Jehóva er stjórnandi okkar!
„Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — POSTULASAGAN 5:29.
1, 2. Hvaða afstöðu postulanna fylgja vottar Jehóva er kröfur manna stangast á við vilja Guðs?
JEHÓVA Guð hafði leyft að tólf menn væru leiddir fyrir hæstarétt. Þetta var árið 33 og postular Jesú Krists stóðu frammi fyrir æðstaráði Gyðinga. Hlýðið á! ‚Við bönnuðum ykkur stranglega að kenna í þessu nafni,‘ segir æðsti presturinn, ‚en þið hafið fyllt Jerúsalem með kenningu ykkar.‘ Þá svara Pétur og hinir postularnir: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ (Postulasagan 5:27-29) Í reynd voru þeir að segja: ‚Jehóva er stjórnandi okkar!‘
2 Já, Jehóva er stjórnandi sannra fylgjenda Jesú. Það kemur greinilega fram í Postulasögu Biblíunnar sem ‚Lúkas, læknirinn elskaði,‘ skrifaði í Róm um árið 61. (Kólossubréfið 4:14) Líkt og postularnir hlýða nútímaþjónar Jehóva himneskum stjórnanda sínum þegar kröfur manna stangast á við vilja hans. En hvað annað getum við lært af Postulasögunni? (Við leggjum til að þú lesir í einkanámi þínu þá bókarkafla sem vísað er í með feitu letri.)
Jesús veitir vottum sínum umboð til starfa
3. Hvenær voru fylgjendur Jesú ‚skírðir með heilögum anda‘ og hvert var fremsta hugðarefni þeirra?
3 Postularnir gátu tekið óhagganlega afstöðu með Guði vegna þess andlega styrks sem þeir höfðu fengið. Kristur dó á kvalastaur en þeir vissu að hann hafði verið reistur upp. (1:1-5) Jesús ‚birti sig lifandi‘ með því að taka sér efnislíkama og kenndi sannindi Guðsríkis um 40 daga skeið. Hann sagði lærisveinunum að bíða í Jerúsalem eftir skírn „með heilögum anda.“ Prédikun myndi vera helsta hugðarefni þeirra eins og er hjá vottum Jehóva nú á dögum. — Lúkas 24:27, 49; Jóhannes 20:19-21:24.
4. Hvað átti að gerast þegar heilagur andi kæmi yfir fylgjendur Jesú?
4 Postularnir höfðu enn ekki verið skírðir með heilögum anda og höfðu ranglega í huga jarðneska stjórn er skyldi binda enda á yfirráð Rómverja er þeir spurðu: „Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“ (1:6-8) Svar Jesú var efnislega nei því að ‚það tilheyrði ekki þeim að vita tíma eða tíðir.‘ ‚Er heilagur andi kæmi yfir þá‘ myndi hann gefa þeim kraft til að bera vitni um himneskt ríki Guðs, ekki jarðneskt ríki. Þeir myndu prédika í Jerúsalem, Júdeu og Samaríu „og allt til endimarka jarðarinnar.“ Með hjálp andans vinna vottar Jehóva slíkt starf um víða veröld nú á síðustu dögum.
5. Í hvaða skilningi átti Jesús að koma á sama hátt og hann fór?
5 Jesús var vart búinn að gefa þeim þessi fyrirmæli um að prédika um víða veröld er hann tók að stíga upp til himna. Uppstigningin byrjaði með því að hann lyftist upp til himins frá lærisveinum sínum en tók síðan hverja þá stefnu sem þurfti til að komast í návist síns himnesks stjórnanda og hefja störf á andlegu tilverusviði. (1:9-11) Eftir að ský huldi Jesú sjónum postulanna afholdgaðist hann. Tveir englar birtust og sögðu að hann ‚myndi koma á sama hátt.‘ Sú hefur orðið raunin. Lærisveinar Jesú einir sáu hann hverfa og einungis vottar Jehóva gera sér grein fyrir ósýnilegri endurkomu hans.
