Orðaskýringar
A B D E F G H I Í J K L M N O Ó P R S T U Ú V Y Þ Æ Ö
A
Ab.
Fimmti mánuður hins helga almanaks Gyðinga eftir útlegðina í Babýlon en 11. mánuður hins veraldlega almanaks. Hann stóð frá miðjum júlí fram í miðjan ágúst. Hann er ekki nefndur með nafni í Biblíunni heldur einfaldlega kallaður ‚fimmti mánuðurinn‘. (4Mó 33:38; Esr 7:9) – Sjá viðauka B15.
Abíb.
Upphaflegt heiti fyrsta mánaðarins samkvæmt helgu almanaki Gyðinga en sjöundi mánuður hins veraldlega almanaks. Abíb merkir ‚græn öx (á korni)‘ og hann stóð frá miðjum mars fram í miðjan apríl. Eftir heimkomu Gyðinga frá Babýlon var hann nefndur nísan. (5Mó 16:1) – Sjá viðauka B15.
Adar.
Tólfti mánuður hins helga almanaks Gyðinga eftir útlegðina í Babýlon en sjötti mánuður hins veraldlega almanaks. Hann stóð frá miðjum febrúar fram í miðjan mars. (Est 3:7) – Sjá viðauka B15.
Afbrot, brjóta af sér.
Akkea.
Heiti í Grísku ritningunum á rómversku skattlandi sem náði yfir sunnanvert Grikkland, þar á meðal allan Pelópsskaga. Höfuðborgin var Korinta. (Pos 18:12) – Sjá viðauka B13.
Alabastursflaska.
Lítil flaska með ilmolíu, upphaflega gerð úr steini úr nágrenni Alabastron í Egyptalandi. Flaskan var yfirleitt með mjóum hálsi sem hægt var að innsigla til að verðmætt ilmefni læki ekki úr henni. – Mr 14:3.
Alamót.
Tónfræðiheiti sem merkir ‚stúlkur, ungar konur‘ og vísar sennilega til sópranradda ungra kvenna. Gaf líklega til kynna að flytja ætti tónverk eða leika undir á háu tónsviði. – 1Kr 15:20; Sl 46:yf.
Alfa og ómega.
Alin.
Lengdarmálseining, um það bil lengdin frá olnboga að fingurgómi löngutangar. Hjá Ísraelsmönnum var alin yfirleitt reiknuð um 44,5 cm en stundum var hún einni þverhönd lengri eða um 51,8 cm. (1Mó 6:15; Lúk 12:25) – Sjá viðauka B14.
Almút labben.
Hugtak sem kemur fyrir í yfirskrift 9. sálmsins og merkir samkvæmt hefð ‚um dauða sonarins‘. Sumir telja að um sé að ræða heiti eða hugsanlega upphafsorð þekkts lags sem þessi sálmur var sunginn við.
Altari.
Upphækkun eða stallur úr jarðvegi, grjóti, tilhöggnum steini eða tré klæddu málmi þar sem fórnir voru færðar eða reykelsi brennt í tilbeiðsluskyni. Í fremra rými tjaldbúðarinnar og musterisins stóð lítið gullaltari þar sem brennt var reykelsi. Það var gert úr tré og klætt gulli. Úti í forgarðinum stóð stærra altari sem var úr kopar en þar voru færðar brennifórnir. (2Mó 27:1; 39:38, 39; 1Mó 8:20; 1Kon 6:20; 2Kr 4:1; Lúk 1:11) – Sjá viðauka B5 og B8.
Amen.
‚Verði svo‘ eða ‚vissulega‘. Dregið af hebreska stofnorðinu ʼaman′ sem merkir ‚að vera trúr, áreiðanlegur‘. Sagt var „amen“ til að samþykkja eið, bæn eða staðhæfingu. Í Opinberunarbókinni er það notað sem titill yfir Jesú. – 5Mó 27:26; 1Kr 16:36; Op 3:14.
Andamiðill.
Manneskja sem segist geta talað við framliðna. – 3Mó 20:27; 5Mó 18:10–12; 2Kon 21:6.
Andi.
Hebreska orðið ruach og gríska orðið pnevma, oft þýdd ‚andi‘, hafa margar merkingar en þær lýsa allar einhverju sem er ósýnilegt mönnum og er merki um afl að verki. Hebreska orðið og það gríska eru notuð um (1) vind, (2) lífskraft lifandi vera á jörð, (3) kraftinn sem á sér rætur í táknrænu hjarta mannsins og knýr hann til að segja og gera hluti á vissan hátt, (4) innblásin orð af ósýnilegum uppruna, (5) andaverur og (6) kraft Guðs, heilagan anda. – Sl 104:29; 143:4, nm; Mt 12:43; Lúk 11:13.
Andkristur.
Gríska orðið hefur tvíþætta merkingu. Það lýsir því sem er andsnúið Kristi en er líka notað um falskrist, þann sem reynir að koma í stað Krists. Allir menn, samtök, stofnanir eða hópar sem segjast ranglega vera fulltrúar Krists, segjast vera Messías eða vinna gegn Kristi og lærisveinum hans geta með réttu kallast andkristar. – 1Jó 2:22.
Aram, Aramear.
Afkomendur Arams sonar Sems. Þeir bjuggu aðallega á svæðum sem lágu á milli Líbanonsfjalla og Mesópótamíu og norðan frá Tárusfjöllum suður fyrir Damaskus. Þetta svæði var á hebresku kallað Aram en síðar nefnt Sýrland og íbúar þess Sýrlendingar. – 1Mó 25:20; 5Mó 26:5; Hós 12:12.
Arameíska.
Semískt tungumál, náskylt hebresku og með sama stafróf. Það var upphaflega talað af Arameum en varð síðar alþjóðlegt viðskipta- og samskiptamál í heimsveldunum Assýríu og Babýloníu. Það var einnig opinbert stjórnsýslumál Persaveldis. (Esr 4:7) Bækur Esra, Jeremía og Daníels voru að hluta til skrifaðar á arameísku. – Esr 4:8–6:18; 7:12–26; Jer 10:11; Dan 2:4b–7:28.
Areopagus.
Hæð í Aþenu, norðvestur af Akrópólis. Samnefnt ráð (dómstóll) hélt þar fundi. Heimspekingar úr hópi stóumanna og epíkúringa tóku Pál með sér þangað til að láta hann gera grein fyrir trú sinni. – Pos 17:19.
Asasel.
Aselgeia.
– Sjá BLYGÐUNARLAUS HEGÐUN.
Asía.
Heiti í Grísku ritningunum á rómversku skattlandi sem náði yfir vesturhluta Tyrklands sem nú er og eyjar við ströndina, svo sem Samos og Patmos. Höfuðborgin var Efesus. (Pos 20:16; Op 1:4) – Sjá viðauka B13.
Astarte.
B
Baal.
Kanverskur guð sem var talinn eiga himininn og veita regn og frjósemi. Baal var líka heiti ýmissa óæðri staðbundinna guða. Hebreska orðið þýðir ‚eigandi, húsbóndi‘. – 1Kon 18:21; Róm 11:4.
Bat.
Rúmmálseining vökva sem er talin hafa jafngilt um 22 l sé miðað við leirkersbrot sem fundist hafa með áletruninni bat. Flestar aðrar rúmmálseiningar þurrefna og vökva í Biblíunni eru reiknaðar út frá áætluðu rúmmáli bats. (1Kon 7:38; Esk 45:14) – Sjá viðauka B14.
Beelsebúl.
Blygðunarlaus hegðun.
Þýðing gríska orðsins asel′geia. Verknaður sem er alvarlegt brot á lögum Guðs og endurspeglar blygðunarleysi eða mikla fyrirlitningu. Hugarfarið sem býr að baki vitnar um virðingarleysi eða jafnvel fyrirlitningu á yfirvaldi, lögum og gildum. Ekki er átt við ranga hegðun sem telst smávægileg. – Ga 5:19; 2Pé 2:7.
Bókrolla.
Löng papýrus- eða skinnörk sem skrifað var á öðrum megin, oftast vafin upp á kefli. Ritningarnar voru skrifaðar og afritaðar á bókrollur, hið almenna bókarform á þeim tíma sem Biblían var skrifuð. – Jer 36:4, 18, 23; Lúk 4:17–20; 2Tí 4:13.
Brennifórn.
Dýrafórn brennd í heild sinni á altarinu sem fórn handa Guði. Sá sem færði fórnina (naut, hrút, geithafur, turtildúfu eða unga dúfu) hélt engu eftir fyrir sig. – 2Mó 29:18; 3Mó 6:9.
Brjóstskjöldur.
Eins konar taska sem æðstiprestur Ísraels bar alltaf á brjóstinu þegar hann gekk inn í hið heilaga. Hún var prýdd eðalsteinum og nefnd ‚dómskjöldurinn‘ því að úrím og túmmím voru geymd þar en þau voru notuð til að opinbera úrskurði Jehóva. (2Mó 28:15–30) – Sjá viðauka B5.
Broddstafur.
Langur stafur með hvössum málmoddi sem bændur notuðu til að reka dýr áfram. Orðum viturra manna er líkt við broddstaf því að þau hvetja fólk til að hlýða skynsamlegum ráðum. „Að spyrna á móti broddstafnum“ er dregið af þrjósku nauti sem spyrnir gegn broddstafnum þegar ýtt er við því og skaðar þannig sjálft sig. Einnig kallaður nautrekstrarstafur. – Pos 26:14; Dóm 3:31.
Bræðsluofn.
– Sjá OFNAR.
Búl.
Áttundi mánuður hins helga almanaks Gyðinga og annar mánuður hins veraldlega almanaks. Nafnið er dregið af stofni sem merkir ‚afrakstur, uppskera‘. Mánuðurinn stóð frá miðjum október fram í miðjan nóvember. (1Kon 6:38) – Sjá viðauka B15.
Bölvun, formæling.
Það að hóta eða kalla ógæfu yfir einhvern eða eitthvað. Ekki má rugla því saman við blótsyrði eða reiðileg orð. Bölvun er oft formleg yfirlýsing eða spá um ógæfu og hefur spádómlegt gildi og vægi þegar hún kemur frá Guði eða einhverjum sem hefur umboð frá honum. – 1Mó 12:3; 4Mó 22:12; Ga 3:10.
D
Dagón.
Einn af guðum Filistea. Uppruni nafnsins er óviss en sumir fræðimenn telja það skylt hebreska orðinu dagh (fiskur). – Dóm 16:23; 1Sa 5:4.
Daríki.
Persnesk gullmynt sem vó 8,4 g. (1Kr 29:7) – Sjá viðauka B14.
Davíðsborg.
Heiti borgarinnar Jebús eftir að Davíð vann hana og reisti sér þar konungssetur. Hún var einnig nefnd Síon og var í suðausturhluta Jerúsalem og jafnframt elsti hluti hennar. – 2Sa 5:7; 1Kr 11:4, 5.
Dekapólis.
Nokkrar grískar borgir, upphaflega tíu talsins (úr grísku deka sem þýðir ‚tíu‘ og pólis sem þýðir ‚borg‘). Einnig nafn á svæðinu austan við Galíleuvatn og Jórdan þar sem flestar borgirnar voru. Þær voru miðstöðvar hellenskrar menningar og viðskipta. Jesús fór um þetta svæði en hvergi kemur fram að hann hafi heimsótt nokkra af borgunum. (Mt 4:25; Mr 5:20) – Sjá viðauka A7 og B10.
Denar.
Rómversk silfurmynt sem vó 3,85 g og var með mynd keisarans öðrum megin. Denar var daglaun verkamanns og myntin sem Rómverjar kröfðu Gyðinga um í „nefskatt“. (Mt 22:17, nm; Lúk 20:24) – Sjá viðauka B14.
Djöfullinn.
Dómarar.
Menn sem Jehóva valdi til að frelsa þjóð sína undan oki óvina áður en mennskir konungar komu til skjalanna. – Dóm 2:16.
Dómarasæti.
Oftast pallur undir berum himni þar sem embættismenn gátu setið, ávarpað mannfjölda og tilkynnt úrskurði sína. Tröppur lágu upp á pallinn. „Dómarasæti Guðs“ og „dómarasæti Krists“ tákna fyrirkomulag Jehóva til að dæma mannkynið. – Róm 14:10; 2Kor 5:10; Jóh 19:13.
Dómsdagur.
Ákveðinn dagur eða tímabil þegar vissir hópar, þjóðir eða mannkynið í heild þarf að standa Guði reikningsskap gerða sinna. Dómsdagur getur verið tími þegar dómi er fullnægt yfir þeim sem hafa hlotið dauðadóm eða þegar sumum er gefið tækifæri til að bjargast og hljóta eilíft líf. Jesús Kristur og postular hans töluðu um ókominn ‚dómsdag‘ sem varðar bæði lifandi og látna. – Mt 12:36.
Drakma.
Í Grísku ritningunum er átt við gríska silfurmynt sem á þeim tíma vó 3,4 g. Í Hebresku ritningunum er minnst á gulldrökmu frá tímum Persa sem er talin svara til daríka. (Neh 7:70; Mt 17:24) – Sjá viðauka B14.
Drepsótt.
Smitsjúkdómur sem getur valdið farsótt og margir deyja úr. Guð sendi oft drepsóttir til að fullnægja dómum sínum. – 4Mó 14:12; Esk 38:22, 23; Am 4:10.
Drykkjarfórn.
Drykkjarþjónn.
Embættismaður við hirð konungs sem bar fram vín eða aðra drykki fyrir konung. Þetta var mikilvæg ábyrgðar- og virðingarstaða og því var ekki óalgengt að sumir drykkjarþjónar urðu traustir ráðgjafar konungs. – 1Mó 40:1, 2, 11; Neh 1:11; 2:1.
Dulspeki, spíritismi.
Gríska orðið farmakí′a, sem er þýtt ‚stunda dulspeki‘, merkir bókstaflega ‚að nota lyf, fíkniefni‘. Það var sett í samband við dulspeki vegna þess að forðum daga neyttu menn fíkniefna þegar þeir vildu kalla fram áhrif illra anda og stunda galdra. Dulspeki birtist meðal annars í þeirri trú að andar framliðinna lifi af líkamsdauðann og geti komist í samband við lifandi fólk, einkum með aðstoð manneskju (miðils) sem er sérstaklega næm fyrir áhrifum þeirra. – Ga 5:20; Op 21:8.
E
Edóm.
Annað nafn Esaú sonar Ísaks. Afkomendur Esaú (Edóms) lögðu undir sig Seírland, fjalllendi milli Dauðahafs og Akabaflóa. Svæðið var síðar nefnt Edóm. (1Mó 25:30; 36:8) – Sjá viðauka B3 og B4.
Efa.
Rúmmálseining þurrefna og jafnframt mæliílátið sjálft, notað til að mæla korn. Efa jafngilti vökvamálinu bat og var þar af leiðandi 22 l. (2Mó 16:36; Esk 45:10) – Sjá viðauka B14.
Efraím.
