LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA | JOB
„Ég verð ráðvandur“
Hann sat á jörðinni og líkaminn var alþakinn graftarkýlum eða sárum. Sjáðu hann fyrir þér. Hann er aleinn, niðurlútur og hokinn og á varla næga krafta til að banda frá sér flugunum sem suða í kringum hann. Hann situr í ösku til merkis um að hann syrgi og hefur ekki annað en leirbrot til að skafa sárin á húðinni. Hann var búinn að missa svo mikið og fallinn úr háu áliti. Vinir hans, nágrannar og ættingjar höfðu yfirgefið hann. Og fólk hæddist að honum, meira að segja börn. Hann hélt að Jehóva Guð hefði líka snúist gegn sér, en þar hafði hann rangt fyrir sér. – Jobsbók 2:8; 19:18, 22.
Maðurinn var Job. Guð sagði um hann: „Enginn maður á jörðinni er jafnráðvandur og réttlátur og hann.“ (Jobsbók 1:8) Mörgum öldum síðar leit Jehóva enn þá á Job sem einn af réttlátustu mönnum sem uppi hefðu verið. – Esekíel 14:14, 20.
Glímir þú við erfiðleika og mótlæti? Þá getur frásagan af Job hughreyst þig. Hún getur líka veitt þér innsýn í eiginleika sem hver og einn þjónn Guðs þarf á að halda – ráðvendni. Menn sýna ráðvendni með því að vera Guði trúir og halda áfram að gera vilja hans, jafnvel þegar þeir eiga erfitt. Skoðum hvað fleira við getum lært af Job.
Það sem Job vissi ekki
Það er ástæða til að ætla að Móse hafi skráð sögu Jobs einhvern tíma eftir að Job dó. Guð innblés Móse að skrifa bæði um atburði sem snertu Job hér á jörðinni og atburði sem áttu sér stað á himnum.
Þegar saga Jobs hefst átti hann gott og hamingjuríkt líf. Hann var efnaður og naut virðingar í Úslandi – hugsanlega í norðurhluta Arabíu. Hann gaf fúslega þeim sem voru þurfandi og tók málstað þeirra sem minna máttu sín. Job og konan hans nutu þeirrar blessunar að eignast tíu börn. Umfram allt mat Job mikils samband sitt við Jehóva Guð. Hann reyndi eftir fremsta megni að gera það sem Jehóva hefur velþóknun á svipað og fjarskyldir ættingjar hans gerðu áður, þeir Abraham, Ísak, Jakob og Jósef. Job þjónaði sem prestur fyrir fjölskyldu sína rétt eins og ættfeðurnir gerðu og hann færði reglulega fórnir fyrir hönd barna sinna. – Jobsbók 1:1–5; 31:16–22.
En aðstæður Jobs breyttust skyndilega. Við lesum um það sem átti sér stað á himnum og fáum því vitneskju um nokkuð sem Job vissi ekkert um. Englum Jehóva var safnað saman frammi fyrir honum og uppreisnargjarni engillinn Satan mætti líka. Jehóva vissi að Satan hafði andstyggð á Job og benti honum á einstaka ráðvendni þessa réttláta manns. Satan svaraði umbúðalaust: „Er Job guðhræddur að ástæðulausu? Hefur þú ekki verndað hann, hús hans og eignir á alla lund?“ Satan hatar þá sem eru ráðvandir. Þegar þeir sýna Jehóva Guði heils hugar hollustu afhjúpa þeir Satan sem kærleikslausan svikara. Satan hélt því fram að Job þjónaði Guði af eigingjörnum hvötum. Hann fullyrti að Job myndi formæla Guði upp í opið geðið ef hann missti allt sem hann ætti. – Jobsbók 1:6–11.
Jehóva veitti Job einstakt tækifæri til að sanna að Satan hefði rangt fyrir sér – en Job gat ekki vitað það. Satan fékk leyfi til að ræna Job öllu sem hann átti. Hann mátti bara ekki skaða Job sjálfan. Satan hófst ákafur handa við að fullnægja kvalalosta sínum. Á aðeins einum degi varð Job fyrir hverju áfallinu á fætur öðru. Hann frétti af því að hann hefði miss allt búfé sitt, fyrst nautgripina og asnana, síðan sauðina og að lokum úlfaldana. Og það sem verra var, þjónarnir sem gættu þeirra voru drepnir. Í einu tilfelli var Job sagt að orsökin væri „eldur Guðs“ – hugsanlega elding. Og áður en Job náði að meðtaka hve margir hefðu látið lífið eða að hann væri nú orðinn fátækur maður varð hann fyrir þyngsta áfallinu. Börnin hans tíu voru saman komin heima hjá elsta bróðurnum þegar mikill stormur skall á húsinu svo að það hrundi og þau fórust öll. – Jobsbók 1:12–19.
