„Það á hver maður að gjöra“
„Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ — PRÉDIKARINN 12:13.
1, 2. Hvers vegna er viðeigandi að íhuga skyldur okkar gagnvart Guði?
‚HVAÐ heimtar Jehóva af þér?‘ spurði spámaður til forna. Síðan tilgreindi hann hvers Jehóva krefst — að gera rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði. — Míka 6:8.
2 Á tímum einstaklingshyggju og sjálfstæðis geðjast mörgum illa að þeirri hugmynd að Guð krefjist einhvers af þeim. Þeir vilja ekki vera skuldbundnir. En hvað um niðurstöðu Salómons í Prédikaranum? „Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ — Prédikarinn 12:13.
3. Hvers vegna ættum við að gefa Prédikaranum alvarlegan gaum?
3 Óháð aðstæðum okkar og lífsviðhorfum höfum við mikið gagn af því að skoða forsendur þessarar niðurstöðu. Salómon konungur, sem skrifaði þessa innblásnu bók, velti fyrir sér mörgu sem tilheyrir daglegu lífi okkar. Sumir álykta kannski fljótfærnislega að hann gefi sér aðallega neikvæðar forsendur. En bók hans var innblásin af Guði og getur hjálpað okkur að leggja mat á viðfangsefni okkar og markmið í lífinu, og þar með aukið gleði okkar.
Að fullnægja meginþörfum lífsins
4. Hvað rannsakaði Salómon og ræddi í Prédikaranum?
4 Salómon rannsakaði ítarlega ‚þrautina sem mennirnir þreyta sig á.‘ „Ég lagði allan hug á að rannsaka og kynna mér með hyggni allt það, er gjörist undir himninum.“ Með orðinu ‚þraut‘ átti Salómon við allt sem karlar og konur eru að sýsla við á ævinni. (Prédikarinn 1:13) Skoðum sumt af því helsta sem menn eru að sýsla við og berum það síðan saman við viðfangsefni okkar og markmið í lífinu.
5. Hvert er eitt aðalviðfangsefni manna?
5 Peningar eru vissulega þungamiðjan í mörgu af því sem menn aðhafast. Enginn getur með réttu sagt að Salómon hafi verið jafnkærulaus gagnvart peningum og sumir auðmenn. Hann viðurkenndi fúslega að við þörfnumst einhverra peninga. Það er betra að hafa nægilegt fé handa í milli en lifa við þröngan kost eða í fátækt. (Prédikarinn 7:11, 12) En þú hlýtur að hafa séð að peningar og eignir, sem hægt er að kaupa fyrir þá, geta orðið aðalmarkmið lífsins — jafnt hjá fátækum sem ríkum.
6. Hvað getum við lært um peninga af einni dæmisögu Jesú og af reynslu Salómons?
6 Þú manst eftir dæmisögu Jesú um ríka manninn sem var aldrei ánægður og vildi meira. Guð dæmdi hann heimskingja. Hvers vegna? Vegna þess að „enginn þiggur líf af eigum sínum.“ (Lúkas 12:15-21) Salómon bjó sennilega að meiri reynslu en við og hún staðfestir orð Jesú. Lestu lýsinguna í Prédikaranum 2:4-9. Um tíma gaf Salómon sig að því að afla sér auðs. Hann reisti sér fögur hús og plantaði garða. Hann hafði efni á að ná sér í fagrar fylgikonur og gerði það. Veitti auður Salómons og aðstaða honum lífsfyllingu og tilgang í lífinu, og fannst honum hann hafa áorkað einhverju? Hann svaraði hreinskilnislega: „Er ég leit á öll verk mín, þau er hendur mínar höfðu unnið, og á þá fyrirhöfn, er ég hafði haft fyrir að gjöra þau, þá sá ég, að allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi, og að enginn ávinningur er til undir sólinni.“ — Prédikarinn 2:11; 4:8.