Næstelsti sonur Jósefs. Síðar bar ein af ættkvíslum Ísraels þetta nafn. Eftir að ríkið skiptist var nafnið einnig notað um tíuættkvíslaríkið í heild en Efraím var ráðandi ættkvísl þess. – 1Mó 41:52; Jer 7:15.
Efrat.
Lengsta og mikilvægasta fljót Suðvestur-Asíu og annað stórfljóta Mesópótamíu. Þess er fyrst getið í 1. Mósebók 2:14 sem eins af fjórum fljótum Eden. Oft kallað „Fljótið“. (1Mó 31:21) Ísraelsmenn áttu landamæri í norðri við Efrat. (1Mó 15:18; Op 16:12) – Sjá viðauka B2.
Eftirtínsla.
Að tína það sem eftir er af uppskeru sem kornskurðarmenn skildu eftir af ásettu ráði eða óvart. Í Móselögunum var kveðið á um að ekki mætti hirða uppskeru sem var í útjaðri akursins né tína öll vínber og ólívur. Guð gaf fátækum, bágstöddum, útlendingum, ekkjum og föðurlausum þann rétt að tína það sem eftir var af uppskerunni. – Rut 2:7; Jer 49:9.
Eiður.
Hátíðleg yfirlýsing til að staðfesta að eitthvað sé satt eða hátíðlegt loforð um að gera eitthvað eða gera það ekki. Oft var svarinn eiður við æðri persónu, einkum Guð. Jehóva Guð ábyrgðist sáttmála sinn við Abraham með eiði. – 1Mó 14:22; Heb 6:16, 17.
Einstök góðvild.
Þýðing á grísku orði sem merkir í meginatriðum það sem er viðkunnanlegt og aðlaðandi. Orðið er oft notað um að gefa gjöf til merkis um vinsemd eða þá um sjálfa gjöfina. Þegar talað er um einstaka góðvild Guðs lýsir það gjöf sem hann gefur af örlæti án þess að vænta nokkurs í staðinn og er því merki um gjafmildi hans, kærleika og gæsku gagnvart mönnunum. Gríska orðið er stundum þýtt ‚velvild‘ og ‚rausnarleg gjöf‘. Það lýsir gjöf sem er sprottin eingöngu af örlæti gjafarans en ekki af því að þiggjandinn hafi unnið til hennar. – 2Kor 6:1; Ef 1:7.
Eldhafið.
Táknrænn staður sem logar af eldi og brennisteini, einnig kallaður ‚hinn annar dauði‘. Syndurum sem iðrast ekki, Djöflinum og meira að segja dauðanum og gröfinni (Hades) er kastað í eldhafið. Eldur getur ekki haft áhrif á andaveru, dauðann né Hades. Af því má ráða að eldhafið tákni ekki eilífar kvalir heldur eilífa útrýmingu. – Op 19:20; 20:14, 15; 21:8.
Eldpanna.
Áhald úr gulli, silfri eða kopar, notað í tjaldbúðinni og musterinu til að brenna reykelsi og fjarlægja kol af fórnaraltarinu og brunna kveiki af gullljósastikunni. Eldpönnurnar voru einnig kallaðar reykelsisker. – 2Mó 37:23; 2Kr 26:19; Heb 9:4.
Elúl.
Sjötti mánuður hins helga almanaks Gyðinga eftir útlegðina í Babýlon en tólfti mánuður hins veraldlega almanaks. Hann stóð frá miðjum ágúst fram í miðjan september. (Neh 6:15) – Sjá viðauka B15.
Engill.
Dregið af hebreska orðinu malʼakh′ og gríska orðinu angelos. Bæði orðin merkja bókstaflega ‚sendiboði‘ en eru þýdd „engill“ þegar átt er við sendiboða úr andaheiminum. (1Mó 16:7; 32:3; Jak 2:25; Op 22:8) Englar eru voldugar andaverur sem Guð skapaði löngu á undan mönnunum. Í Biblíunni er einnig talað um þá sem „heilagar þúsundir“, ‚syni Guðs‘ og „morgunstjörnurnar“. (5Mó 33:2; Job 1:6; 38:7) Þeim er ekki áskapað að auka kyn sitt heldur skapaði Guð þá hvern fyrir sig. Þeir eru vel yfir hundrað milljónir talsins. (Dan 7:10) Í Biblíunni er gefið til kynna að þeir heiti hver sínu nafni og hafi ólíkan persónuleika en séu auðmjúkir og vilji ekki láta tilbiðja sig. Flestir þeirra gefa ekki einu sinni upp nafn sitt. (1Mó 32:29; Lúk 1:26; Op 22:8, 9) Þeir gegna ólíkum stöðum og margs konar hlutverkum, þar á meðal að þjóna frammi fyrir hásæti Jehóva, flytja boð frá honum, koma jarðneskum þjónum hans til hjálpar, fullnægja dómum hans og styðja boðun fagnaðarboðskaparins. (2Kon 19:35; Sl 34:7; Lúk 1:30, 31; Op 5:11; 14:6) Í framtíðinni berjast þeir með Jesú í Harmagedónstríðinu. – Op 19:14, 15.
Engisprettur.
Skordýr sem ferðast í stórum sveimum. Samkvæmt Móselögunum töldust þær hreinar og því var leyfilegt að borða þær. Stórir engisprettusveimar sem átu allt sem á vegi þeirra varð og ollu gríðarlegu tjóni voru álitnir plága. – 2Mó 10:14; Mt 3:4.
Epíkúringar.
Fylgjendur gríska heimspekingsins Epíkúrosar (341–270 f.Kr.). Kenningar þeirra snerust um þá hugmynd að unaður og vellíðan væri æðsta markmið lífsins. – Pos 17:18.
Erkiengill.
Etaním.
Sjöundi mánuður hins helga almanaks Gyðinga en fyrsti mánuður hins veraldlega almanaks. Hann stóð frá miðjum september fram í miðjan október. Eftir að Gyðingar sneru heim úr útlegðinni í Babýlon var hann kallaður tísrí. (1Kon 8:2) – Sjá viðauka B15.
Eþíópía.
Fornt ríki suður af Egyptalandi. Það náði yfir syðsta hluta þess sem nú er Egyptaland og yfir Súdan. Heitið er stundum notað sem þýðing á hebreska orðinu „Kús“. – Est 1:1.
F
Faðmur.
Lengdarmálseining notuð til að mæla dýpt vatns. Samsvarar 1,8 m. (Pos 27:28) – Sjá viðauka B14.
Fagnaðarár.
Fimmtugasta hvert ár, talið frá því að Ísraelsmenn fóru inn í fyrirheitna landið. Landið átti að liggja ósáið á fagnaðarárinu og veita átti hebreskum þrælum frelsi. Skila átti erfðalandi sem hafði verið selt. Fagnaðarárið var í vissum skilningi ein samfelld hátíð, frelsisár sem færði landið aftur í það horf sem það hafði verið í þegar Guð myndaði þjóðina. – 3Mó 25:10.
Fagnaðarboðskapurinn.
Faraó.
Farísear.
Áberandi sértrúarflokkur gyðingdómsins á fyrstu öld. Farísear voru ekki af prestaættum en héldu Móselögin í smæstu smáatriðum og settu munnlegar erfikenningar á stall með þeim. (Mt 23:23) Þeir voru andvígir áhrifum grískrar menningar og þar sem þeir voru fræðimenn í lögum Móse og erfikenningunum fóru þeir með víðtækt vald yfir fólki. (Mt 23:2–6) Sumir farísear sátu í Æðstaráðinu. Þeir andmæltu oft Jesú viðvíkjandi hvíldardagshaldi, erfikenningum og samskiptum við syndara og skattheimtumenn. Sumir af hópi farísea tóku kristna trú, þeirra á meðal Sál frá Tarsus. – Mt 9:11; 12:14; Mr 7:5; Lúk 6:2; Pos 26:5.
Fasta.
Það að neyta ekki nokkurs matar um afmarkaðan tíma. Ísraelsmenn föstuðu á friðþægingardeginum, á neyðartímum og þegar þeir þurftu á leiðsögn Guðs að halda. Gyðingar héldu fjórar föstur á ári til að minnast hörmungaatburða í sögu þjóðarinnar. Kristnum mönnum er ekki skylt að fasta. – Esr 8:21; Jes 58:6; Lúk 18:12.
Filistea, Filistear.
Svæðið meðfram sunnanverðri strandlengju Ísraels var kallað Filistea. Kríteyingar sem settust þar að voru kallaðir Filistear. Davíð sigraði þá en þeir héldu sjálfstæði sínu og voru ævarandi óvinir Ísraels. (2Mó 13:17; 1Sa 17:4; Am 9:7) – Sjá viðauka B4.
Flóðdalur.
Dalur eða árfarvegur sem er yfirleitt þurr nema um regntímann. Frummálsorðið getur líka átt við sjálfa ána. Um suma farvegi rann uppsprettuvatn og þess vegna þornuðu þeir aldrei upp. Sums staðar eru flóðdalirnir kallaðir dalir. – 1Mó 26:19; 4Mó 34:5; 5Mó 8:7; 1Kon 18:5; Job 6:15.
Forgarður.
Afgirt svæði kringum tjaldbúðina og síðar eitt af afgirtu svæðunum umhverfis aðalbyggingu musterisins. Brennifórnaraltarið stóð í forgarði tjaldbúðarinnar og í innri forgarði musterisins. (2Mó 27:9; 1Kon 7:12) – Sjá viðauka B5, B8, B11.
Fortjald.
Fagurlega ofinn dúkur með útsaumuðum myndum af kerúbum. Það aðskildi hið heilaga og hið allra helgasta bæði í tjaldbúðinni og musterinu. (2Mó 26:31; 2Kr 3:14; Mt 27:51; Heb 9:3) – Sjá viðauka B5.
Fórn.
Gjöf sem Guði er færð í þakklætisskyni eða til að viðurkenna sekt og endurheimta gott samband við hann. Allt frá dögum Abels færðu menn ýmiss konar sjálfviljafórnir, þar á meðal dýr, en með tilkomu Móselaganna var gerð krafa um fórnir. Eftir að Jesús fórnaði fullkomnu lífi sínu þurfti ekki lengur að færa dýrafórnir. Kristnir menn halda þó áfram að færa Guði andlegar fórnir. – 1Mó 4:4; Heb 13:15, 16; 1Jó 4:10.
Fórnarhæð.
Tilbeiðslustaður, yfirleitt hæð, fjall eða manngerður pallur. Fórnarhæðir voru stundum notaðar til að tilbiðja Guð en oftast voru heiðnir falsguðir tilbeðnir þar. – 4Mó 33:52; 1Kon 3:2; Jer 19:5.
Fráhvarf.
Gríska orðið apostasi′a er myndað af sögn sem merkir bókstaflega ‚að skilja sig frá, halda sig í fjarlægð‘. Nafnorðið getur merkt ‚uppreisn eða brotthvarf, það að yfirgefa‘. Í Grísku ritningunum er „fráhvarf“ fyrst og fremst notað um þá sem snúa baki við sannri tilbeiðslu. – Okv 11:9; Pos 21:21; 2Þe 2:3.
Friðþæging.
Í Hebresku ritningunum er friðþæging tengd fórnum sem færðar voru til að fólk gæti nálgast Guð og tilbeðið hann. Meðan Móselögin voru í gildi voru færðar fórnir, sérstaklega á árlegum friðþægingardegi, til að ná sáttum við Guð þrátt fyrir syndir einstaklinga og þjóðarinnar í heild. Þessar fórnir fyrirmynduðu fórn Jesú sem friðþægði endanlega og að fullu fyrir syndir mannkyns og gaf fólki tækifæri til ná sáttum við Jehóva. – 3Mó 5:10; 23:28; Kól 1:20; Heb 9:12.
Friðþægingardagur.
Mikilvægasti helgidagur Ísraelsmanna, einnig kallaður jom kippur (dregið af hebreska heitinu johm hakkippurim′, ‚dagur til að breiða yfir‘). Hann var haldinn hátíðlegur 10. etaním. Þetta var eini dagur ársins sem æðstipresturinn fór inn í hið allra helgasta í tjaldbúðinni og seinna í musterinu. Þar bar hann fram fórnarblóð fyrir syndir sjálfs sín, syndir annarra Levíta og syndir þjóðarinnar. Á þessum degi var haldin heilög samkoma með föstu. Dagurinn var jafnframt hvíldardagur og fólk tók sér frí frá daglegum störfum. – 3Mó 23:27, 28.
Friðþægingarlokið.
Lok sáttmálsarkarinnar. Æðstipresturinn sletti blóði syndafórnanna frammi fyrir því á friðþægingardeginum. Hebreska orðið er dregið af sagnorði sem merkir ‚að hylja (synd)‘ eða hugsanlega ‚að þurrka út (synd)‘. Lokið var úr gegnheilu gulli með tveim kerúbum sem voru hvor á sínum enda. Stundum var það einfaldlega kallað „lokið“. (2Mó 25:17–22; 1Kr 28:11; Heb 9:5) – Sjá viðauka B5.
Frjáls maður, leysingi.
Í Rómaveldi var sá sem var fæddur frjáls kallaður frjáls maður. Hann naut fullra borgararéttinda. Leysingi var hins vegar maður sem hafði verið þræll en verið gefið frelsi. Formleg lausn úr þrælkun veitti leysingja rómverskan ríkisborgararétt en hann mátti ekki gegna pólitísku embætti. Óformleg lausn úr þrælkun veitti frelsi en ekki full borgaraleg réttindi. – 1Kor 7:22.
Frumburður.
Einkum notað um elsta son föður (ekki frumburð móður). Á biblíutímanum fór elsti sonurinn með virðingarstöðu í fjölskyldunni og veitti heimilinu forstöðu eftir að faðirinn dó. Orðið er einnig notað um fyrsta karlkyns afkvæmi sem skepna eignast. – 2Mó 11:5; 13:12; 1Mó 25:33; Kól 1:15.
Frumgróðahátíð, viknahátíð.
– Sjá HVÍTASUNNA.
Frumgróði.
Fyrsti ávöxtur uppskerutímabils, fyrsti afrakstur eða afurð einhvers. Jehóva fór fram á að Ísraelsmenn færðu honum frumgróðann, hvort sem um var að ræða menn, dýr eða ávöxt jarðar. Ísraelsþjóðin færði Guði frumgróðafórn á hátíð ósýrðu brauðanna og á hvítasunnu. Orðið frumgróði var einnig notað í táknrænni merkingu um Krist og andasmurða fylgjendur hans. – 1Kor 15:23; 5Mó 26:10; Okv 3:9; Op 14:4.
Fræðimaður.
Maður sem gerði afrit af Hebresku ritningunum. Á dögum Jesú var heitið notað um stétt manna sem voru sérfróðir í Móselögunum. Þeir voru andsnúnir Jesú. – Esr 7:6, nm; Mr 12:38, 39; 14:1.
Fylgismenn Heródesar.