Það er erfitt, ef ekki ómögulegt, að ímynda sér hvernig Job leið. Hann reif klæði sín, rakaði af sér hárið og féll til jarðar. Hann hugsaði með sér að Guð hefði gefið honum og tekið frá honum aftur. Í kænsku sinni lét Satan líta út fyrir að Guð hefði valdið þessum hörmungum. Samt sem áður formælti Job ekki Guði eins og Satan hafði sagt að hann myndi gera. Hann sagði öllu heldur: „Lofað veri nafn Drottins.“ – Jobsbók 1:20–22.
,Hann mun vissulega formæla þér‘
Satan var bálreiður og neitaði að gefast upp. Hann kom aftur fram fyrir Jehóva þegar englunum var safnað saman. Jehóva hrósaði Job aftur fyrir ráðvendnina en hann var enn ráðvandur þrátt fyrir allar árásir Satans. Satan svaraði um hæl: „Nær er skinnið en skyrtan. Menn láta allt sem þeir eiga fyrir líf sitt. En réttu út hönd þína og snertu hold hans og bein. Þá mun hann vissulega formæla þér upp í opið geðið.“ Satan var sannfærður um að Job myndi formæla Guði ef hann yrði nógu veikur. Jehóva treysti Job fyllilega og leyfði Satan að ræna hann heilsunni. Hann mátti bara ekki taka líf hans. – Jobsbók 2:1–6.
Fljótlega var komið fyrir Job eins og lýst er í byrjun greinarinnar. Ímyndaðu þér hvernig konunni hans hefur liðið. Hún var nú þegar buguð af sorg yfir að missa börnin sín tíu. Og nú þurfti hún að horfa hjálparvana upp á manninn sinn þjást hræðilega. Í angist sinni hrópaði hún: „Ertu enn staðfastur í ráðvendni þinni? Formæltu Guði og farðu að deyja.“ Þetta var ekki líkt konunni sem Job þekkti og elskaði. Hann sagði að hún talaði eins og hún hefði misst vitið. En hann neitaði að formæla Guði sínum. Hann syndgaði ekki með tali sínu. – Jobsbók 2:7–10.
Vissir þú að þessi sorglega en sanna saga snertir þig persónulega? Taktu eftir að Satan beindi þessari illkvittnu ásökun ekki aðeins gegn Job heldur gegn öllum mönnum. Hann sagði: „Menn láta allt sem þeir eiga fyrir líf sitt.“ Satan telur sem sagt að ekkert okkar geti haldið ráðvendni sinni. Hann staðhæfir að þú elskir Guð ekki í raun og veru og að þú myndir ekki hika við að hafna honum til að bjarga eigin skinni. Hann heldur því fram að þú sért jafn sjálfselskur og hann. Langar þig að sanna að hann hafi rangt fyrir sér? Við höfum öll tækifæri til þess. (Orðskviðirnir 27:11) Skoðum nú hvað Job þurfti að takast á við næst.
Huggarar sem brugðust
Þrír menn sem þekktu Job fréttu af erfiðleikum hans og komu til að hugga hann. Biblían kallar þá vini hans. Þegar þeir sáu Job álengdar var hann óþekkjanlegur. Hann var allur undirlagður af verkjum og húðin var orðin svört vegna sjúkdómsins. Það var ekki sjón að sjá hann. Mennirnir þrír, Elífas, Bildad og Sófar, létust vera mjög sorgmæddir. Þeir kveinuðu hástöfum og jusu mold yfir höfuð sér. Síðan settust þeir á jörðina hjá honum án þess að segja nokkuð. Þeir sátu þar dag og nótt í heila viku án þess að segja orð. Við skulum ekki halda að þögnin hafi verið hugsuð til að hugga Job því að þeir spurðu hann einskis og komust ekki að öðru en því sem lá í augum uppi, að Job var sárþjáður. – Jobsbók 2:11–13; 30:30.
