Höfuðþættir biblíubókanna — Orðskviðirnir 1:1–31:31
Óttastu Jehóva, þá veitist þér hamingja
„Ótti [Jehóva] er upphaf viskunnar.“ (Orðskviðirnir 9:10) Orðskviðirnir sýna greinilega fram á það. Þessi biblíubók var fullgerð um árið 716 f.o.t. og hjálpar okkur að sýna visku, að beita rétt þekkingu okkar. Ef þú ferð eftir spakmælum hennar mun það veita þér hamingju.
Hlýddu á speki
Lestu Orðskviðina 1:1–2:22. „Ótti [Jehóva]“ er kjarni þekkingarinnar. Ef við þiggjum aga göngum við ekki í lið með syndurum í rangri breytni þeirra. Jehóva gefur þeim sem óttast hann visku sem verndar þá gegn syndurum.
◆ 1:7 — Hvað er „ótti [Jehóva]“?
Hann er óttablandin aðdáun, djúp lotning og heilnæmur ótti við að misþóknast honum, sprottinn af því að við kunnum að meta ást hans, gæsku og góvild. „Ótti [Jehóva]“ felur í sér að viðurkenna að hann sé hinn æðsti dómari og hinn alvaldi, hafi bæði rétt og mátt til að kalla dauðarefsingu yfir þá sem óhlýnast honum. Hann felur einnig í sér að þjóna Guði í trúfesti, treysta honum algerlega og hata það sem illt er í augum hans. — Sálmur 2:11; 115:11; Orðskviðirnir 8:13.
◆ 2:7 — Hvað er ráðvendni?
Hebresk orð tengd ráðvendni hafa grunnmerkinguna „heill“ eða „heilsteyptur.“ Þau gefa oft til kynna að maðurinn sé siðferðilega heilsteyptur og heiðvirður. ‚Hinir ráðvöndu‘ eru óbifanlegir í hollustu sinni við Jehóva. Hann er verndarskjöldur þeirra „sem breyta grandvarlega,“ vegna þess að þeir láta í ljós sanna visku og halda sér við réttláta staðla hans.
Lærdómur fyrir okkur: Ef við óttumst Jehóva tökum við á móti aganum sem hann veitir í gegnum orð sitt og skipulag. Ef við gerðum það ekki myndum við verða taldir „afglapar,“ óguðlegir syndarar. Við skulum því þiggja ástríkan aga hans. — Orðskviðirnir 1:7; Hebreabréfið 12:6.
Mettu viskuna mikils
Lestu Orðskviðina 3:1-4:27. Góð dómgreind byggist á því að ‚treysta Jehóva af öllu hjarta.‘ Þeir sem meta viskuna mikils njóta hamingju. Gata þeirra er eins og sívaxandi ljós, en þeir þurfa að vernda hjarta sitt.
◆ 4:18 — Hvernig verður ‚gata réttlátra‘ bjartari?
Sólarljósið verður æ bjartara frá dögun og „fram á hádegi.“ Á líkan hátt verður hið andlega ljós, sem þjónar Jehóva ganga í, æ skærara eftir því sem tíminn líður. Þegar atburðirnir eru mjög nálægir verður skilningur okkar á framgangi vilja Jehóva gleggri. Okkur opnast skilningur á spádómum Guðs þegar heilagur andi hans varpar ljósi á þá, og þeir rætast í atburðunum í heiminum eða reynslu sem þjónar Jehóva verða fyrir. Þannig ‚verður gata þeirra æ bjartari.‘
Lærdómur fyrir okkur: Ef við sýnum sanna visku og hlýðum boðum Guðs verndar það okkur gegn margs konar heimsku sem gæti orðið okkur að fjörtjóni fyrir tímann. Þeir sem skella skollaeyrunum við boðum Jehóva gegn siðleysi geta til dæmis fengið samræðissjúkdóma sem geta dregið þá til dauða snemma á ævinni. Við skulum því hegða okkur í samræmi við kröfur Guðs, því að þá verður viskan „lífstré“ fyrir okkur. — Orðskviðirnir 3:18.