Einnig kallaðir heródesarsinnar. Hópur þjóðernissinna sem studdu pólitísk markmið konungsættar Heródesar meðan hún var við völd undir stjórn Rómverja. Sumir saddúkear tilheyrðu sennilega þessum hópi. Heródesarsinnar tóku höndum saman við farísea gegn Jesú. – Mr 3:6.
G
Galdur.
Athöfn þar sem viðurkennt er að kraftur illra anda sé að verki. – 2Kr 33:6.
Gapastokkur.
– Sjá STOKKUR.
Gehenna.
Gríska heitið á Hinnomsdal, suður og suðvestur af Jerúsalem til forna. (Jer 7:31) Í spádómi er sagt að líkum yrði dreift þar. (Jer 7:32; 19:6) Ekkert bendir til þess að dýrum eða mönnum hafi verið kastað lifandi í Gehenna til að brenna þar eða kveljast. Gehenna getur því ekki táknað ósýnilegan stað þar sem sálir manna kveljast að eilífu í bókstaflegum eldi. Jesús og lærisveinar hans notuðu Gehenna öllu heldur sem tákn um eilífa útrýmingu sem er kölluð ‚hinn annar dauði‘. – Op 20:14; Mt 5:22; 10:28.
Geldingur.
Í bókstaflegum skilningi vanaður karlmaður. Slíkir menn fengu oft það hlutverk við konungshirðina að vera þjónar eða umsjónarmenn drottningar og hjákvenna konungs. Orðið er einnig notað um embættismann við hirð konungs þótt hann væri ekki bókstaflegur geldingur. Það er notað táknrænt um þá sem neita sér um að giftast vegna himnaríkis, það er að segja sýna sjálfstjórn til að geta lagt sig enn betur fram í þjónustu Guðs. – Mt 19:12, nm; Est 2:15; Pos 8:27, nm.
Gera.
Þyngdareining sem jafngilti 0,57 g. Hún samsvaraði 1/20 úr sikli. (3Mó 27:25) – Sjá viðauka B14.
Gittít.
Tónfræðiheiti, merking óviss. Virðist dregið af hebreska orðinu gað sem merkir vínpressa. Sumir telja þar af leiðandi að það geti átt við laglínu söngva sem sungnir voru við víngerð. – Sl 81:yf.
Gíleað.
Í strangasta skilningi var Gíleað frjósamt svæði austan við Jórdan sem teygði sig norður og suður fyrir Jabbokdal. Heitið er stundum notað um allt yfirráðasvæði Ísraelsmanna austan Jórdanar þar sem ættkvíslir Rúbens og Gaðs bjuggu ásamt hálfri ættkvísl Manasse. (4Mó 32:1; Jós 12:2; 2Kon 10:33) – Sjá viðauka B4.
Gómer.
Rúmmálseining þurrefna sem jafngilti 2,2 l eða tíunda hluta úr efu. (2Mó 16:16, 18) – Sjá viðauka B14.
Granatepli.
Eplalaga aldin með eins konar kórónu á öðrum endanum. Hýðið er hart og að innanverðu eru litlir safaríkir fræbelgir sem hver um sig hefur að geyma örsmátt bleikt eða rautt fræ. Skraut sem leit út eins og granatepli prýddi faldinn á blárri og ermalausri yfirhöfn æðstaprestsins og eins súlnahöfuðin sem voru á Jakín og Bóasi, súlunum tveim framan við musterið. – 2Mó 28:34; 4Mó 13:23; 1Kon 7:18.
Griðaborg.
Levítaborg þar sem maður gat leitað skjóls fyrir hefnandanum ef hann varð manni óviljandi að bana. Móse og síðar Jósúa völdu sex griðaborgir undir handleiðslu Jehóva en þær voru dreifðar um fyrirheitna landið. Sá sem flúði til slíkrar borgar átti að leggja mál sitt fyrir öldungana í borgarhliðinu og það átti að taka vel á móti honum. Til að koma í veg fyrir að morðingjar misnotuðu sér þessa ráðstöfun þurfti hælisleitandi að koma fyrir rétt í borginni þar sem hann varð manni að bana og sanna sakleysi sitt. Ef hann reyndist saklaus var farið með hann aftur til griðaborgarinnar. Hann þurfti að dveljast þar það sem eftir var ævinnar eða þar til æðstipresturinn dó. – 4Mó 35:6, 11–15, 22–29; Jós 20:2–8.
Grikki.
Gröf.
Orðið er oft notað um sameiginlega gröf mannkyns og er þá þýðing hebreska orðsins Sheol og gríska orðsins Hades. Þegar orðið er notað í þessum skilningi í Biblíunni er verið að lýsa táknrænum stað eða ástandi þar sem er engin starfsemi né meðvitund. Orðið er einnig notað um bókstaflegar grafir. – 1Mó 47:30; Pré 9:10; Pos 2:31.
Guðrækni.
Gyðingur.
Heiti notað um manneskju af ættkvísl Júda eftir að tíuættkvíslaríkið Ísrael féll. (2Kon 16:6) Eftir útlegðina í Babýlon var það notað um Ísraelsmenn af ýmsum ættkvíslum sem sneru heim til Ísraels. (Esr 4:12) Síðar var það notað um heim allan til að gera greinarmun á Ísraelsmönnum og öðrum þjóðum. (Est 3:6) Páll postuli notar heitið í táknrænni merkingu þegar hann rökstyður að þjóðerni skipti engu máli í kristna söfnuðinum. – Róm 2:28, 29; Ga 3:28.
H
Hades.
Grískt orð sem samsvarar hebreska orðinu Sheol. Það er þýtt „gröfin“ og merkir hina sameiginlegu gröf mannkyns en ekki bókstaflega gröf. – Sjá GRÖF.
Harmagedón.
Dregið af hebreska heitinu Har Meghiddohn′ sem merkir ‚Megiddófjall‘. Orðið tengist ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins almáttuga‘ þegar ‚konungum allrar heimsbyggðarinnar‘ er safnað saman til að heyja stríð við Jehóva. (Op 16:14, 16; 19:11–21) – Sjá ÞRENGINGIN MIKLA.
Hátíð ósýrðu brauðanna.
Fyrsta stórhátíðin af þrem sem Ísraelsmenn héldu árlega. Hún hófst 15. nísan, daginn eftir páska, og stóð í sjö daga. Aðeins mátti borða ósýrt brauð en það var gert til að minnast brottfararinnar frá Egyptalandi. – 2Mó 23:15; Mr 14:1.
Hebrei.
Fyrst notað um Abram (Abraham) til að greina hann frá Amorítum sem voru nágrannar hans. Notað eftir það um afkomendur hans sem komu af Jakobi sonarsyni hans. – 1Mó 14:13; 2Mó 5:3.
Hebreska.
Mál Hebrea, afkomenda Abrahams. Á dögum Jesú hafði fjöldi arameískra orða verið tekinn inn í hebreskuna en hún var málið sem hann og lærisveinar hans töluðu. – Pos 26:14.
Heilagur, heilagleiki.
Það að vera siðferðilega hreinn og helgur í algerum skilningi, einn af eðlislægum eiginleikum Jehóva. (2Mó 28:36; 1Sa 2:2; Okv 9:10; Jes 6:3) Þegar hebreska frummálsorðið er notað um fólk (2Mó 19:6; 2Kon 4:9), dýr (4Mó 18:17), hluti (2Mó 28:38; 30:25; 3Mó 27:14), staði (2Mó 3:5; Jes 27:13), tímabil (2Mó 16:23; 3Mó 25:12) og athafnir (2Mó 36:4) lýsir það þeirri hugmynd að vera aðgreindur eða helgaður heilögum Guði, að vera frátekinn til þjónustu við hann. Í Grísku ritningunum lýsa orðin sem þýdd eru „heilagur“ og „heilagleiki“ einnig því að vera aðgreindur handa Guði. Orðin eru líka notuð um hreinleika í hegðun og atferli. – Mr 6:20; 2Kor 7:1; 1Pé 1:15, 16.
Heilagur andi.
Heilagur leyndardómur.
Heilög þjónusta.
Heimsskipan.
Þýðing gríska orðsins aion′ þegar átt er við yfirstandandi ástand mála eða það sem einkennir ákveðið tímabil eða tímaskeið. Í Biblíunni er talað um „þessa heimsskipan“ og er þá átt við ríkjandi ástand í heiminum almennt og lífshætti fólks. (2Tí 4:10, nm) Með lagasáttmálanum kom Guð á ákveðinni skipan sem kalla má hið ísraelska eða gyðinglega tímabil. Guð notaði lausnarfórn Jesú Krists til að koma á nýrri skipan sem sneri fyrst og fremst að söfnuði andasmurðra kristinna manna. Þá tók við nýtt tímabil sem einkenndist af þeim veruleika sem lagasáttmálinn fyrirmyndaði. Í fleirtölu er gríska orðið notað um hinar ýmsu heimsskipanir eða ástand mála á ákveðnum tímabilum sem hafa verið eða verða. – Mt 24:3; Mr 4:19; Róm 12:2; 1Kor 10:11.
Heit.
Heitfórn.
Sjálfviljafórn sem var færð samhliða vissum heitum. – 3Mó 23:38; 1Sa 1:21.
Helga eyðingu.
Þegar hebreska orðið sem þýtt er „helga eyðingu“ var notað um fólk merkir það að lífláta átti fólkið. Þegar það var hins vegar notað um dýr, hluti eða landareign (svo sem akra eða heilu borgirnar) gat það merkt að því var eytt eða að það var gert upptækt og vígt til helgra nota og kom í hlut prestastéttarinnar eða musterisins, allt eftir því hvað Jehóva ákvað hverju sinni. – 3Mó 27:28, nm; 1Sa 15:3, nm.
Helgidómur.
Í almennum skilningi tilbeiðslustaður eða helgur staður, oftast þó notað um tjaldbúðina eða musterið í Jerúsalem. Orðið er einnig notað um bústað Guðs á himnum. – 2Mó 25:8, 9; 2Kon 10:25; 1Kr 28:10; Op 11:19.
Helgistólpi.
Hebreska orðið (ʼaséraʹ) vísar til (1) helgistólpa sem táknaði Aséru, kanverska frjósemisgyðju, eða (2) líkneskis af gyðjunni Aséru. Stólparnir virðast hafa staðið uppréttir og verið úr viði, að minnsta kosti að hluta. Hugsanlega voru þetta óútskornir stólpar eða jafnvel tré. – 5Mó 16:21; Dóm 6:26; 1Kon 15:13.
Helgisúla.
Upprétt súla, yfirleitt úr steini. Greinilega reðurtákn fyrir Baal eða aðra falsguði. – 2Mó 23:24.
Herfang.
Herklæði, alvæpni.
Hlífðarbúnaður hermanns, það er hjálmur, brynja, belti, brynhosur og skjöldur. – 1Sa 31:9; Ef 6:13–17.
Hermes.
Grískur guð, sonur Seifs. Í Lýstru var Páll ranglega kallaður Hermes þar sem Hermes var talinn boðberi guðanna og guð málsnilldar. – Pos 14:12.
Heródes.
Nafn konungsættar sem réð yfir Gyðingum samkvæmt skipun frá Róm. Fyrstur var Heródes mikli, kunnur fyrir að endurbyggja musterið í Jerúsalem og fyrirskipa barnamorðin í von um að verða Jesú að bana. (Mt 2:16; Lúk 1:5) Heródes Arkelás og Heródes Antípas, synir Heródesar mikla, voru settir yfir hluta af ríki föður síns. (Mt 2:22) Antípas var héraðsstjóri, almennt nefndur „konungur“, og sat að völdum þau þrjú og hálft ár sem Kristur starfaði og fram að þeim tíma sem fjallað er um í Postulasögunni 12. kafla. (Mr 6:14–17; Lúk 3:1, 19, 20; 13:31, 32; 23:6–15; Pos 4:27; 13:1) Engill Guðs tók Heródes Agrippu fyrsta, sonarson Heródesar mikla, af lífi eftir skamma valdatíð. (Pos 12:1–6, 18–23) Sonur hans, Heródes Agrippa annar, tók þá við völdum og ríkti fram að uppreisn Gyðinga gegn Róm. – Pos 23:35; 25:13, 22–27; 26:1, 2, 19–32.
Heródesarsinnar.
Sjá FYLGISMENN HERÓDESAR.
Hið allra helgasta.
Innsta rými tjaldbúðarinnar og musterisins þar sem sáttmálsörkin var geymd, einnig nefnt hið háheilaga. Samkvæmt Móselögunum var æðstipresturinn sá eini sem mátti ganga inn í hið allra helgasta og hann mátti aðeins gera það á friðþægingardeginum einu sinni á ári. – 2Mó 26:33; 3Mó 16:2, 17; 1Kon 6:16; Heb 9:3.
Hið heilaga.
Fremra og stærra rými tjaldbúðarinnar og musterisins. Það var aðskilið frá innra rýminu, hinu allra helgasta. Í hinu heilaga í tjaldbúðinni var gullljósastika, reykelsisaltari úr gulli, borð undir skoðunarbrauðin og áhöld úr gulli. Í musterinu var þar gullaltari, tíu gullljósastikur og tíu borð undir skoðunarbrauðin. (2Mó 26:33; Heb 9:2) – Sjá viðauka B5 og B8.
Hið heilaga vígslutákn.
Gljáandi plata úr hreinu gulli sem á var grafið á hebresku: „Jehóva er heilagur.“ Hún var fest framan á vefjarhött æðstaprestsins. (2Mó 39:30) – Sjá viðauka B5.
Higgaíon.
Tónfræðiheiti. Í Sálmi 9:16 má vera að það merki annaðhvort hátíðlegan millikafla með djúpum hörputónum eða hátíðlega þögn til íhugunar.
Himnadrottningin.
Titill gyðju sem fráhverfir Ísraelsmenn tilbáðu á dögum Jeremía. Sumir telja að átt sé við babýlonsku gyðjuna Istar (Astarte). Súmerar tilbáðu áður samsvarandi gyðju sem hét Inanna en það merkir ‚himnadrottning‘. Auk þess að vera himnagyðja var hún frjósemisgyðja. Astarte er einnig kölluð „himnafrúin“ á steini með egypskri áletrun. – Jer 44:19.
Hinn sanni Guð.
Hinn vondi.
Hismi.
Hín.
Rúmmálseining vökva og mæliílátið sjálft. Hín jafngilti 3,67 l. (2Mó 29:40) – Sjá viðauka B14.
Hjákona.
Hjúskaparbrot.
Kynmök sem giftur karl eða kona á af fúsum vilja við annan en maka sinn. – 2Mó 20:14; Mt 5:27; 19:9.
Hlutkesti.
Það að varpa hlut um eitthvað til að taka ákvarðanir. Steinvölum eða litlum viðarkubbum var stungið í fellingu á flík eða í ílát sem var síðan hrist. Hluturinn sem féll út eða var dreginn varð fyrir valinu. Oft var farið með bæn samfara þessu. – Jós 14:2; Okv 16:33; Mt 27:35.
Holdsveiki.
Alvarlegur húðsjúkdómur. Í Biblíunni er orðið ekki aðeins notað um sjúkdóminn sem nú er kallaður þessu nafni heldur er einnig talað um holdsveiki sem lagðist á hús og fatnað. – 3Mó 14:54, 55; Lúk 5:12.