Að lokum þurfti Job sjálfur að rjúfa þögnina. Það mátti vel heyra hversu þjáður hann var þegar hann formælti deginum sem hann fæddist. (Jobsbók 3:1) Hann hélt að Guð væri valdur að erfiðleikum sínum. (Jobsbók 6:4) Job var ekki búinn að missa trúna en hann sárvantaði huggun. En þegar vinir hans opnuðu loksins munninn komst Job fljótt að því að þögnin var skárri. – Jobsbók 13:5.
Elífas byrjaði að tala. Hann var kannski sá elsti af þeim og mun eldri en Job. Hinir tveir töluðu einnig. Það má segja að þeir hafi í heimsku sinni tekið undir með Elífasi. Sumt af því sem mennirnir sögðu hljómar kannski sakleysislega þar sem þeir þuldu upp þekkta frasa um Guð, svo sem að hann sé háleitur, refsi vondum mönnum og umbuni þeim góðu. En alveg frá byrjun var undirtónninn samt óvinveittur. Elífas beitti einfeldningslegum rökum og benti á að Guð væri góður og að hann refsaði hinum illu. Og þar sem greinilega var verið að refsa Job hlyti hann að hafa gert eitthvað illt. – Jobsbók 4:1, 7, 8; 5:3–6.
Job var eðlilega ósammála þessum rökum og mótmælti þeim harðlega. (Jobsbók 6:25) En ráðgjafarnir þrír urðu enn sannfærðari um að Job hefði syndgað og væri að reyna að fela það. Hann hlaut að verðskulda hörmungarnar sem hann þurfti að þola. Elífas sakaði Job um að vera hrokafullur og illur guðleysingi. (Jobsbók 15:4, 7–9, 20–24; 22:6–11) Sófar sagði Job að láta af illsku sinni og hætta að hafa ánægju af að syndga. (Jobsbók 11:2, 3, 14; 20:5, 12, 13) Og Bildad var sérstaklega særandi í orðum. Hann sagði að börn Jobs hlytu að hafa syndgað á einhvern hátt og hefðu því verðskuldað að farast. – Jobsbók 8:4, 13.
Ráðist á ráðvendnina
Þessir menn voru á villugötum en þeir gerðu nokkuð enn verra. Þeir drógu ekki aðeins í efa að Job væri ráðvandur. Þeir héldu því fram að það væri yfirhöfuð ekkert gagn af ráðvendni. Í byrjunarræðu Elífasar lýsir hann óhugnanlegum kynnum af ósýnilegri veru. Eftir reynslu sína með þessum illa anda dró Elífas þessa skaðlegu ályktun um Guð: „Hann getur ekki treyst þjónum sínum og finnur afglöp hjá englum sínum.“ Samkvæmt því getur venjulegur maður aldrei verið Guði þóknanlegur. Síðar hélt Bildad því fram að ráðvendni Jobs skipti Guð engu máli, ekki frekar en hann væri maðkur. – Jobsbók 4:12–18; 15:15; 22:2, 3; 25:4–6.
Hefur þú reynt að uppörva einhvern sem er sárkvalinn? Það er ekki auðvelt. En við getum lært heilmikið af svokölluðum vinum Jobs um hvað við eigum ekki að segja. Þessir þrír menn sögðu margt sem hljómaði kannski gáfulega og rökrétt en þeir sýndu Job enga samúð. Þeir nefndu hann ekki einu sinni á nafn! Þeir hugsuðu ekki út í að Job var sorgmæddur og sáu enga þörf á að tala mildilega við hann.a Ef einhverjum sem þér er annt um líður illa skaltu reyna að vera vingjarnlegur, hlýlegur og umhyggjusamur. Reyndu að hjálpa honum að styrkja trú sína og efla kjarkinn. Hjálpaðu honum byggja upp traust sitt til Guðs og á mikla gæsku hans, miskunn og réttlæti. Job hefði gert það fyrir vini sína ef hann hefði verið í þeirra sporum. (Jobsbók 16:4, 5, Nýheimsþýðing Biblíunnar) En hvernig brást hann við stöðugum árásum þeirra á ráðvendni sína?
Job var staðfastur
Aumingja Job var þegar orðinn örvæntingarfullur áður en rökræðurnar hófust. Frá byrjun viðurkenndi hann að sumt af því sem hann sagði væri „mælt í gáleysi“ og að það væru „orð örvilnaðs manns“. (Jobsbók 6:3, 26) Það er skiljanlegt. Það sem hann sagði endurspeglaði sálarangist hans og að hann sá ekki heildarmyndina af því sem hafði gerst. Job gerði ráð fyrir að Jehóva hefði valdið hörmungunum sem dundu yfir hann og fjölskyldu hans vegna þess að þær komu skyndilega og virtust vera af yfirnáttúrulegum völdum. Job dró ranga ályktun vegna þess að hann vissi ekki af mikilvægum atburðum sem tengdust málinu.
