Friðartími framundan
„Öllu er afmörkuð stund, . . . ófriður hefir sinn tíma, og friður hefir sinn tíma.“ — PRÉDIKARINN 3:1, 8.
1. Hvaða undarlegt ástand hefur ríkt á 20. öldinni í sambandi við stríð og frið?
FLESTIR þrá frið og hafa ærna ástæðu til. Tuttugasta öldin hefur verið ófriðsamari en nokkur önnur öld sögunnar. Það er raunar kaldhæðnislegt þegar haft er í huga að aldrei hefur meira verið gert til að reyna að tryggja frið í heiminum. Þjóðabandalagið var stofnað árið 1920. Kellogg-Briand-sáttmálinn var gerður árið 1928 en heimildarrit kallar hann „glæsilegasta þáttinn í friðarviðleitni manna eftir fyrri heimsstyrjöldina,“ og „nálega allar þjóðir heims . . . féllust á að hafna stríði sem stjórntæki“ og undirrituðu sáttmálann. Sameinuðu þjóðunum var svo komið á laggirnar árið 1945 í stað Þjóðabandalagsins eftir að það hafði lagt upp laupana.
2. Hvert er yfirlýst markmið Sameinuðu þjóðanna og í hvaða mæli hefur það náðst?
2 Heimsfriður er yfirlýst markmið Sameinuðu þjóðanna líkt og Þjóðabandalagsins. En árangurinn hefur verið takmarkaður. Að vísu á heimurinn hvergi í stríði í sama mæli og átti sér stað í heimsstyrjöldunum tveim, en tugir smærri stríða ræna menn hugarfriði, eigum og oft lífi í hundruð þúsunda tali. Getum við leyft okkur að vona að Sameinuðu þjóðirnar geti komið á friði á 21. öldinni?
Grundvöllur raunverulegs friðar
3. Af hverju getur sannur friður aldrei varað samhliða hatri?
3 Friður milli þjóða útheimtir meira en umburðarlyndi. Er nokkur leið að eiga frið við þann sem maður hatar? Ekki að sögn 1. Jóhannesarbréfs 3:15: „Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari.“ Eins og sagan sýnir þarf ekki mikið til að djúpstætt hatur brjótist út í ofbeldi.
4. Hverjir einir geta notið friðar og hvers vegna?
4 Þar eð Jehóva er „Guð friðarins“ njóta þeir einir friðar sem elska hann og virða réttlátar meginreglur hans mikils. Ljóst er að Jehóva veitir ekki öllum frið. „Hinum óguðlegu, segir Guð minn, er enginn friður búinn.“ Ástæðan er sú að óguðlegir vilja ekki láta heilagan anda Guðs leiða sig, en friður er einn af ávöxtum hans. — Rómverjabréfið 15:33; Jesaja 57:21; Galatabréfið 5:22.
5. Hvað er óhugsandi að sannkristnir menn geri?
5 Það er óhugsandi að sannkristnir menn heyi stríð gegn öðrum mönnum eins og svokallaðir kristnir menn hafa gert svo oft, einkum á 20. öldinni. (Jakobsbréfið 4:1-4) Þeir berjast að vísu gegn kenningum sem gefa ranga mynd af Guði, en sá hernaður á að vera fólki til hjálpar en ekki tjóns. Það gengur í berhögg við sanna kristni að ofsækja aðra vegna trúarágreinings eða valda mönnum líkamsmeiðingum af þjóðernisástæðum. „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi,“ sagði Páll í bréfi til kristinna manna í Róm. — Rómverjabréfið 12:17-19; 2. Tímóteusarbréf 2:24, 25.
6. Hvar fyrirfinnst sannur friður nú á dögum?
6 Friður, sem Jehóva Guð gefur, fyrirfinnst aðeins meðal sannra tilbiðjenda hans. (Sálmur 119:165; Jesaja 48:18, NW) Enginn stjórnmálaágreiningur spillir einingu þeirra af því að þeir eru alls staðar hlutlausir í stjórnmálum. (Jóhannes 15:19; 17:14) Þeir eru „fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun“ þannig að trúarágreiningur raskar ekki friði þeirra. (1. Korintubréf 1:10) Friðurinn, sem vottar Jehóva njóta, er hreint kraftaverk sem Guð hefur unnið í samræmi við loforð sitt: „Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum.“ — Jesaja 60:17; Hebreabréfið 8:10.
Af hverju ‚hefur ófriður sinn tíma‘?
7, 8. (a) Hvernig líta vottar Jehóva á nútímann þótt þeir séu friðsamir? (b) Hvert er helsta vopnið í hernaði kristinna manna?
