veitt endurnæringu?
18 Ættir þú ekki líka að heiðra foreldra þína? „Að heiðra“ merkir í þessu sambandi að viðurkenna þar til gerð yfirvöld. (Samanber 1. Pétursbréf 2:17.) Undir flestum kringumstæðum ber að sýna foreldrunum slíka virðingu jafnvel þótt þeir séu ekki í trúnni eða setji ekki gott fordæmi. Þú ættir að virða foreldra þína þeim mun meir ef þeir eru kristnir og til fyrirmyndar. Mundu einnig að aga og leiðbeiningum foreldra þinna er ekki ætlað að setja þér hömlur úr hófi fram. Þær eru þér til verndar þannig að þú ‚munir lifa.‘ — Orðskviðirnir 7:1, 2.
19 Fjölskyldan er svo sannarlega kærleiksrík ráðstöfun! Þegar eiginmenn, eiginkonur og börn fylgja öll þeim reglum, sem Guð setur um fjölskyldulífið, verður heimilið athvarf þangað sem menn sækja endurnæringu. Þrátt fyrir það geta komið upp vandamál varðandi tjáskipti og barnauppeldi. Næsta grein fjallar um það hvernig leysa megi sum þessara vandamála.
Manst þú?
◻ Hvaða fyrirmynd gáfu guðhræddir eiginmenn, eiginkonur og börn á biblíutímanum?
◻ Hvaða ljósi varpaði kristnin á hlutverk eiginmannsins?
◻ Hvaða hlutverki ætti eiginkonan að gegna í kristinni fjölskyldu?
◻ Hvernig geta kristin ungmenni stuðlað að velferð fjölskyldunnar?
[Mynd á blaðsíðu 9]
„Ekkert í kristninni virtist nýstárlegra og strangara í samanburði við siðspillingu samtíðarinnar, en viðhorf hennar til hjónabands. . . . [Það] markaði þáttaskil í sögu mannkyns.“
[Mynd á blaðsíðu 10]
Kristinn eiginmaður hvetur konu sína til að láta skoðanir sínar í ljós og tekur tillit til þeirra.