Að lifa fyrir líðandi stund eða eilífðina
„Í voninni erum vér hólpnir orðnir.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 8:24.
1. Hvað kenndu epíkúringar og hvaða áhrif hafði þess konar heimspeki á suma kristna menn?
PÁLL postuli skrifaði kristnum mönnum í Korintu: „Hvernig geta . . . nokkrir yðar sagt, að dauðir rísi ekki upp?“ (1. Korintubréf 15:12) Svo virðist sem skaðleg heimspeki gríska vitringsins Epíkúrosar hafi verið farin að hafa einhver áhrif á kristna menn fyrstu aldar. Páll beindi því athyglinni að einni kenningu epíkúringa: „Etum . . . og drekkum, því að á morgun deyjum vér!“ (1. Korintubréf 15:32) Fylgjendur heimspekingsins fyrirlitu allar hugmyndir um líf eftir dauðann og trúðu að holdleg vellíðan væri hin æðstu gæði lífsins. (Postulasagan 17:18, 32) Heimspeki epíkúringa var sjálfselsk, kaldhæðin og mannskemmandi.
2. (a) Af hverju var svona hættulegt að afneita upprisunni? (b) Hvernig styrkti Páll trú kristinna manna í Korintu?
2 Að afneita upprisunni hafði djúptækar afleiðingar. Páll sagði: „Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn. En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar. . . . Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna.“ (1. Korintubréf 15:13-19) Já, án vonar um eilífa framtíð væri kristnin „ónýt.“ Hún hefði engan tilgang. Það er engin furða að þessar heiðnu hugmyndir skyldu hafa þau áhrif að Korintusöfnuðurinn var orðinn gróðrarstía alls konar vandamála. (1. Korintubréf 1:11; 5:1; 6:1; 11:20-22) Páll stefndi þess vegna að því að styrkja upprisutrú safnaðarmanna. Hann beitti sterkri rökfærslu, biblíutilvitnunum og líkingum til að sanna umfram allan vafa að upprisuvonin væri ekki uppspuni heldur rættist örugglega. Á þeim grundvelli gat hann hvatt trúbræður sína: „Verið staðfastir, óbifanlegir, síauðugir í verki Drottins. Þér vitið að erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni.“ — 1. Korintubréf 15:20-58.
„Vakið“
3, 4. (a) Hvaða hættulegt viðhorf myndi ná tökum á sumum á hinum síðustu dögum? (b) Hvað þurfum við að halda áfram að minna okkur á?
3 Margir núlifandi menn eru bölsýnir og lifa fyrir líðandi stund. (Efesusbréfið 2:2) Það er rétt eins og Pétur postuli spáði þegar hann sagði að koma myndu „spottarar er . . . segja með spotti: ‚Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar.‘“ (2. Pétursbréf 3:3, 4) Ef slík viðhorf næðu tökum á sannkristnum mönnum gætu þeir orðið ‚iðjulausir eða ávaxtalausir.‘ (2. Pétursbréf 1:8) Sem betur fer er því öðruvísi farið með flesta þjóna Guðs nú á dögum.
4 Það er ekki rangt að hafa áhuga á væntanlegum endalokum hins núverandi illa heimskerfis. Við munum eftir hve áhugasamir postular Jesú voru þegar þeir spurðu: „Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“ Jesús svaraði: „Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi.“ (Postulasagan 1:6, 7) Þessi orð segja sama grundvallarsannleika og hann sagði áður á Olíufjallinu: „Þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur. . . . Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“ (Matteus 24:42, 44) Við þurfum að minna okkur á þessi ráð. Sumum getur þótt freistandi að hugsa með sér: ‚Kannski ætti ég að fara mér ögn hægar og gera mér minni áhyggjur af endinum.‘ Það væru alvarleg mistök! Tökum Jakob og Jóhannes, ‚Þrumusynina,‘ sem dæmi. — Markús 3:17.
5, 6. Hvaða lærdóm getum við dregið af fordæmi Jakobs og Jóhannesar?