7 Þó svo að vottar Jehóva séu friðsamir er yfirstandandi tími fyrst og fremst ‚ófriðartími‘ að þeirra mati. Hér er auðvitað ekki átt við bókstaflegt stríð því að Biblían segir að ‚hver sem vilji fái ókeypis lífsins vatn.‘ (Opinberunarbókin 22:17) Það gengi þvert á þetta boð að þröngva boðskap Biblíunnar upp á fólk og þvinga það til trúar. Hernaður votta Jehóva er eingöngu andlegur. Páll skrifaði: „Vopnin, sem vér berjumst með, eru ekki jarðnesk, heldur máttug vopn Guðs til að brjóta niður vígi.“ — 2. Korintubréf 10:4; 1. Tímóteusarbréf 1:18.
8 „Vopnin, sem vér berjumst með,“ eru ekki síst ‚sverð andans sem er Guðs orð.‘ (Efesusbréfið 6:17) Þetta er máttugt sverð. „Orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ (Hebreabréfið 4:12) Með þessu sverði geta kristnir menn brotið niður „hugsmíðar og allt, sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði.“ (2. Korintubréf 10:5) Með það að vopni geta þeir flett ofan af falskenningum, skaðlegu hátterni og heimspeki sem endurspeglar visku manna en ekki Guðs. — 1. Korintubréf 2:6-8; Efesusbréfið 6:11-13.
9. Af hverju verðum við að heyja látlaust stríð gegn hinu synduga holdi?
9 Annars konar andlegur hernaður er háður gegn hinu synduga holdi. Kristnir menn fylgja fordæmi Páls sem viðurkenndi: „Ég leik líkama minn hart og gjöri hann að þræli mínum, til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki sjálfur verða gjörður rækur.“ (1. Korintubréf 9:27) Kristnir menn í Kólossu voru hvattir til að deyða ‚hið jarðneska í fari sínu: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd, sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun.‘ (Kólossubréfið 3:5) Og biblíuritarinn Júdas hvatti kristna menn til að „berjast fyrir þeirri trú, sem heilögum hefur í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld.“ (Júdasarbréfið 3) Af hverju þurfum við þess? Páll svarar: „Ef þér lifið að hætti holdsins, munuð þér deyja, en ef þér deyðið með andanum gjörðir líkamans, munuð þér lifa.“ (Rómverjabréfið 8:13) Þessi skýru orð sýna berlega að það má ekki láta deigan síga í stríðinu gegn slæmum tilhneigingum.
10. Hvað gerðist árið 1914 og undanfari hvers er það?
10 Önnur ástæða fyrir því að líta má á nútímann sem stríðstíma er sú að ‚hefndardagur Guðs‘ er yfirvofandi. (Jesaja 61:1, 2) Árið 1914 rann upp tími Jehóva til að stofnsetja messíasarríkið og fela því að heyja stríð gegn kerfi Satans. Þá rann út tíminn sem menn höfðu til að gera tilraunir með eigið stjórnarfar án íhlutunar Guðs. Flestir halda áfram að hafna Messíasi, sem Guð hefur sett stjórnanda, í stað þess að viðurkenna hann. Þannig var það líka á fyrstu öldinni. (Postulasagan 28:27) Vegna þessarar andstöðu hefur Kristur neyðst til að ‚drottna mitt á meðal óvina sinna.“ (Sálmur 110:2) Opinberunarbókin 6:2 lofar því hins vegar að hann fari út „sigrandi og til þess að sigra.“ Það gerir hann í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda sem á hebresku kallast Harmagedón.‘ — Opinberunarbókin 16:14, 16.
„Að tala hefir sinn tíma“
11. Hvers vegna hefur Jehóva verið einstaklega þolinmóður en hvað gerist að lokum?
11 Liðin eru 85 ár frá þeim straumhvörfum sem urðu í sögu mannkyns árið 1914. Jehóva hefur sýnt mannkyninu mikla þolinmæði. Hann hefur vakið votta sína til vitundar um það hve mikið liggur á. Milljónir mannslífa eru í húfi. Þessi mikli mannfjöldi þarf að fá viðvörun því að Jehóva „vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ (2. Pétursbréf 3:9) En innan skamms opinberast „Drottinn Jesús . . . af himni með englum máttar síns.“ Þá finna allir, sem hafa af ásetningi hafnað guðsríkisboðskapnum, fyrir ‚hegningunni‘ sem Jesús lætur koma „yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.“ — 2. Þessaloníkubréf 1:6-9.
12. (a) Af hverju er tilgangslaust að reyna að giska á hvenær þrengingin mikla hefst? (b) Við hvaða hættu varaði Jesús í þessu sambandi?