7. (a) Hvað sannar reynslan um gildi peninga? (b) Hvað hefur þú persónulega séð sem staðfestir niðurstöðu Salómons?
7 Þetta er raunsæi eins og líf margra ber vott um. Við verðum að viðurkenna að við leysum ekki öll vandamál með meiri peningum. Þeir gætu leyst sum vandamál, svo sem auðveldað okkur að hafa í okkur og á. En við klæðumst ekki nema einum fötum í einu og getum aðeins borðað og drukkið visst magn. Og þú hefur lesið um hvílík plága hjónaskilnaðir, drykkjuskapur, fíkniefnaneysla og ættingjadeilur eru meðal ríka fólksins. Margmilljónamæringurinn J. P. Getty sagði: „Peningar eru ekki endilega tengdir hamingju. Kannski óhamingju.“ Salómon kallaði peningaást hégóma, og það af góðu tilefni. Berðu það saman við þessa ábendingu Salómons: „Sætur er svefninn þeim sem erfiðar, hvort sem hann etur lítið eða mikið, en offylli hins auðuga lætur hann eigi hafa frið til að sofa.“ — Prédikarinn 5:9-11.
8. Hvers vegna er ástæða til að gera ekki of mikið úr gildi peninga?
8 Peningar og eignir tryggja ekki heldur framtíðarhamingju manna. Ef þú ættir meiri peninga og eignir hefðir þú líklega meiri áhyggjur af því hvernig þú gætir verndað þær, og þú vissir samt ekki hvað morgundagurinn bæri í skauti sínu. Gætirðu glatað öllu og kannski lífinu líka? (Prédikarinn 5:12-16; 9:11, 12) Með hliðsjón af þessu ætti ekki að vera vandséð hvers vegna líf okkar og athafnir ættu að snúast um annað og meira en peninga og eignir.
Fjölskyldan, frægð og völd
9. Hvers vegna var eðlilegt að Salómon virti fjölskyldulífið fyrir sér?
9 Við athugun sína á lífinu virti Salómon einnig fyrir sér fjölskylduvafstur manna. Biblían beinir athyglinni að fjölskyldulífinu, meðal annars gleðinni af því að eignast og ala upp börn. (1. Mósebók 2:22-24; Sálmur 127:3-5; Orðskviðirnir 5:15, 18-20; 6:20; Markús 10:6-9; Efesusbréfið 5:22-33) En er það æðsta markmið lífsins? Margir virðast líta svo á miðað við þá áherslu sem lögð er á hjónaband, börn og fjölskyldubönd í sumum menningarsamfélögum. En Prédikarinn 6:3 bendir á að jafnvel hundrað börn séu ekki trygging fyrir lífsfyllingu. Hugsaðu um alla þá foreldra sem hafa fært fórnir fyrir börn sín til að koma þeim vel af stað og auðvelda þeim lífið. Þótt göfugt sé, ætlaðist skapari okkar alls ekki til að æðsta markmið tilverunnar væri aðeins að geta af okkur nýja kynslóð, eins og dýrin gera af eðlishvöt til að viðhalda tegundinni.
10. Hvers vegna er það hégómi að einbeita sér um of að fjölskyldunni?
10 Með glöggskyggni benti Salómon á nokkrar staðreyndir fjölskyldulífsins. Maður einbeitir sér kannski að því að búa vel í haginn fyrir börn sín og barnabörn. En ætli þau reynist vitur eða skyldu þau fara heimskulega með það sem hann kappkostaði að safna handa þeim? Ef svo fer er það „hégómi og mikið böl.“ — Prédikarinn 2:18-21; 1. Konungabók 12:8; 2. Kroníkubók 12:1-4, 9.
11, 12. (a) Að hverju hafa sumir einbeitt sér í lífinu? (b) Hvers vegna má segja að það sé „eftirsókn eftir vindi“ að sækjast eftir frama?