Horn.
Horn altarisins.
Hornlaga krókar eða nibbur sem stóðu út úr fjórum hornum sumra altara. (3Mó 8:15; 1Kon 2:28) – Sjá viðauka B5 og B8.
Hornsteinn.
Steinn lagður í horn byggingar þar sem tveir veggir mætast, mikilvægur til að tengja þá og binda saman. Undirstöðusteinninn var mikilvægasti hornsteinninn. Yfirleitt var valinn sérstaklega sterkur steinn í opinberar byggingar og borgarmúra. Orðið er notað í táknrænni merkingu um grundvöllun jarðar og Jesús er kallaður ‚undirstöðuhornsteinn‘ kristna safnaðarins sem er líkt við andlegt hús. – Ef 2:20; Job 38:6.
Hóreb, Hórebfjall.
Fjalllendið umhverfis Sínaífjall. Annað heiti Sínaífjalls. (2Mó 3:1; 5Mó 5:2) – Sjá viðauka B3.
Hreinn.
Í Biblíunni er orðið ekki aðeins notað um líkamlegt hreinlæti heldur einnig um það að varðveita eða endurheimta lýtalaust og flekklaust ástand, og vera laus við hvaðeina sem óhreinkar eða spillir siðferðilega eða andlega. Í Móselögunum er orðið notað um það að vera trúarlega hreinn. – 3Mó 10:10; Sl 51:7; Mt 8:2; 1Kor 6:11.
Húðstrýking.
Í Grísku ritningunum er átt við hýðingu með hnúta- eða gaddasvipu. – Jóh 19:1.
Húsgoð.
Fjölskyldugoð eða skurðgoð sem menn leituðu stundum fyrirboða hjá. (Esk 21:21) Sum voru í mannsmynd í fullri stærð en önnur mun smærri. (1Mó 31:34; 1Sa 19:13, 16) Fornleifafundir í Mesópótamíu benda til þess að sá sem átti húsgoðin gæti átt rétt á fjölskylduarfinum. (Það kann að vera ástæðan fyrir því að Rakel tók húsgoð föður síns.) Í Ísrael virðast húsgoð ekki hafa verið notuð á þann hátt. Þau voru þó höfð sem skurðgoð á dómaratímanum og konungatímanum og voru meðal þess sem hinn trúfasti konungur Jósía útrýmdi. – Dóm 17:5; 2Kon 23:24; Hós 3:4.
Hvíldardagur.
Hebreska orðið (sabbat) er myndað af sögn sem merkir ‚að hvílast, að hætta‘. Þetta var sjöundi dagur vikunnar hjá Gyðingum (frá sólsetri á föstudegi til sólseturs á laugardegi). Ýmsir aðrir hátíðisdagar ársins voru einnig nefndir hvíldardagar. Engin vinna var leyfð á hvíldardeginum, að undanskilinni þjónustu prestanna í helgidóminum. Hvíldardagsákvæði Móselaganna voru sanngjörn en trúarleiðtogarnir juku smám saman við þau þannig að þau voru orðin íþyngjandi fyrir fólk á dögum Jesú. Í Móselögunum er einnig talað um hvíldarár sem voru 7. og 50. hvert ár. Á hvíldarárum átti hvorki að rækta landið né krefja aðra Hebrea um að greiða skuldir. – 2Mó 20:8; 3Mó 25:4; Lúk 13:14–16; Kól 2:16.
Hvítasunna.
Önnur af þrem stórhátíðum sem allir karlar meðal Gyðinga áttu að sækja í Jerúsalem. Grískt heiti hátíðarinnar, pentekoste′, merkir ‚fimmtugasti (dagur)‘. Í Grísku ritningunum er hún kölluð hvítasunna en í Hebresku ritningunum frumgróðahátíðin og viknahátíðin. Hún var haldin 50. daginn eftir 16. nísan. – 2Mó 23:16; 34:22; Pos 2:1.
Hvítt reykelsi.
Þurrkuð kvoða (harpeis) úr trjám og runnum vissra tegunda af ættkvíslinni Boswellia. Gefur frá sér sætan ilm þegar það er brennt. Eitt af innihaldsefnum heilaga reykelsisins sem notað var í tjaldbúðinni og musterinu. Það var einnig borið fram með kornfórnum og lagt ofan á báða stafla skoðunarbrauðanna í hinu heilaga. – 2Mó 30:34–36; 3Mó 2:1; 24:7; Mt 2:11, nm.
Hærusekkur.
Grófur strigi var notaður í sekki og poka, meðal annars undir korn. Hann var yfirleitt ofinn úr dökku geitarhári og var hefðbundinn sorgarklæðnaður. – 1Mó 37:34; Lúk 10:13.
Höfðingi lífsins.
Hökull.
Eins konar svunta sem prestar klæddust. Æðstipresturinn klæddist sérstökum hökli sem á var brjóstskjöldur með 12 eðalsteinum. (2Mó 28:4, 6) – Sjá viðauka B5.
I
Iðrun.
Illir andar.
Ósýnilegar illar andaverur með ofurmannlega krafta. Kallaðir „synir hins sanna Guðs“ í 1. Mósebók 6:2 og ‚englar‘ í Júdasarbréfinu 6. Þeir voru því ekki skapaðir illir heldur voru þeir englar sem gerðust óvinir Guðs með því að óhlýðnast honum á dögum Nóa og ganga í lið með Satan í uppreisninni gegn Guði. Einnig kallaðir ‚óhreinir andar‘. – 5Mó 32:17; Lúk 8:30; Pos 16:16; Jak 2:19.
Illýría.
Rómverskt skattland norðvestur af Grikklandi. Páll fór alla leið þangað á boðunarferðum sínum en ósagt er látið hvort hann boðaði fagnaðarboðskapinn þar eða aðeins að landamærum þess. (Róm 15:19) – Sjá viðauka B13.
Innsigli.
Merki sem þrykkt var (yfirleitt í leir eða vax) með einhvers konar stimpli til tákns um eiganda, áreiðanleika eða samþykki. Einnig notað um sjálfan stimpilinn. Til forna voru innsiglishringar eða -stimplar gerðir úr hörðu efni (steini, fílabeini eða tré) og grafin í þá spegilmynd bókstafa eða tákna. Í yfirfærðri merkingu táknar innsigli að eitthvað sé eign einhvers, sé ósvikið, hulið eða leyndardómur. – 2Mó 28:11; Neh 9:38; Op 5:1; 9:4.
Innsiglishringur.
Í
Ísópur.
Jurt með fíngerðum greinum og laufi, notuð til að sletta blóði eða vatni við vissar hreinsunarathafnir. Hugsanlega var þetta meiran eða marjoram (Origanum maru, Origanum syriacum). Í Jóhannesi 19:29 kann að vera átt við marjoram sem var fest á grein eða afbrigði af dúrru (Sorghum vulgare) því að stöngull plöntunnar gat verið nógu langur til að bera svamp með súru víni upp að munni Jesú. – 2Mó 12:22; Sl 51:7.
Ísrael.
Nafn sem Guð gaf Jakobi og var notað um alla afkomendur hans á hverjum tíma. Afkomendur hinna 12 sona Jakobs voru kallaðir Ísraelsmenn, synir Ísraels og Ísraelsætt eða hús Ísraels. Tíuættkvíslaríkið í norðri, sem klauf sig frá Suðurríkinu, var einnig nefnt Ísrael. Andasmurðir kristnir menn voru síðar nefndir „Ísrael Guðs“. – Ga 6:16; 1Mó 32:28; 2Sa 7:23; Róm 9:6.
Ívaf.
Þræðirnir sem liggja þversum í vefnaði. Þeir liggja til skiptis undir og yfir uppistöðuþráðunum sem liggja langsum eftir voðinni. – 3Mó 13:48.
J
Jakob.
Sonur Ísaks og Rebekku. Guð gaf honum síðar nafnið Ísrael og hann var forfaðir Ísraelsmanna (síðar einnig kallaðir Gyðingar). Hann eignaðist 12 syni sem 12 ættkvíslir Ísraelsþjóðarinnar komu af. Nafnið Jakob var notað áfram um Ísraelsþjóðina. – 1Mó 32:28; Mt 22:32.
Jedútún.
Heiti sem kemur fyrir í yfirskrift Sálms 39, 62 og 77. Merking óljós. Yfirskriftirnar virðast geyma fyrirmæli um flutning þessara sálma, hugsanlega um stíl eða hljóðfæri. Til var Levíti og tónlistarmaður sem hét Jedútún og hugsanlegt er að flutningur eða hljóðfæri hafi verið sett í samband við hann eða syni hans.
Jehóva.
Algeng íslensk umritun fjórstafanafnsins (hinna fjögurra hebresku bókstafa í nafni Guðs). Nafnið stendur meira en 7.000 sinnum í þessari biblíuþýðingu. – Sjá viðauka A4 og A5.
Júda.
Fjórði sonur Jakobs með Leu eiginkonu sinni. Jakob spáði á dánarbeðinum að mikill og varanlegur stjórnandi myndi koma af ætt Júda. Sem maður var Jesús kominn af Júda. Nafnið Júda er einnig notað um ættkvíslina og Júdaríki sem síðar varð. Það var kallað Suðurríkið og var skipað ættkvíslum Júda og Benjamíns. Prestarnir og Levítarnir bjuggu sömuleiðis þar. Júdaríki náði yfir suðurhluta landsins þar sem Jerúsalem og musterið stóðu. – 1Mó 29:35; 49:10; 1Kon 4:20; Heb 7:14.
K
Kab.
Rúmmálseining þurrefna, 1,22 l sé miðað við áætlað rúmmál bats. (2Kon 6:25) – Sjá viðauka B14.
Kaldea, Kaldear.
Upphaflega notað um óseyrar fljótanna Efrat og Tígris og íbúa þeirra en síðar um alla Babýloníu og þjóðina sem bjó þar. Heitið „Kaldear“ var einnig notað um menntastétt sem var vel að sér í vísindum, sögu, tungumálum og stjörnufræði en lagði jafnframt stund á galdra og stjörnuspeki. – Esr 5:12; Dan 4:7; Pos 7:4.
Kamos.
Helsti guð Móabíta. – 1Kon 11:33.
Kanaan.
Sonarsonur Nóa og fjórði sonur Kams. Af Kanaan komu 11 ættkvíslir sem settust að lokum að á strandlengjunni við austanvert Miðjarðarhaf, milli Egyptalands og Sýrlands. Svæðið var kallað Kanaansland. (3Mó 18:3; 1Mó 9:18; Pos 13:19) – Sjá viðauka B4.
Kassía.
Unnin úr berki kassíutrésins (Cinnamomum cassia) en það er sömu ættar og kaniltréð. Kassía var notuð sem ilmefni og var eitt af innihaldsefnum hinnar heilögu smurningarolíu. – 2Mó 30:24; Sl 45:8; Esk 27:19.
Keisari.
Titill æðstu valdhafa í Róm, dreginn af rómverska ættarnafninu Sesar. Keisararnir Ágústus, Tíberíus og Kládíus eru nafngreindir í Biblíunni. Neró bar einnig þennan titil þótt hann sé ekki nafngreindur þar. Orðið keisari er einnig notað í Grísku ritningunum sem tákn um borgaraleg yfirvöld eða ríkisvaldið. – Mr 12:17; Pos 25:12.
Kerúbar.
Háttsettir englar sem sinna sérstökum verkefnum. Kerúbar eru ekki það sama og serafar. – 1Mó 3:24; 2Mó 25:20; Jes 37:16; Heb 9:5.
Kíslev.
Níundi mánuður hins helga almanaks Gyðinga eftir útlegðina í Babýlon en þriðji mánuður hins veraldlega almanaks. Hann stóð frá miðjum nóvember fram í miðjan desember. (Neh 1:1; Sak 7:1) – Sjá viðauka B15.
Kómer.
Rúmmálseining þurrefna samsvarandi einingunni kór. Sé miðað við áætlað rúmmál bats var kómer 220 l. (3Mó 27:16) – Sjá viðauka B14.
Kór.
Rúmmálseining þurrefna og vökva. Eitt kór jafngilti 220 l sé miðað við áætlað rúmmál mælieiningarinnar bat. (1Kon 5:11) – Sjá viðauka B14.
Kórall.
Hart steinkennt efni myndað úr stoðgrind örsmárra sjávardýra. Kóralar finnast í höfum í margs konar litum, meðal annars rauðum, hvítum og svörtum. Mikið var af kórölum í Rauðahafi. Rauðir kóralar voru taldir sérlega verðmætir á biblíutímanum og voru notaðir í hálsfestar og fleiri skartgripi. – Okv 8:11.
Kraftaverk, máttarverk.
Kristinn.
Heiti sem Guð gaf fylgjendum Jesú Krists. – Pos 11:26; 26:28.
Kristur.
Kvalastaur.
Þýðing gríska orðsins stauros′ sem merkir uppréttur staur eða stólpi eins og Jesús var líflátinn á. Ekkert bendir til þess að gríska orðið hafi merkt kross eins og heiðnir menn notuðu sem trúartákn öldum saman fyrir daga Krists. Orðið kvalastaur skilar merkingu frummálsorðsins fyllilega því að orðið stauros′ er einnig notað til að lýsa pyntingum, þjáningum og skömm sem fylgjendur Jesú myndu þurfa að þola. (Mt 16:24; Heb 12:2) – Sjá STAUR.
Kvöldmáltíð Drottins.
Máltíð með ósýrðu brauði og víni sem tákna líkama og blóð Krists, hátíð haldin til minningar um dauða hans. Samkvæmt Biblíunni er kristnum mönnum skylt að halda þessa hátíð og því er einnig viðeigandi að kalla hana minningarhátíðina. – 1Kor 11:20, 23–26.
Kynferðislegt siðleysi.
Þýðing gríska orðsins pornei′a sem er notað í Biblíunni um kynferðislegar athafnir af ýmsu tagi sem Guð bannar. Það nær yfir framhjáhald, vændi, kynmök ógiftra og samkynhneigðra og kynmök við dýr. Í Opinberunarbókinni er þetta orðalag notað í táknrænni merkingu um trúarveldi sem kallast „Babýlon hin mikla“ og er lýst sem vændiskonu sem leggur lag sitt við valdhafa þessa heims til að afla sér valda og auðæfa. (Op 14:8; 17:2; 18:3; Mt 5:32; Pos 15:29; Ga 5:19) – Sjá VÆNDISKONA.
L
Laufskálahátíð.
Einnig nefnd tjaldbúðahátíðin eða uppskeruhátíðin, haldin 15. – 21. etaním. Hún var haldin til að fagna uppskerunni í lok landbúnaðarársins í Ísrael og einkenndist af gleði og þakklæti fyrir blessun Jehóva og góða uppskeru. Meðan á hátíðinni stóð bjó fólk í einföldum skýlum með þaki úr greinum og laufi til að minnast brottfararinnar frá Egyptalandi. Hún var ein þriggja hátíða ársins sem körlum var skylt að sækja í Jerúsalem. – 3Mó 23:34; Esr 3:4.