Leiðir til að sýna visku
Lestu Orðskviðina 5:1–9:18. Það er viska að forðast siðleysi og ‚gleðja sig yfir festarmey æsku sinnar.‘ Nefndir eru sjö hlutir sem Jehóva hefur andstyggð á og varað við fagurgala skækjunnar. Viskan birtist persónugerð sem „verkstýra“ Guðs. Og „ótti [Jehóva] er upphaf viskunnar.“
◆ 6:1-5 — Stinga þessi ráð í stúf við anda örlætisins?
Þessi orðskviður letur okkur ekki þess að vera örlát, enda þótt hann vari okkur við því að flækja okkur í viðskiptum annarra, einkum ókunnugra. Ísraelsmenn áttu að hjálpa bróður sínum sem ‚komst í fátækt.‘ (3. Mósebók 25:35-38) En sumir fóru út í áhættuviðskipti og tryggðu sér fjárstuðning annarra með því að telja þá á að ‚ganga í ábyrgð‘ fyrir sig, það er að segja að ábyrgjast greiðslu til lánadrottna ef þörf krefði. Ef einhver kom sér í slík vandræði var hyggilegast af honum að reyna að komast út úr þeim tafarlaust. — Orðskviðirnir 11:15.
◆ 8:22-31 — Er hér einungis verið að lýsa viskunni?
Nei, því að viskan hefur alltaf verið eitt af einkennum hins eilífa Guðs. (Jobsbók 12:13) Hér er hins vegar talað um að viskan hafi verið ‚sköpuð‘ og ‚staðið Jehóva við hlið sem verkstýra‘ meðan sköpun jarðarinnar fór fram. Að syni Guðs skuli hér lýst sem persónugervingi viskunnar kemur heim og saman við það að „í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir.“ — Kólossubréfið 1:15, 16; 2:3.
Lærdómur fyrir okkur: Með því að minnast á „heillafórn“ sína og „heit“ virðist svo sem siðlausa konan í 7. kafla Orðskviðanna hafi verið að gefa í skyn að henni væri alls ekkert áfátt andlega. Heillafórnirnar samanstóðu af kjöti, hveiti, olíu og víni. (3. Mósebók 19:5, 6; 22:21; 4. Mósebók 15:8-10) Þar með gaf hún til kynna að í húsi sínu væri nóg að eta og drekka og að ‚ungur og vitstola maður‘ myndi skemmta sér vel þar. Þetta er dæmigert um það hvernig maður með rangar áhugahvatir leiðist út í siðleysi. Sannarlega er mikilvægt að hlýða þessari aðvörun og forðast slíka synd gegn Guði! — 1. Mósebók 39:7-12.
Andstæður sem vekja umhugsun
Lestu Orðskviðina 10:1-15:33. Orðskviðir Salómons hefjast á því að bornar eru saman andstæður. Lögð er áhersla á að ‚óttast Jehóva.‘ — 10:27; 14:26, 27; 15:16, 33.
◆ 10:25 — Hvers vegna er minnst hér á ‚vindbyl‘?
Hinn óguðlega vantar grundvöll í réttlátum lífsreglum og er eins og ótraust bygging sem hrynur í stormi. Hinir réttlátu standa vegna þess að hugsun þeirra er byggð á traustum grunni meginreglna Guðs. Þeir brotna ekki undir álagi frekar en bygging reist á traustum grunni. — Mósebók 7:24-27.
◆ 11:22 — Hvernig getur kona verið eins og hringur í svínstrýni?
Gullhringur festur í annan nasavænginn eða miðsnesi gaf til kynna að sá sem hann bar væri siðfágaður. Ísraelsmenn litu hins vegar á svínið sem óhreint og fyrirlitlegt. Fögur kona, sem ekki kann siðprýði, er eins og gullhringur þar sem hann á ekki heima — í svínstrýni.
