„Kenn þú oss að biðja“
„Einn lærisveina hans sagði við hann . . . : ‚Herra, kenn þú oss að biðja.‘“ — LÚKAS 11:1.
1-3. (a) Hvers vegna báðu lærisveinar Jesú hann að kenna sér að biðja? (b) Hvaða spurninga getum við spurt um bænina?
SUMUM er gefin falleg söngrödd og aðrir hafa fengið tónlistargáfu í vöggugjöf, en til að þessar gáfur fái notið sín sem best þurfa bæði söngvarar og hljóðfæraleikarar kennslu. Hið sama gildir um bænina. Lærisveinar Jesú Krists gerðu sér ljóst að þeir þyrftu kennslu ef Guð ætti að heyra bænir þeirra.
2 Jesús bað yfirleitt einslega til föður síns líkt og hann gerði heila nótt áður en hann valdi postulana tólf. (Lúkas 6:12-16) Enda þótt hann hvetti lærisveinana líka til að biðja einslega heyrðu þeir hann einnig biðja opinberlega og sáu að hann var ekki eins og trúhræsnararnir sem vildu láta taka eftir sér er þeir báðu. (Matteus 6:5, 6) Skiljanlegt er því að lærisveinarnir hafi viljað fá rækilega kennslu hjá honum um bænina. Við lesum því: „Svo bar við, er Jesús var á stað einum að biðjast fyrir, að einn lærisveina hans sagði við hann, þá er hann lauk bæn sinni: ‚Herra, kenn þú oss að biðja, eins og Jóhannes [skírari] kenndi lærisveinum sínum.‘“ — Lúkas 11:1.
3 Hverju svaraði Jesús? Hvað getum við lært af fordæmi hans? Og hvernig getum við haft gagn af leiðbeiningum hans um bænina?
Lærdómur fyrir okkur
4. Hvers vegna ættum við að ‚biðja án afláts‘ og hvað merkir það?
4 Við getum lært margt um bænina af orðum Jesú og fordæmi. Einn lærdómurinn er sá að fyrst fullkominn sonur Guðs þurfti að biðja reglulega þurfa ófullkomnir lærisveinar hans miklu frekar að leita stöðugt leiðsagnar, hughreystingar og andlegs styrks frá Guði. Þess vegna ættum við að ‚biðja án afláts.‘ (1. Þessaloníkubréf 5:17) Að sjálfsögðu merkir það ekki að við þurfum bókstaflega alltaf að vera á hnjánum. Það merkir að við ættum alltaf að vera bænrækin í huga. Við ættum að leita leiðsagnar hjá Guði á öllum sviðum lífsins þannig að við getum sýnt innsæi í breytni okkar og alltaf haft velþóknun hans. — Orðskviðirnir 15:24.
5. Hvað gæti tekið frá okkur tíma sem við ættum að nota til að biðja og hvernig getum við komið í veg fyrir að það gerist?
5 Núna á „síðustu dögum“ getur margt seilst inn á þann tíma sem við ættum að verja til bænahalds. (2. Tímóteusarbréf 3:1) En ef heimilisstörf, viðskiptalíf og annað þess háttar truflar reglulegt bænasamband við himneskan föður okkar, þá eru áhyggjur þess lífs farnar að íþyngja okkur um of. Við ættum að breyta slíku þegar í stað því að við missum trúna ef við biðjum ekki. Annaðhvort ættum við að setja veraldlegum skyldum okkar skorður eða vega á móti þeim með því að snúa hjörtum okkar oftar og einlægar til Guðs til leiðsagnar. Við ættum að vera „algáðir til bæna.“ — 1. Pétursbréf 4:7.
6. Hvaða bæn munum við rannsaka núna og í hvaða tilgangi?
6 Í hinni svonefndu fyrirmyndarbæn eða „Faðirvorinu“ kenndi Jesús lærisveinum sínum hvernig þeir ættu að biðja en ekki með hvaða orðum. Frásögn Lúkasar er eilítið frábrugðin frásögn Matteusar því þeir segja sinn frá hvoru atvikinu. Við skulum rannsaka þessa bæn lið fyrir lið sem dæmi um hvernig fylgjendur Jesú og vottar Jehóva ættu að biðja.