5 Við vitum að Jakob var ákaflega kostgæfinn postuli. (Lúkas 9:51-55) Hann hlýtur að hafa gegnt mikilvægu hlutverki í kristna söfnuðinum eftir stofnsetningu hans. En hann var enn tiltölulega ungur þegar Heródes Agrippa 1. lét lífláta hann. (Postulasagan 12:1-3) Ætli Jakob hafi séð eftir því að hafa verið svona kostgæfinn og hafa lagt sig svona fram í þjónustunni, þegar hann sá fram á að líf hans tæki óvænt enda? Varla. Hann hlýtur að hafa fagnað því að hafa varið bestu árum tiltölulega skammrar ævi í þjónustu Jehóva. Ekkert okkar veit nema líf okkar geti endað óvænt. (Prédikarinn 9:11; samanber Lúkas 12:20, 21.) Það er því greinilega viturlegt að vera kostgæfin og dugleg í þjónustu Jehóva. Þannig varðveitum við gott mannorð hjá honum og lifum með eilífðina fyrir augum. — Prédikarinn 7:1.
6 Draga má svipaðan lærdóm af Jóhannesi postula sem var viðstaddur þegar Jesús hvatti eindregið: „Vakið.“ (Matteus 25:13; Markús 13:37; Lúkas 21:34-36) Jóhannes tók það til sín og þjónaði með eldmóði um margra áratuga skeið. Reyndar virðist hann hafa lifað alla hina postulana. Þegar Jóhannes var orðinn háaldraður og leit um öxl yfir áratugalanga, trúfasta þjónustu, fannst honum þá sem hann hefði gert mistök, að hann hefði stefnt lífi sínu á ranga braut eða ekki gætt jafnvægis? Alls ekki. Hann hlakkaði enn ákaflega til framtíðarinnar. Þegar hinn upprisni Jesús sagði: „Já, ég kem skjótt,“ svaraði Jóhannes um hæl: „Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!“ (Opinberunarbókin 22:20) Það er greinilegt að Jóhannes lifði hvorki fyrir líðandi stund né þráði rólegt, ‚eðlilegt líf.‘ Hann var staðráðinn í að halda áfram að þjóna af öllum kröftum, hvenær sem Drottinn kæmi. Hvað um okkur?
Grundvöllur trúar á eilíft líf
7. (a) Hvernig var voninni um eilíft líf „heitið frá eilífum tíðum“? (b) Hvernig varpaði Jesús ljósi á vonina um eilíft líf?
7 Þú getur treyst að vonin um eilíft líf er ekki draumsýn eða hugarórar manna. Eins og Títusarbréfið 1:2 segir er guðrækni okkar byggð á ‚von um eilíft líf sem Guð, sá er ekki lýgur, hefur heitið frá eilífum tíðum.‘ Það var upphaflegur tilgangur hans að allir hlýðnir menn lifðu að eilífu. (1. Mósebók 1:28) Ekkert, ekki einu sinni uppreisn Adams og Evu, getur komið í veg fyrir að sá tilgangur rætist. Eins og stendur í 1. Mósebók 3:15 lofaði Guð þegar í stað ‚sæði‘ sem myndi gera að engu allt það tjón sem mannkynið yrði fyrir. Þegar ‚sæðið‘ kom, það er að segja Messías Jesús, gerði hann vonina um eilíft líf að einni undirstöðukenningu sinni. (Jóhannes 3:16; 6:47, 51; 10:28; 17:3) Með því að leggja fullkomið líf sitt í sölurnar sem lausnargjald öðlaðist Kristur lagalegan rétt til að veita mannkyninu eilíft líf. (Matteus 20:28) Sumir lærisveina hans, alls 144.000, munu lifa eilíflega á himnum. (Opinberunarbókin 14:1-4) Þannig munu sumir menn, sem voru dauðlegir, „íklæðast ódauðleikanum.“ — 1. Korintubréf 15:53.
8. (a) Hvað er ‚ódauðleiki‘ og hvers vegna veitir Jehóva hinum 144.000 hann? (b) Hvaða von gaf Jesús hinum ‚öðrum sauðum‘?