Jehóva velur
6. Hvernig var valinn nýr maður í stað Júdasar Ískaríots?
6 Skömmu síðar voru postularnir komnir aftur til Jerúsalem. (1:12-26) Í loftstofu einni (ef til vill á heimili Maríu, móður Markúsar) voru hinir ellefu trúföstu postular stöðugir í bæninni ásamt hálfbræðrum Jesú, öðrum lærisveinum hans og Maríu, móður hans. (Markús 6:3; Jakobsbréfið 1:1) En hver átti að hljóta „embætti“ Júdasar? (Sálmur 109:8) Um 120 lærisveinar voru viðstaddir er Guð valdi mann í stað Júdasar, er sveik Jesú, til að fullna aftur tölu hinna tólf postula. Velja þurfti mann sem hafði verið lærisveinn í þjónustutíð Jesú og verið vitni að upprisu hans. Að sjálfsögðu þurfti maðurinn einnig að viðurkenna Jehóva sem stjórnanda sinn. Eftir að hafa beðist fyrir var varpað hlutkesti milli Mattíasar og Jósefs Barsabbasar. Guð lét koma upp hlut Mattíasar. — Orðskviðirnir 16:33.
7. (a) Með hvaða hætti ‚keypti Júdas reit fyrir laun ódæðis síns‘? (b) Hvernig dó Júdas?
7 Júdas Ískaríot hafði svo sannarlega ekki viðurkennt Jehóva sem stjórnanda sinn. Hafði hann ekki svikið son Guðs fyrir 30 silfurpeninga? Júdas skilaði æðstu prestunum fénu en Pétur sagði að svikarinn hefði ‚keypt reit fyrir laun ódæðis síns.‘ Hvernig getur það farið saman? Á þann hátt að hann sá fyrir fénu og ástæðunni til að kaupa ‚blóðreitinn‘ eins og hann var nefndur. Talið er að um hafi verið að ræða slétta landspildu í sunnanverðum Hinnomsdal. Samband Júdasar við hinn himneska stjórnanda var endanlega slitið og Júdas „hengdi sig.“ (Matteus 27:3-10) En ef til vill slitnaði reipið eða trjágrein brotnaði með þeim afleiðingum að hann „steyptist á höfuðið og brast sundur í miðju“ er hann féll niður í urð. Megi enginn okkar reynast falsbróðir!
Fylltir heilögum anda!
8. Hvenær voru lærisveinar Jesú skírðir með heilögum anda og með hvaða afleiðingum?
8 En hvað um hina fyrirheitnu skírn með heilögum anda? Hún átti sér stað á hvítasunnudeginum árið 33, tíu dögum eftir uppstigningu Jesú. (2:1-4) Þessi skírn var hrífandi atburður. Reyndu að sjá fyrir þér það sem gerðist. Um 120 lærisveinar voru samankomnir í loftstofunni er ‚skyndilega heyrðist gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið.‘ Þetta var þó ekki stormur, einungis hljóðið. Tunga, „eins og af eldi,“ settist á hvern lærisvein og postula. „Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum.“ Jafnhliða skírninni voru þeir einnig getnir af heilögum anda, smurðir og innsiglaðir til tákns um andlega arfleifð. — Jóhannes 3:3, 5; 2. Korintubréf 1:21, 22; 1. Jóhannesarbréf 2:20.
9. Um hvað töluðu lærisveinarnir sem höfðu fyllst andanum?
9 Þessi atburður hafði áhrif á Gyðinga og trúskiptinga í Jerúsalem „frá öllum löndum undir himninum.“ (2:5-13) Furðu lostnir spurðu þeir: „Hvernig má það vera, að vér, hver og einn, heyrum þá tala vort eigið móðurmál?“ Þar getur hafa verið um að ræða tungumál sem töluð voru til dæmis í Medíu (austur af Júdeu), Frýgíu (í Litlu-Asíu) og Róm (í Evrópu). Er lærisveinarnir töluðu „um stórmerki Guðs“ á hinum ýmsu tungumálum urðu margir, sem til heyrðu, furðu lostnir en aðrir gerðu gys að og slógu því fram að þeir væru drukknir.
Pétur flytur áhrifamikla ræðu
10. Hvaða spádóm uppfylltu atburðirnir á hvítasunnunni árið 33 og á það sér nútímahliðstæðu?
10 Pétur bar nú vitni með því að benda á að tæplega gætu menn verið drukknir klukkan níu að morgni. (2:14-21) Þess í stað væri þarna að rætast fyrirheit Guðs um úthellingu heilags anda yfir þjóna sína. Guð innblés Pétri að benda fram til okkar tíma með því að bæta við orðunum „á efstu dögum“ og „munu spá.“ (Jóel 3:1-5) Jehóva myndi láta verða undur á himnum og tákn á jörðu áður en hinn mikli dagur hans rynni upp, og þeir einir, sem ákölluðu nafn hans í trú, myndu bjargast. Svipuð úthelling andans yfir hina smurðu nú á dögum gerir þeim kleift að „spá“ af miklu kappi og atorku nú á dögum.