◆ 14:14 — Hvernig mettast rangsnúið hjarta?
„Rangsnúið hjarta“ mettast af efnishyggju sinni. (Sálmur 144:11-15a) Það hefur ekkert gildi fyrir slíkan mann að gera það sem er rétt í augum Guðs, og það hvarflar ekki að honum að hann þurfi að standa Jehóva reikningsskap gerða sinna. (1. Pétursbréf 4:3-5) „Góður maður“ hafnar lífsháttum hins rangsnúna og mettast „af verkum sínum.“ Hann lætur andleg mál ganga fyrir öðrum, heldur sér við staðla Guðs, nýtur þeirrar miklu gleði að þjóna honum og mettast af blessun Guðs. — Sálmur 144:15b.
◆ 15:23 — Hvernig getur maðurinn ‚hlotið gleði af svari munns síns‘?
Það getur gerst ef farið er eftir ráðum okkar og þau skila góðum árangri. Til að hjálpa öðrum manni verðum við að hlusta vel, vega og meta það sem stuðlar að vanda hans og byggja leiðbeiningar okkar á Biblíunni. Slíkt ‚orð í tíma talað er fagurt!‘
Lærdómur fyrir okkur: ‚Afglapi‘ bregst reiður við móðgun eða „smán,“ en „kænn maður“ — skynsamur maður — biður um anda Guðs til að geta iðkað sjálfstjórn og fylgt orði hans. (Orðskviðirnir 12:16) Með því að breyta svo getum við forðast frekari deilur er gætu valdið sjálfum okkur eða öðrum tilfinningalegu eða líkamlegu tjóni.
Brugðið upp hliðstæðum
Lestu Orðskviðina 16:1–24:34. Þessi spakmæli Salómons byggja leiðbeiningar sínar einkanlega á hliðstæðum. Æ ofan í æ er lögð áhersla á ‚ótta [Jehóva].‘ — 16:6; 19:23; 22:4; 23:17; 24:21.
◆ 17:19 — Hvað er athugavert við háar dyr?
Þeir sem gerðu dyrnar að húsum sínum og húsagörðum háar áttu á hættu að menn gætu riðið á hestbaki þar inn og rænt fjámunum þeirra. Þessi orðskviður gæti einnig átt við að munnurinn væri eins og háar dyr ef hann talaði með hroka og sjálfshóli. Slíkt tal kyndir undir deilur og átök og getur leitt til hruns.
◆ 19:17 — Hvers vegna er því að hjálpa fátækum líkt við að lána Jehóva?
Hinn fátæki tilheyrir Guði og það sem við gerum fyrir hann er eins og gert fyrir Guð. (Orðskviðirnir 14:31) Ef kærleikur og örlæti kemur okkur til að hjálpa lítilmagnanum eða gefa hinum fátæka gjafir, án þess að vænta endurgjalds frá honum, þá lítur Jehóva á slíkar gjafir sem lán til sín sem hann endurgreiðir í mynd hylli sinnar og blessunar. — Lúkas 14:12-14.
◆ 20:1 — Með hvaða hætti er vínið „spottari“?
Óhófleg víndrykkja getur gert manninn hávaðasaman og komið honum til að hegða sé heimskulega. Sökum slæmra afleiðinga ofdrykkjunnar verða kristnir menn að forðast hana. — 1. Tímóteusarbréf 3:2, 3, 8; 1. Korintubréf 6:9, 10; Orðskviðirnir 23:20, 21.
◆ 23:27 — Í hvaða skilningi er skækja „djúp gröf“ og „pyttur“?