Faðir okkar og nafn hans
7. Hverjir hafa þau sérréttindi að ávarpa Jehóva sem ‚föður okkar‘?
7 „Faðir vor, þú sem ert á himnum.“ (Matteus 6:9; Lúkas 11:2) Úr því að Jehóva er skapari mannkyns og býr á himnum er viðeigandi að ávarpa hann sem ‚föður okkar á himnum.‘ (1. Konungabók 8:49; Postulasagan 17:24, 28) Með því að ávarpa Jehóva sem föður ‚okkar‘ viðurkennum við að aðrir eiga líka náið samband við Guð. En hverjir hafa ótakmörkuð sérréttindi að ávarpa hann sem föður sinn? Einungis vígðir, skírðir einstaklingar í fjölskyldu tilbiðjenda hans. Það að kalla Jehóva ‚föður okkar‘ gefur til kynna að við höfum trú á Guð og gerum okkur ljóst að eina leiðin til sáttar við hann er sú að viðurkenna lausnarfórn Jesú að fullu. — Hebreabréfið 4:14-16; 11:6.
8. Hvers vegna ættum við að þrá það að biðja til Jehóva?
8 Við ættum að finna til mjög náinna tengsla við föður okkar á himnum. Okkur ætti að langa til að nota tímann til að biðja til Guðs, líkt og börn sem þreytast aldrei á að leita til föður síns. Djúpt þakklæti vegna andlegra og efnislegra blessana hans ætti að koma okkur til að þakka honum fyrir gæsku hans. Við ættum að finna hvöt hjá okkur til að varpa á hann þeim byrðum sem íþyngja okkur, í trausti þess að hann muni halda okkur uppi. (Sálmur 55:23) Við megum vera viss um að allt muni fara vel að lokum ef við erum trúföst, vegna þess að Guð lætur sér annt um okkur. — 1. Pétursbréf 5:6, 7.
9. Hvað felst í því að biðja þess að nafn Guðs helgist?
9 „Helgist þitt nafn.“ (Matteus 6:9; Lúkas 11:2) Orðið „nafn“ stendur stundum fyrir persónuna sjálfa og „að helga“ merkir „að gera heilagt, aðgreina eða halda sem heilagt.“ (Samanber Opinberunarbókina 3:4.) Sá sem biður að nafn Guðs helgist er því í raun að biðja Jehóva um að ganga fram og helga sig. Hvernig? Með því að hreinsa nafn sitt af allri þeirri smán sem á það hefur verið hrúgað. (Sálmur 135:13) Það mun Guð gera með því að uppræta alla illsku, upphefja sjálfan sig og láta þjóðirnar vita að hann er Jehóva. (Esekíel 36:23; 38:23) Ef við þráum þann dag og metum hátign Jehóva í raun að verðleikum, þá munum við alltaf nálgast hann með þeirri lotningu sem gefin er í skyn í orðunum: „Helgist þitt nafn.‘
Ríki Guðs og vilji
10. Hvað merkir það er við biðjum þess að Guðsríki komi?
10 „Til komi þitt ríki.“ (Matteus 6:10; Lúkas 11:2) Ríkið er hið æðsta drottinvald Jehóva eins og það birtist í hinni himnesku messíasarstjórn í höndum Jesú Krists og hinna ‚heilögu‘ sem með honum eru. (Daníel 7:13, 14, 18, 27; Jesaja 9:6, 7; 11:1-5) Hvað merkir það að biðja þess að ríkið ‚komi‘? Það merkir að við biðjum þess að Guðsríki komi gegn öllum andstæðingum stjórnar Guðs á jörðu. Eftir að ríkið hefur ‚knosað og að engu gjört öll hin jarðnesku ríki,‘ þá mun það umbreyta jörðinni í paradís. — Daníel 2:44; Lúkas 23:43.
11. Hvað munum við gera ef við þráum að sjá vilja Jehóva gerðan um allan alheiminn?
11 „Verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Þetta er beiðni um að Guð framkvæmi tilgang sinn gagnvart jörðinni sem felur í sér að uppræta óvini sína. (Sálmur 83:10-19; 135:6-10) Með þessari beiðni gefum við í skyn að við þráum að sjá vilja Guðs gerðan um allan alheiminn. Ef sú von býr í hjarta okkar, þá munum við alltaf gera vilja Jehóva sem best við getum. Við gætum ekki beðið slíks í hreinskilni ef við reyndum ekki í einlægni að lifa í samræmi við vilja Guðs. Ef við biðjum þess, þá ættum við að fullvissa okkur um að við gerum ekkert sem brýtur gegn vilja Guðs, svo sem að gera hosur okkar grænar fyrir einhverjum sem ekki er í trúnni eða tileinka okkur veraldlega háttsemi. (1. Korintubréf 7:39; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Þess í stað ættum við í öllu sem fyrir okkur ber að spyrja: ‚Hver er vilji Jehóva í þessu máli?‘ Ef við elskum Guð af öllu hjarta munum við leita leiðsagnar hans á öllum sviðum lífsins. — Matteus 22:37.
