Fyrsta Mósebók
2 Þannig voru himinn og jörð fullgerð og allt sem tilheyrir þeim.*+ 2 Þegar sjöundi dagurinn rann upp hafði Guð lokið verki sínu sem hann hafði unnið. Og sjöunda daginn tók hann sér hvíld frá öllu verki sínu.+ 3 Guð blessaði sjöunda daginn og helgaði hann, en á honum hefur hann hvílst eftir að hafa skapað allt sem hann ætlaði sér.
4 Þetta er sagan um uppruna himins og jarðar. Hún fjallar um þann tíma þegar jörðin og himinninn voru sköpuð, um þann dag sem Jehóva* Guð gerði þau.+
5 Þá voru engir runnar á jörðinni og enginn gróður byrjaður að vaxa því að Jehóva Guð hafði ekki látið rigna á jörðina og enginn maður var til að rækta hana. 6 En móða steig upp af jörðinni og vökvaði allt yfirborð jarðar.
7 Þá mótaði Jehóva Guð manninn af mold+ jarðar og blés lífsanda+ í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi vera.*+ 8 Jehóva Guð plantaði auk þess garð í Eden,+ í austri, og þar setti hann manninn sem hann hafði mótað.+ 9 Jehóva Guð lét vaxa af jörðinni alls konar tré sem voru falleg og báru góðan ávöxt, og einnig tré lífsins+ í miðjum garðinum og skilningstré góðs og ills.+
10 Fljót rann frá Eden til að vökva garðinn og þaðan kvíslaðist það í fjögur fljót. 11 Fyrsta fljótið heitir Píson. Það rennur um allt Havílaland þar sem gull er að finna. 12 Gullið í landinu er hreint. Þar er líka að finna bedellíumkvoðu og ónyxstein. 13 Annað fljótið heitir Gíhon en það rennur um allt Kúsland. 14 Þriðja fljótið heitir Kíddekel*+ og rennur fyrir austan Assýríu.+ Og fjórða fljótið er Efrat.+
15 Jehóva Guð tók manninn og setti hann í Edengarðinn til að hann myndi rækta hann og gæta hans.+ 16 Jehóva Guð gaf manninum þessi fyrirmæli: „Þú mátt borða eins og þig lystir af öllum trjám í garðinum.+ 17 En af skilningstré góðs og ills máttu ekki borða því að sama dag og þú borðar af því muntu deyja.“*+
18 Síðan sagði Jehóva Guð: „Það er ekki gott fyrir manninn að vera áfram einn. Ég ætla að gera honum félaga sem bætir hann upp og getur stutt hann.“*+ 19 Jehóva Guð hafði mótað af moldinni öll villt dýr jarðar og öll fleyg dýr himins. Nú leiddi hann þau fram fyrir manninn til að sjá hvað hann myndi kalla þau. Og dýrin* fengu hvert og eitt það heiti sem maðurinn gaf þeim.+ 20 Þannig gaf maðurinn öllu búfénu nafn og eins fleygum dýrum himins og öllum villtum dýrum jarðar. En hann átti engan félaga við sitt hæfi sem gat stutt hann. 21 Jehóva Guð lét þá manninn falla í djúpan svefn. Meðan hann svaf tók hann eitt af rifbeinum hans og lokaði síðan aftur holdinu. 22 Og Jehóva Guð bjó til konu úr rifbeininu sem hann hafði tekið úr manninum og leiddi hana til mannsins.+
23 Þá sagði maðurinn:
„Loksins er hér bein af mínum beinum
og hold af mínu holdi.
Hún skal kvenmaður kallast
því að af karlmanni er hún tekin.“+
24 Af þeirri ástæðu yfirgefur maður föður sinn og móður og binst* konu sinni og þau verða eitt.*+ 25 Þau voru bæði nakin,+ maðurinn og kona hans, en þau fóru samt ekki hjá sér.