11. Hvað gerðu Gyðingar og hvað gerði Guð við Jesú?
11 Þessu næst benti Pétur á Messías. (2:22-28) Guð bar því vitni að Jesús væri Messías með því að láta hann gera kraftaverk, undur og tákn. (Hebreabréfið 2:3, 4) En Gyðingar höfðu fengið hann negldan á staur með höndum ‚heiðinna manna,‘ Rómverja sem ekki fylgdu lögmáli Guðs. Jesús var „framseldur að fyrirhuguðu ráði Guðs og fyrirvitund“ í þeim skilningi að það var vilji Guðs. En síðan reisti Guð Jesú upp frá dauðum og lét mannslíkama hans hverfa með þeim hætti að hann yrði ekki rotnun að bráð. — Sálmur 16:8-11.
12. Hvað sá Davíð fyrir og undir hverju er hjálpræði komið?
12 Pétur hélt áfram að leggja áherslu á spádómana um Messías. (2:29-36) Hann sagði að Davíð hefði séð fyrir upprisu síns mesta sonar, Jesú, Messíasar. Úr hinni háu stöðu sinni við hægri hönd Guðs á himnum hafði Jesús úthellt heilögum anda er hann fékk frá föður sínum. (Sálmur 110:1) Áheyrendur Péturs ‚sáu og heyrðu‘ áhrif andans í tungunum sem af eldi væru yfir höfðum lærisveinanna og í hinum erlendu tungumálum sem þeir heyrðu þá tala. Hann benti einnig á að hjálpræði væri undir því komið að viðurkenna Jesú sem Drottin og Messías. — Rómverjabréfið 10:9; Filippíbréfið 2:9-11.
Jehóva gefur vöxt
13. (a) Hvað þurftu Gyðingar og trúskiptingar að viðurkenna til að láta skírast á réttan hátt? (b) Hve margir létu skírast og hvaða áhrif hafði það í Jerúsalem?
13 Orð Péturs voru sannarlega áhrifarík! (2:37-42) Áheyrendur hans stungust í hjörtun yfir því að hafa fallist á aftöku Messíasar. Hann hvatti þá: „Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda.“ Gyðingar og trúskiptingar bæði viðurkenndu Jehóva sem Guð sinn og þörf sína fyrir anda hans. En nú þurftu þeir að iðrast og viðurkenna Jesú sem Messías til að geta skírst í nafni (og þar með viðurkennt stöðu eða starf) föðurins, sonarins og heilags anda. (Matteus 28:19, 20) Með því að bera vitni fyrir þessum Gyðingum og trúskiptingum notaði Pétur fyrsta andlega lykilinn sem Jesús gaf honum til að opna dyr þekkingarinnar og tækifærisins fyrir trúaða Gyðinga til að ganga inn í hið himneska ríki. (Matteus 16:19) Á þessum eina degi létu 3000 skírast! Hugsaðu þér svona marga votta Jehóva prédika á ekki stærri stað en Jerúsalem!
14. Hvers vegna og hvernig höfðu allir hinir trúuðu „allt sameiginlegt“?
14 Margir, sem komnir voru langt að, höfðu ekki nægar vistir eða fjárráð til að framlengja dvöl sína, þótt þá langaði til að læra meira um sína nýfundnu trú og prédika fyrir öðrum. Fylgjendur Jesú réttu því hver öðrum kærleiksríka hjálparhönd líkt og vottar Jehóva gera nú á dögum. (2:43-47) Um tíma höfðu hinir trúuðu „allt sameiginlegt.“ Sumir seldu eignir og fénu var dreift meðal allra sem þurftu. Þetta var góð byrjun fyrir söfnuðinn og ‚Jehóva bætti daglega við í hópinn þeim er frelsast létu.‘
Lækning og afleiðingar hennar
15. Hvað gerðist er Pétur og Jóhannes gengu inn í musterið og hver urðu viðbrögð fólksins?
15 Jehóva studdi fylgjendur Jesú með ‚táknum.‘ (3:1-10) Er Pétur og Jóhannes gengu í musterið um klukkan þrjú síðdegis, til bænastundar í tengslum við kvöldfórnina, beiddist maður, sem var lamaður frá fæðingu, „ölmusu“ hjá þeim við Fögrudyr. „Silfur og gull á ég ekki,“ sagði Pétur, „en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!“ Maðurinn læknaðist þegar í stað! Hann fór inn í musterið, „gekk um og stökk og lofaði Guð“ og menn urðu „frá sér numdir.“ Ef til vill minntust sumir orðanna: „Þá mun hinn halti létta sér sem hjörtur.“ — Jesaja 35:6.