En Job hafði sterka trú og það var augljóst af mörgu sem hann sagði í þessum löngu rökræðum. Hann sagði margt gott og rétt sem er hvetjandi fyrir okkur nú á dögum. Þegar hann talaði um undur sköpunarverksins vegsamaði hann Guð og lýsti ýmsu sem enginn maður gat vitað án þess að Guð hefði opinberað honum það. Til dæmis sagði hann að Jehóva léti „jörðina svífa í geimnum“. (Jobsbók 26:7) Vísindamenn þekktu ekki þá staðreynd fyrr en mörgum öldum síðar.b Og Job talaði um von sína um framtíðina sem var sú sama og aðrir trúfastir menn höfðu. Hann hafði þá trú að ef hann dæi myndi Guð muna eftir honum, sakna hans og að lokum reisa hann upp til lífs á ný. – Jobsbók 14:13–15; Hebreabréfið 11:17–19, 35.
En hvað um ráðvendnina? Elífas og vinir hans tveir héldu því fram að ráðvendni manns skipti Guð engu máli. Gleypti Job við þessari andstyggilegu fullyrðingu? Engan veginn! Hann stóð fast á því að ráðvendni skipti Guð máli. Hann sagði í fullu trausti til Jehóva: „Þá mun hann viðurkenna ráðvendni mína.“ (Jobsbók 31:6, Nýheimsþýðing Biblíunnar) Job skildi auk þess vel að rangar fullyrðingar þessara svokölluðu huggara voru í raun og veru atlaga gegn ráðvendni hans. Það fékk hann til að halda lengstu ræðuna sína sem að lokum þaggaði niður í mönnunum þrem.
Job skildi að ráðvendnin þyrfti að hafa áhrif á daglegt líf hans. Hann lýsti því hvernig hann var ráðvandur í öllu sem hann gerði. Hann forðaðist til dæmis hvers kyns skurðgoðadýrkun og kom fram við aðra af virðingu og góðvild. Hann hélt sér siðferðilega hreinum og hlúði að hjónabandinu. Og umfram allt var hann trúr Jehóva, hinum eina sanna Guði. Þar af leiðandi gat hann heils hugar sagt: „Ég verð ráðvandur þar til ég dey.“ – Jobsbók 27:5, Nýheimsþýðing Biblíunnar; 31:1, 2, 9–11, 16–18, 26–28.
Líkjum eftir trú Jobs
Lítur þú ráðvendni sömu augum og Job? Það er auðvelt að segjast vera ráðvandur en Job skildi að ráðvendni þarf að koma fram í fleiru en orðum. Við sýnum Guði heils hugar hollustu með því að hlýða honum og gera dagsdaglega það sem er rétt í augum hans, jafnvel þegar við mætum erfiðleikum. Ef við gerum það gleðjum við Jehóva sannarlega og ergjum óvin hans, Satan, rétt eins og Job gerði til forna. Þannig líkjum við best eftir trú Jobs.
Saga Jobs endar ekki þarna. Hann hafði misst jafnvægið og var svo upptekinn af því að verja eigið réttlæti að hann gleymdi að verja orðspor Guðs. Það þurfti að leiðrétta hann og hjálpa honum að sjá hlutina með augum Guðs. Hann var líka enn þjáður og sorgmæddur og þurfti sárlega á ósvikinni hughreystingu að halda. Hvað myndi Jehóva gera fyrir þennan trúfasta og ráðvanda mann? Önnur grein í þessum greinaflokki svarar því.
a Þótt ótrúlegt megi virðast fannst Elífasi að hann og vinir hans hefðu talað mildilega til Jobs, kannski vegna þess að þeir höfðu ekki hækkað róminn. (Jobsbók 15:11) En það sem er sagt í ljúfum tón getur samt verið harkalegt og særandi.
b Að því er best er vitað var það ekki fyrr en um 3.000 árum síðar sem vísindamenn gerðu sér raunhæfar hugmyndir um að jörðin þyrfti ekki að hvíla á efnislegri undirstöðu. Menn sáu ekki sönnun þess að orð Jobs væru sönn fyrr en teknar voru myndir af jörðinni utan úr geimnum.