Líkt og dýr féllu í ‚djúpar grafir,‘ veiðigryfjur veiðimanna, eins festast viðskiptavinir skækjunnar í gildru siðleysisins. Flestar vændiskonur í Ísrael voru útlendar. Erfitt er að draga vatn úr ‚þröngum pytti‘ eða brunni, því að mikil hætta er á að brjóta leirkrúsir á brunnveggjunum. Á líkan hátt geta þeir sem eiga viðskipti við skækjuna orðið fyrir tilfinningalegri og líkamlegri ógæfu. — Orðskviðirnir 7:21-27.
Lærdómur fyrir okkur: „Falsvottur“ óvirðir Guð og gat átt dauðadóm yfir höfði sér samkvæmt lögmálinu. Hann gat því ‚tortímst‘ fyrir hendi manna eða Jehóva. (Orðskviðirnir 21:28; 5. Mósebók 5:20; 19:16-21; samanber Postulasöguna 5:1-11) Sá maður sem heyrt hafði og hlustað gaumgæfilega talaði aðeins þegar hann var viss um hvað hann hafði heyrt. Vitnisburður hans stóðst og var ekki síðar hafnað sem lygi. Auk þess var hann ekki líflátinn sem falsvottur. Þeir sem bera vitni í dómsmálum meðal votta Jehóva ættu að hafa hlustað gaumgæfilega til að geta gefið nákvæmar upplýsingar, því að ónákvæmur eða rangur vitnisburður getur haft andlegt tjón í för með sér.
Gagnlegur samanburður
Lestu Orðskviðina 25:1–29:27. Orðskviðir Salómons, sem menn Hiskía konungs söfnuðu, veita kennslu einkum með samanburði. Meðal annars hvetja þeir til þess að reiða sig á Jehóva.
◆ 26:6 — Hvers vegna er það að ‚höggva af sér fæturnar‘ notað sem samanburður?
Sá sem heggur af sér fæturnar gerir sig örkumla líkt og maður sem hefur „heimskingja“ í þjónustu sinni getur unnið sjálfum sér stórtjón. Verkefni falið heimskum manni endar með ósköpum. Því er hyggilegt að ‚reyna‘ menn áður en mælt er með þeim til ábyrgðarstarfa í söfnuðinum! — 1. Tímóteusarbréf 3:10.
◆ 27:17 — Hvernig ‚brýnir maður mann‘?
Hægt er að brýna járn með járni og eins getur maður brýnt annan mann vitsmunalega og andlega. Ef vonbrigði og tengsl við menn utan okkar hrings gerir okkur niðurdregin, þá getur samúð trúbróður okkar og biblíuleg hvatningarorð verið okkur mikill styrkur. Hryggðin víkur og endurnýjuð von og starfsgleði hressir okkur. — Orðskviðirnir 13:12.
◆ 28:5 — Hvað felur „allt“ í sér?
Þeir sem ástunda hið illa eru andlega blindir. (Orðskviðirnir 4:14-17; 2. Korintubréf 4:4) Þeir „skilja ekki hvað rétt er“ samkvæmt staðli Guðs. Því hafa þeir ekki rétta dómgreind til að taka skynsamlegar ákvarðanir. En þeir sem „leita [Jehóva]“ með bæn og námi í orði hans „skilja allt“ sem þarf til að þjóna honum velþóknanlega. — Efesusbréfið 5:15-17.
◆ 29:8 — Hvernig geta spottarar ‚æst upp borgina‘?
Spottarar, sem sýna yfirvaldi óvirðingu, eru gálausir og ósvífnir í tali. Með því kynda þeir svo undir deilum að íbúar heillar borgar komast í uppnám. En vitrir menn „lægja reiðina“ með því að tala af ró og skynsemi, slökkva reiðibálið og stuðla að friði. — Orðskviðirnir 15:1.