Lausnargjald.
Gjald greitt til að leysa mann úr ánauð eða frá refsingu, þjáningum, synd eða jafnvel skyldum. Gjaldið var ekki alltaf peningar. (Jes 43:3) Lausnargjalds var krafist við margs konar aðstæður. Allir karlkyns frumburðir manna og dýra í Ísrael tilheyrðu Jehóva og átti að helga þá þjónustu hans. Þess vegna þurfti að greiða lausnargjald til að leysa þá undan því. (4Mó 3:45, 46; 18:15, 16) Ef mannýgt naut var ekki haft í gæslu og það varð manni að bana þurfti eigandi þess að greiða lausnargjald til að leysa sjálfan sig undan dauðarefsingunni sem við lá. (2Mó 21:29, 30) Ekki var þó tekið við lausnargjaldi fyrir mann sem varð öðrum viljandi að bana. (4Mó 35:31) Í Biblíunni er megináherslan þó lögð á lausnargjaldið sem Kristur greiddi með fórnardauða sínum til að leysa hlýðna menn undan synd og dauða. – Sl 49:7, 8; Mt 20:28; Ef 1:7.
Leggja hendur yfir.
Hendur voru lagðar yfir mann til að skipa hann til sérstakra starfa eða til að blessa hann, lækna eða gefa heilagan anda. Stundum voru hendur lagðar yfir skepnur áður en þeim var fórnað. – 2Mó 29:15; 4Mó 27:18; Pos 19:6; 1Tí 5:22.
Leirkerasmiður.
Lepton.
Smæsta kopar- eða bronsmynt Gyðinga sem nefnd er í Grísku ritningunum. (Mr 12:42, nm; Lúk 21:2, nm) – Sjá viðauka B14.
Leví, Levíti.
Þriðji sonur Jakobs með Leu eiginkonu sinni, einnig ættkvíslin sem nefnd er eftir honum. Synir hans þrír voru ættfeður þriggja meginflokka Levítanna. Stundum er heitið Levíti notað um alla ættkvíslina en yfirleitt er prestaætt Arons ekki meðtalin. Ættkvísl Leví var ekki úthlutað landi í fyrirheitna landinu en fékk í staðinn 48 borgir á þeim svæðum sem hinum ættkvíslunum var úthlutað. – 5Mó 10:8; 1Kr 6:1; Heb 7:11.
Levjatan.
Sennilega einhvers konar dýr sem lifir í vatni. Í Jobsbók 3:8 og 41:1 virðist átt við krókódílinn eða annað stórt og sterkt lagardýr. Í Sálmi 104:26 er hugsanlega átt við einhvers konar hval. Annars staðar er orðið notað á táknrænan hátt og ekki hægt að tengja við ákveðið dýr. – Sl 74:14; Jes 27:1.
Leysingi.
– Sjá FRJÁLS MAÐUR.
Líbanonsfjallgarðurinn.
Annar tveggja fjallgarða Líbanons. Líbanonsfjallgarðurinn er vestan megin en Antí-Líbanonsfjallgarðurinn austan megin. Milli þeirra er langur og frjósamur dalur. Líbanonsfjallgarðurinn rís rétt við strönd Miðjarðarhafs og tindarnir eru að meðaltali 1.800 til 2.100 m háir. Til forna var Líbanon þakið tígulegum sedrustrjám sem voru eftirsótt meðal grannþjóðanna. (5Mó 1:7; Sl 29:6; 92:12) – Sjá viðauka B7.
Lífvarðarsveit keisarans.
Sveit rómverskra hermanna sem gætti keisarans í Róm. Sveitin varð mjög valdamikil og gat stutt keisara í embætti eða svipt hann völdum. – Fil 1:13.
Ljósaskæri.
Áhald úr gulli sem notað var í tjaldbúðinni og musterinu til að slökkva á lömpum. Líktist hugsanlega töng. – 2Mó 37:23.
Lokaskeið þessarar heimsskipanar.
Tímabilið áður en sú heimsskipan eða það ástand heimsmála sem Satan stjórnar líður undir lok. Það spannar sama tíma og nærvera Krists. Englar „aðgreina vonda frá réttlátum“ undir handleiðslu Jesú og útrýma þeim. (Mt 13:40–42, 49) Lærisveinar Jesú höfðu áhuga á að vita hvenær þetta „lokaskeið“ yrði. (Mt 24:3) Áður en hann sneri aftur til himna lofaði hann fylgjendum sínum að vera með þeim allt þar til þessi heimskipan tæki enda. – Mt 28:20.
Lógur.
Minnsta rúmmálseining vökva sem nefnd er í Biblíunni. Í Talmúð Gyðinga kemur fram að lógur sé 1/12 úr hín. Miðað við það jafngildir einn lógur 0,31 l. (3Mó 14:10) – Sjá viðauka B14.
Lúður.
Blásturshljóðfæri úr málmi, notað til að gefa merki og til að leika tónlist. Samkvæmt 4. Mósebók 10:2 gaf Jehóva fyrirmæli um að gerðir skyldu tveir lúðrar úr silfri sem nota átti til að kalla söfnuðinn saman, gefa merki til brottfarar eða lýsa yfir stríði. Líklega voru þetta beinir lúðrar, ólíkt sveigðum „hornum“ sem voru gerð úr dýrahornum. Lúðrar af ótiltekinni gerð voru líka meðal hljóðfæranna í musterinu. Í táknrænni merkingu er oft talað um að blásið sé í lúður þegar dómar Jehóva eru boðaðir eða samhliða öðrum mikilvægum atburðum sem hann stendur á bak við. – 2Kr 29:26; Esr 3:10; 1Kor 15:52; Op 8:7–11:15.
Lögin.
Ýmist notað um Móselögin, fyrstu fimm bækur Biblíunnar, einstök ákvæði Móselaganna eða meginreglur laganna. – 4Mó 15:16; 5Mó 4:8; Mt 7:12; Ga 3:24.
M
Makalat.
Orð sem kemur fyrir í yfirskrift 53. og 88. sálmsins, sennilega tónfræðiheiti. Hugsanlegt er að það sé skylt hebreskri sögn sem merkir ‚verða veikburða, veikjast‘ og gefi til kynna dapurlega laglínu en það kemur heim og saman við harmþrungið efni ljóðanna tveggja.
Makedónía.
Svæði norður af Grikklandi sem varð atkvæðamikið á dögum Alexanders mikla og var sjálfstætt ríki þar til Rómverjar lögðu það undir sig. Makedónía var rómverskt skattland þegar Páll postuli heimsótti Evrópu í fyrsta sinn. Alls kom hann þrisvar þangað. (Pos 16:9) – Sjá viðauka B13.
Malkam.
Malurt.
Heiti ýmissa trékenndra plantna sem eru afar beiskar á bragðið og hafa sterkan ilm. Malurt er notuð í Biblíunni sem tákn til að lýsa beiskum áhrifum siðleysis, þrælkunar, óréttlætis og fráhvarfs. Í Opinberunarbókinni 8:11 táknar malurt beiskt og eitrað efni. – 5Mó 29:18; Okv 5:4; Jer 9:15; Am 5:7.
Manna.
Helsta fæða Ísraelsmanna þau 40 ár sem þeir voru í óbyggðunum. Jehóva sá þeim fyrir þessari fæðu og hún lá fyrir kraftaverk undir dögginni á hverjum morgni nema á hvíldardögum. Þegar Ísraelsmenn sáu mannað í fyrsta sinn spurðu þeir: „Hvað er þetta?“ eða á hebresku: „Man huʼ?“ (2Mó 16:13–15, 35) Annars staðar er það kallað „korn af himni“ (Sl 78:24), ‚brauð af himni‘ (Sl 105:40) og „brauð hinna máttugu“ (Sl 78:25). Jesús minntist á mannað í táknrænni merkingu. – Jóh 6:49, 50.
Mannssonur.
Þetta orð stendur um 80 sinnum í guðspjöllunum. Það er notað um Jesú Krist og vísar til þess að hann hafi verið fullkomlega mennskur þegar hann fæddist á jörð en ekki andavera sem hefði tekið sér holdlegan líkama. Orðið gefur einnig til kynna að Jesús myndi uppfylla spádóminn í Daníel 7:13, 14. Í Hebresku ritningunum er það notað um Esekíel til að draga fram muninn á dauðlegum talsmanni boðskaparins og Guði sem er höfundur hans. – Esk 3:17; Dan 8:17; Mt 19:28; 20:28.
Maskíl.
Hebreskt orð í yfirskrift 13 sálma. Merkingin er óljós en hugsanlega merkir það ‚ljóð til íhugunar‘. Sumir telja það merkingarlega skylt áþekku orði sem er þýtt ‚þjóna með skynsemi‘. – 2Kr 30:22; Sl 32:yf.
Mágskylda.
Málsháttur, orðskviður.
Setning eða stutt saga sem felur í sér lífsspeki eða djúptæk sannindi. Í Biblíunni birtast málshættir gjarnan sem gátur eða eru orðaðir með torræðum hætti. Orðalag er oft meitlað og myndlíkingar algengar. Með tíð og tíma varð fólki tamt að nota suma málshætti sem háðs- eða skammaryrði um visst fólk. – Pré 12:9; 2Pé 2:22.
Medar, Medía.
Þjóð sem var komin af Madaí syni Jafets og settist að á írönsku hásléttunni sem síðar kallaðist Medía. Bandalag Meda og Babýloníumanna sigraði Assýríu. Á þeim tíma var Persía skattland undir stjórn Medíu. En Kýrus gerði uppreisn og Medía var innlimuð í Persaveldi. Þannig varð til medísk-persneska heimsveldið sem lagði nýbabýlonska heimsveldið undir sig árið 539 f.Kr. Medar voru meðal viðstaddra í Jerúsalem á hvítasunnu árið 33. (Dan 5:28, 31; Pos 2:9) – Sjá viðauka B9.
Meródak.
Æðsti guð Babýlonar. Eftir að Hammúrabí, konungur Babýloníu og löggjafi, gerði Babýlon að höfuðborg Babýloníu fór Meródak (eða Mardúk) að skipa æ stærri sess. Hann kom í staðinn fyrir marga af hinum fyrri guðum og varð loks æðstur meðal hinna mörgu guða Babýloníumanna. Síðar meir var nafninu Meródak (eða Mardúk) skipt út fyrir titilinn „Belú“ (‚eigandi‘) og varð Meródak almennt kallaður Bel. – Jer 50:2.
Messías.
Miktam.
Milkóm.
Guð sem Ammónítar tilbáðu, hugsanlega sá sami og er nefndur Mólek. (1Kon 11:5, 7) Salómon reisti fórnarhæðir handa þessum falsguði undir lok stjórnartíðar sinnar. – Sjá MÓLEK.
Milligöngumaður.
Milló.
Hebreskt orð sem þýðir ‚jarðfylling‘. Í Sjötíumannaþýðingunni er orðið þýtt „virki“. Líklega landslagsþáttur eða mannvirki í eða við Davíðsborg en ekki er hægt að segja nákvæmlega til um hvers eðlis það var. – 2Sa 5:9; 1Kon 11:27.
Minningargröf.
Legstaður látinnar manneskju, þýðing gríska orðsins mnemei′on. Það er dregið af sögn sem merkir ‚að minna á‘ og gefur til kynna að hins látna sé minnst. – Jóh 5:28, 29.
Miskunnargjafir.
Gjafir til að hjálpa þeim sem voru þurfandi. Ekki er talað beint um þess konar gjafir í Hebresku ritningunum en í Móselögunum fengu Ísraelsmenn samt ákveðin fyrirmæli varðandi skyldur sínar við fátæka. – Mt 6:2, nm.
Míla.
Lengdarmálseining sem er nefnd aðeins einu sinni í frumtexta Grísku ritninganna, í Matteusi 5:41. Sennilega er átt við rómverska mílu sem jafngilti 1.479,5 m. – Sjá viðauka B14.
Mína.
Bæði þyngdareining og mynt. Fornleifafundir benda til þess að ein mína hafi jafngilt 50 siklum og sikill vegið 11,4 g. Mína í Hebresku ritningunum hefur því vegið 570 g. Hugsanlega var einnig til konungleg mína eins og raunin var með alin. Í Grísku ritningunum jafngilti mína 100 drökmum og vó 340 g. Sextíu mínur jafngiltu talentu. (Esr 2:69; Lúk 19:13) – Sjá viðauka B14.
Mjölsveppur.
Sníkjusveppir sem herja á plöntur. Sumir telja að sveppurinn sem um ræðir í Biblíunni sé Puccinia graminis en hann veldur svartryði. – 1Kon 8:37.
Morgunstjarna.
Mólek.
Guð Ammóníta, hugsanlega sá sami og er nefndur Malkam, Milkóm og Mólok. Ef til vill titill en ekki nafn ákveðins guðs. Samkvæmt Móselögunum var sá dauðasekur sem færði Mólek börn sín að fórn. – 3Mó 20:2; Jer 32:35; Pos 7:43.
Mólok.
– Sjá MÓLEK.
Móselögin.
Musteri.
Bygging í Jerúsalem sem kom í stað hinnar færanlegu tjaldbúðar sem tilbeiðslumiðstöð Ísraelsmanna. Salómon reisti fyrra musterið en Babýloníumenn lögðu það í rúst. Serúbabel reisti síðara musterið eftir heimkomuna úr útlegðinni í Babýlon. Heródes mikli endurbyggði það síðar. Í Biblíunni er musterið oft kallað „hús Jehóva“. (Esr 1:3; 6:14, 15; 1Kr 29:1; 2Kr 2:4; Mt 24:1) – Sjá viðauka B8 og B11.
Musterisþjónar.
Þjónar við musterið sem voru ekki Ísraelsmenn. Á hebresku netiním sem þýðir ‚hinir gefnu‘ og gefur til kynna að þeir hafi verið gjöf til þjónustunnar við musterið. Hugsanlega voru margir þeirra afkomendur Gíbeonítanna sem Jósúa gerði að „viðarhöggsmönnum og vatnsberum fyrir söfnuðinn og fyrir altari Jehóva“. – Jós 9:23, 27; 1Kr 9:2; Esr 8:17.
Myllusteinn, kvarnarsteinn.
Hringlaga steinn lagður ofan á annan hringlaga stein til að mala korn. Honum var snúið um pinna sem gekk gegnum hann og var festur í miðjan neðri steininn. Á flestum heimilum var til handsnúin kvörn af þessu tagi sem konur notuðu til að mala korn á biblíutímanum. Daglegt brauð fjölskyldunnar var háð handkvörninni þannig að Móselögin lögðu bann við því að taka kvarnarstein að veði. Dýr voru notuð til að snúa stærri myllum af áþekku tagi. – 5Mó 24:6; Mr 9:42.
Myrra.