11 Margir hafa farið út í hinar öfgarnar, keppt að því að skapa sér nafn eða ná völdum yfir öðrum og látið eðlilegt fjölskyldulíf sitja á hakanum á meðan. Körlum er hættara við því en konum. Hefur þú tekið eftir þessari tilhneigingu hjá skólafélögum þínum, vinnufélögum eða nágrönnum? Margir streitast allt hvað þeir geta við að láta taka eftir sér, að verða eitthvað eða ráða yfir öðrum. En hvaða gildi hefur það?
12 Hugsaðu þér hve mikið sumir leggja á sig til að verða frægir, annaðhvort í smáum mæli eða stórum. Við tökum eftir því í skólanum, í bæjarfélaginu og innan ýmissa hópa. Þetta er mjög áberandi í fari þeirra sem vilja skapa sér nafn á sviði lista, skemmtanalífs og stjórnmála. En er það ekki í eðli sínu hégómi? Salómon kallaði það réttilega „eftirsókn eftir vindi.“ (Prédikarinn 4:4) Hve margir skyldu vita af unglingi sem kemst til metorða í klúbbi, skarar fram úr í keppnisliði eða stendur sig vel í hljómsveit — eða þá af upphefð sem maður eða kona hlýtur hjá fyrirtæki eða í samfélaginu? Ætli flestir hinum megin á hnettinum (eða jafnvel í sama landi) viti að þessi manneskja er til? Eða er þeim algerlega ókunnugt um þá smáfrægð sem hún hefur aflað sér? Og hið sama má segja um hvert það vald sem maður fær á vinnustað, í bæjarfélaginu eða innan einhvers hóps.
13. (a) Hvernig hjálpar Prédikarinn 9:4, 5 okkur að sjá í réttu ljósi eftirsókn eftir upphefð eða völdum? (b) Hvaða staðreyndir ættum við að horfast í augu við ef þetta líf er allt og sumt? (Sjá neðanmálsathugasemd.)
13 Hverju skilar slík upphefð eða vald til langs tíma litið? Ein kynslóð fer og önnur kemur, og fræga eða volduga fólkið hverfur af sjónarsviðinu og gleymist. Þannig fer fyrir byggingarmeisturum, tónlistarmönnum og öðrum listamönnum, þjóðfélagsumbótamönnum og öðrum slíkum, og eins flestum stjórnmálamönnum og herforingjum. Hve marga slíka þekkir þú með nafni sem voru uppi frá 1700 til 1800? Salómon mat stöðuna rétt er hann sagði: „Lifandi hundur er betri en dautt ljón. Því að þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt . . . því að minning þeirra gleymist.“ (Prédikarinn 9:4, 5) Og sé þetta líf allt og sumt, þá er það sannarlega hégómi að sækjast eftir upphefð eða völdum.a
Áherslur okkar og skyldur
14. Hvers vegna ætti Prédikarinn að hjálpa okkur persónulega?
14 Salómon lét ógetið ýmissa athafna, markmiða og skemmtana sem eru þungamiðjan í lífi manna. En það sem hann fjallaði um nægir. Athugun okkar á Prédikaranum þarf ekki að virðast dapurleg eða neikvæð því að við höfum skoðað af raunsæi biblíubók sem Jehóva Guð innblés okkur til gagns. Hún getur hjálpað okkur öllum að leiðrétta lífsviðhorf okkar og áherslur, einkum þegar litið er á þær niðurstöður sem Jehóva hjálpaði Salómon að komast að. — Prédikarinn 7:2; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.
15, 16. (a) Hvernig leit Salómon á það að njóta lífsins? (b) Hvað sagði Salómon vera nauðsynlegt til að njóta lífsins?