Lærdómur fyrir okkur: Drambsemi mun hafa í för með sér auðmýkingu fyrir okkur. (Orðskviðirnir 29:23) Drambsamur maður er trúlega frekur og óskammfeilinn og það getur orðið honum til minnkunar, falls og ógæfu. (Orðskviðirnir 11:2; 16:18; 18:12) Guð getur séð til þess að drambsamir menn séu auðmýktir og lítillækkaðir með einhverjum hætti, ef til vill svo að þeir tortímist með öllu. Slíkir menn þrá upphefð en fólk hefur andstyggð á vegum þeira. „Hinn lítilláti“ mun hins vegar með tímanum „virðing hljóta.“
‚Guðmæli‘
Lestu Orðskviðina 30:1–31:31. ‚Guðmæli‘ Agúrs kannast við að ‚sérhvert orð Guðs sé hreint.‘ Einnig eru nefndir hlutir of undursamlegir mannlegum skilningi, og svo mætti lengi telja. (30:1-33) „Guðmælið,“ sem Lemúel fékk frá móður sinni, varar við því að áfengur drykkur geti spillt dómgreind manna, hvetur til réttlátra dóma og lýsir góðri eiginkonu. — 31:1-31.
◆ 30:15, 16 — Hvað er átt við með þessum dæmum?
Þau lýsa því hve óseðjandi græðgin er. Blóðsugurnar belgja sig út af blóði líkt og ágjarnir menn krefjast sífellt meiri peninga eða valda. Helja er einnig óseðjandi og alltaf opin til að taka við fleiri fórnarlömbum dauðans. Móðurlíf óbyrjunnar hrópar á börn. (1. Mósebók 30:1) Þar sem þurrkar hafa verið drekkur jörðin í sig regnvatnið og virðist skömmu síðar vera skrælnuð á ný. Og eldur, sem eytt hefur því sem kastað var í hann, lætur loga sína sleikja önnur eldfim efni sem hann getur náð til. Eins er það með ágjarna menn. Þeir sem láta visku Guðs ráða gerðum sínum láta ekki slíka eigingirni reka sig endalaust áfram.
◆ 31:6, 7 — Hvers vegna á að gefa ‚sorgbitnum‘ manni vín?
Vín og áfengir drykkir eru deyfandi. Þeir voru því gefnir þeim sem kominn var „í örþrot“ eða að dauða kominn eða ‚sorgbitnum‘ til að deyfa kvöl þeirra og þrengingar. Sá forni siður að gefa glæpamönnum vín blandað deyfandi efnum, í því skyni að lina ögn kvöl aftökunnar, kann að skýra hvers vegna rómverskir hermenn buðu Jesú slíkt þegar hann hékk á staurnum. Hann neytti þess ekki, því hann vildi vera með með fullu ráði í þessari prófraun og varðveita ráðvendni sína við Guð. — Markús 15:22-24.
◆ 31:15 — Hverjar eru þessar ‚þernur‘?
Hér er átt við þjónustustúlkur á heimilinu. Þær höfðu enga ástæðu til að kvarta undan ónógu fæði eða verkefnum. Hin iðjusama eiginkona gaf heimilisfólki sínu að borða og sá einnig til þess að þernurnar hefðu nóg að eta og verk að vinna.
Lærdómur fyrir okkur: Ófullkomleikinn getur stundum látið okkur ‚heimskast til að upphefja okkur.‘ Ef við gerum það eða tölum í reiðitón ættum við að ‚leggja höndina á munninn‘ svo að við segjum ekki fleiri orð er gætu reitt enn frekar til reiði þann sem við höfum mógað. Rétt eins og strokka þarf mjólkina til að gera smjör og þrýsta hressilega á nefið til að framkalla blóðnasir, eins kvikna deilur þegar fólk gefur reiði sinni lausan tauminn. (Orðskviðirnir 30:32, 33) Í slíkum tilvikum er hyggilegt að vera hljóður og koma í veg fyrir frekari erfiðleika!
Það má mikið læra og margt gagn hafa af Orðskviðunum! Við skulum varðveita þessi spakmæli sem hvetja okkur til að sýna Jehóva lotningarfullan ótta. Öruggt er að það veitir okkur hamingju að fara eftir þeim.