Daglegt brauð
12. Hvers vegna er það gott fyrir okkur að biðja aðeins um „daglegt brauð“?
12 „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“ (Matteus 6:11) Í frásögn Lúkasar segir: „Gefðu okkur brauð eftir þörfum til dagsins í dag.“ (Lúkas 11:3, NW) Er við biðjum Guð að sjá okkur fyrir nauðsynlegum mat „til dagsins í dag“ stuðlar það að trú á mátt hans til að sjá fyrir þörfum okkar frá degi til dags. Ísraelsmenn áttu að safna manna, „svo miklu sem hver þarf þann daginn,“ ekki til viku eða lengur. (2. Mósebók 16:4) Þetta er ekki bæn um kræsingar eða ofgnótt heldur um að daglegum þörfum sé fullnægt eins og þær eru á hverri stundu. Það að biðja aðeins um daglegt brauð hjálpar okkur einnig að verða ekki ágjörn. — 1. Korintubréf 6:9, 10.
13. (a) Hvað er í víðum skilningi fólgið í því að biðja um daglegt brauð? (b) Hvaða viðhorf ættum við að hafa jafnvel þótt við leggjum hart að okkur og höfum þó varla til hnífs og skeiðar?
13 Það að biðja um daglegt brauð gefur í víðari skilningi til kynna að okkur finnist við ekki vera sjálfstæð heldur treystum Guði sífellt til að sjá okkur fyrir mat, drykk, klæðum og öðrum nauðsynjum. Við sem erum vígðir tilbiðjendur Guðs treystum föður okkar, en við sitjum þó ekki auðum höndum og ætlumst til að hann geri kraftaverk til að sjá fyrir okkur. Við vinnum og notum þá möguleika, sem okkur standa opnir, til að sjá okkur fyrir fæði og öðrum nauðsynjum. Eigi að síður þökkum við Guði réttilega í bænum okkar, vegna þess að við sjáum kærleika, visku og mátt föður okkar á himnum að baki þessum gjöfum. (Postulasagan 14:15-17; samanber Lúkas 22:19.) Iðjusemi getur haft í för með sér að við döfnum, en jafnvel þótt við vinnum hörðum höndum og höfum varla til hnífs og skeiðar skulum við vera þakklát og nægjusöm. (Filippíbréfið 4:12; 1. Tímóteusarbréf 6:6-8) Guðrækinn maður, sem býr við almennan kost og klæði, getur verið miklu hamingjusamari en sá sem hefur meira en nóg af öllu. Jafnvel þótt við höfum litlu úr að spila sökum aðstæðna sem við fáum ekki ráðið við, skulum við ekki missa kjarkinn. Við getum eftir sem áður verið auðug andlega. Við þurfum ekki að vera fátæk í trú, von og kærleika til Jehóva sem við lofum og þökkum í einlægri bæn.
Fyrirgefning skulda okkar
14. Hvaða skuldir getum við beðið Guð að fyrirgefa okkur og á hvaða grundvelli getur hann gert það?
14 „Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“ (Matteus 6:12) Af frásögn Lúkasar kemur fram að þessar skuldir eru syndir. (Lúkas 11:4) Arfgeng synd kemur í veg fyrir að við gerum allt samkvæmt fullkomnum vilja föður okkar. Í vissum skilningi eru þessar syndir orðnar nokkurs konar skuldir eða skyldur gagnvart Guði síðan við byrjuðum að ‚lifa og framganga í andanum.‘ (Galatabréfið 5:16-25; samanber Rómverjabréfið 7:21-25.) Við höfum þessar skuldir vegna þess að við erum ófullkomin og getum ekki fylgt stöðlum Guðs til fullnustu. Við höfum þau sérréttindi að biðja um fyrirgefningu þessara synda. Til allrar hamingju getur Guð fyrirgefið skuldir okkar eða syndir vegna lausnarfórnar Jesú. — Rómverjabréfið 5:8; 6:23.