15 Salómon nefndi margsinnis að þjónar hins sanna Guðs ættu að hafa ánægju af því sem þeir gera fyrir augliti hans. „Ég komst að raun um, að ekkert er betra með þeim en að vera glaður og gæða sér meðan ævin endist. En það, að maður etur og drekkur og nýtur fagnaðar af öllu striti sínu, einnig það er Guðs gjöf.“ (Prédikarinn 2:24; 3:12, 13; 5:17; 8:15) Salómon var ekki að hvetja til sukks og svalls og aðhylltist ekki það viðhorf að ‚eta, drekka og vera glaður því að á morgun deyjum við.‘ (1. Korintubréf 15:14, 32-34) Hann átti við það að eðlilegar nautnir, svo sem að borða og drekka, séu við hæfi. Það gerir vilja skaparans greinilega að þungamiðju lífsins hjá okkur því að það er hann sem ákveður hvað sé raunverulega gott. — Sálmur 25:8; Prédikarinn 9:1; Markús 10:17, 18; Rómverjabréfið 12:2.
16 Salómon skrifaði: „Far því og et brauð þitt með ánægju og drekk vín þitt með glöðu hjarta, því að Guð hefir þegar lengi haft velþóknun á verkum þínum.“ (Prédikarinn 9:7-9) Já, með því að vera upptekin af verkum, sem Jehóva hefur velþóknun á, geta karlar og konur notið lífsfyllingar. Það útheimtir að við tökum stöðugt tillit til hans. Það er harla ólíkt viðhorfum flestra sem meta lífið út frá mannlegum forsendum.
17, 18. (a) Hvernig bregðast margir við veruleika lífsins? (b) Hvaða niðurstöðu ættum við alltaf að hafa í huga?
17 Enda þótt sum trúarbrögð boði framhaldslíf eru margir þeirrar trúar að þetta líf sé eiginlega það eina sem þeir geti verið vissir um. Þú hefur kannski séð þá bregðast við líkt og Salómon lýsti: „Af því að dómi yfir verkum illskunnar er ekki fullnægt þegar í stað, þá svellur mönnum móður til þess að gjöra það sem illt er.“ (Prédikarinn 8:11) Jafnvel þeir sem sökkva sér ekki niður í vond verk sýna að þeir hugsa fyrst og fremst um líðandi stund. Það er ein ástæðan fyrir því að peningar, eignir, upphefð, yfirráð yfir öðrum, fjölskyldan eða önnur slík hugðarefni skipta þá svo gríðarlegu máli. En Salómon lét ekki staðar numið hér. Hann bætti við: „Syndarinn gjörir það sem illt er hundrað sinnum og verður samt gamall, þótt ég hins vegar viti, að guðhræddum mönnum, er óttast Guð, muni vel vegna. En hinum guðlausa mun ekki vel vegna, og hann mun ekki verða langlífur fremur en skugginn, af því að hann óttast ekki Guð.“ (Prédikarinn 8:12, 13) Salómon var greinilega sannfærður um að okkur farnist vel ef við ‚óttumst Guð.‘ Hversu vel? Við finnum svarið í andstæðu sem hann benti á. Jehóva getur gert okkur ‚langlíf.‘
18 Þeir sem eru tiltölulega ungir ættu sérstaklega að íhuga þá öruggu staðreynd að þeim vegni vel ef þeir óttast Guð. Eins og þú hefur kannski sjálfur séð getur fljótasti hlauparinn hrasað og tapað í keppni. Öflugur her getur beðið ósigur. Klókur kaupsýslumaður getur tapað öllu. Og mörg önnur óvissa getur gert lífið algerlega óútreiknanlegt. En eitt er alveg víst: Viturlegasta og öruggasta stefnan er sú að njóta lífsins og gera gott innan þess ramma sem siðferðislög Guðs og vilji hans setja. (Prédikarinn 9:11) Það felur í sér að læra af Biblíunni hver vilji Guðs sé, vígja honum líf sitt og skírast sem kristinn maður. — Matteus 28:19, 20.