12 Hvenær þrýtur þolinmæði Jehóva? Það er tilgangslaust að reyna að giska á hvenær ‚þrengingin mikla‘ hefst. Jesús sagði skýrt og greinilega að ‚þann dag og stund vissi enginn.‘ Hann hvatti þess vegna: „Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur. Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“ (Matteus 24:21, 36, 42, 44) Þetta merkir einfaldlega að við ættum að hafa vakandi auga á heimsatburðunum á hverjum degi og hafa þrenginguna miklu í huga. (1. Þessaloníkubréf 5:1-5) Það er stórhættulegt að halda að við getum tekið lífinu með ró, lifað svokölluðu eðlilegu lífi og beðið átekta til að sjá hvernig málin þróast. Jesús sagði: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara.“ (Lúkas 21:34, 35) Eitt er víst: Hinir ‚fjórir englar‘ Jehóva, sem halda aftur af „fjórum vindum“ eyðingarinnar, munu ekki gera það endalaust. — Opinberunarbókin 7:1-3.
13. Hvað gera næstum sex milljónir manna sér ljóst?
13 Orð Salómons um að það ‚hafi sinn tíma að tala‘ öðlast sérstaka merkingu í ljósi þess að reikningsskiladagurinn nálgast óðfluga. (Prédikarinn 3:7) Næstum sex milljónir votta Jehóva gera sér ljóst að nú er tími til að tala og þeir tala kostgæfnir um dýrð konungdóms Guðs og vara við hefndardegi hans. Þeir koma sjálfboða á valdadegi Krists. — Sálmur 110:3; 145:10-12.
Þeir sem „tala um frið þegar enginn friður er“
14. Hvaða falsspámenn voru uppi á sjöundu öld f.o.t.?
14 Spámenn Guðs, þeir Jeremía og Esekíel, fluttu dómsboðskap hans gegn Jerúsalem á sjöundu öld f.o.t. vegna þrjósku hennar og óhlýðni við Guð. Eyðingin, sem þeir boðuðu, átti sér stað árið 607 f.o.t., þó svo að þekktir og áhrifamiklir trúarleiðtogar hefðu andmælt þeim. Trúarleiðtogarnir reyndust ‚heimskir spámenn sem leiddu fólk Guðs í villu og sögðu: „Það er friður!“ þegar enginn friður var.‘ — Esekíel 13:1-16, NW; Jeremía 6:14, 15; 8:8-12.
15. Eru sams konar falsspámenn uppi núna? Skýrðu svarið.
15 Flestir trúarleiðtogar nútímans eru eins og ‚heimskir spámenn‘ þess tíma og vara fólk ekki við komandi dómsdegi Guðs. Í staðinn halda þeir á loft þeirri framtíðarsýn að stjórnmálasamtökum takist að lokum að koma á friði og öryggi. Þeim er meira í mun að þóknast mönnum en Guði og segja sóknarbörnunum það sem þau vilja heyra, í stað þess að segja þeim að Guðsríki sé stofnsett og að konungurinn Messías fullni sigur sinn bráðlega. (Daníel 2:44; 2. Tímóteusarbréf 4:3, 4; Opinberunarbókin 6:2) Þeir eru falsspámenn og tala líka um ‚frið þegar enginn friður er.‘ En sannfæring þeirra snýst bráðlega og skyndilega í skelfingu þegar þeir fá yfir sig reiði hans sem þeir hafa mistúlkað og svívirt. Biblían líkir heimsveldi falskra trúarbragða við siðlausa konu, og leiðtogar þess verða í miðjum klíðum að boða blekkingarfrið sinn þegar þeim verður greitt banahögg. — Opinberunarbókin 18:7, 8.
16. (a) Hvað eru vottar Jehóva þekktir fyrir? (b) Hvernig eru þeir ólíkir þeim sem hrópa: „Friður, þegar enginn friður er“?
16 Þótt flestir hinna þekktu og áhrifamiklu leiðtoga haldi hræsnisfullir áfram að boða frið haggar það ekki trausti þeirra sem trúa á fyrirheit Guðs um sannan frið. Í meira en öld hafa vottar Jehóva reynst dyggir málsvarar orðs Guðs, hugrakkir andstæðingar falskra trúarbragða og einbeittir stuðningsmenn Guðsríkis. Þeir svæfa ekki fólk með fleðulegum friðarloforðum heldur leggja sig í líma við að vekja það til vitundar um þann veruleika að núna sé ófriðartími. — Jesaja 56:10-12; Rómverjabréfið 13:11, 12; 1. Þessaloníkubréf 5:6.