Ilmandi kvoða úr þyrnirunnum eða lágvöxnum trjám af ættkvíslinni Commiphora. Myrra var eitt af efnunum í hinni heilögu smurningarolíu. Hún var notuð til að gefa fatnaði eða rúmum góðan ilm og notuð í húðkrem og nuddolíur. Myrra var einnig notuð til að búa lík til greftrunar. – 2Mó 30:23; Okv 7:17; Jóh 19:39.
Mælistika.
Sex álna langur reyrstafur. Sé miðað við venjulega alin var hún 2,67 m á lengd en 3,11 m miðað við langa alin. (Esk 40:3, 5; Op 11:1) – Sjá viðauka B14.
N
Nardusolía.
Nasarei.
Jesús var nefndur Nasarei þar sem hann var frá bænum Nasaret. Sennilega skylt hebresku orði sem er þýtt „sproti“ í Jesaja 11:1. Fylgjendur Jesú voru síðar kallaðir nasarear. – Mt 2:23; Pos 24:5.
Nasírei.
Dregið af hebresku orði sem merkir ‚sá sem er útvalinn‘, ‚sá sem er vígður‘, ‚sá sem er tekinn frá‘. Nasírear skiptust í tvo flokka: þá sem buðu sig fram og þá sem voru skipaðir af Guði. Karlar og konur gátu unnið Jehóva sérstakt heit um að lifa eins og nasírear um tíma. Þrjár meginhömlur hvíldu á þeim sem unnu heitið sjálfviljugir: Þeir máttu hvorki drekka áfengi né neyta nokkurrar afurðar vínviðarins, ekki skera á sér hárið og ekki snerta lík. Þeir sem Jehóva skipaði nasírea voru það ævilangt og hann tiltók hvaða kröfur hann gerði til þeirra. – 4Mó 6:2–7; Dóm 13:5.
Nefilím.
Sjá RISARNIR.
Nehílot.
Orð sem kemur fyrir í yfirskrift 5. sálmsins. Merking óljós. Sumir telja að það vísi til blásturshljóðfæris og tengja það við hebreskan orðstofn skyldan orðinu fyrir flautu (chalilʹ). Einnig má vera að það vísi til ákveðinnar laglínu.
Nísan.
Nýtt nafn sem mánuðurinn abíb fékk eftir útlegðina í Babýlon, fyrsti mánuður hins helga almanaks Gyðinga og sjöundi mánuðurinn samkvæmt hinu veraldlega almanaki. Hann stóð frá miðjum mars fram í miðjan apríl. (Neh 2:1) – Sjá viðauka B15.
Nýtt tungl, tunglkomudagur.
Fyrsti dagur hvers mánaðar samkvæmt almanaki Gyðinga. Þá safnaðist fólk saman, gerði sér glaðan dag og færði sérstakar fórnir. Þegar fram liðu stundir varð þetta mikilvægur hátíðardagur þjóðarinnar og fólk tók sér frí frá vinnu. – 4Mó 10:10; 2Kr 8:13; Kól 2:16.
Nærvera.
Í Grísku ritningunum er orðið stundum notað um konunglega nærveru Jesú Krists. Hún hófst þegar hann var krýndur sem ósýnilegur konungur Messíasarríkisins og stendur út hina síðustu daga þessarar heimsskipanar. Nærvera Krists er ekki aðeins stutt viðkoma heldur nær yfir ákveðið tímabil. – Mt 24:3.
O
Ofn.
Ýmiss konar ofnar voru notaðir á biblíutímanum, meðal annars til að bræða málm og málmgrýti og brenna leir og kalk. Ofnar voru gerðir úr steini eða tígulsteini. – 1Mó 15:17; Dan 3:17; Op 9:2.
Ok.
Tré sem lagt var á herðar manns og byrðar hengdar á hvorn enda, eða tréstykki sem lagt var á háls tveggja dráttardýra (yfirleitt nautgripa) til að draga landbúnaðarverkfæri eða vagn. Þar sem þrælar voru oft látnir bera þungar byrðar varð okið tákn þrælkunar, undirokunar, kúgunar og þjáninga. Að aflétta oki eða brjóta það sundur var tákn um frelsun úr fjötrum og undan kúgun og arðráni. – 3Mó 26:13; Mt 11:29, 30.
Ó
Óforgengileiki.
Það að geta ekki eyðst, rotnað, hnignað eða glatast. – 1Kor 15:50.
Óhreinn.
Ónyx.
Ósýrður.
Ótti.
Frummálsorðin vísa oft til djúprar virðingar og lotningar fyrir Guði. Biblían setur þannig ótta í samhengi við kærleika til Guðs. (5Mó 10:12, 13) Þessari óttablandinni virðingu fylgir heilbrigður ótti við að vanþóknast Guði – ekki af því að maður óttast afleiðingarnar heldur vegna þess að maður elskar Guð heitt.
P
Papýrus.
Votlendisplanta. Reyrstönglarnir voru notaðir til að búa til körfur, ílát og báta. Úr þeim voru einnig búnar til arkir til að skrifa á, ekki ósvipaðar pappír. Margar bókrollur voru úr papýrusi. – 2Mó 2:3.
Paradís.
Fagur garður eða trjágarður. Fyrsta paradísin var Edengarðurinn sem Jehóva gerði handa fyrstu hjónunum. Jesús gaf til kynna að jörðin yrði paradís þegar hann hékk á kvalastaurnum og átti orðaskipti við afbrotamann sem var líflátinn með honum. Í 2. Korintubréfi 12:4 er orðið að öllum líkindum notað um paradís framtíðar og í Opinberunarbókinni 2:7 um himneska paradís. – Ljó 4:13; Lúk 23:43.
Páskar.
Árleg hátíð haldin 14. abíb (síðar nefndur nísan) til minningar um frelsun Ísraelsmanna frá Egyptalandi. Slátrað var lambi (eða kiðlingi) sem var steikt við eld og borðað með beiskum jurtum og ósýrðu brauði. – 2Mó 12:27; Jóh 6:4; 1Kor 5:7.
Persar, Persía.
Oft eru Persar nefndir í sömu andrá og Medar og greinilega voru þjóðirnar skyldar. Í upphafi réðu Persar aðeins yfir suðvesturhluta írönsku hásléttunnar. Undir stjórn Kýrusar mikla (sem átti persneskan föður en medíska móður að sögn sumra sagnaritara til forna) náðu Persar yfirhöndinni yfir Medum en heimsveldið var þó áfram tvíveldi. Kýrus sigraði babýlonska heimsveldið árið 539 f.Kr. og leyfði Gyðingum að snúa aftur heim úr útlegðinni. Persneska heimsveldið náði frá Indusfljóti í austri til Eyjahafs í vestri. Gyðingar voru undir stjórn Persa þar til Alexander mikli sigraði Persa árið 331 f.Kr. Daníel sá persneska heimsveldið í spádómlegri sýn og það kemur við sögu í Esrabók, Nehemíabók og Esterarbók. (Esr 1:1; Dan 5:28; 8:20) – Sjá viðauka B9.
Pim.
Þyngdareining og einnig verðið sem Filistear tóku fyrir að brýna ýmiss konar áhöld. Við fornleifagröft í Ísrael hafa fundist steinlóð sem á eru greyptir fornhebreskir samhljóðar orðsins pim. Meðalþyngd þeirra er 7,8 g, um tveir þriðju úr sikli. – 1Sa 13:20, 21.
Porneia.
– Sjá KYNFERÐISLEGT SIÐLEYSI.
Postuli.
Prestur.
Maður sem var opinber fulltrúi Guðs gagnvart því fólki sem hann þjónaði. Hann fræddi það um Guð og lög hans. Prestar voru einnig fulltrúar fólksins gagnvart Guði. Þeir báðu fyrir því, færðu fórnir fyrir hönd þess og báðu því griða. Áður en Móselögin voru sett var fjölskyldufaðirinn prestur fjölskyldu sinnar. Karlar af ætt Arons af ættkvísl Leví mynduðu prestastétt með tilkomu Móselaganna. Aðrir karlar af ættkvísl Leví voru þeim til aðstoðar. Þegar nýi sáttmálinn tók gildi urðu andlegir Ísraelsmenn prestaþjóð með Jesú Krist sem æðstaprest. – 2Mó 28:41; Heb 9:24; Op 5:10.
Prókonsúll.
Aðalstjórnandi skattlands undir forræði öldungaráðsins í Róm. Hann fór með dómsvald og réð yfir herliði. Hann fór með æðsta vald í skattlandinu en öldungaráðið í Róm gat krafið hann um að gera grein fyrir störfum sínum. – Pos 13:7, nm; 18:12, nm.
Púrím.
Árleg hátíð haldin 14. og 15. adar til að minnast frelsunar Gyðinga á dögum Esterar drottningar. Orðið púrímʹ er fleirtölumynd orðsins púr sem merkir ‚hlutur (í hlutkesti)‘. Púrímhátíðin dregur nafn sitt af því þegar Haman varpaði púr (hlutkesti) til að ákveða daginn sem hann ætlaði að láta til skarar skríða og útrýma Gyðingum. – Est 3:7; 9:26.
R
Rahab.
Reykelsi.
Blanda af ilmandi trjákvoðum og balsami sem brennur hægt og gefur ljúfan ilm. Gerð var sérstök reykelsisblanda úr fjórum efnum til að nota í tjaldbúðinni og musterinu. Þetta reykelsi var brennt kvölds og morgna á reykelsisaltarinu í hinu heilaga og á friðþægingardeginum í hinu allra helgasta. Það táknaði þóknanlegar bænir sem trúir þjónar Guðs báru fram. Kristnum mönnum var ekki skylt að brenna reykelsi. – 2Mó 30:34, 35; 3Mó 16:13; Op 5:8.
Reyr.
Réttlæti.
Risarnir.
Ofbeldisfullir kynblendingar sem voru afkvæmi holdgaðra engla og dætra mannanna fyrir flóðið. Á hebresku nefilím′. – 1Mó 6:4.
Ritningin, Ritningarnar.
Hin helgu rit sem geyma orð Guðs. Orðið kemur aðeins fyrir í Grísku ritningunum. – Lúk 24:27; 2Tí 3:16.
Ríki Guðs.
Notað sérstaklega um drottinvald Guðs sem birtist í stjórn sonar hans, Jesú Krists. – Mt 12:28; Lúk 4:43; 1Kor 15:50.
S
Saddúkear.
Áhrifamikill sértrúarflokkur gyðingdómsins, skipaður auðugum yfirstéttarmönnum og prestum sem réðu miklu um það sem fram fór í musterinu. Þeir höfnuðu munnlegum erfikenningum faríseanna, svo og ýmsum trúarkenningum þeirra. Þeir trúðu hvorki á upprisu dauðra né tilvist engla. Þeir voru andsnúnir Jesú. – Mt 16:1; Pos 23:8.
Safnaðarþjónn.
Þýðing gríska orðsins dia′konos sem er oft þýtt „þjónn“. Notað um mann sem er öldungaráði safnaðar til aðstoðar. Hann þarf að uppfylla hæfniskröfur Biblíunnar til að mega gegna þessari þjónustu. – 1Tí 3:8–10, 12.
Samaría.
Höfuðborg tíuættkvíslaríkisins Ísraels (Norðurríkisins) um 200 ára skeið, svo og heiti alls svæðisins sem ríkið náði yfir. Borgin stóð á samnefndu fjalli. Á dögum Jesú var Samaría heiti á héraði sem lá milli Galíleu í norðri og Júdeu í suðri. Jesús boðaði sjaldan fagnaðarboðskapinn þar á ferðum sínum en stundum lá leið hans þar um og hann talaði við íbúana. Pétur notaði annan táknrænan lykil Guðsríkis þegar Samverjar fengu heilagan anda. (1Kon 16:24; Jóh 4:7; Pos 8:14) – Sjá viðauka B10.
Samfundatjald.
Samkunda, samkunduhús.
Orðið samkunda merkir ‚það að safna saman, samkoma‘ en er í Biblíunni oftast notað um hús eða stað þar sem Gyðingar hittust til að lesa upp úr Ritningunni, til bænahalds og til að hlusta á kennslu og boðun. Á dögum Jesú voru samkunduhús í flestum bæjum í Ísrael og fleiri en eitt í stærri borgum. – Lúk 4:16; Pos 13:14, 15.
Samneytisfórn.
Fórn sem var færð Jehóva til að eiga frið við hann. Sá sem færði fórnina, fjölskylda hans, presturinn sem bar fram fórnina og prestarnir sem gegndu þjónustu fengu sinn skerf af fórninni. Reykurinn af brennandi fitunni var sem ljúfur ilmur handa Jehóva. Blóðið var einnig borið fram fyrir hann en það táknaði lífið. Á vissan hátt sátu prestarnir og þeir sem færðu fórnina til borðs með Jehóva til tákns um friðsamlegt samband. – 3Mó 7:29, 32; 5Mó 27:7.
Samverjar.
Heitið var upphaflega notað um Ísraelsmenn sem bjuggu í tíuættkvíslaríkinu í norðri en eftir að Assýringar lögðu Samaríu undir sig árið 740 f.Kr. voru útlendingar sem Assýringar fluttu á svæðið einnig meðtaldir. Á dögum Jesú var heitið yfirleitt ekki notað í þjóðernislegri eða pólitískri merkingu heldur um fólk af sértrúarflokki sem bjó í grennd við hina fornu Síkemborg og Samaríu. Sumar trúarkenningar þeirra stungu í stúf við kenningar gyðingdómsins. – Jóh 8:48.
Satan.
Satrap.
Sál.
Hefðbundin þýðing hebreska orðsins nefes og gríska orðsins psykhe′. Þegar skoðað er hvernig orðin eru notuð í Biblíunni er ljóst að þau merkja aðallega (1) fólk, (2) dýr eða (3) líf fólks eða dýra. (1Mó 1:20; 2:7; 4Mó 31:28; 1Pé 3:20; sjá einnig nm.) Af Biblíunni er ljóst að þegar orðin nefes og psykhe′ eru notuð um jarðneskar verur lýsa þau því sem er efnislegt, áþreifanlegt, sýnilegt og dauðlegt, ólíkt því hvernig orðið „sál“ er iðulega notað í trúarlegu samhengi. Í þessari þýðingu eru þessi frummálsorð oftast þýdd eftir samhengi, svo sem ‚líf‘, ‚lífvera‘, ‚maður‘, ‚allt sem í mér býr‘ eða einfaldlega sem persónufornafn (til dæmis ‚ég‘ en ekki ‚sál mín‘). Í sumum tilvikum er þýðingin ‚sál‘ gefin neðanmáls. Þegar orðið sál er að finna í meginmáli eða neðanmáls ber að skilja það í samræmi við skýringuna hér að ofan. Að gera eitthvað af allri sál merkir að gera það af heilum hug, öllu hjarta og öllum kröftum. (5Mó 6:5; Mt 22:37) Í vissu samhengi geta frummálsorðin vísað til löngunar eða græðgi lifandi veru. Þau eru einnig notuð um lík. – 4Mó 6:6; Okv 23:2; Jes 56:11; Hag 2:13.
Sálmur.