15. Hvernig ber okkur að líta á nauðsynlegan aga?
15 Ef við viljum að Guð fyrirgefi skuldir okkar eða syndir verðum við að vera iðrunarfullir og fúsir til að þiggja aga. (Orðskviðirnir 28:13; Postulasagan 3:19) Með því að Jehóva elskar okkur gefur hann okkur þann aga sem við persónulega þurfum þannig að við getum leiðrétt mistök eða bætt úr ágöllum okkar. (Orðskviðirnir 6:23; Hebreabréfið 12:4-6) Við getum að sjálfsögðu fagnað því ef trú okkar og þekking hefur vaxið nógu mikið til að hjörtu okkar séu svo samstillt lögum Guðs og meginreglum að við syndgum aldrei af ásettu ráði. En hvað skal gera ef við greinum einhvern ásetning í fari okkar er við syndgum? Þá ættum við að finna til sárrar kvalar og biðja í einlægni um fyrirgefningu. (Hebreabréfið 10:26-31) Við ættum þá að fylgja leiðbeiningum sem við fáum og breyta um stefnu sem skjótast.
16. Hvers vegna er gott að biðja Guð aftur og aftur að fyrirgefa syndir okkar?
16 Það er gagnlegt að biðja Guð reglulega að fyrirgefa syndir okkar. Þannig höldum við þeirri staðreynd fyrir hugskotssjónum að við erum syndug og það ætti að vekja með okkur auðmýkt. (Sálmur 51:5, 6, 9) Við þörfnumst þess að himneskur faðir okkar ‚fyrirgefi syndir okkar og hreinsi okkur af öllu ranglæti.‘ (1. Jóhannesarbréf 1:8, 9) Það að nefna syndir okkar í bæn hjálpar okkur auk þess að berjast kappsamlega gegn þeim áfram. Það minnir okkur stöðugt á þörf okkar fyrir lausnargjaldið og verðgildi hins úthellta blóðs Jesú. — 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2; Opinberunarbókin 7:9, 14.
17. Hvernig getur það að biðja Guð fyrirgefningar stuðlað að góðum samskiptum við aðra?
17 Það að biðjast fyrirgefningar hjálpar okkur einnig að vera miskunnsöm, hluttekningarsöm og örlát við þá sem kunna að skulda okkur eitthvað smátt eða stórt. Í frásögn Lúkasar segir: „Fyrirgef oss vorar syndir, enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum.“ (Lúkas 11:4) Reyndar fyrirgefur Guð syndir okkar aðeins ef við höfum ‚fyrirgefið skuldunautum okkar,‘ þeim sem hafa syndgað gegn okkur. (Matteus 6:12; Markús 11:25) Jesús bætti við: „Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.“ (Matteus 6:14, 15) Með því að biðja um fyrirgefningu synda okkar ættum við að finna hjá okkur hvöt til að umbera aðra og fyrirgefa þeim. Páll postuli skrifaði: „Eins og [Jehóva] hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.“ — Kólossubréfið 3:13; Efesusbréfið 4:32.
Freistingar og hinn vondi
18. Hvers vegna ættum við aldrei að ásaka Guð fyrir prófraunir og freistingar sem við verðum fyrir?
18 „Og eigi leið þú oss í freistni.“ (Matteus 6:13; Lúkas 11:4) Þessi orð gefa ekki til kynna að Jehóva freisti okkar til syndar. Ritningin talar stundum um að Guð geri eða valdi einhverju sem hann einungis leyfir. (Rutarbók 1:20, 21; samanber Prédikarann 11:5.) „Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns,“ skrifaði lærisveinninn Jakob. (Jakobsbréfið 1:13) Við skulum því aldrei kenna himneskum föður okkar um prófraunir og freistingar til hins illa, því að Satan er freistarinn sem reynir að fá okkur til að syndga gegn Guði. — Matteus 4:3; 1. Þessaloníkubréf 3:5.
19. Hvað getum við beðið um í sambandi við freistingar?
19 Með því að biðja: „eigi leið þú oss í freistni,“ erum við í reynd að biðja Jehóva um að leyfa ekki að við látum undan þegar okkar er freistað eða þrýst á okkur um að óhlýðnast honum. Við getum beðið föður okkar að stýra skrefum okkar þannig að við verðum ekki fyrir meiri freistingum en við fáum staðist. Páll postuli skrifaði um þetta: „Þér hafið ekki reynt nema mannlega freistingu. Guð er trúr og lætur ekki freista yður um megn fram, heldur mun hann, þegar hann reynir yður, einnig sjá um, að þér fáið staðist.“ (1. Korintubréf 10:13) Við getum beðið þess að Jehóva leiði okkur þannig að okkar sé ekki freistað um megn fram, og sjái okkur fyrir undankomuleið þegar við erum í nauðum. Freistingar koma frá djöflinum, syndugu holdi okkar og veikleikum annarra, en okkar ástríki faðir getur leiðbeint okkur þannig að við yfirbugumst ekki.