Jehóva rýfur þögnina
17. Hvað merkir það að Jehóva rjúfi bráðlega þögnina?
17 Salómon sagði einnig: „Hinn ráðvanda og hinn óguðlega mun Guð dæma, því að hann hefir sett tíma öllum hlutum og öllum gjörðum.“ (Prédikarinn 3:17) Já, Jehóva hefur sett ákveðinn tíma til að fullnægja dómi á falstrúarbrögðum og á ‚konungum jarðarinnar sem ganga fram gegn Jehóva og hans smurða.‘ (Sálmur 2:1-6; Opinberunarbókin 16:13-16) Þegar sá tími rennur upp hættir hann að vera „hljóður.“ (Sálmur 83:2; Jesaja 62:1; Jeremía 47:6, 7) Fyrir milligöngu hins krýnda messíasarkonungs, Jesú Krists, „talar“ hann eina málið sem andstæðingarnir virðast skilja: „[Jehóva] leggur af stað sem hetja, elur á hugmóð sínum eins og bardagamaður. Hann kallar, hann lýstur upp herópi, sýnir hetjuskap á óvinum sínum: Ég hefi þagað langan tíma, verið hljóður og stillt mig. Nú mun ég hljóða sem jóðsjúk kona, stynja og standa á öndinni í sama bili. Ég mun svíða fjöllin og hálsana og skrælna láta allar jurtir, er þar vaxa. Ég mun gjöra ár að eyjum og þurrka upp tjarnirnar. Ég mun leiða blinda menn um veg, er þeir ekki rata, færa þá um stigu, sem þeir ekki þekkja. Ég vil gjöra myrkrið fram undan þeim að ljósi og hólótt landið að jafnsléttu. Þessa hluti mun ég gjöra, og ég hætti eigi við þá.“ — Jesaja 42:13-16.
18. Í hvaða skilningi verður fólk Guðs bráðlega ‚þögult‘?
18 Þegar Jehóva „talar“ til varnar guðdómi sínum getur fólk hans verið ‚þögult‘ því að það þarf þá ekki lengur að tala sér til varnar. Þá eiga þessi orð við þjóna Guðs eins og forðum: „En eigi þurfið þér að berjast við þá, skipið yður aðeins í fylkingu, standið kyrrir og sjáið liðsinni [Jehóva] við yður.“ — 2. Kroníkubók 20:17.
19. Hvaða sérréttindi öðlast andlegir bræður Krists bráðlega?
19 Þetta verður hrikalegur ósigur fyrir Satan og skipulag hans. Hinir dýrlegu bræður Krists munu taka þátt í einstæðum sigri réttlætisins í samræmi við fyrirheitið: „Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum yðar.“ (Rómverjabréfið 16:20) Hinn langþráði friðartími er loksins runninn upp.
20. Hvað verður bráðlega tímabært?
20 Það verður mikil blessun að fá að lifa þessa miklu opinberun máttar Jehóva hér á jörð. Skömmu síðar bætast í hópinn trúfastir karlar og konur fortíðar sem tími verður kominn til að reisa upp. Þúsundáraríki Krists verður svo sannarlega tími til að „gróðursetja, . . . lækna, . . . byggja upp, . . . hlæja, . . . dansa, . . . faðmast [og] elska.“ Já, og það verður að eilífu tími ‚friðar‘! — Prédikarinn 3:1-8; Sálmur 29:11; 37:11; 72:7.
Hvert er svarið?
◻ Hver er grundvöllur varanlegs friðar?
◻ Hvers vegna líta vottar Jehóva á nútímann sem ‚ófriðartíma‘?
◻ Hvenær á fólk Guðs „að tala“ og hvenær ‚að vera hljótt‘?
◻ Hvenær og hvernig rýfur Jehóva þögnina?
[Rammi á blaðsíðu 13]
Jehóva hefur tiltekinn tíma til að
◻ draga Góg út í árás á fólk sitt. — Esekíel 38:3, 4, 10-12.
◻ leggja mennskum stjórnendum í brjóst að eyða Babýlon hinni miklu. — Opinberunarbókin 17:15-17; 19:2.
◻ halda brúðkaup lambsins. — Opinberunarbókin 19:6, 7.
◻ hefja stríðið við Harmagedón. — Opinberunarbókin 19:11-16, 19-21.
◻ binda Satan og hefja þúsund ára stjórn Jesú. — Opinberunarbókin 20:1-3.
Þessir atburðir eru taldir upp í sömu röð og þeirra er getið í Biblíunni. Við getum verið viss um að allt gerist þetta í þeirri röð sem Jehóva ákveður og nákvæmlega á þeim tíma sem hann ákveður.
[Myndir á blaðsíðu 15]
Þúsundáraríki Krists verður tími . . .
til að hlæja . . .
til að faðmast . . .
til að elska . . .
til að gróðursetja . . .
til að dansa . . .
til að byggja . . .