8 ‚Ódauðleiki‘ er meira en einfaldlega að deyja aldrei. Hann felur í sér ‚kraft óhagganlegs lífs.‘ (Hebreabréfið 7:16; samanber Opinberunarbókin 20:6.) En hverju nær Guð fram með því að veita svona einstaka gjöf? Mundu eftir þeirri ögrun Satans að engri sköpunarveru Guðs sé treystandi. (Jobsbók 1:9-11; 2:4, 5) Með því að veita hinum 144.000 ódauðleika gefur Guð til kynna algert traust sitt til þessa hóps sem hefur svarað ögrun Satans með svo einstökum hætti. En hvað um þá sem eftir eru af mannkyninu? Jesús sagði fyrstu lærsveinum ‚lítillar hjarðar‘ ríkiserfingjanna að þeir myndu „sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.“ (Lúkas 12:32; 22:30) Það gefur til kynna að aðrir menn hljóti eilíft líf á jörð sem þegnar ríkis hans. Enda þótt þessum ‚öðrum sauðum‘ sé ekki veittur ódauðleiki öðlast þeir ‚eilíft líf.‘ (Jóhannes 10:16; Matteus 25:46) Eilíft líf er því von allra kristinna manna. Það er enginn hugarburður heldur hátíðlegt loforð Guðs, „er ekki lýgur,“ og greitt er fyrir með dýrmætu blóði Jesú. — Títusarbréfið 1:2.
Í fjarlægri framtíð?
9, 10. Hvaða skýrar vísbendingar eru um það að endalokin séu nærri?
9 Páll postuli varaði við ‚örðugum tíðum‘ er gæfu ótvírætt til kynna að ‚síðustu dagar‘ væru runnir upp. Mannfélagið umhverfis okkur er að drabbast niður í kærleiksleysi, græðgi, sjálfsfullnægingu og óguðleika. Gerum við okkur þá ekki ljóst að dagur Jehóva til að fullnægja dómum sínum á þessu óguðlega heimskerfi nálgast óðfluga? Sjáum við ekki orð Páls rætast í hinu vaxandi ofbeldi og hatri umhverfis okkur: „Vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni“? (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13) Sumir hrópa kannski „Friður og engin hætta“ í bjartsýni sinni, en allar friðarvonir verða að engu því að ‚snöggleg tortíming kemur yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu og þeir munu alls ekki undan komast.‘ Við erum ekki í myrkri varðandi merkingu þess tíma sem við lifum. Við skulum því ‚vaka og vera algáðir.‘ — 1. Þessaloníkubréf 5:1-6.
10 Biblían gefur enn fremur til kynna að hinir síðustu dagar séu ‚naumur tími.‘ (Opinberunarbókin 12:12; samanber 17:10.) Stærstur hluti þessa ‚nauma tíma‘ virðist vera liðinn. Spádómur Daníels lýsir til dæmis nákvæmlega átökum milli „konungsins norður frá“ og „konungsins suður frá“ sem hefur staðið allt fram á þessa öld. (Daníel 11:5, 6) Það eina, sem á eftir að rætast, er lokaárás „konungsins norður frá“ sem lýst er í Daníel 11:44, 45. — Sjá Varðturninn 1. nóvember 1987 og 1. maí 1994 þar sem fjallað er um þennan spádóm.
11. (a) Að hvaða marki hefur Matteus 24:14 uppfyllst? (b) Hvað gefa orð Jesú í Matteusi 10:23 til kynna?
11 Þá er einnig að nefna spá Jesú um að ‚þetta fagnaðarerindi um ríkið verði prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar og þá muni endirinn koma.‘ (Matteus 24:14) Vottar Jehóva vinna starf sitt núna í 233 löndum, eyjaþyrpingum og svæðum. Vissulega eru enn til ósnortin svæði og kannski opnast dyr tækifærisins þar þegar Jehóva álítur það tímabært. (1. Korintubréf 16:9) En orð Jesú í Matteusi 10:23 eru umhugsunarverð: „Þér munuð ekki hafa náð til allra borga Ísraels, áður en Mannssonurinn kemur.“ Enda þótt fagnaðarerindið verði vissulega kunngert um alla jörðina náum við ekki persónulega til allra jarðarskika með boðskapinn um Guðsríki áður en Jesús „kemur“ til að fullnægja dómi.