20. Hvers vegna eigum við að biðja Guð að frelsa okkur frá „hinum vonda“?
20 „Heldur frelsa oss frá hinum vonda.“ (Matteus 6:13, neðanmáls) Guð getur að sjálfsögðu komið í veg fyrir að Satan, ‚hinn vondi,‘ yfirbugi okkur. (2. Pétursbréf 2:9) Og aldrei höfum við haft ríkari þörf fyrir frelsun frá djöflinum en núna vegna þess að ‚hann er í miklum móð því að hann veit að hann hefur nauman tíma.‘ (Opinberunarbókin 12:12) Okkur er ekki ókunnugt um vélráð Satans en honum er ekki heldur ókunnugt um veikleika okkar. Þess vegna þurfum við að biðja Jehóva að bjarga okkur úr klóm óvinarins sem Biblían líkir við ljón. (2. Korintubréf 2:11; 1. Pétursbréf 5:8, 9; samanber Sálm 141:8, 9.) Ef okkur er til dæmis áhugamál að ganga í hjónaband getum við beðið Jehóva um hjálp til að forðast vélabrögð Satans og þá freistingu að stofna til tengsla við einhvern í heiminum. Það gæti leitt til siðleysis eða hjónabands við einhvern sem ekki er í trúnni, en það er líka óhlýðni við Guð. (5. Mósebók 7:3, 4; 1. Korintubréf 7:39) Langar okkur til að verða rík? Þá gætum við þurft að biðja um hjálp til að forðast þá freistingu að spila fjárhættuspil eða stunda svik. Satan er mikið í mun að spilla sambandi okkar við Jehóva, þannig að hann mun nota hvert það vopn sem hann ræður yfir til að freista okkar. Megum við því halda stöðugt áfram að biðja til föður okkar á himnum sem selur réttláta menn aldrei freistingum á vald og frelsar okkur frá hinum vonda.
Bæn byggir upp trú og von
21. Hvers vegna er það okkur til góðs að biðja um að Guðsríki komi?
21 Faðir okkar á himnum, sem frelsar okkur frá hinum vonda, hefur yndi af því að blessa okkur ríkulega. En hvers vegna hefur hann látið þjóna sína, sem hann elskar, biðja svona lengi: „Til komi þitt ríki“? Við verðum að viðurkenna að þessi bæn hefur með árunum aukið löngun okkar í að sjá Guðsríki koma og hjálpað okkur að meta það meir. Slík bæn minnir okkur á hve mikla þörf við höfum fyrir þessa himnesku stjórn. Hún heldur voninni um líf undir stjórn Guðsríkis ljóslifandi fyrir hugskotssjónum okkar. — Opinberunarbókin 21:1-5.
22. Hvernig ættum við alltaf að hugsa um það að biðja til föður okkar á himnum?
22 Enginn vafi leikur á að bæn byggir upp trú á Jehóva. Tengsl okkar við hann styrkjast er hann svarar bænum okkar. Við skulum því aldrei þreytast á að leita til hans dag hvern með áköllum, lofgjörð og þakkargjörð. Við megum vera þakklát fyrir að Jesús skyldi hjálpa lærisveinum sínum þegar þeir báðu: „Kenn þú oss að biðja.“
Manst þú?
◻ Hvað getum við lært af orðum og fordæmi Jesú sem bænrækins manns?
◻ Hvað ættum við að biðja um í sambandi við himneskan föður okkar og nafn hans?
◻ Hvers erum við að óska þegar við biðjum þess að Guðsríki komi og að vilji hans verði gerður á jörðinni?
◻ Hvað erum við að láta í ljós þegar við biðjum um daglegt brauð?
◻ Hvað felst í því að biðja um fyrirgefningu skulda sinna?
◻ Hvers vegna er mikilvægt að biðja um hjálp til að standast freistingar og um frelsun frá Satan, hinum vonda?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Fylgjendur Jesú báðu hann að kenna sér að biðja. Veist þú hvernig við getum notið góðs af svari hans?