Lofsöngur til Guðs. Samin voru lög við sálma og þeir sungnir, meðal annars opinberlega við tilbeiðslu á Jehóva Guði í musterinu í Jerúsalem. – Lúk 20:42; Pos 13:33; Jak 5:13.
Sáttmáli.
Formlegt samkomulag eða samningur milli Guðs og manna eða manna á milli um að gera eða ekki gera eitthvað. Stundum var það aðeins hlutverk annars aðilans að uppfylla ákvæði sáttmálans (einhliða sáttmáli sem var í eðli sínu loforð). Í öðrum tilfellum þurftu báðir aðilar að uppfylla viss skilyrði (tvíhliða sáttmáli). Auk sáttmála Guðs við menn talar Biblían um sáttmála milli manna, þjóðflokka, þjóða og hópa fólks. Af sáttmálum sem hafa haft víðtæk áhrif má nefna sáttmálana sem Guð gerði við Abraham, Davíð, Ísraelsþjóðina (lagasáttmálann) og Ísrael Guðs (nýja sáttmálann). – 1Mó 9:11; 15:18; 21:27; 2Mó 24:7; 2Kr 21:7.
Sáttmálsörk.
Gulllögð kista úr akasíuviði, geymd í hinu allra helgasta í tjaldbúðinni og síðar í hinu allra helgasta í musterinu sem Salómon reisti. Lokið var úr gegnheilu gulli með tveim kerúbum sem sneru hvor að öðrum. Töflurnar tvær með boðorðunum tíu voru það mikilvægasta sem örkin geymdi. (5Mó 31:26; 1Kon 6:19; Heb 9:4) – Sjá viðauka B5 og B8.
Sea.
Rúmmálseining þurrefna. Sé miðað við áætlað rúmmál bats var sea 7,33 l. (2Kon 7:1) – Sjá viðauka B14.
Sebat.
Ellefti mánuður hins helga almanaks Gyðinga eftir útlegðina í Babýlon en fimmti mánuður hins veraldlega almanaks. Hann stóð frá miðjum janúar fram í miðjan febrúar. (Sak 1:7) – Sjá viðauka B15.
Seifur.
Æðsti guðinn í fjölgyðistrú Grikkja. Í Lýstru var Barnabas ranglega talinn vera Seifur. Fornar áletranir sem fundist hafa í grennd við Lýstru tala um „presta Seifs“ og „sólguðinn Seif“. Skipið sem Páll sigldi með frá Möltu bar stafnlíkan með „merki sona Seifs“, tvíbura sem hétu Kastor og Pollux. – Pos 14:12; 28:11.
Sektarfórn.
Sela.
Tónfræðiheiti sem er að finna í Sálmunum og Habakkuk. Gæti merkt hlé á söngnum eða tónlistinni eða hvoru tveggja til að gefa rúm fyrir þögla íhugun eða draga fram þær tilfinningar sem verið var að tjá. Í grísku Sjötíumannaþýðingunni er orðið þýtt diaʹpsalma sem merkir ‚millispil‘. – Sl 3:4; Hab 3:3.
Serafar.
Sértrúarflokkur.
Hópur fólks sem fylgir ákveðnum kennisetningum eða leiðtoga og aðhyllist sínar eigin trúarskoðanir. Farísear og saddúkear, tveir áberandi hópar innan gyðingdómsins, eru kallaðir sértrúarflokkar. Þeir sem voru ekki kristnir kölluðu kristnina sértrúarflokk eða ‚sértrúarflokk nasarea‘ og litu hugsanlega á hana sem klofningshóp frá gyðingdóminum. Með tímanum klofnaði kristnin í sértrúarflokka og minnst er sérstaklega á „Nikólaíta“ í Opinberunarbókinni. – Pos 5:17, nm; 15:5, nm; 24:5; 28:22; Op 2:6; 2Pé 2:1.
Sheol.
Sikill.
Helsta þyngdar- og gjaldmiðilseining Hebrea. Þyngdareiningin jafngilti 11,4 g. Þegar talað var um ‚sikil helgidómsins‘ var það hugsanlega til að leggja áherslu á að þyngdin ætti að vera nákvæm eða samsvara stöðluðu lóði sem geymt var í tjaldbúðinni. Hugsanlega var einnig til konunglegur sikill (frábrugðinn hinum almenna) eða staðlað lóð sem geymt var í konungshöllinni. – 2Mó 30:13.
Síðustu dagar.
Orðasamband notað í spádómum Biblíunnar um tímabil þegar sögulegir atburðir ná hámarki. (Esk 38:16; Dan 10:14; Pos 2:17) Tímabilið getur verið fáein ár eða fjöldi ára eftir því hvers eðlis spádómurinn er. Í Biblíunni er orðasambandið sérstaklega notað um ‚síðustu daga‘ núverandi heimsskipanar, tímabilið meðan ósýnileg nærvera Jesú stendur yfir. – 2Tí 3:1; Jak 5:3; 2Pé 3:3.
Símjónít.
Tónfræðiheiti sem merkir bókstaflega „áttundi“ og gæti vísað til lægra tónsviðs eða tóntegundar. Í hljóðfæraleik er sennilega vísað til hljóðfæra sem gáfu frá sér bassatónana í tónstiganum. Í sönglögum vísaði orðið líklega til þess að leikið og sungið væri á lægra tónsviði. – 1Kr 15:21; Sl 6:yf; 12:yf.
Síon, Síonarfjall.
Jebús, virkisborg Jebúsíta sem stóð á hæð í suðaustanverðri Jerúsalem, fékk þetta nafn. Eftir að Davíð vann borgina byggði hann konungshöll sína þar og hún var síðan kölluð „Davíðsborg“. (2Sa 5:7, 9) Síonarfjall varð sérstaklega heilagt í augum Jehóva þegar Davíð lét flytja sáttmálsörkina þangað. Síðar náði heitið Síon einnig yfir musterissvæðið á Móríafjalli og stundum var það notað um Jerúsalemborg alla. Oft notað í táknrænni merkingu í Grísku ritningunum. – Sl 2:6; 1Pé 2:6; Op 14:1.
Sív.
Upphaflegt nafn á öðrum mánuði hins helga almanaks Gyðinga og áttunda mánuði hins veraldlega almanaks. Hann stóð frá miðjum apríl fram í miðjan maí. Hann er nefndur íjar í Talmúð Gyðinga og öðrum heimildum sem eru tímasettar eftir útlegðina í Babýlon. (1Kon 6:37) – Sjá viðauka B15.
Sívan.
Þriðji mánuður hins helga almanaks Gyðinga eftir útlegðina í Babýlon en níundi mánuður hins veraldlega almanaks. Hann stóð frá miðjum maí fram í miðjan júní. (Est 8:9) – Sjá viðauka B15.
Sjáandi.
Maður sem Guð gaf hæfileika til að skilja vilja sinn. Honum var gert kleift að sjá eða átta sig á hlutum sem mönnum almennt var hulið. Hebreska orðið er dregið af stofnorði sem merkir ‚að sjá‘ og getur bæði átt við bókstaflega og táknræna sjón. Menn leituðu til sjáanda til að fá viturleg ráð við vandamálum sínum. – 1Sa 9:9.
Skarklippur.
Verkfæri úr gulli eða kopar sem notuð voru í tjaldbúðinni og musterinu, hugsanlega einhvers konar skæri sem notuð voru til að snyrta lampakveiki. – 2Kon 25:14.
Skilningstré góðs og ills.
Skinnhandrit.
Handrit skrifað á skinn af kindum, geitum eða kálfum, einnig nefnt pergament eða bókfell. Skinnin voru verkuð sérstaklega til þessara nota. Þau entust betur en papýrus og voru notuð í bókrollur Biblíunnar. Skinnhandritin sem Páll bað Tímóteus að taka með sér kunna að hafa verið sumar af bókum Hebresku ritninganna. Sum af Dauðahafshandritunum voru skrifuð á skinn. – 2Tí 4:13.
Skírn, skíra.
Skoðunarbrauð.
Tólf brauð sem lögð voru í tvo stafla, sex í hvorum, á borðið í hinu heilaga í tjaldbúðinni og musterinu. Komið var með nýtt brauð á hverjum hvíldardegi sem fórn handa Guði. Að jafnaði máttu engir nema prestarnir borða brauðið sem var fjarlægt. – 2Kr 2:3; 2Mó 25:30; 3Mó 24:5–9; Mt 12:4; Heb 9:2.
Skurðgoð, skurðgoðadýrkun.
Skurðgoð er mynd eða líkneski af einhverju, ýmist raunverulegu eða ímynduðu, sem fólk notar við trúarathafnir. Skurðgoðadýrkun er það að tilbiðja skurðgoð, bera lotningu fyrir því eða hylla það. – Sl 115:4; Pos 17:16; 1Kor 10:14.
Slöngva.
Leðuról eða band ofið úr sinum dýra, sefi eða hári. Miðhlutinn var breiðari og þar var kasthluturinn lagður, oftast steinn. Annar endi slöngvunnar var bundinn um höndina eða úlnliðinn en hinum endanum var haldið í hendinni og síðan sleppt þegar slöngvunni var sveiflað. Fornþjóðir voru með slöngvukastara í herjum sínum. – Dóm 20:16; 1Sa 17:50.
Smyrja.
Aðalmerking hebreska orðsins er ‚að smyrja með vökva‘. Olíu var hellt yfir mann eða hlut til tákns um að hann væri helgaður sérstakri þjónustu. Orðið er einnig notað í Grísku ritningunum um það að úthella heilögum anda yfir þá sem fá himneska von. – 2Mó 28:41; 1Sa 16:13; 2Kor 1:21.
Sonur.
Sonur Davíðs.
Sorg.
Á biblíutímanum var algengt að láta greinilega í ljós sorg sína yfir dauðsfalli eða annarri ógæfu og venja var að syrgja um vissan tíma. Auk þess að gráta hástöfum klæddust syrgjendur á sérstakan hátt, jusu ösku yfir höfuð sér, rifu föt sín og börðu sér á brjóst. Stundum voru atvinnusyrgjendur beðnir að vera viðstaddir jarðarfarir. – 1Mó 23:2; Est 4:3; Op 21:4.
Spádómur.
Innblásinn boðskapur sem opinberar eða kunngerir vilja Guðs. Spádómur getur verið innblásinn siðferðisboðskapur, fyrirmæli frá Guði, dómur hans eða yfirlýsing um ókomna atburði. – Esk 37:9, 10; Dan 9:24; Mt 13:14; 2Pé 1:20, 21.
Spámaður.
Spásagnarmaður.
Manneskja sem segist geta sagt fyrir ókomna atburði. Biblían talar um galdrapresta, stjörnuspekinga og fleiri sem spásagnarmenn. – 3Mó 19:31; 5Mó 18:11; Pos 16:16.
Spelt.
Hveititegund (Triticum spelta). Ekki er auðvelt að losa kornið frá hisminu. – 2Mó 9:32.
Spönn.
Lengdarmálseining. Bilið milli fingurgóma þumalfingurs og litlafingurs á útglenntri hendi. Sé miðað við að alin sé 44,5 cm var spönnin um 22,2 cm. (2Mó 28:16; 1Sa 17:4) – Sjá viðauka B14.
Staur.
Hjá sumum þjóðum tíðkaðist að taka menn af lífi með því að hengja þá á staur og/eða að lík var hengt á staur til viðvörunar eða opinberrar auðmýkingar. Assýringar voru alræmdir fyrir grimmd sína í hernaði og létu herfanga hanga á oddmjóum staur eftir að hafa stungið honum inn í kviðarhol þeirra og upp í brjósthol. Samkvæmt lögum Gyðinga voru þeir sem gerðust sekir um alvarlega glæpi eins og guðlast eða skurðgoðadýrkun þó grýttir til bana eða líflátnir með öðrum hætti áður en líkið var hengt á staur eða tré sem víti til varnaðar. (5Mó 21:22, 23; 2Sa 21:6, 9) Rómverjar áttu það til að binda sakamann á staur og þá gat það tekið nokkra daga að hann dæi úr þorsta, hungri, sársauka og sólbruna. Í öðrum tilvikum voru menn negldir á höndum og fótum á staur. Jesús var tekinn af lífi með þeim hætti. (Lúk 24:20; Jóh 19:14–16; 20:25; Pos 2:23, 36) – Sjá KVALASTAUR.
Stjörnuspekingur.
Stokkur, gapastokkur.
Stóumenn.
Grískir heimspekingar sem álitu að hamingja byggðist á því að lifa í samræmi við skynsemina og náttúruna. Þeir álitu að sönn viska fælist í því að láta ekki sársauka eða unað hafa áhrif á sig. – Pos 17:18.
Súla.
Stundum voru súlur reistar til að minnast sögulegra viðburða eða atvika. Burðarsúlur voru í musterinu og öðrum byggingum sem Salómon reisti. Heiðnar þjóðir reistu helgisúlur í tengslum við falsguðadýrkun sína og Ísraelsmenn tóku stundum upp þann sið. (Dóm 16:29; 1Kon 7:21; Op 3:12) – Sjá SÚLNAHÖFUÐ.
Súlnagöng Salómons.
Yfirbyggður gangur austan við ytri forgarðinn í musterinu á dögum Jesú, yfirleitt talinn vera leifar af musteri Salómons. Jesús gekk þar um eitt sinn að vetri til og frumkristnir menn söfnuðust þar saman til tilbeiðslu. (Jóh 10:22, 23; Pos 5:12) – Sjá viðauka B11.
Súlnahöfuð.
Skreyttur efsti hluti súlu. Stór og mikil súlnahöfuð voru á súlunum tveim framan við musteri Salómons sem nefndar voru Jakín og Bóas. (1Kon 7:16) – Sjá viðauka B8.
Súrdeig.
Sýrt eða gerjað deig sem lagt var til hliðar til að gerja deig næst þegar bakað var. Oft notað í Biblíunni sem tákn um synd og spillingu en einnig til að tákna ósýnilegan vöxt sem nær út um allt. – 2Mó 12:15, 20; Mt 13:33; Ga 5:9.
Syndafórn.
Synir Arons.
Afkomendur Arons sem var barnabarn Leví og fyrsti æðstipresturinn þegar Móselögin tóku gildi. Synir Arons gegndu prestsþjónustu við tjaldbúðina og musterið. – 1Kr 23:28.
Syrtuflói.
Tveir stórir og grunnir flóar á strönd Líbíu í Norður-Afríku sem sjófarendur til forna óttuðust. Þar voru varasöm sandrif sem breyttust í sífellu af völdum sjávarfalla. (Pos 27:17) – Sjá viðauka B13.
Sýrland, Sýrlendingar.
– Sjá ARAM, ARAMEAR.
Söfnuður.
Hópur fólks sem safnast saman í ákveðnum tilgangi eða til ákveðinnar starfsemi. Í Hebresku ritningunum er orðið yfirleitt notað um Ísraelsþjóðina. Í Grísku ritningunum er oft átt við einstaka söfnuði kristinna manna en oftar kristna söfnuðinn almennt. – 1Kon 8:22; Pos 9:31; Róm 16:5.