16. Hvernig voru postularnir færir um að lækna lamaðan mann?
16 Furðu lostið fólkið safnaðist saman í súlnagöngum Salómons, en það voru yfirbyggð súlnagöng austanmegin í musterinu. Þar bar Pétur vitni. (3:11-18) Hann sýndi fram á að Guð hefði gefið postulunum kraft til að lækna lamaða manninn fyrir milligöngu hins dýrlega gerða þjóns síns, Jesú. (Jesaja 52:13-53:12) Gyðingar afneituðu „hinum heilaga og réttláta“ en Jehóva reisti hann upp frá dauðum. Þótt fólkið og valdhafarnir hafi ekki vitað að þeir voru að lífláta Messías uppfyllti Guð þannig hin spádómlegu orð að „Kristur hans skyldi líða.“ — Daníel 9:26.
17. (a) Hvað þurftu Gyðingarnir að gera? (b) Hvað hefur gerst síðan ‚Kristur var sendur‘ á okkar dögum?
17 Pétur benti Gyðingunum á hvað þeir ættu að gera vegna meðferðar sinnar á Messíasi. (3:19-26) Þeir þurftu að ‚gera iðrun‘ eða finna til djúprar eftirsjár vegna synda sinna og ‚snúa sér‘ eða taka upp breytta lífsstefnu. Ef þeir iðkuðu trú á Jesú sem Messías og viðurkenndu lausnargjaldið myndu koma til þeirra endurlífgunartímar frá Jehóva samfara fyrirgefningu syndanna. (Rómverjabréfið 5:6-11) Gyðingar voru minntir á að þeir væru synir sáttmálans sem Guð gerði við forfeður þeirra er hann sagði Abraham: „Af þínu afkvæmi skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.“ Guð sendi því fyrst þjón sinn Messías til að frelsa iðrunarfulla Gyðinga. Frá því að ‚Kristur var sendur‘ sem himneskur konungur Guðsríkis árið 1914 hefur átt sér stað hressandi endurreisn sannleikans og guðlegs skipulags meðal votta Jehóva. — 1. Mósebók 12:3; 18:18; 22:18.
Þeir voru óstöðvandi!
18. Hvaða ‚steini‘ höfnuðu „húsasmiðirnir,“ Gyðingar, og í hverjum einum er hjálpræði?
18 Æðstu prestarnir, varðforingi musterisins og saddúkearnir reiddust því að Pétur og Jóhannes skyldu boða upprisu Jesú og settu þá í varðhald. (4:1-12) Saddúkear trúðu ekki á upprisuna en margir aðrir tóku trú og karlmenn einir töldu um 5000. Er þeir voru spurðir út úr fyrir æðstaréttinum í Jerúsalem svaraði Pétur því til að lamaði maðurinn hefði læknast „í nafni Jesú Krists frá Nasaret“ sem þeir hefðu staurfest en Guð vakið upp frá dauðum. „Húsasmiðirnir,“ Gyðingar, höfðu hafnað þessum ‚steini‘ en nú var hann orðinn „hyrningarsteinn.“ (Sálmur 118:22) „Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum,“ hélt Pétur áfram.
19. Hverju svöruðu postularnir er þeim var skipað að hætta að prédika?
19 Tilraun var gerð til að kveða niður slíkt tal. (4:13-22) Maðurinn sem læknaðist var á vettvangi og því var engin leið að afneita þessu ‚ótvíræða tákni,‘ en Pétri og Jóhannesi var skipað að „hætta með öllu að tala og kenna í Jesú nafni.“ Hverju svöruðu þeir? „Vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt.“ Þeir hlýddu Jehóva sem stjórnanda sínum!
Bænum svarað!