12. (a) Hvaða ‚innsiglun‘ er átt við í Opinberunarbókinni 7:3? (b) Hvaða þýðingu hefur það að hinum smurðu fer fækkandi á jörðinni?
12 Lítum á textann í Opinberunarbókinni 7:1, 3 sem segir að haldið sé aftur af „fjórum vindum“ eyðingarinnar „þar til er vér höfum sett innsigli á enni þjóna Guðs vors.“ Hér er ekki átt við hina upphaflegu innsiglun sem á sér stað þegar þessar 144.000 hljóta himneska köllun, heldur lokainnsiglunina þegar þeir eru endanlega auðkenndir sem þolreyndir og trúfastir ‚þjónar Guðs vors.‘ (Efesusbréfið 1:13) Mjög fáir ósviknir, smurðir synir Guðs eru eftir á jörðinni. Og Biblían segir greinilega að það sé „vegna hinna útvöldu“ sem fyrsti áfangi þrengingarinnar miklu verði ‚styttur.‘ (Matteus 24:21, 22) Flestir þeirra sem segjast smurðir eru orðnir aldraðir. Bendir það ekki líka til þess að endirinn sé nálægur?
Trúfastur varðmaður
13, 14. Hvaða ábyrgð hvílir á varðmannshópnum?
13 Þangað til er hyggilegt af okkur að fara eftir viðvörunum hins ‚trúa þjóns.‘ (Matteus 24:45) Í meira en hundrað ár hefur „þjónn“ nútímans þjónað trúfastur sem ‚varðmaður.‘ (Esekíel 3:17-21) Varðturninn útskýrði 1. maí 1984: „Þessi varðmaður fylgist með því hvernig heimsmálin þróast og uppfylla spár Biblíunnar, varar við yfirvofandi ‚mikilli þrengingu, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða,‘ og boðar ‚gleðitíðindi um það sem betra er.‘“ — Matteus 24:21; Jesaja 52:7.
14 Munum að það er hlutverk varðmannsins að hrópa hátt ‚hvað hann sér.‘ (Jesaja 21:6-8) Á biblíutímanum varaði varðmaður við jafnvel þótt hættan væri allt of fjarri til að hægt væri að sjá hana greinilega. (2. Konungabók 9:17, 18) Það hljóta að hafa verið gefnar falskar viðvaranir á þeim tíma. En góður varðmaður þagði ekki af ótta við að verða sér til skammar. Hvernig yrði þér innanbrjósts ef kviknað væri í húsinu þínu en slökkviliðsmennirnir kæmu ekki af því að þeir héldu að um gabb væri að ræða? Við reiknum með að slíkir menn bregðist skjótt við sérhverju hættumerki. Eins hefur varðmannshópurinn látið í sér heyra þegar aðstæður virtust réttlæta það.
15, 16. (a) Af hverju er skilningur okkar á spádómunum stundum skýrður? (b) Hvað getum við lært af trúföstum þjónum Guðs sem skildu ekki ákveðna spádóma rétt?
15 Skilningur okkar á spádómunum hefur aftur á móti skýrst samhliða framvindunni í heiminum. Sagan sýnir að menn hafa sjaldan eða aldrei skilið spádóma Guðs að fullu áður en þeir rættust. Guð sagði Abram nákvæmlega hve lengi niðjar hans myndu „lifa sem útlendingar í landi, sem þeir eiga ekki,“ það er að segja í 400 ár. (1. Mósebók 15:13) En Móse bauð sig fram sem frelsara fyrir tímann. — Postulasagan 7:23-30.
16 Lítum einnig á messíasarspádómana. Eftir á að hyggja virðist deginum ljósara að dauði Messíasar og upprisa var sögð fyrir. (Jesaja 53:8-10) Samt skildu lærisveinar Jesú það ekki einu sinni. (Matteus 16:21-23) Þeir skildu ekki að Daníel 7:13, 14 myndi rætast við parósíu eða „nærveru“ Krists í framtíðinni. (Matteus 24:3, NW) Þeim skeikaði því um næstum 2000 ár þegar þeir spurðu Jesú: „Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“ (Postulasagan 1:6) Jafnvel eftir að kristni söfnuðurinn hafði náð góðri fótfestu héldu rangar hugmyndir og væntingar áfram að skjóta upp kollinum. (2. Þessaloníkubréf 2:1, 2) Enda þótt sumir hefðu rangar hugmyndir endrum og eins blessaði Jehóva óneitanlega starf þessara kristnu manna fyrstu aldar.