19. Hvernig geta unglingar notað líf sitt en hvað er viturlegt?
19 Skaparinn neyðir hvorki unglinga né aðra til að fylgja leiðsögn sinni. Þeir geta sökkt sér niður í menntun og jafnvel grúskað ævilangt í ótal bókum mannlegs vísdóms. En með tímanum er það lýjandi fyrir líkamann. Þeir geta fetað þá slóð sem ófullkomið hjarta þeirra leiðir þá eða fylgt því sem augun girnast. Það hefur án efa gremju í för með sér, og það líf, sem þannig er varið, reynist hégóminn einn þegar á líður. (Prédikarinn 11:9–12:12; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Salómon hvetur því unglinga til nokkurs sem við ættum að íhuga alvarlega óháð aldri: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast, er þú segir um: ‚Mér líka þau ekki.‘“ — Prédikarinn 12:1.
20. Hvernig er rétt að líta á boðskap Prédikarans?
20 Hver ætti niðurstaðan þá að vera? Nú, hvað um niðurstöðu Salómons? Hann sá eða rannsakaði „öll verk, sem gjörast undir sólinni, og sjá: Allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi.“ (Prédikarinn 1:14) Það er ekki önuglyndur bölsýnismaður sem talar í Prédikaranum heldur er þessi biblíubók hluti af innblásnu orði Guðs sem verðskuldar að við íhugum það.
21, 22. (a) Um hvaða svið lífsins fjallaði Salómon? (b) Að hvaða viturlegri niðurstöðu komst hann? (c) Hvaða áhrif hefur athugun á efni Prédikarans haft á þig?
21 Salómon kynnti sér strit manna, baráttu og metnaðarmál. Hann hugleiddi hvernig mönnum farnaðist í vanagangi lífsins og íhugaði þau vonbrigði og tómleika sem er svo oft hlutskipti þeirra. Hann ígrundaði ófullkomleika mannsins og dauðann sem af honum hlýst. Og hann tók mið af vitneskju sem Guð veitti um ástand hinna dánu, og af framtíðarlífshorfum manna. Þessi maður, einn sá vitrasti sem uppi hefur verið, lagði mat á allt þetta með hjálp þeirrar visku sem Guð veitti honum. Og niðurstaða hans stendur í Heilagri ritningu til gagns öllum sem vilja að líf þeirra hafi raunverulegt gildi. Ættum við ekki að vera honum sammála?
22 „Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra. Því að Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm, sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt.“ — Prédikarinn 12:13, 14.
[Neðanmáls]
a Varðturninn sagði einu sinni: „Við ættum ekki að sóa þessu lífi í hégóma . . . Ef þetta líf er allt og sumt skiptir ekkert máli. Þetta líf er þá eins og bolti sem kastað er upp í loftið og fellur fljótt til jarðar aftur. Það er hverfull skuggi, fölnandi blóm, visnandi grasstrá. . . . Ævi okkar er örsmátt rykkorn á vogarskálum eilífðarinnar. Það er ekki einu sinni dropi í straumi tímans. [Salómon] fer sannarlega með rétt mál er hann virðir fyrir sér hið margvíslega amstur mannsins og lýsir það hégóma. Við hverfum svo fljótt að það er varla þess virði að fæðast. Við erum ein af milljörðum sem koma og fara og fáir vita nokkru sinni að við vorum til. Þetta er ekki nöturleg kaldhæðni heldur sannleikur, staðreynd sem horfast þarf í augu við, hreint og beint raunsæi ef þetta líf er allt og sumt.“ — 1. ágúst 1957 (á ensku), bls. 472.
Manstu?
◻ Hvað er viturlegt mat á gildi eigna í lífinu?
◻ Hvers vegna ættum við ekki að leggja óhóflega áherslu á fjölskyldu, upphefð eða yfirráð yfir öðrum?
◻ Til hvaða afstöðu hvatti Salómon gagnvart því að njóta lífsins?
◻ Hvaða gagn hefurðu haft af því að skoða Prédikarann?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Peningar og eignir eru ekki trygging fyrir lífshamingju.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Ungt fólk má treysta að því vegni vel ef það óttast Guð.