T
Talenta.
Stærsta þyngdar- og gjaldmiðilseining Hebrea. Hún vó 34,2 kg. Grísk talenta var léttari, um 20,4 kg. (1Kr 22:14; Mt 18:24) – Sjá viðauka B14.
Tammús.
(1) Nafn guðs sem hebreskar fráhvarfskonur í Jerúsalem grétu. Sumir telja að Tammús hafi verið konungur sem var tekinn í guðatölu eftir dauða sinn. Í súmerskum textum er Tammús kallaður Dúmúsí og á að hafa verið maki frjósemisgyðjunnar Inönnu (babýlonsku gyðjunnar Istar) eða hafa átt í ástarsambandi við hana. (Esk 8:14) (2) Fjórði tunglmánuður hins helga almanaks Gyðinga eftir útlegðina í Babýlon og tíundi mánuður hins veraldlega almanaks. Hann stóð frá miðjum júní fram í miðjan júlí. – Sjá viðauka B15.
Tarsisskip.
Upphaflega var heitið notað um skip sem sigldu til Tarsis (þar sem nú er Spánn). Svo virðist sem heitið hafi síðar verið haft um stór skip sem gátu siglt langar leiðir. Salómon og Jósafat notuðu slík skip til að stunda verslun og viðskipti. – 1Kon 9:26; 10:22; 22:48.
Tartaros.
Notað í Grísku ritningunum um niðurlægingu englanna sem óhlýðnuðust á dögum Nóa og er eins og fangelsi. Gríska sögnin tartaro′o (‚að kasta í Tartaros‘), sem er notuð í 2. Pétursbréfi 2:4, merkir ekki að „englunum sem syndguðu“ hafi verið kastað í Tartaros sem getið er um í heiðinni goðafræði (fangelsi og myrkrastað óæðri guða í undirheimum). Öllu heldur er átt við að Guð hafi svipt þá stöðu og heiðri á himnum og skilið þá eftir í andlegu niðamyrkri þar sem þeir hafa enga innsýn í bjarta fyrirætlun hans. Framtíð þeirra er einnig myrk að sögn Biblíunnar því að þeirra bíður eilíf tortíming ásamt Satan Djöflinum, höfðingja þeirra. Tartaros táknar því mestu niðurlægingu sem þessir uppreisnarenglar geta hlotið. Það er ekki það sama og ‚undirdjúpið‘ sem talað er um í Opinberunarbókinni 20:1-3.
Tákn.
Tebet.
Tíundi mánuður hins helga almanaks Gyðinga eftir útlegðina í Babýlon og fjórði mánuður hins veraldlega almanaks. Hann stóð frá miðjum desember fram í miðjan janúar. Oftast er hann einfaldlega nefndur ‚tíundi mánuðurinn‘. (Est 2:16) – Sjá viðauka B15.
Tísrí.
– Sjá ETANÍM og viðauka B15.
Tíund.
Tíundi hluti eða 10 prósent sem voru gefin eða greidd í skatt, einkum til trúarlegra nota. (Mal 3:10; 5Mó 26:12; Mt 23:23) Samkvæmt Móselögunum var tíundi hluti af afurðum landsins og tíundi hluti af fjölgun búpenings gefinn Levítum á hverju ári þeim til viðurværis. Levítar gáfu tíund af þessari tíund til prestanna af ætt Arons til að sjá fyrir þeim. Einnig er rætt um tíund af öðru tagi. Kristnir menn þurfa ekki að greiða tíund.
Tjaldbúð.
Færanlegt tjald til tilbeiðslu sem Ísraelsmenn notuðu eftir brottförina frá Egyptalandi. Hún hýsti sáttmálsörk Jehóva sem táknaði nærveru hans og var bæði tilbeiðslu- og fórnarstaður. Stundum einnig kölluð „samfundatjaldið“. Hún var gerð úr veggrömmum úr viði og þeir voru klæddir með tjöldum úr líni sem á voru útsaumaðar myndir af kerúbum. Tjaldbúðinni var skipt niður í tvö rými, fremra rýmið var kallað hið heilaga og innra rýmið hið allra helgasta. (Jós 18:1; 2Mó 25:9) – Sjá viðauka B5.
Tjaldbúðahátíð.
– Sjá LAUFSKÁLAHÁTÍÐ.
Tónlistarstjóri.
Tré lífsins.
Trúskiptingur.
Notað í Biblíunni um manneskju sem hafði tekið gyðingatrú. Ef um karlmann var að ræða lét hann umskerast. – Pos 13:43.
Tryggur kærleikur.
U
Umsjónarmaður.
Maður sem hefur það verkefni að hafa umsjón með söfnuðinum og gæta hans. Meginhugmynd gríska orðsins epi′skopos er að hafa umsjón með og vernda. Orðin umsjónarmaður og öldungur (presbý′teros) eiga við sömu stöðu í kristna söfnuðinum. Orðið öldungur vísar til reynslu og þroska þess sem er útnefndur en umsjónarmaður vísar til þeirra skyldna sem fylgja starfinu. – Pos 20:28; 1Tí 3:2–7; 1Pé 5:2.
Umskurður.
Það að skera forhúð af getnaðarlim karls. Abraham og afkomendum hans var skylt að umskerast en þess er ekki krafist af kristnum mönnum. Einnig notað í táknrænni merkingu í margs konar samhengi. – 1Mó 17:10; 1Kor 7:19; Fil 3:3.
Undirbúningsdagur.
Undirdjúp.
Uppgönguljóð.
Yfirskrift Sálma 120–134. Mönnum ber ekki saman um merkingu þessarar yfirskriftar og hefur hún verið þýdd með mismunandi hætti í biblíuþýðingum. Margir telja þó að Ísraelsmenn hafi sungið þessa 15 sálma glaðir í lund þegar þeir ‚gengu upp‘ til Jerúsalem, hátt uppi í fjalllendi Júda, til að halda árlegu stórhátíðirnar þrjár.
Uppistöðuþráður.
Þræðirnir sem liggja langsum í vefnaði. Þræðir sem liggja þvert yfir voðina kallast ívaf. – Dóm 16:13.
Upprisa.
Það að rísa upp frá dauðum. Gríska orðið ana′stasis merkir bókstaflega ‚að rísa upp, standa upp‘. Sagt er frá níu upprisum í Biblíunni, þar á meðal upprisu Jesú. Elía, Elísa, Jesús, Pétur og Páll reistu fólk upp frá dauðum en ljóst er að þar var kraftur Jehóva Guðs að verki. Það er mikilvægur þáttur í fyrirætlun Guðs að „bæði réttlátir og ranglátir muni rísa upp“ hér á jörð. (Pos 24:15) Í Biblíunni er einnig minnst á upprisu til himna. Andasmurðir bræður Jesú hljóta þá upprisu. Hún er nefnd „fyrri upprisan“. – Fil 3:11; Op 20:5, 6; Jóh 5:28, 29; 11:25.
Ú
Úrím og túmmím.
Hlutir sem æðstipresturinn notaði þegar hann leitaði svara hjá Jehóva við spurningum sem vörðuðu hagsmuni þjóðarinnar. Úrím og túmmím voru notuð með svipuðum hætti og þegar varpað var hlutkesti. Æðstipresturinn geymdi þau í brjóstskildinum þegar hann gekk inn í tjaldbúðina. Svo virðist sem hætt hafi verið að nota þau þegar Babýloníumenn eyddu Jerúsalem. – 2Mó 28:30; Neh 7:65.
Útlegð.
Það að vera útlægur frá heimalandi eða heimaslóðum, oft samkvæmt tilskipun sigurvegara í stríði. Hebreska orðið merkir ‚brottför‘. Ísraelsmenn voru tvívegis sendir í útlegð. Fyrst fluttu Assýringar íbúa tíuættkvíslaríkisins í útlegð og síðar Babýloníumenn íbúa tveggjaættkvíslaríkisins. Útlagarnir fengu að snúa aftur heim í valdatíð Kýrusar Persakonungs. – 2Kon 17:6; 24:16; Esr 6:21.
V
Varðmaður.
Maður sem gætir fólks eða eigna, oft að næturlagi, og gefur viðvörunarmerki ef hætta steðjar að. Varðmenn stóðu oft á borgarmúrum og turnum og höfðu auga með þeim sem nálguðust borgina. Oft voru það hermenn sem stóðu vörð. Spámenn voru táknrænir varðmenn Ísraelsþjóðarinnar og vöruðu við yfirvofandi eyðingu. – 2Kon 9:20; Esk 3:17.
Veð.
Hlutur sem skuldari átti og lét lánardrottinn hafa sem tryggingu fyrir því að lán yrði greitt. Í Móselögunum voru ákveðnir skilmálar varðandi slíkt til verndar réttindum fátækra og varnarlausra meðal þjóðarinnar. – 2Mó 22:26; Esk 18:7.
Vefjarhöttur.
Dúkur sem vafið var um höfuðið og borinn sem höfuðfat. Æðstipresturinn bar vefjarhött úr fínu líni og gullplata var fest á hann að framan með bláu bandi. Konungar báru vefjarhött undir kórónunni. Job notaði orðið í táknrænni merkingu þegar hann líkti réttlæti sínu við vefjarhött. – 2Mó 28:36, 37; Job 29:14; Esk 21:26.
Vegurinn.
Notað í táknrænni merkingu í Biblíunni um atferli eða hegðun sem Jehóva hefur annaðhvort velþóknun eða vanþóknun á. Talað var um að fylgjendur Jesú Krists tilheyrðu ‚Veginum‘ í þeirri merkingu að líf þeirra snerist um trúna á Jesú Krist og þeir fylgdu fordæmi hans. – Pos 19:9.
Veififórn.
Fórn sem var borin þannig fram að presturinn lagði hendurnar undir hendur þess sem færði fórnina og hélt á henni og hreyfði hendur hans fram og til baka. Einnig getur verið að presturinn hafi sjálfur veifað fórninni. Þetta táknaði að fórnin væri borin fram fyrir Jehóva. – 3Mó 7:30.
Vitnisburður.
Með „vitnisburðinum“ er yfirleitt átt við boðorðin tíu sem Móse fékk í hendur á steintöflunum tveim. – 2Mó 31:18.
Vígsluhátíð.
Árleg hátíð haldin til að minnast þess að musterið var hreinsað eftir að Antíokos Epífanes vanhelgaði það. Hún hófst 25. kíslev og stóð í átta daga. – Jóh 10:22.
Vínbelgur.
Vínpressa.
Vændiskona.
Gríska orðið porne, sem er þýtt „vændiskona“, er dregið af orðstofni sem merkir ‚að selja‘ og er yfirleitt notað um konur en Biblían nefnir einnig vændi karla. Oftast notað um manneskju sem býður upp á kynmök gegn gjaldi en einnig notað í almennari merkingu um manneskju sem á kynmök við aðra manneskju utan hjónabands. Vændi var fordæmt í Móselögunum og ekki mátti gefa vændislaun sem framlag til helgidóms Jehóva, ólíkt því sem tíðkaðist meðal heiðinna manna þar sem vændi var ein af tekjulindum mustera. (5Mó 23:17, 18; 1Kon 14:24) Vændi er einnig notað í táknrænni merkingu í Biblíunni þegar fólk, þjóðir eða stofnanir dýrka skurðgoð á einhvern hátt en segjast tilbiðja Guð. Í Opinberunarbókinni er til dæmis talað um trúarveldið sem kallast „Babýlon hin mikla“ og er lýst sem vændiskonu af því að það leggur lag sitt við valdhafa þessa heims í skiptum fyrir völd og fjárhagslegan ávinning. – Op 17:1–5; 18:3; 1Kr 5:25.
Y
Yfirprestur.
Sömu merkingar og „æðstiprestur“ í Hebresku ritningunum. Í Grísku ritningunum er heitið „yfirprestar“ greinilega notað um helstu menn meðal prestanna. Hugsanlegt er að fyrrverandi æðstuprestar og yfirmenn prestaflokkanna 24 hafi verið þeirra á meðal. – 2Kr 26:20; Esr 7:5; Mt 2:4; Mr 8:31.
Yfirskrift.
Þ
Þakkarfórn.
Samneytisfórn sem færð var til að lofa Guð fyrir gjafir hans og tryggan kærleika. Menn borðuðu kjöt fórnardýrsins og bæði sýrt og ósýrt brauð. Borða þurfti kjötið samdægurs. – 2Kr 29:31.
Þrengingin mikla.
Gríska orðið sem er þýtt „þrenging“ lýsir erfiðleikum eða þjáningum af völdum aðstæðna. Jesús talaði um fordæmalausa ‚mikla þrengingu‘ sem kæmi yfir Jerúsalem og um aðra sem kæmi síðar yfir allt mannkyn þegar hann ‚kæmi með mikilli dýrð‘. (Mt 24:21, 29–31) Páll kallar þessa þrengingu réttláta aðgerð Guðs gegn „þeim sem þekkja ekki Guð og þeim sem hlýða ekki fagnaðarboðskapnum“ um Jesú Krist. Af Opinberunarbókinni 19. kafla má sjá að Jesús leiðir himneskar hersveitir í stríði við ‚villidýrið, konunga jarðarinnar og hersveitir þeirra‘. (2Þe 1:6–8; Op 19:11–21) Fram kemur að ‚mikill múgur‘ lifi af þrenginguna. (Op 7:9, 14) – Sjá HARMAGEDÓN.
Þresking, þreskivöllur.
Það að losa korn frá hálminum og hisminu; staðurinn þar sem það var gert. Þegar þreskt var með handafli var notaður stafur en þegar um mikið magn var að ræða var þreskt með sérstökum búnaði eins og þreskisleða eða valtara sem dráttardýr drógu. Sleðinn eða valtarinn var dreginn yfir kornið sem var dreift um sléttan og hringlaga þreskivöll en hann var yfirleitt uppi á hæð þar sem blés um hann. – 3Mó 26:5; Jes 41:15; Mt 3:12.
Æ
Æðstaráðið.
Æðstiprestur.
Æðsti prestur Gyðinga í tíð Móselaganna. Hann var fulltrúi þjóðarinnar gagnvart Guði og hafði umsjón með öðrum prestum. Einnig kallaður „yfirprestur“. (2Kr 26:20; Esr 7:5) Hann einn mátti fara inn í hið allra helgasta, innsta rými tjaldbúðarinnar og síðar musterisins. Það gerði hann aðeins á friðþægingardeginum, einu sinni á ári. Jesús Kristur er einnig nefndur æðstiprestur. – 3Mó 16:2, 17; 21:10; Mt 26:3; Heb 4:14.
Ö
Öldungur.
Roskinn maður. Í Biblíunni er þó aðallega átt við mann sem fer með vald og gegnir ábyrgðarstöðu innan samfélags eða þjóðar. Orðið er einnig notað í Opinberunarbókinni um himneskar verur. Gríska orðið presbý′teros er þýtt ‚öldungur‘ þegar það vísar til þeirra sem fara með forystu í söfnuðinum. – 2Mó 4:29; Okv 31:23; 1Tí 5:17; Op 4:4.