17. Hvernig ættum við að líta á betrumbætur á biblíuskilningi okkar?
17 Varðmannshópur nútímans hefur líka þurft að skýra viðhorf sín af og til. En getur nokkur maður efast um að Jehóva hafi blessað hinn ‚trúa þjón‘? Og eru ekki flestar betrumbætur á skilningi okkar tiltölulega smáar ef þær eru skoðar í réttu samhengi? Meginskilningur okkar á Biblíunni hefur ekki breyst. Sú sannfæring okkar að við lifum á síðustu dögum er sterkari en nokkru sinni fyrr!
Að lifa fyrir eilífðina
18. Af hverju verðum við að forðast að lifa aðeins fyrir líðandi stund?
18 Heimurinn segir kannski: ‚Etum og drekkum því að á morgun deyjum við,‘ en við megum ekki hugsa þannig. Hvers vegna að sækjast til einskis eftir þeim unaði, sem við getum haft út úr lífinu núna, fyrst hægt er að vinna að eilífri framtíð? Sú von er engin draumsýn og enginn hugarburður, hvort heldur um er að ræða ódauðleika á himnum eða eilíft líf á jörðinni. Hún er veruleiki sem Guð hefur heitið og hann ‚lýgur ekki.‘ (Títusarbréfið 1:2) Rökin fyrir því að von okkar verði brátt að veruleika eru yfirþyrmandi! „Tíminn er orðinn stuttur.“ — 1. Korintubréf 7:29.
19, 20. (a) Hvernig lítur Jehóva á fórnirnar sem við höfum fært vegna Guðsríkis? (b) Af hverju verðum við að lifa með eilífðina fyrir augum?
19 Þetta heimskerfi hefur að vísu staðið lengur en margir bjuggust við. Fáeinum finnst kannski núna að þeir hefðu ekki fært vissar fórnir hefðu þeir vitað þetta fyrir. En við ættum aldrei að sjá eftir því að hafa gert það. Þegar allt kemur til alls eru fórnir snar þáttur í því að vera kristinn. Kristnir menn ‚afneita sjálfum sér.‘ (Matteus 16:24) Við ættum aldrei að láta okkur finnast að viðleitni okkar til að þóknast Guði hafi verið til einskis. Jesús lofaði: „Enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins, án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma . . . og í hinum komandi heimi eilíft líf.“ (Markús 10:29, 30) Hve mikils virði ætli þér finnist vinnan þín, húsið eða bankareikningurinn eftir þúsund ár? En fórnirnar, sem þú hefur fært fyrir Jehóva, skipta enn máli eftir milljón ár — og eftir milljarð ára! „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar.“ — Hebreabréfið 6:10.
20 Við skulum því lifa með eilífðina fyrir augum og einblína „ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.“ (2. Korintubréf 4:18) Spámaðurinn Habakkuk skrifaði endur fyrir löngu: „Enn hefir vitrunin sinn ákveðna tíma, en hún skundar að takmarkinu og bregst ekki. Þótt hún dragist, þá vænt hennar, því að hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða.“ (Habakkuk 2:3) Hvaða áhrif hefur eftirvænting okkar á það hvernig við rækjum persónulegar skyldur okkar og fjölskylduábyrgð? Um það er fjallað í næstu grein.
Til upprifjunar
◻ Hvaða áhrif hefur það haft á suma að endir þessa heimskerfis virðist hafa dregist?
◻ Á hvaða grundvelli hvílir von okkar um eilíft líf?
◻ Hvernig ættum við að líta á fórnir sem við höfum fært í þágu Guðsríkis?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Prédikunarstarfinu um heim allan þarf að vera lokið áður en endirinn kemur.