20. Um hvað báðu lærisveinarnir og með hvaða árangri?
20 Á sama hátt og vottar Jehóva biðja á samkomum báðu lærisveinarnir er postulunum hafði verið sleppt og þeir skýrðu frá hvað gerst hefði. (4:23-31) Í bæninni var þess getið að valdhafarnir Heródes Antípas og Pontíus Pílatus, ásamt hinum heiðnu Rómverjum og Ísraelsmönnum, hefðu safnast saman gegn Messíasi. (Sálmur 2:1, 2; Lúkas 3:1-12) Sem svar við bæninni fyllti Jehóva lærisveinana heilögum anda þannig að þeir töluðu orð Guðs með djörfung. Stjórnandi þeirra var ekki beðinn að binda enda á ofsóknirnar heldur að veita þjónum sínum að prédika með djörfung þrátt fyrir ofsóknir.
21. Hver var Barnabas og hvaða eiginleika hafði hann til að bera?
21 Hinir trúuðu héldu áfram að hafa allt sameiginlegt og enginn var bágstaddur. (4:32-37) Einn þeirra sem lagði fram til sameiginlegra þarfa var levítinn Jósef frá Kýpur. Postularnir kölluðu hann Barnabas, en það þýðir „huggunar sonur,“ líklega vegna þess að hann var hjálpsamur og hjartahlýr. Við ættum öll að vilja vera þess konar menn. — Postulasagan 11:22-24.
Lygarar afhjúpaðir
22, 23. Hver var synd Ananíasar og Saffíru og hvernig getum við dregið lærdóm af því sem henti þau?
22 En Ananías og kona hans, Saffíra, hættu að viðurkenna Jehóva sem stjórnanda. (5:1-11) Þau seldu akur og héldu eftir sumu af söluverðinu en þóttust gefa postulunum það allt. Andi Guðs gaf Pétri vitneskju um hræsni þeirra er leiddi til dauða þeirra. Hvílík aðvörun til þeirra sem Satan freistar til undirferli! — Orðskviðirnir 3:32; 6:16-19.
23 Eftir þetta atvik hafði enginn, sem bar illar hvatir í brjósti, hugrekki til að gerast lærisveinn. En margir aðrir tóku trú. (5:12-16) Er sjúkir og þeir sem haldnir voru illum öndum sýndu trú á mátt Guðs „læknuðust allir.“
Hlýðið Guði framar en mönnum
24, 25. Hvers vegna ofsóttu forystumenn Gyðinganna postulana en hvaða staðal settu þessir trúföstu menn öllum þjónum Jehóva?
24 Æðstu prestarnir og saddúkearnir reyndu nú að stöðva þennan stórfenglega vöxt með því að varpa öllum postulunum í fangelsi. (5:17-25) Um nóttina leysti engill Guðs þá úr haldi. Í dögun voru þeir aftur komnir í musterið að kenna! Ofsóknir fá ekki stöðvað þjóna Jehóva.
25 Enn var þó reynt að beita þvingunum er postularnir voru leiddir fyrir æðstaráðið. (5:26-42) Þeim var fyrirskipað að hætta að kenna en þeir svöruðu: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ Þetta er staðall fyrir alla lærisveina Jesú sem vottar Jehóva nútímans fylgja. Eftir að lögmálskennarinn Gamalíel hafði aðvarað ráðið létu leiðtogarnir húðstrýkja postulana, skipuðu þeim að hætta að prédika og slepptu þeim svo.
26. Hvernig er þjónusta postulanna í samanburði við þjónustu votta Jehóva nú á tímum?
26 Postularnir voru glaðir yfir því að hafa talist þess verðugir að þola háðung vegna nafns Jesú. „Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið.“ Þeir voru þjónar orðsins sem prédikuðu hús úr húsi. Það eru nútímavottar Guðs líka. Þeir hafa einnig fengið anda hans vegna þess að þeir hlýða honum og segja: „Jehóva er stjórnandi okkar!“
Hvert er svar þitt?
◻ Hvaða starf hafa fylgjendur Jesú, bæði fyrr og nú, þurft að vinna?
◻ Hvað gerðist á hvítasunnudeginum árið 33?
◻ Hvenær og hvernig notaði Pétur hinn fyrsta andlega lykil sem Jesús gaf honum?
◻ Hvað getum við lært af því sem henti Ananías og Saffíru?
◻ Hvaða staðal settu postularnir öllum vottum Jehóva er þeim var skipað að hætta að prédika?